Sónar aftur í Reykjavík á næsta ári

Í dag staðfestu aðstandendur Sónar-Hátíðarinnar að hún verði haldin í annað sinn í Reykjavík á næsta ári. Hátíðin mun fara fram í Hörpunni dagana 13. til 15. febrúar og verður bætt við tveimur auka sviðum á gangi tónlistarhússins auk þess sem sérstakir tónleikar verða haldnir í Eldborgarsalnum. Ekkert hefur enn verið gefið upp um listamenn sem munu koma fram. Fyrsta Sónar-hátíðin í Reykjavík var haldin í febrúar á þessu ári en umfjöllun Straum.is um hana er hægt að kynna sér hér.

Tónleikar um páskahelgina

Miðvikudagur 27. mars:

Partíþokan verður haldin á Faktory.  Siggi Frændi opnar dyrnar klukkan 21.00 og setur einhverja dúndrandi snilld á fóninn til að hita upp salinn. Hann tekur við greiðslukortum og aðgangseyrir er 2000 krónur. Klukkan 22.00 stígur hinn óviðjafnanlegi Jónas Sigurðsson á svið ásamt hljómsveit, dúndurþétt að vanda. Klukkan 22.50 er röðin komin að strandamanninum Birni Kristjánssyni og strákunum í Borko. Það er svo um Klukkan 23.40 að Sin Fang hefur að trylla lýðinn með eitursvölum nýbylgjuballöðum. Prins Póló stígur  á svið 30 mínútum eftir miðnætti  og slær botninn í dagskránna með Tipp Topp, Niðrá strönd og fleiri mjaðmaæfingum. Kynnir kvöldsins er útvarpsmaðurinn, bóksalinn, og trommarinn Kristján Freyr Halldórsson og það borgar sig að taka vel eftir því hann kemur til með að draga úr happdrætti Partíþokunnar um miðbik kvöldsins. Við gefum ekkert upp um verðlaunin hér, en þau eru ekki af þessum heimi svo ekki sé meira sagt.

Fimmtudagur 28. mars

Volta:  Stephen Steinbrink, einnig þekktur sem The French Quarter, er fjölhæfur lagahöfundur, hljóðfæraleikari og sjónlistamaður frá Arizona. Hann spilar ásamt Snorra Helgasyni og Just Another Snake Cult á Volta á skírdag. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og er aðgangseyrir 500 kr.

Á Hemma og Valda munu fimm tónlistarkonur leiða saman hesta sína. Þær eru; Brynjahttps://soundcloud.com/hestur KirstiÓsk (https://soundcloud.com/oskmusic), Tinna Katrín og Þorgerður Jóhanna (https://soundcloud.com/user6539071). Aðgangur er ókeypis og hefst fjörið klukkan 20!

Á Dillon verður haldið annað Desibel kvöldið þar sem heiðraðir eru listamenn sem sérhæfa sig í noise, drone, industrial, crust, hardcore punk eða dark ambient tónlist. Sveitirnar World Narcosis og Skelkur Í Bringu munu koma og spila. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og er ókeypis inn. 

Föstudagur 29. mars 

Black metal böndin Ash Borer og Fell Voices koma fram á Gamla Gauknum á föstudeginum langa eftir miðnætti. Með þeim verða böndin Azoic og NYIÞ. 1000 kr inn. 

Laugardagur 30. mars

Á Gamla Gauknum munu hljómsveitirnar Cosmic Call og Waveland halda tónleika ásamt tónlistarmanninum Jón Þór. Frítt er inn og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 22:30.

Í fyrsta sinn verður Páskagleði haldin í Listasafni Reykjavíkur. Á tónleikunum koma fram listamenn sem allir eiga það sameiginlegt að spila tónlist sem einkennist af gleði og það á heldur betur við um páskana. Fram koma; Ásgeir Trausti, Sísý Ey, Þórunn Antonía, DJ Margeir og Daníel Ágúst. Gleðin hefst klukkan 20 og kostar 4900 kr inn.

Myndband frá Yeah Yeah Yeahs

Myndband við fyrstu smáskífuna af fjórðu plötu hljómsveitarinnar Yeah Yeah Yeahs var frumsýnt fyrr í dag. Myndbandið er við lagið Sacrilege, sem inniheldur gospelkór og verður að finna á plötunni Mosquito sem kemur út 16. apríl næstkomandi á vegum Interscope. David Sitek úr hljómsveitinni TV On The Radio stjórnaði upptökum með hjálp frá Nick Launay. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

 

Straumur 25. mars 2013

Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá Wavves, Kurt Vile, Savages, CocoRosie, No Joy og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld frá 23:00 á X-inu 977!

Straumur 25. mars 2013 by Olidori on Mixcloud

1) Demon To Lean On – Wavves
2) Never Run Away – Kurt Vile
3) Afraid Of Heights – Wavves
4) Cop – Wavves
5) Gimme a Knife – Wavves
6) Made To Stray – Mount Kimbie
7) Ain’t Got Nobody (Tonik remix) – Sisy Ey
8) Dark to light – Telekinesis
9) Ever True – Telekinesis
10) She Will – Savages
11) Julian – Say Lou Lou
12) Lunar Phobia – No Joy
13) Roots Of My Hair – CocoRosie
14) Your Life, Your Call – Junip
15) Prima Materia – The Virgins
16) Brennisteinn – Sigur Rós

 

Daft Punk platan kemur út 21. Maí

Nýju Daft Punk plötunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en nú hefur loksins verið settur útgáfudagur á gripinn, 21. maí. Þá var jafnframt tilkynnt um titilinn sem er Random Access Memories og umslag plötunnar má sjá í fréttamyndinni. Þá kemur fram að á plötunni eru 13 lög og hversu löng þau eru, en fyrir áhugasama má geta þess að lengsta lag hennar er níu mínútur og fjórar sekúndur en hið stysta rúmlega fjórar og hálf mínúta. Við upptökur skífunnar nutu þeir aðstoðar Nile Rodgers, Giorgio Moroder og Panda Bear en enn hefur ekkert lag af henni heyrst. Ef hljóðbúturinn sem fylgdi auglýsingu fyrir plötuna er lýsandi fyrir hana má þó ljóst vera að hún er ákveðið afturhvarf til hljómsins sem einkenndi sveitina á skífunni Discovery frá árinu 2002. Meðfylgjandi fyrir neðan er auglýsingin fyrir plötuna auk myndbands við lagið Digital Love af plötunni Discovery.

Uppfært 23. mars 2013: Önnur auglýsing með hljóðbúti frá Daft Punk var birt í síðasta þætti af Saturday Night Life skemmtiþættinum.  Hlustið hér fyrir neðan.


Fimmta plata Deerhunter

Hljómsveitin Deerhunter frá Atlanta tilkynnti á facebook síðu sinni fyrr í dag um útgáfu sinnar fimmtu plötu sem kemur út 7. maí og nefnist Monomani. Platan var tekin upp í New York borg fyrr á þessu ári og fylgir á eftir plötunni Halcycon Digest frá árinu 2010 sem toppaði lista Straums yfir bestu plötur ársins. Fyrir neðan má sjá lagalista plötunnar.

01 Neon Junkyard
02 Leather Jacket II
03 The Missing
04 Pensacola
05 Dream Captain
06 Blue Agent
07 T.H.M.
08 Sleepwalking
09 Back to the Middle
10 Monomania
11 Nitebike
12 Punk (La Vie Anté:rieure)

Nýtt frá Sigur Rós

Hljómsveitin Sigur Rós gáfu í dag út fyrstu smáskífuna af væntanlegri plötu sem nefnist Kveikur og kemur út á vegum XL Recordings, á þjóðhátíðardag íslendinga þann 17. júní næstkomandi. Lagið sem nefnist Brennisteinn er mikil stefnubreyting frá síðustu plötu þeirra Valtari sem kom út í fyrra.

Ljósmynd: Lilja Birgisdóttir

Tónleikahelgin 21.-24. Mars

Þessa helgi eins og allar helgar er nóg að gerast í tónlistarlífi höfuðborgarinnar, það eina sem þarf er að leita eftir því. Straumur vonar að þessi samantekt geti orðið tónþyrstum sálum einhver hjálp í þeim efnum.

Fimmtudagur 21. mars

Heiladanskvöldin hafa um langt skeið hafið framsækna danstónlist til vegs og virðingar á Íslandi og í kvöld á Hemma og Valda munu koma fram Bistro Boy, Steve Sampling, Skurken og Bypass. Tónleikarnir hefjast klukkan 10 og aðgangur er ókeypis.

 

Á Volta verður hljóðgervlaþema en þar koma saman rauðskeggjaði 80’s dýrkandinn Berndsen og Housedívurnar í Sísí Ey. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 1000 krónur inn á herlegheitin.

Föstudagur 22. mars

Á stúdentakjallaranum verður slegið upp heljarinnar dansiballi en þar munu stíga á stokk diskóboltarnir í Boogie Trouble og þjóðlagapoppsveitin 1860. Að tónleikunum loknum munu kanilsnældur þeyta skífum eins lengi og lög um opnunartíma veitingastaða leyfa. Aðgangur er ókeypis.

 

Biggi Hilmars sem er þekktastur fyrir söng sinn með hljómsveitinni Ampop treður upp á Faktorý. Biggi gaf nýverið út sólóskífuna All we can be og verða lög leikin af henni og einnig frumsýnt nýtt myndband sem að myndlistarkonan María Kjartansdóttir gerði við lagið Fools af plötunni. Aðgangseyrir er 1500 krónur og tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 10.

Laugardagur 23. mars

Tónlistarveitan Gogoyoko efnir til tónleika í Stúdentakjallaranum en þar koma fram skóglápararnir í Oyama og tilraunapoppdúettinn Nolo. Oyama gáfu í janúar út EP-plötuna I Wanna og snéru nýverið heim úr afar vel heppnuðu tónleikaferðalagi í Noregi og Englandi þar sem þau léku m.a. á ByLarm hátíðinni í Olsó. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og tekið er fram að þeir hefjist afar stundvíslega klukkan 21:00.

 

Á Faktorý verður boðið upp á Reggíveislu en á efri hæð staðarins verða Ojba Rasta með tónleika klukkan klukkan 22:00 og í hliðarsal verða síðan plötusnúðar úr hópnum RVK Soundsystem sem þeyta skífum inn í nóttina. Á tónleikana með Ojba Rasta kostar þúsund krónur en enginn aðgangseyrir er að RVK Soundsystem kvöldinu í hliðarsalnum. Þá er vert að minnast á það að eistneskur gestasnúður, Tarrvi Laamann, mun vera RVK Soundsystem-liðum til halds og trausts en hann er meðlimur í plötusnúðahópnum Bashment KingzSound.

 

Boogie Trouble verða aftur á ferðinni á laugardagskvöldinu en í þetta skiptið munu þau hengja upp diskókúlu sína á rokkbarnum Dillon. Í tilkynningu frá sveitinni kemur fram að markmið hennar sé að færa Diskó inn á hvert heimili landsins og láta miskunnarleysi grúvsins hrista pöpulinn upp úr sófunum til að slengja skönkunum til í hrynþrunginni tilbeiðslu. Hvort þetta verður að veruleika á Dillon eða ekki látum við áhorfendur um að dæma. Þá kemur einnig fram að sveitin er um þessar mundir að vinna í upptökum á sinni fyrstu breiðskífu í samstarfi við Hermigervil.

Sunnudagur 24. mars

Nóra blása til útgáfutónleika í Iðnó í tilefni af útkomu annarrar breiðskífu sinnar, “Himinbrim”, sem kom út skömmu fyrir jól. Á tónleikunum verður öllu tjaldað til, og mun sveitin fá til liðs við sig strengjakvartett og slagverksleikara til að koma plötunni í heild sinni sem best til skila. Platan var tekin upp víða, m.a. í Orgelsmiðjunni og Sýrlandi og annaðist hljómsveitin sjálf upptökur á henni ásamt Magnúsi Öder. Hún hefur hlotið góðar viðtökur og lenti meðal annars á árslistum ýmissa tónlistarspekúlanta fyrir síðasta ár. Miðaverð er 1900 krónur og um upphitun sér tónlistarkonan Jara.

Kurt Vile frumsýnir nýja smáskífu

Kurt Vile sleppti frá sér fyrstu smáskífunni af væntanlegri plötu sinni Walkin on a Pretty Daze í gær. Vile kom fram í auglýsingu á CW sjónvarpsstöðinni í Philadelphia ásamt þriggja ára dóttur sinni og spilaði lagið Never Run Away af vinyl. Walkin on a Pretty Daze kemur út 9. apríl, horfið á auglýsinguna hér fyrir neðan.

Snoop Lion berst gegn byssum

Listamaðurinn sem áður kallaði sig Snoop Dogg gaf út nýtt lag af væntanlegri reggíplötu sinni í dag sem er í nokkurri andstöðu við boðskap bófarappsins sem hann er þekktastur fyrir. Lagið ber heitið No Guns Allowed og er pródúserað af Diplo, skartar gestaversi frá Drake og byggir á hljóðbút úr laginu Nantes með indísveitinni Beirut. Platan Reincarnated kemur út þann 23. apríl og hefur Snoop Dogg (áður þekktur sem Snoop Doggy Dogg) breytt listamannsnafni sínu í Snoop Lion í tilefni útgáfunnar. Þá var gerð heimildarmynd samnefnd plötunni um tilurð hennar sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum vestanhafs og vonandi skilar sér á Íslandsstrendur með tíð og tíma. Hægt er að hlusta á lagið No Guns Allowed hér fyrir neðan.