Myndband frá One Week Wonder

Hljómsveitin One Week Wonder frumsýndu myndbandið Mars í Bíó Paradís síðasta þriðjudagskvöld. Lagið fjallar um mann sem langar til að öðlast ódauðlega frægð og komast í sögubækurnar. Hann vill fara til mars þó hann það muni kosta hann lífið. Hann lendir síðan vitlausu meginn á plánetunni og þarf að dvelja þar til eilífðar en hann er sáttur með að setja mark sitt á veröldina. Myndbandið fjallar hinsvegar um mann sem vinnur á bókasafni og er með geimblæti á háustigi og dreymir að komast til Mars og hann er búinn að leggja nokkurn undirbúning í það.

 

Tónleikahelgin 24.-25. júní

 

Föstudagur 24. júní

 

Tónlistarkonan Kira Kira mun hleypa villidýrunum í gegnum hátalarana í Mengi en hún er á lokasprettinum með tvær nýjar plötur, tónlist sem nær enginn hefur heyrt. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 25. júní

 

Raftónlistarmaðurinn Einar Indra heldur útgáfutónleika fyrir plötu sína Stories á Kex Hostel. Þeir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 inn í Gym & Tonik salnum og það er ókeypis inn.

 

Það verður klúbbakvöld á Húrra þar sem Trentemoller samstarfsmaðurinn Kasper Bjorke mun þeyta skífum, ásamt Sexy Lazer og The Mansisters. Það kostar 1000 krónur í forsölu en 2000 krónur við hurð, hefst á miðnætti og stendur langt fram á nótt.

 

Söngkonan og lagahöfundurinn Ólöf Arnalds mun seiða fram töfrandi dagskrá á Jónsmessukvöld í Mengi ásamt samverkamanni sínum til margra ára, Skúla Sverrissyni. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir byrja 21:00.

 

Það verður haldið upp á 20 ára afmæli Skýjum Ofar á Paloma. Plötusnúðar sem hafa staðfest komu sína eru Reynir, Addi, Eldar, Bjössi, Ewok, Skeng og Grétar G. Gleðin hefst upp úr 23:00 og stendur í alla nótt, miðaverð er 1500.

Omar Souleyman, Thee Oh Sees og Angel Olsen á Húrra

Omar Souleyman, Thee Oh Sees og Angel Olsen munu öll koma fram á skemmtistaðnum Húrra helgina 1. – 2. júlí. Allir þessir tónlitarmenn voru bókaðir til að koma fram á tónlistarhátíðinni ATP sem fara átti fram þessa sömu helgi en var aflýst í síðustu viku eftir að fyrirtækið sem stóð að hátíðinni fór á hausinn. Miðasala á tónleika Omar Souleyman 1. júlí er hafin á tix.isEftir tónleikana munu Fm Belfast sjá um að dj-a. Tónleikar Thee Oh Sees og Angel Olsen fara fram laugardaginn 2. júlí en þar mun Anna Seregina sjá um gamanmál auk þess sem DJ Óli Dóri klárar kvöldið. Miðasala verður auglýst síðar á seinna kvöldið.

Straumur 20. júní 2016

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni frá Hayden James, Disclosure, Towkio, Pascal Pinon, Clipping, Danny Brown og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Just A Lover – Hayden James
2) Moog For Love – Disclosure
3) Someone That Love You (Joe Goddard remix) – Honne & Izzy Bizu
4) Handheld GPS – Rexx Life Raj
5) Playin Fair (ft. Joey Purp) – Towkio
6) Burying the Sun – Ryan Hemsworth
7) 53 – Pascal Pinon
8) Kafe Mania – Deerhoof
9) The Devil and his Anarchic Surrelist Retinue – Deerhoof
10) Hello – Jaunt
11) Birthday Blues – TeamPictureBand
12) Wriggle – Clipping
13) When It Rain – Danny Brown
14) Walls To Build – Kilo
15) Morning – Hexagon Eye

Stiklað á stóru á Secret Solstice

Þriðja Secret Solstice hátíðin var sett í dag og býður upp á drekkfullt hlaðborð tónlistaratriða næstu fjóra daga. Hér verður stiklað á því allra stærsta af því sem Straumi þykir mest spennandi í erlendu deildinni.

 

Flatbush Zombies

Grjóthart rapptríó frá Flatbush í Brooklyn. Áhrif kannabisreykinga og rappsveita á borð við Gravediggaz áberandi.

 

St Germain

Franskur plötusnúður og pródúsant sem var mjög áhrifamikill í trip hop lounge senu 10. áratugarins. Platan hans Tourist er algjör klassík í þeirri deild.

 

Radiohead

Þarfnast í raun ekki kynningar. En við sáum þá á Primavera fyrir tveimur vikum og þeir léku á alls oddi. Slagarar á færibandi og almenn hressheit.

 

Die Antwoord

Suður-afrískur fjöllistahópur sem er tónlist og myndlistargjörningur í jöfnum hlutföllum. Algjörlega einstakt fenómen og dauðasök að missa af þeim.

 

Roisin Murphy

Hetja, díva, gyðja. Fyrrverandi söngkona hinnar frábæru Moloko hefur haldið áfram að færa út landhelgi diskótónlistar með stanslausri tilraunagleði og sköpunarkrafti.

 

Kelela

Frábær söngkona sem færir R’n’B yfir í 21. öldina með frumlegri raddbeitingu og töktum frá ekki ómerkari mönnum en Arca.

 

M.O.P.

Ante up. Nuff said.

 

Hexagon Eye – Virtual

Íslenski raftónlistarmaðurinn Hexagon Eye gefur í dag út plötuna Virtual á vegum Möller Records. Helgi Steinsson er tónlistarmaðurinn á bakvið Hexagon Eye og er þetta fyrsta EP platan hans og jafnframt fyrsta útgáfa hans sem Möller Records gefur út. Hljóðheimur plötunnar er mjög svo draumkenndur og samkvæmt tilkynningu frá plötufyrirtækinu kemur Innblásturinn af plötunni úr ýmsum áttum en myndirnar “Computer Dreams” (1988) og “The Mind’s Eye” (1990) eru sérstakalega nefndar.

Fyrsta lagið af þriðju plötu Pascal Pinon

Reykvíska systra dúóið Pascal Pinon sendi í gær frá sér fyrsta lagið af væntanlegri þriðju plötu sveitarinnar Sundur sem kemur út seinna í sumar. Lagið heitir 53 og er í senn tregafullt, sumarlegt og einstaklega vel raddað.

Platan Sundur dregur nafn sitt af þeim tíma þegar systurnar Ásthildur og Jófríður Ákadætur bjuggu í fyrsta sinn í sitthvoru landinu.

 

Morðingjarnir gefa Loftstein

Pönksveitin Morðingjarnir gefur út sína fjórðu breiðskífu á morgun, miðvikudaginn 15. júní, og ber hún nafnið Loftsteinn en fyrr í dag sendi sveitin frá sér lagið Djamma af plötunni, en það fjallar um hvernig hægt er að flýja raunveruleikann með með því að missa sig í skemmtanalífinu.

Platan er sú fyrsta frá sveitinni síðan árið 2009 og verður eingöngu fáanleg stafrænt — í formi streymis — án endurgjalds.

„Við höfum einfaldlega ekki pláss í kompum og á háaloftum fyrir óselda geisladiska.“

Loftsteinn hefur verið lengi að líta dagsins ljós en upptökur hófust í árslok 2012. Nokkur lög af plötunni hafa hljómað í útvarpi, þá helst lagið Milli svefns og vöku, sem sat lengi á Pepsi Max–lista X977 yfir vinsælustu lögin.

„Platan var tilbúin, mixuð og masteruð fyrir meira en tveimur árum. Svo komu tafir og rugl og á endanum lagðist hljómsveitin í dvala. Það var því enginn tilgangur með því að gefa þetta út á meðan við vorum ekkert að spila. En núna erum við að gíra okkur upp í eitthvað glens og þá er um að gera að henda þessu bara út.“

Morðingjarnir hafa engin áform um tónleikaferðalög í kjölfar útgáfunnar en þó stendur til að fagna plötunni með einhverjum hætti.

„Okkur langar að halda útgáfutónleika. Við höfum ekki spilað saman í meira en eitt og hálft ár. En fyrst þurfum við að dusta af okkur rykið og læra lögin upp á nýtt.“

Platan verður gerð aðgengileg á vefsvæði Morðingjanna á SoundCloud.com — á slaginu 11:00.

Straumur 13. júní 2016

Í Straumi í kvöld verður fjallað um tónlistarhátíðina Primavera Sound sem fram fór í Barcelona fyrr í þessum mánuði, hitað verður upp fyrir Secret Solstice sem fram fer í Laugardalnum um næstu helgi og spilað verður nýtt efni frá listamönnum á borð við Metronomy, D∆WN, Samaris og Roosevelt. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Timing, forget the timing – Black Devil Disco Club
2) La féte sauvage (Prins Thomas remix) – Todd Terje & The Olsens
3) Colours (Prins Thomas remix) – Roosevelt
4) Old School (Fatima Yamaha remix) – Metronomy
5) Lemonade Lakes – Oshi x D∆WN
6) Crybaby – Abra
7) In My Car – Gold Panda
8) Gradient Sky – Samaris
9) T3mp0 – Samaris
10) Lone – Rival Consoles
11) Rewind – Kelela
12) Easy Rider – Action Branson
13) Corvette Cassette – Slow Magic
14) Idioteque (live at Primavera Sound 2016) – Radiohead

Tónleikahelgin 10. – 11. júní 2016

Föstudagur 10. júní

Kex Hostel slær upp ókeypis Secret Solstice upphitunarpartí frá klukkan 16:00. Úlfur Úlfur, Krabbamane, SXSXSX og Balcony Boyz koma fram.

Mr. Silla kemur fram í Mengi klukkan 21:00. Það kostar 2000 kr inn.

Útgáfutónleikar Boogie Trouble fara fram á Húrra frá klukkan 21:00. Mosi Musik sér um upphitun og það kostar 2000 kr. við inngang.

NIGHTBIRD fer fram á Grandagarði 16 þar sem innlendir og erlendir listamenn leika fyrir dansi. Fjörið hefst klukkan 22:00 og það kostar 3000 kr við hurð. Þeir sem koma fram eru: Smokey & Solid Blake [DK], DJ YAMAHO [IS], Kanilsnældur [IS], Jule [DE] og
Leah Floyeurs [UK]

Sænska hljómsveitin Age of Woe kemur fram á Gauknum. Þar munu dauðarokkararnir í Narthraal og sigurvegarar Wacken Metal Battle í ár, Auðn, vera með í fjörinu. Það kostar 2000 kr inn og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00

Bláskjár, ÍRiS og Grúska Babúska koma fram á Bar 11. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Laugardagur 11. júní

 

Rafsveitin Sveimur heldur sína fyrstu tónleika hjá Lucky Records klukkan 16:00

Dauðyflin, Kvöl, Antimony og Roht að koma fram á tónleikum í Lucky Records. Tónleikarnir byrja 20:00 og er frítt inn. Útgáfur frá böndunum verða til sölu á staðnum.

Hljómsveitin Sólstafir heldur tónleika á Húrra frá klukkan 22:00, það kostar 2500 kr inn.