Tónleikar vikunnar

Þriðjudagur 16. júlí

R&B stórstjarnan Frank Ocean heldur tónleika í  Laugardalshöll. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það kostar 8.900 kr í stæði og 13900 í stúku, enn er hægt að kaupa miða á midi.is

Stroff, Skelkur í bringu og Sindri Eldon spila á neðri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Á jazzkvöldi KEX kemur fram kvartett kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Samuel J. Samúelsson á básúnu og slagverk og Sigtryggur Baldursson á conga trommur. Tónlistin hefst kl. 20:30 og stendur í u.þ.b. 2 klst., með hléi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis

 

Miðvikudagur 17. júlí

Hjómsveitin Chic undir styrkri handleiðslu stofnandans Nile Rodgers mun koma fram á tónleikum í Silfurbergi Hörpu. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sisi Ey munu opna kvöldið sem hefst klukkan 21:00. Enn er hægt að kaupa miða á midi.is og kostar 8.500 kr inn.

Raftónlistarpartý á Harlem -Tvíeykið MRC Riddims frá New York [nánar tiltekið Harlem] leikur á tónleikum á nýopnuðum innri sal Harlem (áður Volta). Ghostigital, AMFJ og Lord Pusswhip spila einnig í partíinu og Berglind Ágústsdóttir kemur sérstaklega fram með sín eigin lög í miðju setti MRC Riddims. Partýið stendur frá 22:00 – 01:00 og kostar 1000 kr. inn.

Ylja, Hymnalaya og Stormur halda tónleika á efri hæð Faktorý sem hefjast klukkan 22:00. Það kostar 1500 kr inn.

 

 

Fimmtudagur 18. júlí

Hljómsveitin Boogie Trouble spilar ljóðrænan diskó í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum kl 17:00.

NÆNTÍS VEIZLA í boði Sindra Eldon á Harlem Bar: TREISÍ, JÓN ÞÓR og SINDRI ELDON & THE WAYS koma fram auk þess sem Sindri mun Dj-a til lokunnar.

Gítarveisla í Bíó Paradís en þar stíga á stokk hljómsveitirnar Stroff, Skelkur í Bringu, Bárujárn og Dreprún. Tónleikarnir hefjast 22:00 og er frítt inn.

Sign og We Made God spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 2000 kr inn.

 

 

Föstudagur 19. júlí

Hljómsveitin Hymnalaya hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, „Hymns“. Sveitin ætlar að fagna því með léttum ókeypis tónleikum í 12 Tónum á Skólavörðustíg sem hefjast klukkan 17:30.

Moses Higtower og 1860 spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það kostar 1500 kr inn.

 

 

Laugardagur 20. júlí

KEX Hostel, KEXLand og bandaríska útvarpsstöðin KEXP ætla að bjóða öllum á útitónleikana KEXPORT við Kex Hostel laugardaginn 20. júlí næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í portinu við Kex Hostel og hefjast kl. 12 á hádegi og lýkur um miðnætti. Alls munu 12 hljómsveitir koma fram á klukkutímafresti á þessum maraþon tónleikum. Fram koma: BABIES // BOOGIE TROUBLE // HJALTALÍN // KIPPI KANINUS // LOJI // MOSES HIGHTOWER // MUCK // NOLO // SAMÚEL J SAMÚELSSON BIG BAND // SÍSÍ EY // SYKUR //

 

Hjaltalín heldur tónleika á Faktorý, laugardagskvöldið 20. júlí. Um upphitun sér hljómsveitin Japam. Húsið opnar klukkan 22 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22:45. Miðasala fer eingöngu fram við hurð og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

 

 

 

 

 

Tónleikar um Hvítasunnuhelgina

Að fimmtudeginum meðtöldum er þessi helgi fjórir dagar og fyrir utan Eruovision er af nægu að taka í tónleikum og tryllingi þessa helgi.

Fimmtudagur 16. maí

Það verður slegið upp hip hop veislu í óhefðbundnari kantinum á Prikinu en þar munu taktsmiðirnir Marteinn, Lord Pusswhip og Tonmo úr Hip Hop krúinu Mudd Mobb leika listir sínar og tónsmíðar. Gjörningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Hljómsveitirnar Murrk og Óregla troða upp á Volta og í tilkynningu frá þeim er lofað brjáluðu proggi og helluðu fusion. Fyrir áhugamenn um slíkt þá opna dyrnar á Volta klukkan 21:00 og inngöngueyrir er 1000 krónur.

Föstudagur 17. maí

Hin kynþokkafulla ábreiðusveit Babies kemur fram ásamt Boogie Trouble og DMG á Faktorý. Gestum er ráðlagt að taka með sér dansskó, bjórpening og getnaðarvarnir. Gleðidyrnar opnast 22:00 og 1000 krónur kostar að ganga í gegnum þær.

Á Faktorý verða einnig aðrir tónleikar með tilraunakennda þjóðlagasöngvaranum Daniel Higgs frá Baltimore. Honum til halds og trausts verður Just Another Snake Cult en tónleikarnir hefjast 20:00 og aðgangur er ókeypis.

Söngvaskáldið Jón Þór sem gaf út hina prýðilegu plötu Sérðu mig í lit á síðasta ári stígur á stokk á Bar 11 ásamt Knife Fight sem að eigin sögn spila hávært indírokk. Tónleikarnir hefjast 22:00 og eru fríkeypis.

Ný klúbbakvöld, RVK DNB, hefja göngu sína á Volta. Eins og nafnið gefur til kynna verða kvöldin helguð Drum & Bass tónlist og þeir sem snúa skífunum á þessu fyrsta kvöldi verða Agzilla, Plasmic, DJ Andre og Elvar.

Blúsaða djasssveitin Beebee and the bluebirds kemur fram á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast 22:00.

Laugardagur 18. maí

Eftir Eurovisionpartýið verður boðið upp á rapp og dans á Gauk á Stöng þar sem Úlfur Úlfur, Emmsé Gauti og UMTBS stíga á stokk. Húsið opnar 22:00 og kostar 1000 kall inn.

Sísí Ey, Oculus, Kid Mistik og Sean Danke efna til dansveislu á efri hæð Faktorý sem hefst klukkan 10 og kostar 1000 krónur inn.

Öfgarokksveitin Azoik leikur á hljómleikum á Dillon klukkan 22:00 og ókeypis er inn. Sveitin lofar sprengdum hljóðhimnum og kílóum af flösu fyrir þá sem mæta.

Sunnudagur 19. maí

Elektrórokksveitin RetRoBot sem unnu músíktilraunir á síðasta ári og fönkbandið The Big Band Theory slá upp dansleik á Volta. Ballið hefst klukkan 21:00 og það kostar 500 krónur inn.

Chic spila á Íslandi 17. júlí

Diskósúpersveitin Chic sem leidd er af gítarleikaranum Nile Rodgers mun halda tónleika hér á landi í Laugardalshöll þann 17. júlí næstkomandi. Chic var ein helsta sveitin í diskósenu New York borgar á ofanverðum 8. áratugnum og eftir hana liggja ótal smellir eins og Le Freak, Everybody Dance og I Want Your Love. Þá var sveitin ötul í lagasmíðum og upptökum fyrir aðra listamenn eins og Sister Sledge og Diana Ross og sem slík ábyrg fyrir ódauðlegum slögurum eins og We are Family og Upside Down. Nile Rodgers hefur einnig stjórnað upptökum á plötum á borð við Let’s Dance með David Bowie og Like a Virgin með Madonnu. Þá ætti hann að vera hlustendum samtímans kunnugur þar sem hann er í stöðugri útvarps- og dansgólfaspilun um þessar mundir í Daft Punk laginu Get Lucky sem hann fönkar all svaðalega upp með sínum óviðjafnanlega gítarleik. Annar helmingur Chic, hinn frábæri bassaleikari Bernand Edwards, er því miður látinn en koma sveitarinnar ætti þó að vera diskóboltum og grúvhundum mikið fagnaðarefni. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sísí Ey sjá um upphitun á tónleikunum en miðasala hefst á föstudaginn á midi.is. Hlustið á lögin Everybody Dance og Good Times hér fyrir neðan.

Straumur 25. mars 2013

Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá Wavves, Kurt Vile, Savages, CocoRosie, No Joy og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld frá 23:00 á X-inu 977!

Straumur 25. mars 2013 by Olidori on Mixcloud

1) Demon To Lean On – Wavves
2) Never Run Away – Kurt Vile
3) Afraid Of Heights – Wavves
4) Cop – Wavves
5) Gimme a Knife – Wavves
6) Made To Stray – Mount Kimbie
7) Ain’t Got Nobody (Tonik remix) – Sisy Ey
8) Dark to light – Telekinesis
9) Ever True – Telekinesis
10) She Will – Savages
11) Julian – Say Lou Lou
12) Lunar Phobia – No Joy
13) Roots Of My Hair – CocoRosie
14) Your Life, Your Call – Junip
15) Prima Materia – The Virgins
16) Brennisteinn – Sigur Rós

 

Spennandi tónar á Sónar – Fyrsti hluti

Sónar-tónlistarhátíðin fer í fram í fyrsta skipti á Íslandi um helgina og er mikill hvalreki fyrir áhugafólk um framsækna tónlist. Yfir 50 tónlistarmenn munu koma fram í Hörpunni á föstudag og laugardag og mun Straumur í dag og næstu daga vekja athygli á þeim listamönnum sem eru sérstaklega spennandi að okkar eigin huglæga en jafnframt óskeikula mati. Þá er vert að geta þess að enn eru til miðar á hátíðina en bætt var við auka miðum eftir að seldist upp í síðustu viku.

Squarepusher

Tónlistarmaðurinn Tom Jenkinsson sem kallar sig oftast Squarepusher hefur í hátt í tvo áratugi verið leiðandi á sviði tilraunakenndrar raftónlistar í heiminum. Nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og goðsagnarinnar Aphex Twin en þeir tveir voru helstu vonarstjörnur hinnar virtu Warp útgáfu um miðjan tíunda áratuginn. Hann vakti mikla athygli fyrir sína fyrstu plötu, Feed me Weird Things, sem kom út 1996. Þar mátti finna framsækna raftónlist og flóknar taktpælingar með miklum djass- og fönkáhrifum þar sem bassaleikur Jenkinsson spilaði stóra rullu. Hann hefur síðar þróast í ýmsar áttir yfir ferilinn en hans síðasta plata fékk feiki góða dóma gagnrýnenda. Á tónleikum kemur hann iðulega fram með hátæknihjálm og leikur á bassa ásamt raftækjum og þá notast hann við risaskjái fyrir metnaðarfullar myndskreytingar.

Sísí Ey

Sísí Ey er samstarfsverkefni trúbatrixunnar Elínar Ey og tveggja systra hennar sem sjá um söng og pródúsantsins Oculusar sem framreiðir munúðarfulla og pumpandi húsgrunna fyrir þær til að byggja ofan á. Hópurinn hefur ekki gefið formlega út neitt efni en lög þeirra hafa þó ómað á mörgum fágaðri dansgólfum skemmtistaða Reykjavíkur undanfarin misseri. Alíslensk hústúnlist sem er allt í senn; dansvæn, grípandi og kynþokkafull.

Modeselektor

Modelselektor er dúett Berlínarbúanna Gernot Bronsert og Sebastian Szary sem hafa um árabil framleitt hágæða hávaða af öllu hljóðrófi raftónlistarinnar. Þeir virðast jafnvígir á tekknó, hip hop og gáfumannadanstónlist og hafa getið sér gott orð fyrir frábærar breiðskífur og hugvitssamlegar endurhljóðblandanir fyrir listamenn á borð við Thome Yorke, Björk og Roots Manuva. Þá hafa þeir starfað með landa sínum Apparat undir nafninu Moderat og komu fram á Iceland Airwaves hátíðinni 2010 og pumpuðu þakið af Listasafni Reykjavíkur.

LFO

LFO eru miklir tekknófrumkvöðlar og fyrstu vonarstjörnur Warp útgáfunnar. Breiðskífa þeirra Freaquencies vakti mikla athygli á þeim og komst inn á topp 20 listann í Bretlandi árið 1991. Mark Bell sem er nú eini liðsmaðurinn hefur einnig unnið mikið með Björk.

Alva Noto og Ryuichi Sakamoto

Samstarfverkefni hin þýska Noto og japanska Sakamoto er gífulega metnaðarfull blanda framsækinnar elektróníkur og nútímaklassíkur. Sakamoto var áður forsprakki hinnar goðsagnakenndu Yellow Magic Orchestra, sem var brautryðjandi í rafdrifinni tónlist á 8. áratugnum.