Innipúkinn – Festival í borg

Mynd: Þórir Bogason

Kvöld 1

 

Hátíðin Innipúkinn fór fyrst fram árið 2002 sem einhvers konar svar miðbæjarins við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, og hefur svo verið haldin næstum því ár hvert síðan þá. Í ár fór hátíðin fram á samliggjandi skemmtistöðunum Húrra og Gauknum og til að undirstrika hátíðarbraginn var götunni fyrir framan þá lokað og settar grastorfur og bekkir fyrir framan. Aðaltónleikarnir mætti segja að hafi verið á Húrra þar sem var blönduð dagskrá, en á Gauknum var fókus á sérstaka tónlistarafkima á hverju kvöldi, hart rokk á föstudegi, raftónlist á laugardeginum og rapp á síðasta kvöldinu.

 

Dj Flugvél og Geimskip var að koma sér fyrir þegar ég mætti á Húrra og krúttlegið hljómborðspoppið fór vel í áhorfendur sem fjölgaði ótt í salnum eftir því sem leið á tónleikana. Ég yfirgaf þó Geimskipið til að tónlistarlega andstæðu þess, Pink Street Boys sem spiluðu á Gauknum. Þar voru öllu færri en þemað á Gauknum þetta kvöldið var rokk í harðari kantinum. Pink Street Boys spiluðu harða, hraða og fasta blöndu af pönki og garage-rokki sem reif í hljóðhimnuna á yfirgengilegum hljóðstyrk. Þetta var hreint og tært rokk og ekki vottur af hipster-pósi sem var ansi hressandi, en ég þoldi samt ekki við mikið lengur en 20 mínútur því mér þykir of vænt um heyrnina mína.

 

Arabískir skalar og gjafir jarðar

 

Plötusnúðurinn KGB var næstur á svið með rokkverkefni sitt sem hann kallar Justman. Hann hafði innlimað ryþmapar Boogie Trouble og Teit úr Ojba Rasta og spilaði nokkuð lágstemmt indígítarpopp nokkuð í anda sveita eins og Pavement. Eitt lagið skar sig þó úr en í því byggði hann á arabískum tónskölum sem var afskaplega vel heppnað. Borko mætti til leiks í félagsskap raftónlistarmannsins Futuregrapher og framleiddi tilraunakennt rafpopp. Þvínæst fóru fjölmenningarnir í Orphic Oxtra á svið og héldu upp balkanskri brúðkaupsstemmningu næsta hálftímann eða svo, áður en reggístórsveitin Ojba Rasta tók við.

 

Ojba Rasta eru óðum að fylla upp í reggítómið sem Hjálmar skyldu eftir sig og stóðu sig með mikilli prýði þetta kvöld, ekki síst í lögunum Gjafir Jarðar og Hreppstjórinn. Heilt yfir var kvöldið mjög vel heppnað og grastorfunar og bekkirnir fyrir framan Húrra mynduðu skemmtilega hátíðarstemmningu þar sem fólk sat, reykti og spjallaði á milli atriða.

 

Kvöld 2

 

Ég byrjaði laugardagskvöldið á rafdúettinum Good Moon Dear, sem spiluðu á Gauknum. Það er Guðmundur Ingi Úlfarsson sem er heilinn á bak við verkefnið en honum til halds og trausts hefur hann trommuleikarann Ívar Pétur úr sveitunum Miri og FM Belfast. Tónlistin stígur einstigi á milli Hip Hop og House og byggir að stórum hluta á hljóðbútum sem eru teygðir og skældir í allar áttir, og minnir mig stundum á taktmeistarann Prefuse 73. Þetta var djassað og spunakennt og greinileg kemestría á milli félaganna á sviðinu.

 

Þvínæst náði ég í skottið á hljómsveitinni Kvöl sem spilaði einhvers konar dauft bergmál af Joy Division, frambærilegt en nokkuð óeftirminnilegt. Low Roar hefur vaxið og dafnað frá því hann vakti fyrst athygli með kassagítardrifnu singer-songwriter poppi, og hefur nú stækkað við sig með gítarleikara, trommara og sérstakan græjumeistara sem spilar bæði á hljómborð, og fokkar í hljóðum hinna í rauntíma. Þá söng Mr. Silla með honum í nokkrum lögum og var stórgóð. Sum af bestu lögunum minna nokkuð á raftónlistartímabil Radiohead, og er það vel.

 

101 Abba

 

Mr. Silla var svo næst á svið með sóló-sett sem var ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt. Frá lágstemmdri trip hop elektróník úr tölvunni yfir í Joplin-lega blúsara þar sem hún spilaði undir á rafmagnsgítar, en undurfögur röddin var alltaf í forgrunni. Benni Hemm Hemm hefur ekki verið mjög áberandi undanfarið svo ég var forvitinn að sjá hvað hann hefði upp á að bjóða á Innipúkanum. Það kom svo sannarlega á óvart, en fyrir utan um 10 manna hljómsveit með slatta af blæstri, var um tugur bakraddasöngvara mættur á sviðið, og hersingin spilaði svo einungis Abba lög. Það var eitthvað skemmtilega kaldhæðið við að sjá rjómann af 101 hipsterum leika Abba lög og áhorfendur tóku við sér og dönsuðu svo um munar.

 

Kvöldið endaði svo eins og hið fyrra, með sjóðheitu reggíi, en að þessu sinni voru það Amaba Dama sem léku fyrir dansinum.

 

Kvöld 3

 

Lokakvöldið hjá mér hófst svo á Markús and the Diversion Session sem spiluðu letilegt 90’s slackerrock af miklu en afslöppuðu öryggi. Þá var flutningur Ólafar Arnalds hugljúfur og blíður en eftir hana var skipt um gír. Þá tók harðsvíraða grúvgengið í Boogie Trouble við keflinu en þau nutu þó aðstoðar Ólafar Arnalds á bakröddum. Þau fönkuðu þakið af húsinu í sjóðheitum hrynhita og dansinn dunaði svo um munaði.

 

Þvínæst kom lokaatriði hátíðarinnar, sjálfur meistari Megas steig á svið með sínum helstu lærisveinum, Grísalappalísu. Lísurnar keyrðu í gegnum helstu lög Megasar af rokna krafti meðan meistarinn lék á alls oddi í flutningnum. Þrátt fyrir að líkamlegt atgervi hans bjóði ekki upp á mikla hreyfingu sá Gunnar Ragnarsson um þá deild af miklu öryggi og hann og Baldur tóku svo undir í bakröddum.

 

Alvöru valkostur

 

Þetta er líklega í 13. skiptið sem Innipúkinn er haldinn um Verslunarmannahelgi og það er ljóst að hann lætur engan bilbug á sér finna eftir allan þennan tíma. Það er nauðsynlegt að hafa valkost við útihátíðir fyrir heimakæra borgarbúa og púkinn í ár stóð fyllilega undir því. Þriggja daga dagskráin var fjölbreytt og bauð upp á ýmis atriði sem maður sér ekki á venjulegum tónleikum í Reykjavík, svo sem Megas með Grísalappalísu og Benna Hemm Hemm syngja Abba lög. Þá skapaði grasi skreytt gatan fyrir framan Gaukinn og Húrra alvöru festivals-stemmningu, en þó ekki útihátíðlega.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Bestu íslensku lög ársins 2013

 

30) Before – Vök

29) Maelstrom – Útidúr

 

 

28) Á Hvítum Hesti – Skúli mennski

      1. 07 Á hvítum hesti

 

 

 

 

27) MacGyver og ég – Sveinn Guðmundsson

 

 

26) Hve Ótt ég ber á – VAR

 

 

25) Autumn Skies #2 – Snorri Helgason   
      2. 01 Autumn Skies #2

 

 

 

24) Blóðberg – Mammút

 

 

 

23) All Is Love – M-band

 

 

 

22) Restless (ft. Unnsteinn) – Sisy Ey

 

 

 

21) Again – Good Moon Deer

 

 

 

20) Cheater – Love & Fog

 

 

19) Release Me (ft. DJ YAMAHO) – Intro Beats

 

 

 

18) Harlem Reykjavík – Hermigervill

 

 

 

17) 1922 – Kristján Hrannar

 

 

 

16) Aheybaró – Kött Grá Pjé & Nolem

 

Lög í 15. – 1. sæti

 

 

 

Bestu íslensku plötur ársins 2013

 

 

 

 

20) Þórir Georg – Ælulykt

 

19) Tilbury – Northern Comfort

 

18) Útidúr – Detour

 

17) Oyama – I Wanna

 

16) Ojba Rasta – Friður

15) Nolo – Human

 

14) Sigur Rós – Kveikur

 

 

13) Emiliana Torrini – Tookah

 

12)  Ólöf Arnalds – Sudden Elevation

 

11) Per: Segulsvið – Tónlist fyrir Hana

Gasvinur:

      1. gasvinurmaster

 

10) Tonmo – 1

Hinn 19 ára gamli reykvíkingur Tómas Davíð sem gengur undir listamannsnafninu Tonmo gaf  út sína fyrstu ep plötu á árinu. Platan sem nefnist 1 er 8 laga raftónlistarplata undir áhrifum hip-hop og chillwave sem rennur ljúft í gegn. Tómas samdi og tók upp plötuna þegar hann bjó í Huntington Beach í Kaliforníu fyrr á árinu.

 

 

 

 

9) Cell7 – Cellf

Tónlistarkonan Ragna Kjartansdóttir úr hinni sálugu hip-hop hljómsveit Subterranean snéri til baka á árinu með sína fyrstu sólóplötu, Cellf. Á plötunni nýtur Ragna aðstoðar þeirra Introbeats og Earmax við taktsmíðar á frábærri hip hop plötu sem inniheldur jafnt grípandi partýslagara og pólitískar bollaleggingar. Ragna hefur engu gleymt í rappinu þrátt fyrir langa pásu og flæðir eins og jökulá í leysingum.

 

 

 

 

8) Snorri Helgason – Autumn Skies

Þriðja plata Snorra Helgasonar, Autumn Skies, gefur fyrri verkum Snorra ekkert eftir og minnir á köflum talsvert á Dylan á Nashville Skyline. Kántrískotið þjóðlagapoppið umvefur mann eins mjúkt teppi og er tilvalið til að orna sér við á köldum vetrarnóttum. Án efa notalegasta plata ársins.

 

 

 

 

 

7) Jóhann Kristinsson – Headphones

Þriðja plata Jóhanns Kristinssonar, Headphones, er heilsteypt og persónulegt verk þar sem tónlistarmaðurinn sýnir mikil þroskamerki í lagasmíðum. Upptökur og hljómur eru fádæma fullorðins og þó lítið hafi farið fyrir plötunni er hún ákaflega stór í sniðum. Jóhann klífur í hæstu hæðir mikilfengleika og dramatíkur í mörgum epískum lögum og framkallar gæsahúðir á gæsahúðir ofan.

 

 

 

 

6) Mammút – Komdu til mín svarta systir

Þriðja plata Mammút var lengi í smíðum en fimm ár eru liðin frá því að sveitin sendi frá sér plötuna Karkari.  Útkoman er  þyngri hljómur og þéttari lagasmíðar án þess að tapa neinu af ungæðislegum kraftinum sem einkenndi fyrri verk sveitarinnar.

 

 

 

5) Ruxpin – This Time We Go Together

Það fer ekki mikið fyrir Ruxpin í íslenskri tónlistarsenu en hann lætur verkin tala. Platan This Time We Go Together er feikilega áferðarfalleg og hugvitssamleg raftónlistarplata, sem minnir um margt á Boards of Canada og aðgengilegri hliðar Aphex Twin og Autechre.

 

 

 

4) Just Another Snake Cult – Cupid Makes A Fool of Me

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Í haust gaf Þórir út plötuna  Cupid Makes A Fool of Me sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp að bestu gerð. Það eru fleiri hugmyndir í einu lagi á Cupid en finnast á breiðskífum flestra tónlistarmanna og mikið um vinstri beygjur og óvæntar stefnubreytingar. Það mætti segja að platan sé losaraleg í besta skilningi þess orðs, alls konar mismunandi hugmyndir sem hanga rétt svo saman, en samt á akkúrat réttan hátt. Plata sem hljómar ekki eins og neitt annað í íslenskri tónlistarsenu.

 

 

 

3) Múm –  Smilewound

Hljómsveitin múm gaf út sína sjöttu breiðskífu fyrr á þessu ári. Plötunnar sem ber nafnið Smilewound hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu en hún markaði endurkomu Gyðu Valtýsdóttur, söngkonu og sellóleikara, sem hætti í sveitinni fyrir meira en áratug síðan. Útkoman er aðgengilegasta plata hljómsveitarinnar til þessa.

 

 

 

2) Grísalappalísa – Ali

Hljómsveitin Grísalappalísa var stofnuð árið 2012 af Gunnari Ragnarssyni og Sigurði Möller Sívertsen úr hinni sálugu Jakobínurínu, Bergi Thomas Anderson úr Oyama, Alberti Finnbogasyni og Tuma Árnasyni úr The Heavy Experience ásamt Baldri Baldurssyni. Platan Ali er einn sterkasti frumburður íslenskrar rokksveitar sem litið hefur ljós í langan tíma. Á henni blandast groddaleg nýbylgja við súrkálsrokk og sækadelíu með íslenskum textum sem eiga meira skylt við framsækna ljóðlist en hefðbundna rokktexta.

 

 

 

 

1) Sin Fang – Flowers

Sindri Már Sigfússon er einn afkastamesti tónlistarmaður landsins um þessar mundir en gæðastandarinn á efninu er þó alltaf jafn hár. Hann er stöðugt að þróast sem lagasmiður og Young Boys og What’s wrong with your eyes eru með allra bestu lögum ársins. Platan er tekin upp af Alex Somers sem galdrar fram ævintýralega hljóm þar sem fyllt er upp í hverja einustu glufu með áhugaverðum hljóðum án þess þó að verða nokkurn tímann ofhlaðinn.

Straumur 14. október

Í Straumi í kvöld fáum við hljómsveitina Ojba Rasta í heimsókn til að kynna sína aðra plötu sem kemur út seinna í þessum mánuði. VIð kíkjum einnig á nýtt efni frá Cults, Albert Hammond Jr. Mutual Benefit, Gems, Star Slinger og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977!

Straumur 14. október by Straumur on Mixcloud

 

1) I Can Hardly Make You Mine – Cults
2) Ég veit ég vona – Ojba Rasta
3) Skot í myrkri – Ojba Rasta
4) Faðir og bróðir – Ojba Rasta
5) Draumadós – Ojba Rasta
6) Always Forever – Cults
7) So Far – Cults
8) Spilling Lines – Poliça
9) Matty – Poliça
10) Change (The Chainsmokers Hot & Steamy Edit) – BANKS
11) Free – Star Slinger
12) Medusa – Gems
13) Rude Customer – Albert Hammond Jr.
14) Advanced Falconry – Mutual Benefit
15) MacGyver og ég – Sveinn Guðmundsson

Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 31. 7

Hljómsveitin Grísalappalísa ætlar að blása til veislu á tónleikastaðnum Faktorý vegna nýútkominnar plötu sinnar, ALI. Með Grísalappalísu verða Ojba Rasta og DJ Flugvél og Geimskip. Húsið opnar 21:00. Það kostar 1000 krónur inn, eða 3000 krónur og fyrsta plata Grísalappalísu, ALI, fylgir með. 

 

 

Fimmtudagur 1. 8

Frumsýninga á heimildamyndinni um kvennapönkhljómsveitina Pussy Riot kl 19:30. Kvennapönkhljómsveitin Viðurstyggð mun hita allhressilega upp og léttar veitingar verða í boði frá kl 19:30, en myndin hefst á slaginu kl 20:00. Hægt er að tryggja sér miða á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða á frumsýninguna í miðasölu Bíó Paradís en hún er opin daglega frá kl 17.

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einnig að koma fram. Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Upphitun fyrir Innipúkann á Kex klukkan 21:00. Samaris leika fyrir gesti og hægt verður að kaupa armbönd á hátíðina sjálfa.

Myrra Rós og Elín Ey spila á tónleikum á Café Rósenberg klukkan 21. 1000 krónur inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Treisí spila á Dillon klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Bíó Paradís heldur áfram að bjóða upp á sumartónleika, en þetta verða þeir síðustu í bili og verða þeir því í stóra sal hússins og hefst tónlistin klukkan 22:00. Samaris og Arnljótur koma fram.

 

 

Föstudagur 2. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í tólfta skipti í Reykjavík um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2013 teygir sig yfir tvo daga og fer fram föstudags- og laugardagskvöld, dagana 2. og 3. ágúst. Hátíðin í ár fer fram á Faktorý. það kostar 3000 fyrir eitt kvöld en 4900 fyrir bæði kvöldin.

Föstudagur:
Gísli Pálmi
Valdimar
Steed Lord
Prins Póló
Skelkur í bringu

 

 

Thule kynnir útihátíð í bakgarðinum á Dillon um Verslunarmannahelgina. Verð fyrir eitt kvöld 2500 en 4500 fyrir þrjú kvöld. Dagskrá föstudags:

Dagskrá föstudags
21:00-22:00 Botnleðja
20:00-20:45 Leaves
19:15-19:45 Johnny And The Rest
18:30-19:00 Thingtak
17:45-18:15 Alchemia
17:00-17:30 Jósef “Elvis” Ólason/Grillveisla

 

 

 

Laugardagur 3. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn heldur áfram á Faktory.

Laugardagur: 

Botnleðja
Geiri Sæm
Ylja
Agent Fresco
Grísalappalísa

 

Rykkrokk hátíð í Fellagörðum verður sérstakt off venue á Innipúkanum í ár. Rykkrokk var síðast haldið 1995 og verður dagskráin klæðskerasniðin nútímanum með nostalgísku ívafi. Allir sem koma fram hafa sterka tengingu við Breiðholtið:
-Langi Seli og Skuggarnir
-Prins Póló
-Gríspalappalísa
-Tanya & Marlon
-Samaris
Frítt inn! og innipúkar úr öllum hverfum Reykjavíkur hvattir til að koma uppí Fellagarða.Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Blaz Roca
20:00-20:45 Vintage Caravan
19:15-19:45 Sindri Eldon & The Ways
18:30-19:00 The Wicked Strangers
17:45-18:15 Rekkverk
17:00-17:30 Grillveisla
Sunnudagur 4. 8

 

Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Brain Police
20:00-20:45 Dimma
19:15-19:45 Esja
18:30-19:00 TBA
17:45-18:15 Herbert Guðmundsson
17:00-17:30 Grillveisla

Tónleikar helgarinnar 8. -12. maí

Miðvikudagur 8. maí

Mosi Frændi, Fræbblarnir, Hellvar, Saktmóðgur og Skelkur í bringu spila á Gamla Gauknum, tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það er ókeypis inn.

Á Volta koma fram hljómsveitirnar Ojba Rasta, Mammút og Geimfarar. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það kostar 1500 kr inn.

 

 

Fimmtudagur 9. maí

Á Loft Hostel verða ókeypis tónleikar með Útidúr sem hefjast klukkan 21.

Birgir Örn Steinarsson sem var áður í hljómsveitinni Maus og Hjalti Jón Sverrisson úr Miri munu halda tónleika á Hemma á Valda. Frítt inn og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl 22.

Shadez of Reykjavík kynna new school djöflashit ásamt Freskimos og GERViSYKUR. Húsið opnar 22 og það kostar 1000 kr inn.

 

 

Föstudagur 10. maí

Hljómsveitin Sykur fagnar próflokum með ókeypis tónleikum á Bar 11. Tónleikarnir hefjast   klukkan 22.

Dikta, Friðrik Dór og 1860 koma fram á próflokadjammi Faktory. Armband fyrir föstudag og laugardag  kostar 3000 kr. Stakir miðar á 2.000 kr  við inngang á tónleikadag ef húsrúm leyfir.

 

 

Laugardagur 11. maí

Vínylmarkaðurinn mætir aftur til leiks á Kex Hostel næstkomandi laugardag. Þar verður hægt að kaupa íslenskar vínylplötur.Markaðurinn hefst kl. 13 og stendur til kl. 20. Hljómsveitir koma fram og leika listir sínar af útgefnum vínylplötum!

15:00 Kippi Kaninus
16:00 Low Roar
17:00 Valdimar
18:00 Hjaltalín

FM Belfast og Vök koma fram á próflokadjammi Faktory. Armband fyrir föstudag og laugardag  kostar 3000 kr. Stakir miðar á 2.000 kr  við inngang á tónleikadag ef húsrúm leyfir.

Langi Seli og Skuggarnir koma fram á tónleikum á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það er frítt inn.

 

 

Mynd: Elín Lóa

Alltaf fer ég vestur

Straumur var í fríi yfir páskahelgina en hann sat þó ekki auðum höndum því ritstjórnin eins og hún leggur sig (en hún telur tvær manneskjur) lagði land undir fót og fór vestur á Aldrei fór ég suður hátíðina á Ísafirði. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem undirritaður sækir hátíðina heim og ég get staðfest að það er ekki hægt á eyða páskunum á betri stað. Veðrið skartaði sínu blíðasta á leiðinni þegar sikk sakkað var í gegnum þrönga og spegilslétta firði Vestfjarðakjálkans og stoppað var í náttúrulaug á leiðinni. Fimmtudagskvöldið var tekið tiltölulega rólega en við sóttum þó tónleika á öldurhúsinu Krúsinni, sem lítur út að innan eins og barinn í myndinni Shining. Blúsaða búgí-ið hans Skúla Mennska var viðeigandi inn í gamaldags salnum og hljómsveitin Fears bauð upp á hefðbundið gítardrifið indírokk. Þetta var þó einungis laufléttur forréttur að þeirri þriggja rétta tónleikaveislu sem beið okkar.

Rifin MugiRödd

Það var stofnandi AFS, Mugison, sem að setti hátíðina klukkan sex á þessum langa föstudegi og ég hljóp á harðaspretti niður í tónleikaskemmuna til að missa ekki af honum. Mugison á Ísafirði um páskana er náttúrulega heimavallarstemmning eins og KR í Frostaskjóli eða Liverpool á Anfield. Þegar ég nálgaðist svæðið heyrði ég reffilega orgelriffið úr Mugiboogie óma út yfir fjörðinn. Á hátíð sem þessari þar sem tími á hljómsveit er knappur og spilað er fyrir hipstera, heimamenn, ömmur og barnabörn er mikilvægt að lagavalið sameini alla þessa ólíku hópa það kann Mugison upp á hár. Hver einasta sál í skemmunni „Stakk af“ með honum út í spegilsléttan Skutulsfjörðinn og sungu viðlagið hástöfum með. Hann endaði á ansi rokkaðri útgáfu af smellnum Murr Murr og hrá sandpappírsrödd hans reif í hljóðhimnur áhorfenda.

Öskrað á athygli

Að spila á eftir Mugison er ekki auðvelt en söngkonan Lára Rúnars leisti það farsællega úr hendi með fagmannlegu popprokki, ljúfum söng og frábæru bandi. Þvínæst var röðin komin að Athygli sem samanstóð af fjórum unglingspiltum frá Vestfjarðakjálkanum. Þeim leiddist svo sannarlega ekki athyglin og nutu sín hins ýtrasta á sviðinu og bílskúrsrokkuðu af lífs og sálarkröftum. Eitt það skemmtilegasta við hátíðina og gerir hana jafn einstaka og raun ber vitni er einmitt breiddin og uppröðun í hljómsveitavali. Hvergi annars staðar sér maður nýjustu hip hljómsveit Reykjavíkur spila á milli bílskúrsbands frá Bolungarvík og rótgróinnar sveitaballahljómsveitar.

Siglt undir fölsku flaggi

Þvínæst var röðin komin að Blind Bargain sem voru þéttspilandi gítarrokkband með básúnuleikara innbyrðis. Ég hafði sérstaklega gaman að blúsuðum gítarleik og textum, og hjó eftir brotum eins og „Svefndrukkinn og ringlaður, hann siglir undir fölsku flaggi.“ Hljómsveitin Ylja fylgdi á eftir en hún spilaði áferðarfallegt þjóðlagapopp undir miklum áhrifum frá folkbylgju sjöunda áratugarins. Samsöngur söngkvennanna harmóníseraði fallega og slidegítar og bongótrommur gáfu lögunum vissan eyðimerkurkeim. Þá voru kjarnyrtir textar um útilegur á Íslandi einstaklega viðeigandi á hátíð sem þessari.

Vopnaður kynnir

Þegar hér er komið við sögu er kannski rétt að kynna kynni hátíðarinnar, Pétur Magg, sem er jafnframt eitt helsta skemmtiatriði hennar. Kraftmeiri kynni hefur undirritaður aldrei séð á tónlistarhátíð og það skiptir engu máli hvaða band er næst á svið, innlifunin og öskrin eru slík að það er alltaf eins og Rolling Stones séu næstir á dagskrá. Þá hélt hann iðulega á risastóru trésverði og sveiflaði því í allar áttir milli þess sem hann kom með tilkynningar á borð við að bannað væri að reykja í skemmunni og að tiltekin bíll væri fyrir og þyrfti að fjarlægja. En í þetta skiptið sagði hann frá því að grunnskólakennari frá Drangnesi, einnig þekktur sem Borkó, væri næstur á dagskrá. Sá mætti með heljarinnar band og byrjaði á sínu vinsælasta lagi, Born to be Free, og hélt góðum dampi í settinu með vönduðu og grípandi gáfumannapoppi. Borkó hefur gott nef fyrir frumlegum útsetningum og hugvitssamlegir blásturskaflar vöktu athygli mína.

Skemman fríkar úti og inni

Skúli Mennski er fyrir löngu orðin goðsögn á þessum slóðum og fastagestur á hátíðinni. Þessi knái blúsari og pulsusali lét engan ósnortinn með viskílegnum drykkjusöng sínum um Dag Drykkjumann. Hljómsveitin hans var líka lífleg og oft brast á með dylan-legum munnhörpusólóum og öðru gúmmelaði. Ragga Gísla og Fjallabræður leiddu saman hesta sína í næsta atriði en þá hafði slíkur mannfjöldi safnast saman í skemmunni að ekki var nokkur leið fyrir mig að troðast inn í hana aftur eftir stutta klósettferð á milli banda. Það kom þó ekki að sök því skemman er opin í annan endann og fátt er íslenskara en grýlu- og stuðmannasmellir undir berum himni við undirleik karlakórs. Ég fann hreinlega fánalitina myndast í kinnunum þegar þau hófu leik og áhorfendur ætluðu að missa vitað í lokalaginu Sísí og reyndu hvað þeir gátu að yfirgnæfa Röggu og kórinn með eigin söng.

Bubbi mætir loksins vestur

Það var nokkuð erfitt fyrir indípopparana í Sing Fang að stíga á svið á eftir sturluninni sem átti sér stað í síðasta lagi Röggu en hægt og bítandi náði hann þó salnum á sitt band og var kominn á blússandi siglingu í laginu Sunbeam undir lokin. Það eru mikil tíðindi að Bubbi Morthens spili loks á hátíðinni sem kennd er við lag hans. Undirritaður er ekki mesti aðdáandi á landinu en á þessum tímapunkti á þessum stað skemmti ég mér alveg einstaklega vel þegar Bubbi renndi í gegnum nokkra af sínum óteljandi slögurum og tók að sjálfsögðu Aldrei fór ég Suður. Hann endaði á Fjöllin hafa vakað og ég er nokk viss um að snævi þaktir tindarnir sem gnæfðu yfir firðinum hafi verið glaðvakandi. Ég stóð meira segja sjálfan mig að því að syngja með nokkrum sinnum.

Leður, læti og sólgleraugu

Langi Seli og skuggarnir mættu löðrandi í leðri, sólgleraugum og almennum töffaraskap og sönnuðu að rokkabillíið er alls ekki dautt úr öllum æðum. Stafrænn Hákon voru næstir og spiluðu melódískt indírokk og hlóðu risastórra múrsteinsveggji með ómstríðum gítarhávaða og feedbakki. Valdimar byrjuðu með látum og héldu þeim áfram út í nóttina og lokuðu kvöldinu með sínum lager af blásturshljóðfærum. Þá var haldið áfram út í ævintýri næturinnar en þau eru vart birtingarhæf á jafn virðulegum vefmiðli og straum.is gefur sig út fyrir að vera.

Belle, Boards og morgunbjór

Ég vaknaði á laugardeginum við trítilóða timburmenn sem börðu mig í hausinn en hristi þá fljótt af mér með lautarferð í góða veðrinu. Morgunmatur og morgunbjór, i-pod með Belle and Sebastian og Boards of Canada og heiðskýrt útsýni yfir kajakræðara á firðinum. Bættu við sundferð í Bolungarvík og þú ert kominn með uppskrift að fullkomnum þynnkudegi á Ísafjarðarpáskum. Á þriðja degi í djammi þarf maður samt smá tíma til að gera sig sætan og því var ég ekki mættur fyrr en um hálfníuleitið seinna kvöldið þar sem ég sá Fears spila í annað skipti. Þeir eru sérdeilis þétt spilandi band en mér fannst vanta einhverja brún í tónlistina sjálfa, eitthvað sem aðskilur þá frá svipuðum breskum og bandarískum gítarrokksveitum.

Ég var alveg fáránlega hress

Áður en Pétur Magg kynnti Monotown á svið kom hann með skilaboð frá æðri máttarvöldum um að fólk skyldi ganga hægt um gleðinnar dyr. Monotown fygldu ráðum hans með hæglátu og útpældu indípoppi með smekklegum hljómborðsleik. Prins Póló létu hins vegar varnarorð Péturs Magg sem vind um eyrun þjóta og komu á harðaspretti inn um téðar gleðidyr og sáu, heyrðu, lyktuðu og sigruðu þetta kvöldið. Spilagleðin var óþrjótandi og spilamennskan einhvern veginn þétt, en á sama tíma losaraleg og afslöppuð. Mér finnst alltaf sjarmerandi að sjá Kristján tromma standandi og Borkó var síðan mættur prinsinum til halds og trausts og fór hamförum á ýmsum raftólum og kúabjöllum. Þau tóku öll mín uppáhaldslög og hressleikinn lak af hverri einustu nótu.

Siggi Hlö með athyglisbrest

Dolby er víst lókal ballband sem sérhæfir sig í mjög sérstöku tónlistarformi; syrpum (medley) af 80’s slögurum. Þetta var eins og hljómsveitarlegt ígildi dj-setts hjá Sigga Hlö ef hann myndi bara spila 20 sekúndur úr hverju lagi. Viðlag á eftir viðlagi úr Eye of the Tiger, Living on a Prayer, Hold the Line, Þrisvar í viku og svo framvegis og framvegis. Þau voru síðan öll klædd bleikum bolum og þetta var allavega eitthvað annað, þó það sé kannski dálítið stór biti að innbyrða 80 80’s smelli á 20 mínútum. Oyama eru eitt af hraðast rísandi nýstyrnum í Reykjavíkursenunni og rokkuðu skemmuna í ræmur þetta kvöld. Raddir Úlfs og Júlíu kölluðust á við marglaga veggi af ómstríðum gítaróhljóðum frá Kára sem á köflum hömpaði hátalarastæðurnar í æstum feedbakk-dansi.

Titrandi kamrar – Reif í skemmuna

Á þessum tímapunkti neyddist ég til að hlaupa á klósett til að losna við vökva en á meðan hófu Samaris að spila og kamrasamstæðan nötraði öll undan hyldjúpum bassanum. Jófríður söngkona var í essinu sínu og sýndi all Bjarkarlega takta í sviðsframkomu og í síðasta laginu umbreyttist dubstep takturinn yfir í æsilegt drum’n’bass og skemman breyttist í reif. Ojba Rasta héldu upp merkjum reggísins á hátíðinni og gerðu það með miklum sóma. Teitur er orðinn vel sjóaður í sviðsframkomu, nánast eins og Axl Rose Íslands, og fór í kostum í Hreppstjóranum. Fólk faðmaðist og söng með í Baldursbrá þegar tær og ósnortin gleði sveif yfir vötnum og firðinum.

Hamingjan var þar

Það er ekki til betri tónlistarmaður en Jónas Sig til að loka hátíð eins og Aldrei fór ég Suður og til að gulltryggja frábært sett fékk hann Lúðrasveit Ísafjarðar til liðs við sig. Strax í fyrsta lagi greip hann salinn og hélt honum þéttingsfast í hendi sér þar til yfir lauk. Hann er sterkur persónuleiki á sviði og marserandi brasskaflar lúðrasveitarinnar smellpössuðu við lögin hans. Lúðrasveitin kom sérstaklega sterk inn í Baráttusöng uppreisnarklansins á skítadreifurunum en á þeim tímapunkti greip ég í alla sem stóðu nálægt mér og hoppaði í hringi þar til ég varð ringlaður. Síðasta lagið, Hamingjan er hér, hefði ekki getað verið meira viðeigandi –og nú ætla ég að gerast væminn- því hún var vissulega akkúrat þarna í skemmunni á Ísafirði þetta kvöld. Heilsteypt og óbeisluð hamingjan var sem rauður þráður í gegnum bæði kvöldin og fólst í samspili góðrar tónlistar, félagsskaps, ölvunar, samkenndar, veðurs, magnaðrar staðsetningar og sennilega ótal annarra þátta sem erfitt er að festa fingur á. En hún var þarna, og tilfinningin var nánast áþreifanleg. Hamingjunni var síðan haldið gangandi á skemmtistaðnum Húsinu þar sem ritstjórn Straums þeytti skífum fyrir dansi langt fram eftir nóttu.

Þetta kann allt saman að hljóma eins og óþarflega halelújandi lofrulla en ég get bara ekki líst upplifuninni öðruvísi. Ég hvet eindregið alla sem á hanska geta haldið að drífa sig vestur um næstu páska. Ég fer þangað. Alltaf. Þó ég neyðist til að snúa aftur suður í raunveruleikann á endanum.

Davíð Roach Gunnarsson

Tónleikar helgarinnar 4. – 6. apríl

 

Fimmtudagur 4. apríl:

Á Kex Hostel mun Grísalappalísa gefa áhugasömum formsmekk af nýrri plötu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00

Hljómsveitirnar Legend, Muck og Japam slá til tónleikaveislu á Volta Tryggvagötu 22. Húsið opnar klukkan 21:00 og byrja tónleikarnir stuttu eftir það. Miðaverð er 1000 kr. 

Agent Fresco og Kiriyama Family halda tónleika á efri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og kostar 1500 kr inn.

 

Föstudagur 5. apríl 

Plötuverslunin 12 Tónar fagnar nú 15 ára afmæli sínu. Af því tilefni verður opið hús á Skólavörðustíg 15 næstkomandi föstudag, 5. apríl á milli 17 og 19. Hljómsveitin Rökkurró mun leika nokkur lög fyrir gesti og gangandi. Boðið verður uppá veitingar að hætti hússins og eru allir vinir, velunnarar og viðskiptamenn 12 Tóna hjartanlega velkomnir.

Hljómsveitirnar Babies og Beatless leiða sama hesta sína með hjartslætti og rythma svo að allir geti farið dansandi inn í helgina á Faktory. Beatless hefja tónleikana kl 23:00 og Babies spila uppúr miðnætti. Miðaverð er 1000 kr. 

Skúli hinn mennski heldur tónleika á Rósenberg ásamt Þungri byrði. Tónleikarnir klukkan 22:00. Verðið er ákkúrat mátulegt eða 1500 krónur á mann og ofbeldi ógildir miðann.

 

Laugardagur 6. apríl

VORVINIR 2013: Í tilefni af væntanlegri plötuútgáfu hefur hljómsveitin Mammút ákveðið að blása til heljarinnar söfnunartónleika svo hægt sé að klára plötuna með stæl. Uppáhaldshljómsveitir Mammút voru svo yndislegar að leggja bandinu lið og eru þar samankomnar helstu kanónur og snillingar tónlistarsenunnar í dag. Ásamt Mammút munu OJba Rasta, Samaris og Oyama koma fram. Húsið (efri hæð Faktorý) opnar kl 21 og tónleikarnir hefjast STUNDVÍSLEGA kl 22. Miðaverð er 1500 kr. 

Tónlistarmaðurinn Jón Þór mun heiðra tónleikagesti á Bar 11 með nærveru sinni og flytja þar lög af sinni fyrsti breiðskífu, Sérðu mig í lit. Húsið opnar klukkan 21:00 og er aðgangur ókeypis.

Aldrei fór ég suður 2013 listi

Tíunda Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 29. og 30. mars næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag listamennina sem koma fram í ár. Sjálfur Bubbi Morthens maðurinn á bak við nafn hátíðarinnar kemur loksins fram á henni, ætli hann taki Aldrei fór ég suður?
    • Abbababb
    • Blind Bargain
    • Borkó
    • Bubbi Morthens
    • Dolby
    • Duro
    • Fears
    • Futuregrapher
    • Hörmung
    • Jónas Sig
    • Langi Seli og skuggarnir
    • Lára Rúnars
    • Monotown
    • Mugison
    • Ojba Rasta
    • Oyama
    • Prinspóló
    • Ragga Gísla og Fjallabræður
    • Rythmatik
    • Samaris
    • Sin Fang
    • Skúli Mennski
    • Sniglabandið
    • Stafrænn Hákon
    • Valdimar
    • Ylja