Tónleikar um Hvítasunnuhelgina

Að fimmtudeginum meðtöldum er þessi helgi fjórir dagar og fyrir utan Eruovision er af nægu að taka í tónleikum og tryllingi þessa helgi.

Fimmtudagur 16. maí

Það verður slegið upp hip hop veislu í óhefðbundnari kantinum á Prikinu en þar munu taktsmiðirnir Marteinn, Lord Pusswhip og Tonmo úr Hip Hop krúinu Mudd Mobb leika listir sínar og tónsmíðar. Gjörningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Hljómsveitirnar Murrk og Óregla troða upp á Volta og í tilkynningu frá þeim er lofað brjáluðu proggi og helluðu fusion. Fyrir áhugamenn um slíkt þá opna dyrnar á Volta klukkan 21:00 og inngöngueyrir er 1000 krónur.

Föstudagur 17. maí

Hin kynþokkafulla ábreiðusveit Babies kemur fram ásamt Boogie Trouble og DMG á Faktorý. Gestum er ráðlagt að taka með sér dansskó, bjórpening og getnaðarvarnir. Gleðidyrnar opnast 22:00 og 1000 krónur kostar að ganga í gegnum þær.

Á Faktorý verða einnig aðrir tónleikar með tilraunakennda þjóðlagasöngvaranum Daniel Higgs frá Baltimore. Honum til halds og trausts verður Just Another Snake Cult en tónleikarnir hefjast 20:00 og aðgangur er ókeypis.

Söngvaskáldið Jón Þór sem gaf út hina prýðilegu plötu Sérðu mig í lit á síðasta ári stígur á stokk á Bar 11 ásamt Knife Fight sem að eigin sögn spila hávært indírokk. Tónleikarnir hefjast 22:00 og eru fríkeypis.

Ný klúbbakvöld, RVK DNB, hefja göngu sína á Volta. Eins og nafnið gefur til kynna verða kvöldin helguð Drum & Bass tónlist og þeir sem snúa skífunum á þessu fyrsta kvöldi verða Agzilla, Plasmic, DJ Andre og Elvar.

Blúsaða djasssveitin Beebee and the bluebirds kemur fram á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast 22:00.

Laugardagur 18. maí

Eftir Eurovisionpartýið verður boðið upp á rapp og dans á Gauk á Stöng þar sem Úlfur Úlfur, Emmsé Gauti og UMTBS stíga á stokk. Húsið opnar 22:00 og kostar 1000 kall inn.

Sísí Ey, Oculus, Kid Mistik og Sean Danke efna til dansveislu á efri hæð Faktorý sem hefst klukkan 10 og kostar 1000 krónur inn.

Öfgarokksveitin Azoik leikur á hljómleikum á Dillon klukkan 22:00 og ókeypis er inn. Sveitin lofar sprengdum hljóðhimnum og kílóum af flösu fyrir þá sem mæta.

Sunnudagur 19. maí

Elektrórokksveitin RetRoBot sem unnu músíktilraunir á síðasta ári og fönkbandið The Big Band Theory slá upp dansleik á Volta. Ballið hefst klukkan 21:00 og það kostar 500 krónur inn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *