Ein þjóð undir grúvinu og rigningunni – Secret Solstice 2018

Mynd: Ívar Eyþórsson

Fimmta Secret Solstice hátíðin er að baki við mikinn fögnuð partýþyrstra ungmenna og tónlistarunnenda en bölmóð sumra áhyggjufullra foreldra og íbúa Laugardalsins. Fjórir heilir dagar af rokki, labbi, rappi, dansi, raftónlist, hoppi, klappi og á köflum volki í misblíðu veðri.

Ég mætti á svæðið í mildri fimmtudagsrigningu og labbaði rakleiðis í Valhöll þar sem ofurstjörnuplötusnúðurinn Steve Aoki var í miðjum transklisjuklíðum á sviðinu. Ég er mjög langt frá því að vera aðdáandi þeirrar stefnu sem hann aðhyllist sem hefur verið kölluð electro-house, trance, EDM og dub- eða brostep í gegnum tíðina, sem nýtur sín líklega best í Las Vegas eða á Ibiza. En flestir unglingarnir á svæðinu elskuðu þetta og virtust hreinlega borða úr lófanum á honum þar sem hann hoppaði og skoppaði upp á dj-borðinu.

 Engin þverflauta

Það er svo merki um ákveðna skitzófreníu í dagskránni að strax á eftir unglingatranssúperstjörnunni komu hin mjög svo miðaldra rokkbrýni snemmtíunda áratugarins, Jet Black Joe. Ég set stórt spurningarmerki við að kombakk frá íslenskri 90’s hljómsveit sé sem var aldrei þekkt utan landssteinanna sé kynnt sem eitt af aðalatriðunum á tónlistarhátíð sem á að vera alþjóðleg, en þarna voru þeir samt og ég fékk engu um það ráðið. Þeir stóðu sig þó ágætlega og það kom mér á óvart hvað ég þekkti mörg lög með þeim, ekki bara Higher and Higher, en það olli mér vonbrigðum að þverflautusólóið vantaði í því lagi.

Ég hafði heyrt slæma hluti og raddleysi um rámu powerballöðugyðjuna Bonnie Tyler þannig ákvað að athuga plötusnúðasett með Bigga Veiru úr Gusgus í Hel. Það var svo gott að ég ílengdist svo lengi að mér var ekki hleypt inn á svæðið aftur þrátt fyrir að 80’s-stjarnan ætti talsvert eftir af settinu sínu. Það sem ég heyrði hins vegar voru lýsingarorð eins og „pínlegt“ þannig ég missi ekki svefn yfir því.

Föstudagskvöldið sá ég fyrst ungstyrnið Aron Can á stóra sviðinu. Hann stóð sig vel og ungdómurinn át þetta upp til agna. Hann tók meðal annars einhvers konar tekknó-útgáfu af enginn mórall og endaði með fulla vasa eins og venjulega. Mér fannst þó fullmikið af þeim leiðigjarna sið tónlistarmanna að í gríð og erg sleppa sönglínum sínum og í staðinn beina hljóðnemanum að áhorfendum í eins konar samsöng. Þetta er að mínu mati stílbragð sem ætti að nota afar sparlega, ég er komin ntil að horfa á tiltekinn listamann syngja, ekki viðvaninga úr áhorfendaskaranum, og þetta er ekki gítarpartý í Vestmannaeyjum.

Frábær draumakona en slakur Gucci

Ég var mjög spenntur fyrir Gísla Pálma sem hefur vart komið fram í ár eða svo en kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum með nýja þröngskífu fyrir skemmstu. En hann virtist bara því miður vera í mjög tæpu formi þessa helgina og það sást að hann hafði ekki rappað life lengi; hann náði ekki að klára hröðu línurnar í lögunum sínum, virtist þrjóta rödd og kraft. Alvia sem kom fram í tveimur lögum með honum var miklu betri en hann. Síðan kom breska söngkonan IAMDDB flutti nútímalegt R&B, sálartónlist og hiphop á Valhallarsviðinu og komst mjög vel frá því.

Þvínæst tók rapparinn Goldlink við keflinu og hélt góðum dampi í þéttu setti með óhefluðu flæði og töktum sem duttu oft yfir í poppað dubstep sem var vel viðeigandi á hátíð sem þessari. Bresk-íslenski kvennarokkkvartettinn Dream Wife stóð sig frábærlega á Gimli-sviðinu og söngkonan Rakel Mjöll fór á kostum í raddslaufum meðan ofursvöl gítarpían bauð upp á bjögunarfimleika í hæsta gæðaflokki. Ég náði svo restinni af trap-goðsögninni og glæponarapparanum Gucci Mane og það verður að segjast eins og er að þar var fátt um fína drætti, lítil innlifun og mér leið eins og ég væri að hlusta á einhvern sem væri bara í vinnunni.

 Taumlaus nautn í Hel

En eftir að útidagskránni lýkur er vegurinn til heljar breiður og varðaður glymjandi ásetningi. Laugardalshöllinni er þessa helgi breytt í niðadimmt tekknógímald fyrir utan neonlitaðan pýramída fyrir ofan plötusnúðinn sem dúndraði bassatrommu á hverju slagi í sameiginlegan hjartslátt dansgólfsins. Þarna var enginn dæmdur, allir voru jafnir fyrir myrkrinu og taktinum, og nautnin var taumlaus. Hljóðlist sem arkar aftur í frumstæðan takt ættbálkaathafna Afríku og leiddi mig í leiðsluástand sem endaði ekki fyrr en ljósin voru kveikt nokkrum tímum síðar.

Á laugardeginum hóf ég leikinn á kanadíska bassa-trommu-tvíeykinu Death From Above á stóra sviðinu sem fóru hamförum í rokkuðum hávaðagjörningi. Það eru ótrúlegt hvernig einn bassaleikari getur framkallað hljóðvegg á pari við risahljómsveit en Jesse F. Keeler misnotaði bassann sinn með hjálp skrilljón pedala á hátt sem ætti að vera ólöglegur. Birnir var í roknastuði á Gimli-sviðinu og fékk til liðs við sig nýgræðingana í Clubdub og svo Hr. Hnetusmjör sem fór á kostum í síðasta laginu „Já ég veit“.

 Appelsínugul viðvörun á Earthgang

Rappdúettinn Earthgang var næstur á svið í Gimli og voru sem einskær dans á túlípönum, einn klæddur í hvítan samfesting með skíðagleraugu og annar í regnbogalitaðan hipstergalla. Þeir flæddu eins og Amazon á regntímabilinu og minntu mig á sveitir eins og Pharcyde, Gravediggaz og Outkast í tilraunakenndum töktum, tryllingslegum rímum og sviðsframkomu sem jaðraði við appelsínugula viðvörun. Ég náði svo restinni af Slayer sem skiluðu sínu á fúnksjonal og effektívan hátt en tónlistin þeirra er ekki minn kaffibolli, mér fannst lögin einhæf og stefnan sem þeir aðhyllast eiga meira skylt við þrekæfingu eða íþrótt heldur en list.

Á sunnudeginum mætti ég galvaskur á George Clinton en þó ekki nógu vel klæddur fyrir syndafallið sem var í uppsiglingu. En gamli grúvhundurinn mætti til leiks um sexleitið og var með um það bil íbúafjölda Kópaskers með sér á sviðinu. Það voru margir gítarar, bassaleikarar, saxafónar, trompetar, dansarar, bakraddasöngvarar, hljómborð og allra handa búningar sem tóku þátt í þessum farandsirkus fönkhetjunnar þar sem maður vissi aldrei hverju maður átti von á næst. Tónlistin flakkaði milli fönks, rokks, hip hopps og jafnvel nú-metals þar sem frábærir hljóðfæraleikarar tóku sóló á heimsmælikvarða. Það brast á með fimm mínútna Scat-sólói, twerk-dansi, rappi frá barnabarni Clintons og allra handa furðuverum og skrýtnum búningum. Hljómsveitarleiðtoginn sjálfur söng svo sem ekki mikið enda orðinn gamall og lúinn en hélt samt uppi stuðinu með dansi og hvatningu. Ein þjóð undir grúvinu og rigninguna.

 Syndafall og ógnandi lögregla

En á meðan tveggja tíma tónleikum Clintons stóð bætti stöðugt í rigninguna sem var á nánast gamla-testaments-skala undir lokin. Ég tók ekki mikið eftir því á meðan á herlegheitunum stóð en eftir á var ég svo blautur inn að beini ég þurfti frá að hverfa heim á leið í sturtu og hrein föt sökum yfirgengilegs kulda. Þegar ég mætti aftur var tónleikasvæðið orðið eitt risastórt leðjusvað en ég náði þó rest af tónleikum með elektrófönkaranum Egyptian Lover og breska rapparanum Stormzy sem stóðu sig vel þrátt fyrir veðrið.

Hátíðin var heilt yfir vel heppnuð í ár þrátt fyrir ákveðið stefnuleysi í vali á tónlistaratriðum og gula veðurviðvörun á sunnudagskvöldinu. Það var góður andi á hátíðinni almennt fyrir utan það að ég hef aldrei séð jafn mikið af agressívum lögreglumönnum með fíkniefnahunda á Secret Solstice áður. Ég varð vitni lögreglumönnum með hunda labbandi um Hel þar sem var leitað á fólki á miðju dansgólfinu fyrir framan alla. Fólk sem var leitað á lét sig snögglega hverfa þrátt fyrir að ekkert hafi fundist á því, hafandi verið niðurlægt og stimplað sem dópistar frammi fyrir alþjóð. Það verður ekki séð hvernig þessar aðfarir auki öryggi eins einasta manns á hátíðinni, og þær virðast hluti af fordómum lögreglunnar gegn danstónlist og ungu fólki, þar sem lögreglan er til að mynda aldrei með viðlíka viðbúnað á Iceland Airwaves hátíðinni.

Ég vona svo sannarlega að hátíðin verði haldin að ári þó það séu áhöld um það út af hörðum mótmælum sumra íbúa Laugardalsins. Þrátt fyrir að eitthvað sé um ölvun og fíkniefnaneyslu á svæðinu er stemmningin margfalt rólegri en á menntaskólaböllum og útihátíðum sem ég stótti sem unglingur. Heimur batnandi fer og æskan líka. Laugardalurinn er fullkomið svæði fyrir hátíð af þessu tagi og þegar best lætur vekur upp minningar frá Hróarskeldu, Primavera og öðrum tónlistarhátíðum á meginlandi Evrópu. Ég vonast til að skemmta mé vel í dalnum að ári ef að Guð á áhyggjufullir foreldrar í Laugarneshverfi leyfa. Vonandi sést þá líka eitthvað til sólarinnar í Sólstöðunum.

Davíð Roach Gunnarsson

Slayer og Gucci Mane á Secret Solstice

Þungarokkararnir úr Slayer og rapparinn Gucci Mane munu koma fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fram fer í fimmta  sinn í Laugardalnum 16. – 19. júní í sumar. Hér er hægt að kaupa miða í forsölu á tix.is.

Þessir listamenn hafa verið tilkynntir í ár:

Slayer [US] Stormzy [UK] Gucci Mane [US] Bonnie Tyler [UK] Death From Above [CA] Steve Aoki [US] Jet Black Joe [IS] 6LACK [US] Goldlink [US] J Hus [UK] Charlotte de Witte [BE] Skream [UK] A-Trak [US] Masego [US] IAMDDB [UK] Högni [IS] Agent Fresco [IS] Alvia [IS] Artwork [UK] Ása [IS] BenSöl [IS] Between Mountains [IS] Birgir [IS] Casio Fatso [IS] Cell7 [IS] Dillalude [IS] Dream Wife [UK/IS] Droog [US] EARTHGANG [US] Elli Grill [IS] Fox Train Safari [IS] GDRN [IS] Geisha Cartel [IS] Gentleman’s Dub Club [UK] GKR [IS] Grúska Babúska [IS] Hildur [IS] Hórmónar [IS] J.I.D [US] JFDR [IS] John Acquaviva [CA] Johnny And The Rest [IS] JóiPé & Króli [IS] Klose One [UK] KrBear [IS] Landaboi$ [IS] Maher Daniel [CA] Matt Tolfrey [UK] Nitin [CA] Petre Inspirescu [RO] Pink Street Boys [IS] Ragga Hólm [IS] Raresh [RO] Rhadoo [RO] Ryan Crosson [US] Rythmatik [IS] Shaun Reeves [US] Sprite Zero Klan [IS] Sylvía Erla [IS] The Egyptian Lover [US] The Retro Mutants [IS] Úlfur Úlfur [IS] Une Misére [IS] Vala CruNk [IS] Vio [IS] Vök [IS] wAFF [UK] We Made God [IS] Yung Nigo Drippin [IS]

Secret Solstice – Funheitt fönk, iðnaðartekknó og allt þar á milli

Mynd af Anderson.Paak: Birta Rán

Fjórða Secret Solstice hátíðin var sett með pompi og prakt á fimmtudaginn og ég beið ekki boðanna og dýfði mér strax í tjörusvart myrkrið inni í Hel. Þar var plötusnúðurinn og prúdúsessan The Black Madonna að spila dúndrandi tekknó og hás tónlist sem stundum fór út í óldskúl diskó væb. Og það verður að segjast eins og er, Hel á Secret Solstice er eitt svalasta venue sem þú finnur á Íslandi. Kolniðasvart nema með geggjuðum neonljósum bak við plötusnúðinn, tilfinningin er eins og að vera í Berlín.

 

Það var ekki mikið í gangi fyrsta kvöldið en fönkdrottningin Chaka Khan var eitthvað sem maður varð að tékka á. Hún byrjaði ágætlega og greinilega þaulvön að koma fram en það var samt eins og það vantaði eitthvað oggulítið upp á. Þetta var full faglegt fönk fyrir minn smekk. Engar feilnótur og allt á réttum stað, og kannski var það það sem var að. Þetta var of slétt og fellt og ekki nógu skítugt. Leiðin lá síðan aftur inn í Hel þar sem Kerry Chandler dj-aði seiðandi hústónlist og stundum spilaði hann live-djössuð hljómborðssóló yfir settinu.

 

 Afró-rapp úr fortíðinni

 

Á föstudagskvöldinu sá fyrst Ata Kak, tónlistarmann frá Ghana sem spilar furðulega lo-fi blöndu af house, diskó og rappi með afrískum ryðmum. Hann á sér merkilega sögu, gaf út eina kasettu í snemma á 10. áratugnum sem enginn tók eftir, var svo uppgötvaður 20 árum seinna af grúskara sem endurútgaf plötuna Obaa Sima. Ata Kak sem var löngu hættur að gera tónlist túrar nú tónlistarhátíðir um heim allan og það skyldi engan undra. Hljómsveitin hans grúvaði grimmt og hann sjálfur er með ótrúlega einlæga útgeislun; dansar, syngur og rappar eins og ekkert annað skipti máli.

Breski rapparinn Roots Manuva var næstur á Gimli sviðinu og fór á kostum með döbb- og reggískotnum töktum þar sem bassinn smaug inn að beini, og völdugri rödd sem stjórnaði áhorfendum. Ég náði þremur lögum með Foo Fighters en það er ekki minn tebolli svo hélt aftur í Gimli þar sem rapparinn Pharoe Monch var að koma sér fyrir. Hann tók þrususett þar sem hann vitnaði í alla rappsöguna og leiddi mannfjöldann í hópsöng gegn lögreglunni. Þá lá leiðin enn og aftur í hel þar sem kvöldið var klárað í algleymi myrkurs dúndrandi danstónlistar.

 

Steinsteypuhart iðnaðartekknó 

 

Prodigy eru ein af burðarstoðunum í danstónlist 10. áratugarins og tónlistin þeirra og sviðsframkoma er svo orkumikil að hún gæti knúið tíu álver. Stuðið við stóra sviðið var ómælanlegt fólk missti sig í massavís, og það voru fleiri mosh pits á Prodigy heldur en rokktónleikum hátíðarinnar. Kiasmos fóru á kostum í Hel og tekknó-uðu þakið af Laugardalshöllinni. Það var troðstappað, hendur á lofti og epískar uppbyggingar, drop og taktsprengingar. Eftir það tók Exos við og myndaði berlínska Berghain stemningu í mökkdimmri höllinni. Þetta var steinsteypuhart iðnaðartekknó þar sem hver bassatromma smaug inn í merg og bein eins og pistóna úr bílvél.

 

 Daði Freyr frábær en Anderson.Paak bar af 

 

Á Sunnudeginum sá ég fyrst Gísla Pálma sem ekki hefur spilað mikið undanfarið. Hann hefur hins vegar engu gleymt og hoppaði og skoppaði um stóra sviðið ber að ofan og rappaði af lífs og sálar fítonskröftum. Hann tók meira að segja nýtt lag sem hljómaði mjög vel. Anderson .Paak var hins vegar nokkrum hæðum en önnur atriði hátíðarinnar. Hann byrjaði á stærsta hittaranum sínum, Come Down, sem ómerkilegri listamenn hefðu sparað þar til síðast. En svo keyrði hann bara stemninguna upp upp úr því. Hann er mergjaður rappari, frábær söngvari og taktvilltur trommari, og hljómsveitin hans The Free Nationals fór á kostum. Fyrir utan að vera svo sætur og sjarmerandi að allir í 500 metra radíus frá sviðinu vildu sofa hjá honum. Hann er smá Kendrick, smá Andre 3000, smá Marvin Gay en fyrst og fremst hann sjálfur. Með fullri virðingu fyrir öðrum frábærum listamönnum sem ég sá um helgina bar Anderson.Paak af. Bravóbravóbravó.

Ný-euro-styrnið Daði Freyr steig á stokk í Gimli og allar áhyggjur mínar um að hann væri one hit wonder voru þurrkaðar út. Hann er náttúrutalent og allur pakkinn; rödd, sviðsframkoma, lagasmíðar og hljómur. Hann tók bæði nýtt og gamalt eigið efni, plús frábær coverlög. Synþasólóið í lokin á Hvað með það var einn af hápunktum hátíðarinnar. Ég náði aðalhittaranum með Big Sean meðan ég fór í fallturninn og fór síðan á gömlu fönkhundana í Cyamande og labbaði inn í þeirra helsta slagara, Brothers On The Slide. Þeir voru líklega flestir milli sjötugs og áttræðs og voru í rokna stuði á sviðinu, gamlir grúvhundar sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Þá var það bara að halda inn í hel og mjólka síðustu dropana úr hátíðinni á yfirdrætti sunnudagsins.

Það voru margir frábærir tónleikar á hátíðinni en hún hefur líka bara einhvers konar anda sem þú upplifir bara á Secret Solstice. Það er svona meginlandsstemmning sem fylgir því að labba í grasi vaxnu svæðinu milli margra sviða og hafa ekki áhyggjur af neinu. Það var taumlaus nautn og gleði sem skein úr andlitum á fólki og það var gaman að vera lifandi. Mér finnst það hellings virði og vona að óþol nokkurra smáborgara fyrir því að búa í samfélagi við annað fólk komi ekki í veg fyrir að hátíðin verði haldin aftur að ári liðnu.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Topp 10 erlent á Secret Solstice

 

Secret Solstice hátíðin hefst á fimmtudaginn í Laugardalnum og þar er boðið upp á dekkað hlaðborð af erlendum og innlendum listamönnum á heimsmælikvarða í sínum geirum. Þetta er í fjórða skiptið sem hátíðin er haldin og Straumur hefur mætt á þær allar og haft feikilega gaman að eins og lesendur hafa tekið eftir. Þar sem hátíðin er alveg að skella á er ekki úr vegi að fara yfir það helsta í erlendu deildinni sem við erum spenntastir fyrir.

 

Anderson.Paak & The Free Nationals

Bandaríski rapparinn, söngvarinn og fönkhetjan Anderson.Paak er einn allra ferskasti hip hop listamaður sem komið hefur fram á undanförnum árum. Það sem gerir tónleikana sérstaklega spennandi er að Anderson.Paak kemur fram með live hljómsveit, The Free Nationals, sem ætti að gefa hörðustu grúvhundum helling fyrir sinn snúð.

 

Uknown Mortal Orchestra

UMO hafa á þremur plötum þróað einstaka hljóðmynd þar sem striginn er Rubber Soul/Revolver Bítlasíkadelía en pensla svo ofan í með djúpu fönki, hráum trommutöktum og dáleiðandi röddum. Við höfum séð þá live áður og þeir svíkja engann, síst af öllu sjöunda áratuginn.

 

Cymande

Breskir fönkfrumkvöðlar frá 8. áratugnum sem hrærðu saman R&B, sálartónlist og karabískum ryðmum. Eiga eitt besta fönklag allra tíma, Brothers on the Slide, og þó ekki nema bara þess vegna eiga þeir skilið virðingu og mætingu á tónleika.

 

Roots Manuva

Brautryðjandi og afi bresku rappsenunnar. Blandaði saman reggí og hip hoppi á máta sem enginn hefur leikið eftir. Rosaleg rödd og yfirgengilegt hreysti. Witness the Fitness:

 

The Black Madonna

Bandaríska plötusnældan og pródúsantinn The Black Madonna hristir saman ómóstæðilegan bræðing úr diskói, house-tónlist, fortíð og framtíð. Að sleppa því að dansa er taugakerfislegur ómöguleiki.

 

Prodigy

Þrátt fyrir ofspilun og það sé nokkuð langt síðan þeir voru relevant er ekki hægt að neita því að Prodigy er gríðarlega mikilvæg hljómsveit í sögu danstónlistarinnar. Á blómaskeiði þeirra um miðjan 10. áratuginn dældu þeir út slögurum sem voru akkúrat í hárréttum skurðpunkti hugmyndaauðgis, hörku og aðgengileika. Svo höfum við heyrt út undan okkar að þeir hafi engu gleymt á tónleikum.

 

Princess Nokia

New-York söngkonan Princess Nokia sækir áhrif úr öllum heimshornum, eimar úr þeim kjarnann, og skapar eitthvað algjörlega nýtt í feikilega framsæknu furðupoppi sínu.

 

Lane 8

Eiturhress house-bolti frá Bandaríkjunum sem dúndrar út bassatrommu á hverju slagi og hver einasta þeirra fer beint í mjaðmirnar.

 

 Rhye

Áreynslulaust og fagmannlega framreitt indípopp með heillandi hljóðheimi og seiðandi söng.

 

Soulclap

DJ-dúett sem er frægur fyrir sex klukkutíma maraþon-sett og hafa rímixað listamenn eins og Laid Back, Metronomy, Little Dragon, Robert Owens, DJ Harvey og sjálfan Chris Isaac.

Straumur 12. júní 2017

Straumi í kvöld, kíkjum við á það helsta á Secret Solstice auk þess sem það verður fjallað um nýtt efni frá Ariel Pink, Toro y Moi,  Kuldabola, Oh Sees, Japanese Breakfast og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Am I Wrong (Sammy Bananas Bootleg) – Anderson .Paak
2) …Of Your Fake Dimension – Com Truise
3) Memory – Com Truise
4) Girls – Life In Sweatpants
5) Another Weekend – Ariel Pink
6) Girl Like You – Toro y Moi
7) Chi Chi – Azealia Banks
8) Traveller (Running Back) – Boris Dlugosch + Cassara
9) Staðsetning – Andi
10) Andleg Endastöð – Kuldaboli
11) Lovelife – Phoenix
12) Role Model – Phoenix
13) The Static God – Oh Sees
14) See (ft. Beacon) – Tycho & Beacon
15) Boyish – Japanese Breakfast
16) FFunny FFrends – Unknown Mortal Orchestra

Straumur 13. júní 2016

Í Straumi í kvöld verður fjallað um tónlistarhátíðina Primavera Sound sem fram fór í Barcelona fyrr í þessum mánuði, hitað verður upp fyrir Secret Solstice sem fram fer í Laugardalnum um næstu helgi og spilað verður nýtt efni frá listamönnum á borð við Metronomy, D∆WN, Samaris og Roosevelt. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Timing, forget the timing – Black Devil Disco Club
2) La féte sauvage (Prins Thomas remix) – Todd Terje & The Olsens
3) Colours (Prins Thomas remix) – Roosevelt
4) Old School (Fatima Yamaha remix) – Metronomy
5) Lemonade Lakes – Oshi x D∆WN
6) Crybaby – Abra
7) In My Car – Gold Panda
8) Gradient Sky – Samaris
9) T3mp0 – Samaris
10) Lone – Rival Consoles
11) Rewind – Kelela
12) Easy Rider – Action Branson
13) Corvette Cassette – Slow Magic
14) Idioteque (live at Primavera Sound 2016) – Radiohead

Radiohead á Secret Solstice

Núna rétt í þessu var verið að tilkynna að breska hljómsveitin The Radiohead  verði á meðal listamanna sem spila á Secret Solstice hátíðinni sem haldin verður í Laugardaglnum 17.-19. júní í sumar.

Hljómsveitin bætist í hóp listamanna á borð við Of Monsters And Men, Jamie Jones, Deftones, Deetron, Goldi og margra annarra sem spila á hátíðinni. Hér er hægt að kaupa miða á hátíðina!

Einnig var tilkynnt um að eftirfarandi listamann muni spila á hátíðinni í sumar: Afrika Bambaata, Kelela, Róisín Murphy, Action Bronson og fleiri.

 

 

Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Dagskráin á SECRET SOLSTICE tilbúin

Dagskráin fyrir Secret Solstice hátíðina sem fram fer í Laugardal dagana 20.-22. júní er tilbúin og hana má sjá með því að smella á myndina hér fyrir neðan. Á hátíðinni koma fram m.a. fram Massive Attacks, Disclosure, Woodkid og Schoolboy Q.

 

Disclosure á Secret Solstice

Núna rétt í þessu var verið að tilkynna að breski rafbræðradúettinn Disclosure verði á meðal listamanna sem spila á Secret Solstice hátíðinni sem haldin verður í Laugardaglnum 20.-22. júní í sumar. Disclosure náðu feikna vinsældum á síðasta ári með plötu sinni Settle, en við í Straumi völdum hana næstbestu plötu ársins. Einnig var tilkynnt um komu hins virta velska plötusnúðs Jamie Jones á hátíðina en meðal annarra sem koma fram eru Massive Attack, Schoolboy Q, Skream og Ben Pearce.