Undiröldubátur við Hörpu

Undiraldan er tónleikaröð Hörpu í samstarfi við 12Tóna. Á Iceland Airwaves verður metnaðarfull off-venue dagskrá í húsinu á þremur stöðum: Fyrir framan 12Tóna á jarðhæð, á Kolabrautinni á fjórðu hæð og á föstudegi og laugardegi verður sérstakur Undiröldubátur við höfnina hjá Hörpu. Anna Margrét Björnsson sem heldur utan um dagskrána ásamt Eddu Magnúsdóttur segir að báturinn tákni Kjölfar Airwaves en eins og allir vita þá komi allt alltaf í kjölfar Airwaves, bæði góðir hlutir og slæmir.  Við höfnina verður boðið upp á kakó og Grand Marnier til að hlýja tónleikagestum. Sumar hljómsveitirnar koma ekki fram á Airwaves dagskránni heldur aðeins á þessari off-venue Hörpu. Meðal þeirra sem koma framá Undiröldunni  eru Apparat Organ Quartet, Ghostigital, Singapore Sling, Oyama, Grísalappalísa, Muck, Mr.Silla og Hudson Wayne.  Aðgangur er ókeypis.

Fimmtudagur

kolabrautin
14.00-14.30 M-BAND
14.45-15.15 FURA
15.30-16.00 GOOD MOON DEER
16.15-16.45 GHOSTIGITAL

12 tónar Harpa
17.00-17.30 CAPTAIN FUFANU
17.45-18.15 OMHOUSE (CA)
18.25-18.55 MOON KING (CA)
19.10-19.40 OYAMA

Föstudagur

kolabrautin
14.00-14.30 PALL IVAN
14.45-15.15 MUCK
15.30-16.00 PINK STREET BOYS
16.15-16.45 DREAM CENTRAL STATION

12 tónar Harpa
17.00-17.30 ELECTRIC EYE (NO)
17.45-18.15 APPARAT ORGAN QUARTET
18.30-19.00 SINGAPORE SLING

Undiröldubátur

16.30-17.00 JARA
17.15-17.45 ÞÓRANNA BJÖRNSDÓTTIR / TROUBLE
18.00-18.30 TBA special surprise

Laugardagur

12 tónar Harpa
12.30-13.00 GRÍSALAPPALÍSA
13.15-13.45 AMFJ
14.00-14.30 SHINY DARKLY (DK)
14.45-15.15 CARMEN VILLAIN (NO)
15.30-16.00 OLÉNA (FR)
16.15-16.45 DIANA (CA)

Undiröldubátur
16.30-17.00 FOR A MINOR REFLECTION
17.15-17.45 HUDSON WAYNE
18.00-18.30 MR.SILLA (solo set)

 

Fyrsta kvöldið á Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Iceland Airwaves hátíðin var sett í gær með pompi og prakt og fréttaritari straums fór á stúfana og reyndi að sjá eins marga tónleika og unnt var. Dagurinn var tekinn snemma og fyrst var haldið í fatabúðina JÖR til að sjá rafpoppsveitina Sykur off-venue. Þau komu fram í nokkurs konar órafmagnaðri útgáfu, eða öllu heldur minna rafmögnuð en þau eru venjulega, einn meðlimur spilaði á gítar, annar á hljómborð og sá þriðji á trommur. Þessi uppsetning var ákaflega skemmtileg og dró fram nýjar víddir í gömlum lögum auk þess sem tilþrifamiklir raddfimleikar söngkonunnar Agnesar nutu sín vel.

 

Þvínæst var haldið á Loft Hostel þar sem skóáhugamennirnir í Oyama voru að koma sér fyrir á sviðinu. Þeir hófu tónleikana á nýju efni sem lofar mjög góðu. Mónótónísk rödd söngkonunnar Júlíu, sem minnir mig nokkuð á söngkonu Stereolab, skar í gegnum ómstríða hávaðaveggi gítarleikaranna eins og steikarhnífur á smjörstykki.

 

Harður, hrár og pönkaður kjarni

 

Ég náði þó einungis þremur lögum því ég var búinn að lofa sjálfum mér að sjá kanadíska bandið Metz og hljóp beinustu leið niður í kjallara á 11-unni. Talsvert suð hefur verið í kringum sveitina en kjarni hennar er harður og pönkaður til hins ýtrasta. Þeir voru þrír á sviðinu í sveittum og skítugum kjallaranum en hljóðstyrkurinn var skrúfaður í botn og þyngslin talin í tonnum. Þrátt fyrir að hafa litla þekkingu á öfgarokki af þessum skóla þá var ekki hægt annað en að hrífast með óbeislaðri spilagleðinni og hráum einfaldleikanum. Fremst við sviðið myndaðist flösuþeytandi pyttur og undir lok tónleikana voru menn farnir að hlaupa upp á svið og krádsörfa villt og galið.

 

Þvínæst hélt ég á Dillon að sjá lo-fi popparana í Nolo. Síðan ég sá þá síðast hafa þeir breyst þó nokkuð, hafa bætt við sig trommara, spila á fleiri hljóðfæri en áður og notast í mörgum lögum við raddbreytandi hljóðeffekta. Það kemur alveg frábærlega út og sum af þeirra bestu lögum, eins og Fondu og Skelin Mín, sem ég hef heyrt ótalmörgum sinnum fengu nýtt líf og aukinn kraft í þessum útsetningum. Alveg stórgóðir tónleikar og fyrsti hápunktur kvöldsins.

 

Skrýtin birta og sálardjúpt tekknó

 

Á þessum tímapunkti var ég búinn að sjá fjóra tónleika en samt var opinber dagskrá hátíðarinnar sjálfrar ekki hafin. Ég hóf hana á nýbylgjusveitinni Grísalappalísu en Gunnar annar söngvari hennar var valhoppandi um allt sviðið í laginu Lóan er komin ég mætti á svæðið. Þeir léku tvö ný lög ásamt því að taka ábreiðu af Megasi, sem óneitanlega virðist mikill áhrifavaldur á sveitina. Þeir voru þrumuþéttir eins og venjulega og léku á alls oddi í lokalaginu Skrýtin Birta. Það eina sem skyggði á performansinn er að lítið af fólki var komið í risastóra rýmið í Hafnarhúsinu svona snemma og sveitin nýtur sín kannski betur í minna rými þar sem hún er í meira návígi við áhorfendur.

 

Ég hafði heyrt góða hluti um raftónlistarmanninn Tonik en honum tókst að fram úr eftirvæntingum á tónleikum sínum á Harlem. Hann kom fram með Herði úr M-Band, sem djöflaðist í tækjum og tólum ásamt því að syngja í nokkrum lögum, auk sellóleikara. Grunnurinn var tekknó, en anguvær söngur Harðar og smekklegt sellóið umbreyttu tónlistinni í einhvers konar melankólískt sálar-tekknó. Það var markviss uppbygging í tónleikunum og engar pásur á milli laga sem einungis jók á draumkennda upplifunina.

 

Hámörkuð gleði

 

Á eftir Tonik kom rafpoppsveitin Love & Fog sér fyrir á sviðinu og framreiddu grípandi rafpopp sem innihélt í það minnsta tvo upprennandi slagara. Hljóðheimurinn þeirra er smekklegur og þungur á botninum og ólíkar raddir Jóns og Axels harmóneruðu vel. Það verður gaman að fylgjast með hvað þau afreka í náinni framtíð.

 

Þegar þarna var komið við sögu voru batteríin nánast ofhlaðin af mikilli tónlistarinntöku og farið að kenna á bakeymslum eftir standslaust tónleikastand frá því fimm um daginn en ég ákvað að enda þetta í Hörpu. Þar sá ég fyrst Retro Stefson í Norðurljósasalnum og það var greinilega engin þreyta í áhorfendunum sem hreinlega átu stemmninguna úr lófa sveitarinnar. Þau tóku nýtt lag sem hljómaði mjög vel og skreyttu önnur lög með alls konar útúrdúrum og bútum úr öðrum lögum til að hámarka gleðina.

 

Emiliana á heimavelli

 

Að lokum fór ég á Emiliönu Torrini en tækifæri til að sjá hana á tónleikum gefst ekki á hverjum degi. Hún tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu sem ég hef því miður kynnt mér lítið, en það kom ekki að sök því flutningurinn og lögin voru framúrskarandi. Það er smátt svæði á milli þess að vera óþolandi væminn og einlægt krúttlegur, en Emiliana dansaði alltaf réttu megin línunnar og hún virtist ánægð með að halda tónleika á heimavelli og talaði við salinn á íslensku. Eftir uppklapp tók hún síðan Sunny Road af plötunni Fisherman’s Woman og endaði svo á útjaskaða slagaranum Jungle Drum, sem ég held þó að flestir nema mest harðbrjósta hipsterar fíli smávægis undir niðri.

Allt í allt var fyrsta kvöldið vel heppnað og ég náði að sjá rjómann af íslensku böndunum sem komu fram, þó maður missi alltaf af einhverju. Hápunktarnir í þetta skipti voru Nolo, Tonik og Emiliana Torrini. Í kvöld er það svo Yo La Tenga og heill hellingur af öðru, en fylgist vel með á straum.is því við höldum áfram með daglega umfjöllun um hátíðina næstu daga.

Davíð Roach Gunnarsson

Airwaves viðtal: Yo La Tengo

 

Hin goðsagnakennda indie hljómsveit Yo La Tengo frá Hoboken í New Jersey í Bandaríkjunum spilar í Silfurberg Hörpu á Iceland Airwaves hátíðinni klukkan 23:30 í kvöld. Við heyrðum í bassaleikara sveitarinnar James McNew og spurðum hann m.a. út í sögu sveitarinnar og tónleikar þeirra hér á landi.

 

 

 

Airwaves yfirheyrslan – Axel í Rökkurró

Axel sem leikur á gítar með Rökkurró sat fyrir svörum í yfirheyrslu dagsins. Rökkurró snéru nýlega aftur eftir um tveggja ára pásu með nýtt lag í farteskinu, Killing Time, og mæta fersk til leiks á Airwaves í ár.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Ef mig misminnir ekki þá var fyrsta hátíðin sem ég fór á sem gestur árið 2005 og ég man rosalega vel eftir tónleikum Skáta í Hafnarhúsinu. Þvílík stemmning og þvílíkt band! Þeirra er og verður ávallt sárt saknað.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Ég spilaði fyrst 2008 eða 2009 eftir að ég gekk til liðs við Rökkurró. Man ekki hvort það var. Við spiluðum á Listasafninu og það var frekar geggjað.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður mín fimmta hátíð sem listamaður.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Hún er alltaf að stækka og verða betri. Aðbúnaður og skipulag er nánast óaðfinnanlegt og slíkt er ekki gefins á svona hátíðum. Verst finnst mér að hátíðin sem og íslensk tónlistarmenning í heild sinni er aðeins farin að finna fyrir þessari absúru hótelbyggingaráráttu.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Á Íslandi er það Iðnó. Draumasalur. Ótrúlega gamalt og fallegt andrúmsloft þar inni. Góð aðstaða fyrir tónlistarmenn sem og gesti og stórt svið sem rúmar fjölmennar og ofvirkar hljómsveitir og það er líka nógu hátt til að þú sjáir uppá það sama hvar þú stendur. Rjómasound líka.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?
Sjitt ég veit það ekki. Ég er löngu hættur að reyna að skipuleggja mig eitthvað fyrir þessa hátíð því ég enda alltaf á því að missa af öllu sem ég planaði. Ég fylgi yfirleitt bara einhverju fæði og ramba inná eitthvað stöff með góðu fólki. Maður á ekki að svekkja sig á því sem maður missir af, miklu betra að njóta þess sem maður sér. Kannski ætti ég samt að segja !!! árið sem þeir, Bloc Party og Chromeo voru á sama tíma. Fór á BP í Flensborgarskólanum kvöldið áður og endaði síðan á Chromeo en eftirá að hyggja hefði ég kannski átt að safna grýlukertum á undirvagninn á mér í röð fyrir utan !!! til að ná nokkrum lögum.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Ekki hafa áhyggjur af slottinu þínu. Airwaves er frekar ólíkt almennri íslenskri tónleikamenningu þar sem allir mæta á svæðið nokkrum klukkutímum of seint eftir stífa for-bjórun í heimahúsi sökum óbærilegs áfengisverðs og almenns slugsagangs. Bransafólk er óútreiknanlegt og mikilvægast er að vera glaður og hress því það skilar sér alltaf í frammistöðuna. Það skiptir ekki öllu að þú sért að spila á erfiðu slotti fyrir framan hálftóman sal. Það kemur Airwaves á eftir þessu Airwaves-i og bjór er góður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Omar Souleyman og Fucked Up eru þeir erlendu listamenn sem ég er spenntastur fyrir. Verst að þetta er á sama tíma. Ég hugsa að Souleyman verði fyrir valinu hjá mér enda ekki á hverjum degi sem manni gefst færi á að sjá Sýrlenskt skemmtaragúru leika slagara á borð við “Saddam Habibi”. Ég alla veganna hoppaði hæð mína af gleði þegar ég sá að við vorum færð í dagskránni og það varð raunhæfur möguleiki fyrir mig að komast á Omar. Af íslenska dótinu er ég einna spenntastur fyrir Grísalappalísu, ég hef heavy gaman af plötunni þeirra. Oyama líka. Djöfull eru þau öll sæt og klár. Einnig er ég spenntur fyrir nýju stöffi frá bæði Agent Fresco og For a Minor Reflection og svo má enginn missa af Samaris og Ojbarasta.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þetta er lífæð íslensku tónlistarsenunnar. Þetta er skemmtilegasta vika ársins og í raun og veru stærsta og besta tækifæri íslenskra tónlistarmanna að leika fyrir fersk eyru og einnig er frábært og alls ekkert sjálfgefið fyrir hinn almenna tónlistaráhugamann að fá það ferskasta og mest spennandi að utan hingað heim.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Í ár spila ég fimm sinnum en einu sinni þá spiluðum við held ég 7 sinnum. Það er alltof mikið. Mig minnir að einhver hafi sagt mér að stórsveitin Reykjavík! hafi afrekað það að spila 15 sinnum árið 2008. Djöfull er það klikkað. Djöfull eru þeir klikkaðir. Kannski er þetta samt allt helber lygi…

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði ágætis staðir til síns brúks.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Ég er bara að spila með hljómsveitinni Rökkurró og dagskráin okkar er sem stendur:

Miðvikudagurinn 30. Okt:
17.30 12 Tónar (off venue)
20:00 Kaffibarinn (off venue)

Föstudagurinn 1. Nóv:
18:00 Loft Hostel (off venue)
22:30 *ON VENUE SHOW* Harpa Reykjavik Concert and Conference Centre -KALDALÓN

Laugardagurinn 2. Nóv:
18:30 Kex Hostel – KEXP Showcase (off venue)

Ef þetta hentar þér illa geturðu svosum bara fylgst með mér úr fjarska á meðan ég baða mig eða eitthvað…

Airwaves viðtal: Zola Jesus

Bandaríska söngkonan Nika Roza Danilova sem er best þekkt undir listamannsnafninu Zola Jesus er aðeins 24 ára gömul en hefur samt sem áður sent frá sér heilmikið af gæða efni frá því hún hóf sinn feril. Nika kemur fram í Gamla Bíó á Iceland Airwaves hátíðinni klukkan 1:00 næsta laugardag. Við tókum hana í stutt spjall á dögunum.

 

 

 

 

Nýtt lag frá Good Moon Deer

Rafdúettinn Good Moon Dear sem er skipaður þeim Guðmundi Inga Úlfarssyni og Ívari Pétri Kjartansyni sendi frá sér nýtt lag í dag sem ber heitir Again. Lagið er marglaga samsuða úr brotnum töktum, klipptum hljóðbútum og angurværum melódíum; í senn flókið og kaflaskipt, en þó einfalt og aðgengilegt áhlustunar. Hægt er að hlusta á lagið hér fyrir neðan eða njóta þess á þar til gerðri heimasíðu sem myndskreytir lagið.

Airwaves yfirheyrslan – Sindri Eldon

Sindri Eldon hefur reynslu af Iceland Airwaves bæði sem blaðamaður fyrir Reykjavík Grapevine og sem tónlistarmaður með hljómsveitunum Dáðadrengjum, Dynamo Fog og Sindra Eldon & The Ways. Við spjölluðum við Sindra um hátíðina.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Að spila með Dáðadrengjum á Airwaves 2003. Ég svona semi vissi hvaða hátíð þetta var fyrir það, en vissi ekkert að þetta væri eitthvað mikið mál. Ég var sautján ára og nýbyrjaður að drekka (ég blómstraði seint), og svo allt í einu var ég á NASA að opna fyrir Quarashi fyrir framan fullan sal af útlendingum. Það var ýkt kúl, eins og maður sagði gjarnan 2003.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Uuu, 2003, 2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og svo núna 2013, með ýmsum hljómsveitum, þannig að þær verða tíu allt í allt.

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Ekkert stendur upp úr í fljótu bragði.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Sindri Eldon & the Ways í fyrra. Við vorum með svo geðveikt slot, maður! Hálftvö á laugardagsnótt, Amsterdam smekkfullt af blindfullu fólki í góðum fílíng, við í geðveiku formi, tókum klukkutímasett eins og einhvers konar goð meðal manna. Nei djók. Eða þú veist samt ekki djók, við vorum ógeðslega góðir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin? 

Veitekki… hún var fyrst bara einhver svona vonlaus íslendinga-ófagmennska þar sem við vorum reddandi öllu með því að plögga dóti með lánum og loforðum. Svo varð þetta að einhverju svona kúl thing, þökk sé Sjálfstæðisflokknum og Dóra Ásgríms. Matadorpeningarnir flæddu óheflaðir um æðar efnahagsins, og stóru nöfnin byrjuðu að mæta. Síðan pompaði náttúrulega botninn undan öllu því hérna um árið, og hátíðin var mjög lágstemmd í nokkur ár, bara íslensk númer og einhverjir desperate útlendingar. Síðan þá er Airwaves búin að skríða aftur inn í ágætis sess, sem eitthvað svona fyrir-hruns-revival-fyrirbæri, aðallega þökk sé kvikmyndaiðnaðnum, og stóru nöfnin byrjuð að mæta aftur. The sky’s the limit!

 

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Finnst þeir allir alveg ýkt lélegir á heimsmælikvarða. Allir bestu staðirnir eru off-venue. Fuck the system!

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Úff, ég veit ekki… það eru alltaf einhverjir typpatrúðar ráfandi um röflandi um hvað Ghostigital eða Bloodgroup eða Reykjavík! eða einhverjir hafi verið svo geðveikir, maður er löngu hættur að taka mark á þessu.

 

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Hvort sem þú talar ensku eða íslensku við salinn, ekki útskýra af hverju þú ert að tala íslensku/ensku. Öllum er sama, fíflið þitt. Ekki biðja fólk um að koma nær sviðinu, ekki láta fólk klappa í takt, ekki segja okkur um hvað lögin eru, ekki reyna að vera fyndinn, ekki reyna að púlla íslenskan aulahúmor á útlendingana, ekki tala um hversu fullur/þunnur þú ert… bara ekki fokking vera óþolandi fáviti talandi um ömurlegt kjaftæði. Mér er alveg sama hversu lengi ég beið í röð eftir að sjá bandið þitt, ef ég heyri þig segja sögu af því hvernig lagið þitt var samið meðan bassaleikarinn var með flensu eða eitthvað svoleiðis, ég fokking grýti þig með glerflösku. Haltu fokking kjafti.

 

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Neinei, finnst bara best að ráfa milli venuea að sjá hvað fólk hefur upp á að bjóða.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Hún er mjög gott showcase fyrir það besta sem íslensk tónlist hefur upp á að bjóða. Öll böndin gera sitt besta til að vera kúl fyrir útlendingana, og það er bara rokk.

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir? 

Engin.

 

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

U, ég held við höfum verið með tíu gigg allt í allt 2011, og við þurftum að afbóka eitt þeirra. Síðan þá höfum við farið aðeins varlegara í að bóka off-venue gig.

 

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Ekki gott að segja… þær hafa verið mjög hressar margar hverjar.

 

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo. Ég hef séð Kraftwerk tvisvar, og þetta er bara ljósashow með góðri tónlist. Ég veit ekki hversu lífleg YLT eru, en þau hljóta að vera meiri spennandi að horfa á en Kraftwerk.

 

 

Listasafnið eða Harpa?

Fokking hvorugt. Sportbarinn í Ármúla.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Sindri Eldon & the Ways! www.facebook.com/events/1392415404323527

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Rokk í smettið!