Sindri Sin Fang opnar sig loksins um ást sína á hip-hop tónlist

Sindri Már Sigfússon er skrambi afkastamikill náungi. Ekki aðeins tekst honum að gleðja fólk reglulega með hljómsveitinni Seabear, heldur gefur hann líka út plötur og kemur fram undir nafninu Sin Fang, sem er einskonar sóló-hliðarverkefni Sindra (skemmtileg staðreynd: Seabear var einusinni sólóverkefni líka, en svo breyttist Seabear í hljómsveit). Svo tekur hann stundum líka upp plötur með öðrum tónlistarmönnum og aðstoðar þá í hvívetna (hann vann t.d. að síðustu plötu öðlingsins Snorra Helgasonar, hinni stórgóðu Winter Sun). 

Nema hvað, það eru alltaf að koma út plötur með Sindra og nú er ný slík á leiðinni undir merkjum Sin Fang. Heitir sú Flowers og er alveg bráðskemmtileg. Sindri ætlar að fagna útgáfu plötunnar á skemmtistaðnum Harlem í kvöld (fimmtudag, sko) og lofar í viðburðarsíðu partýsins að hann ætli að spila fullt af kræsilegri hip hop músík. Þetta er auðvitað mikið gleðiefni, enda platan stórkostleg áhlustunar og svo er líka alltaf gaman að drekka bjór og hlusta á næs hip hop. Af því tilefni sendum við Sindra tölvupóst og báðum hann að segja okkur aðeins frá hip hopinu í lífi sínu.

Sæll Sindri, til hamingju með nýju Sin Fang plötuna!

Halló! Takk!

Ég er búinn að hlusta aðeins á hana. Þetta er gæða gripur! En það er helst til lítið rappað á henni. Af hverju er það?

Takk! Við klipptum út allt rappið á seinustu stundu í mixinu.

[Look at the Light af breiðskífunni Flowers. Rappleysi lagsins er tiltölulega áberandi]

Gætirðu hugsað þér að gera einhverntíman rapp plötu?

Nei ég held að ég leyfi ekta röppurum að sjá um það. Ég held að ég myndi ekki vera neitt rosalega sannfærandi rappari. því miður.

En að búa til takta fyrir einhvern annan sem rappar?

Já, það gæti verið gaman að prófa.

Að öllu gamni slepptu, þá hefur ekki farið fram hjá neinum að þú ert mikill hiphop aðdáandi, eins og sjá má ef maður eltir þig á Twitter og viðlíka samskiptamiðlum. Af hverju höfðar hip hop tónlist svona sterklega til þín? Hvað er það við hip hop músík sem gerir hana ómótstæðilega í þínum eyrum?

Ég veit það ekki alveg. stundum finnst mér lögin bara vera fyndinn en stundum finnst mér eins og maður sé að fá að kíkja inní einhvern heim sem er frekar langt frá mínum veruleika. Og stundum eru þetta bara svo skemmtileg lög.


Hverjar eru helstur rapp-hetjurnar sem þú hlustar á? Aðhyllistu einhvern sérstakan skóla hip hops (suðurríkjaskólann, gangsta rabb, old skool, etc)?

Ég hlustaði eiginlega bara á hip hop og rapp þegar að ég var unglingur. Þá var það Wu Tang, Smiff n Wessun, Black Moon, Outkast, Redman, Roots osfv. Svo tók ég reglulega upp Kronik þáttinn sem Robbi Rapp stýrði á kassettu. Hlusta á það í bland við nýtt svo að ég myndi bara segja að ég hlusti á ’90s rapp í bland við svona nýtt hóstasafts pillu rapp.

Hvað finnst þér um svona bakpokarapp, eins og Sole og allt Anticon gengið. Og Slug og þá.

Kveikti eiginlega aldrei á þeirri bylgju.

Hverjir finnst þér svona bestir allra tíma? Og af hverju?

Wu Tang? Enter the 36 Chambers?

Hver er besta hip hop plata allra tíma að þínum dómi og af hverju?

Þær plötur sem ég hef örugglega hlustað á mest eru Doggystyle með Snoop og Ready to Die með Biggie. Hlusta ennþá á þær.

En hverju hefurðu verið að veita athygli svona upp á síðkastið? Hvaða nýja gengi ertu að fíla?

A$AP Rocky finnst mér vera mjög skemmtilegt. veit ekki hvort að R. Kelly falli undir hip hop en ég hlusta mikið á hann. Sérstaklega ef að ég er að fá mér.

Talandi um A$AP Rocky, hvað finnst þér um það gengi allt? Er eitthvað varið í þetta?

Mér finnst A$AP Rocky sjálfur allavegana mjög skemmtilegur. Hef ekki tékkað á miklu frá hinum röppurunum í þessu gengi. Peso, Purple Swag, Fucking Problems eru allt æðisleg lög.


En Odd Future krakkana. Eru textarnir of hómófóbískir/kvenfyrirlitaðir til að maður geti haft gaman af þessu með góðri samvisku?

Ég er ekki ennþá búinn að kveikja á þessu. Fíla samt Frank Ocean plötuna mjög vel. Held að þessir krakkar séu samt að reyna að sjokkera frekar en að vera einhverjir homophobes eða kvennhatarar.

Hvaðan færðu þínar upplýsingar um rabbmúsík? Það er ekki mikið fjallað um hana í íslenskum fjölmiðlum, ef frá er talinn frábær þáttur Danna Delúx á Rás 2. Ertu að sækja þessa músík mest erlendis frá?

Bara frá vinum og blogg síðum. Hef ekki tékkað nógu oft á þættinum hans Danna Delúx en ætla að bæta úr því.

Hefurðu veitt íslensku hip hopi sérstaka athygli? Hverja fílarðu þar, og hvers vegna?

Hef ekki fylgst neitt sérstaklega vel með því seinustu ár. Fíla Gísla Pálma mjög vel þessa dagana.

Hvað finnst þér um Afkvæmi Guðanna?

Eru þeir ekki hættir? Hættu að hringja í mig hættu að senda mér smsss.

Tókstu afstöðu með Móra eða Poetrix í bífinu þeirra?

Haha nei.

En Móra eða Erpi?

Neibb.

En Erp eða Subta krewinu?

Nei ég vil ekki vera drepinn. Er samt til í að dissa eitthvað indie band sko.

Hver er frægasti rappari sem þú hefur hitt?

Hitaði einusinni upp fyrir Ghostface Killah. Held að ég hafi ekki heilsað honum samt.

Hver er flottasta ríma sem þú hefur heyrt?

“You say no to drugs / Juicy J can’t”

Ef þú mættir gera lag með einum rappara, hver yrði það?

Ol’ Dirty Bastard.

Hvort finnst þér mikilvægara upp á gott hip hop lag, takturinn (músíkin) eða textinn?

Bara misjafnt. Textinn þarf nú ekki að vera merkilegur. Held að þetta ég hafi spilað þetta lag oftast í fyrra, þar sem textinn er aðalega um að hann búi við hliðina á kobe bryant.

Hvor finnst þér betri, 50 Cent eða Eminem?

Eminem finnst mér skárri.

Hvað verðurðu svona helst að spinna í Sin Fang partýinu á fimmtudagskvöld? Hvað verður mikið af fríbjór?

Bara eitthvað nýtt í bland við gamalt. Það verður vonandi bara nóg af bjór. Annars kaupi ég kannski bara kassa af Hennesy.

Viðtal og myndvinnsla: Haukur S. Magnússon. Haukur er á Twitter. Það var og. 

Fort Romeau með nýja smáskífu

Raftónlistarmaðurinn Fort Romeau frá London sem átti eitt af lögum ársins hjá okkur á síðasta ári gefur út nýja smáskífu þann 11. mars. Lagið SW9 er á A-hliðinni, en það lag hefur verið  í umferð frá því í fyrra, lagið á B-hliðinni Love (dub) kom svo á netið í dag og er það ekki síðra. Hlustið á það hér fyrir neðan.

The Strokes gefa út Comedown Machine

Fimmta plata bandarísku indie-rokk hljómsveitarinnar The Strokes frá New York hefur fengið nafnið Comedown Machine og mun koma út 26. mars. Fyrsta smáskífan af plötunni heitir All the Time og kemur út 19. febrúar. Í síðustu viku sendi hljómsveitin frá sér lagið One Way Trigger sem einnig verður að finna á plötunni. Fyrir ofan má sjá plötuumslag Comedown Machine sem sýnir nafn hljómsveitarinnar og plötunnar á gömlu hulstri utan um upptökubönd frá plötufyrirtæki The Strokes RCA. Hlustið á One Way Trigger hér fyrir neðan.

Íslensk-kanadískur hrærigrautur á Faktorý

Tónleikahaldararnir Oki Doki sjá um íslensk-kanadíska risahrærigrautstónleika sem fram fara á Faktorý í kvöld. Viðburðurinn hefur fengið nafnið Sonic Waves og fram koma Prins Póló og Benni Hemm Hemm ásamt kanadísku tónlistarmönnunum Woodpigeon, Clinton St. John, Samantha Savage Smith og Laura Leif.

Tónlistarmennirnir vinna um þessar mundir saman að umfangsmiklu verkefni, þar sem þeir leika á tónleikum á Íslandi og í Kanada. Tónleikarnir verða með óhefðbundnu sniði þar sem allir munu bæði koma fram með eigið efni sem og saman í einum hrærigraut. Miðaverð á tónleikana er 1000 kr og hefjast þeir á slaginu 22:00. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Oki Doki tóku á æfingu hjá tónlistarmönnunum á dögunum.

Nýtt Surfer Blood lag

Florida hljómsveitin Surfer Blood sendu í kvöld frá sér lagið Weird Shapes sem er fyrsta smáskífan  af væntanlegri plötu sem nefnist Pythons sem kemur út seinna á þessu ári. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu Astro Coast árið 2010 og ep plötuna Tarot Classics í fyrra.  Hlustið á lagið hér fyrir neðan og viðtal sem við áttum við hljómsveitina á Hróaskeldu árið 2011. 

Viðtal við Surfer Blood 2011

      1. Surfer blood Interview

Straumur 28. janúar 2013

Í Straumi í kvöld skoðum við nýtt efni með Ducktails, The Knife, The Ruby Suns, Torres og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld frá 23:00 á X-inu 977!

1. hluti:

      1. 236 1

2. hluti:

      2. 236 2

3. hluti:

      3. 236 3

 

1) Defiant Order – Birdy Nam Nam
2) Full Of Fire – The Knife
3) Anomaly – Doldrums
4) Higher Res (ft. Jai Paul and Little Dragon) – Big Boi
5) Gun Shy (Lindstrøm remix) – Grizzly Bear
6) Dramatikk – The Ruby Suns
7) Pretty Boy – Young Galaxy
8) One Way Trigger – The Strokes
9) Timothy Shy – Ducktails
10) Max Can’t Surf – FIDLAR
11) Wooly Mammoth – Local Natives
12) November Baby – Torres
13) When Winter’s Over – Torres
14) Numbers And Names – Ólöf Arnalds
15) Grievances – Daniel Johnston

Ný My Bloody Valentine í vikunni

Írska shoegaze hljómsveitin My Bloody Valentine tilkynnti það á tónleikum í kvöld að þriðja plata sveitarinnar muni koma út á næstu dögum. Hljómsveitin hóf tónleika sína í Brixton Electric í London á nýju lagi og eftir að því lauk tilkynnti söngvari sveitarinnar Kevin Shields að fyrsta plata My Bloody Valentine í rúm 20 ár myndi koma út á næstu tveimur til þremur dögum. Hljómsveitin gaf síðast út plötuna Loveless árið 1991. Horfið á hljómsveitina spila nýja lagið Rough Song hér fyrir neðan.


Nýtt lag með The Strokes

Hljómsveitin The Strokes sendi frá sér lagið One Way Trigger rétt í þessu. Lagið er fyrsta nýja efnið með bandinu í tvö ár. Hlustið á það hér fyrir neðan. Fyrir tæpum tveim vikum síðan sendi útvarpsstöðin 1077 The End í Seattle frá sér tilkynningu um að hún væri með undir höndum tvö ný lög með hljómsveitinni. Annað  lagið heitir All the Time og er fyrsta smáskífan af væntanlegri fimmtu plötu sveitarinnar sem kemur út á þessu ári. Hitt hefur líklega verið One Way Trigger sem er syntha drifið og ólíkt flestu sem The Strokes hafa sent frá sér.

Dirty Projectors með Usher ábreiðu

Íslandsvinirnir í Dirty Projectors voru gestir í hljóðveri útvarpsstöðvarinnar Triple J í Ástralíu á dögunum og fluttu þar lagið Climax sem Usher gerði frægt á síðasta ári. Lagið var samið af Diplo sem Amber Coffman úr hljómsveitinni vann með á síðasta ári í laginu Get Free með Major Lazer. Horfið á Dirty Projectors flytja lagið hér fyrir neðan.