Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur 31. mars 2014

Í Straumi í kvöld kíkjum við væntanlegar plötur frá Todd Terje og Mac DeMarco. Auk þess sem við skoðum nýtt efni frá Darkside, Gus Gus, Wye Oak og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 31. mars 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Alfonso Muskedunder – Todd Terje
2) Crossfade – Gus Gus
3) Preben Goes to Acapulco – Todd Terje
4) Swing Star (Part 1) – Todd Terje
5) Swing Star (Part 2) – Todd Terje
6) Water Fountain – tUnE-yArDs
7) Digital Witness (Darkside remix) – St. Vincent
8) Salad Days – Mac DeMarco
9) Let Her Go – Mac DeMarco
10) Goodbye Weekend – Mac DeMarco
11) Heartless – Sean Nicholas Savage
12) Specters – kimono
13) All I Got – RAC
14) Before – Wye Oak
15) Bein’ Around (Lemonheads cover) – Courtney Barnett

Hlustaðu á nýja GusGus lagið

Rétt í þessu var nýjasta smáskífa GusGus að detta á internetið. Lagið heitir Crossfade en það hefur heyrst á tónleikum með sveitinni undanfarið rúmt ár. Lagið er ljúfsár og taktfastur óður til danstónlistar og DJ-menningar, hlaðinn nostalgíu og fögnuði. Það verður á breiðskífu með sveitinni sem er væntanleg síðar á árinu. Síðasta plata GusGus, Arabian Horse, kom út árið 2011 og hlaut einróma lof gagnrýnenda, grúskara og meginþorra almennings. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Sónar fer vel af stað

Önnur útgáfa Reykjavíkurútibús Sónar hátíðarinnar hófst í gær og það er vonandi að hún festi sig í sessi sem árlegur viðburður.

 

Sax í Tonik

 

Það var gleðilegt að vel var mætt rétt upp úr 8 þegar fyrstu atriði kvöldsin voru að hefjast og það fyrsta á minni dagskrá var íslenski tónlistarmaðurinn Tonik. Hann spilaði frábært sett en með honum á sviðinu var Hörður úr M-Band sem söng og græjaðist auk selló- og saxafónleikara. Hljómurinn var dökkt og seyðandi tekknó og sálarfullur söngur Harðar var löðrandi í tilfinningu. Þrátt fyrir að hlaða raddbreytandi effektum á sönginn var mennskan undir niðri óyggjandi. Sellóið og saxafónninn voru síðan notuð á mjög óhefðbundinn hátt, oft ekki til að spila laglínur, heldur meira eins og hljóðgervlar sem byggðu ofan á hljóðheiminn. Allt í allt til mikillar fyrirmyndar og góður upptaktur að hátíðinni.

 

Minna er stundum of lítið

 

Ryuichi Sakamoto er stórmerkilegur tónlistarmaður en hann var meðlimur í japönsku sveitinni Yellow Magic Orchestra sem voru frumkvöðlar í raftónlist seint á 8. áratugnum og eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Þá hefur hann unnið mikið við kvikmyndatónlist og fékk meðal annars óskarsverðlaun í þeim flokki fyrir stórmyndina The Last Emperor. Það sem hann bauð upp á í Silfurbergi ásamt samstarfsmanni sínum Taylor Deupree var hins vegar einhvers konar öfgafull naumhyggja. Einni píanónótu haldið í hálfa mínútu í bland við rafhljóð sem voru svo fíngerð að þau voru nánast ógreinanleg.

 

Ég skil hugmyndina á bak við mínímalisma og get alveg notið hans en þetta var fullmikið af því góða, eins og æfing í engu, eða pínku ponsu meira heldur en þögn. Það lágstemmt að þú heyrðir nánast í fólki anda, svo ekki sé talað um stöðuga bassatrommuna sem drundi í gegnum gólfið frá neðri hæðinni. Þegar ákveðnum punkti er náð hættir minna að verða meira og heldur bara áfram að minnka. Risastór salurinn vann reyndar ekki með þeim og þetta hefði án efa virkað betur í Kaldalóni, en var í það minnsta full daufur kaffibolli fyrir minn smekk.

 

Hús og Högni

 

Eftir Sakamoto þurfti ég nauðsynlega að koma hreyfingu á blóðrásina og fékk hana í nokkrum lögum með Introbeats á Flóasvæðinu. Intro hefur um árabil verið einn fremsti hip hop taktsmiður landsins en er í seinni tíð farinn að færa sig yfir í hústónlistina. Hann var í feikna stuði og pumpaði út bassatrommu á hverju slagi í bland við fönkí bassalínur og bjartar melódíur og loksins var fólk farið að dansa af einhverri alvöru.

 

Þvínæst fylgdist ég með Högna úr GusGus og Hjaltalín frumflytja einstaklingsverkefni sitt, sem hann nefnir HE. Þetta voru metnaðarfull tónverk og dramatíkin keyrð í botn með slatta af strengjum, kórum og framsæknum rafpælingum. Stundum var tónlistin eins og GusGus í helmingi hægara tempói og stundum fór hún út í tilraunakennda raftakta í anda Autechre og Aphex Twin.
Tónlistin var fyrir utan söng Högna mestmegnis spiluð af bandi en magnaðar myndskreytingar bættu það upp. Það var skærum ljósgeisla beint á Högna og myndum af eldgosum, sólmyrkvum og afrískum sléttum var varpað á vegginn og sjónræna hliðin öll hin mikilfenglegasta. Í lokalaginu fékk hann svo heilan karlakór til að syngja með sér en það verður gaman að fylgjast með þessu verkefni í framtíðinni.

 

Klippt og skorið

 

Það var röð inn í Kaldalón en ég náði þó lokasprettinum með Good Moon Deer þar sem forsprakki hennar, Guðmundur Ingi Úlfarsson, klippti, límdi, bjagaði og beygði hljóðbúta af öllum stærðum og gerðum við villtan trommuleik Ívars Péturs. Það kom flott grafík úr skjávarpanum og lagið Again and Again var sérstaklega tilkomumikið, ég hefði viljað ná meira af þeim.

 

Þvínæst sá ég Danann Eloq í Silfurbergi sem var andstæðan við Sakamoto, skrúfaði allt í botn og engar fínhreyfingar í blæbrigðum eða framsetningu. Hann blastaði maximalískt dub step með hip hop áhrifum, og hljóðkerfið í Silfurbergi er svo gott að stundum var eins og bassinn ætti í samræðum við innyflin í þér. Þetta var alveg skemmtilegt en samt ekki sérlega merkileg tónlist, og þónokkur ostakeimur af henni.

 

Upplifun og Elegans

 

GusGus lokuðu svo kvöldinu með skynfæraupplifun á heimsmælikvarða eins og þeirra er von og vísa. Þeir léku mikið af nýju efni sem hljómaði mjög vel og ég er orðinn ansi spenntur fyrir plötunni sem er væntanleg. Högni og Daníel Ágúst sveimuðu elegant um sviðið og samsöngurinn í Crossfade, sem hlýtur að verða smáskífan af plötunni, var ægifagur og tær meðan Silfurbergið nötraði undan taktfastri bassatrommunni og dunandi dansi.

Heilt yfir var fyrsta kvöld Sónar vel heppnað og í kvöld hlakka ég til að sjá gúmmúlaði eins og Bonobo og Jon Hopkins. Fylgist með á straum.is næstu daga því við munum halda áfram með daglegar fréttir af Sónar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónar hefst í dag – 10 spennandi listamenn

Tónlistarhátíðin Sónar hefst í dag og við hvetjum alla tónlistaráhugamenn sem vettlingi geta valdið til að mæta á þá þriggja daga veislu sem fram undan er. Hátíðin sem hefur verið haldin árlega í Barcelona síðan 1994 fór fram í fyrsta skipti hér á landi í Hörpu á síðasta ári og var feikilega vel heppnuð eins og lesa má um hér. Það eru meira en 60 tónlistarmenn og plötusnúðar sem spila á hátíðinni en hér verða kynntir 10 sem við mælum sérstaklega með. Fylgist vel með á straum.is næstu daga því við verðum með daglega tónleikarýni af hátíðinni.

Major Lazer

Major Lazer er tónlistarhópur sem er leiddur af ofurpródúsernum Diplo sem hefur undir því nafni framleitt tvær plötur þar sem Dancehall, dubstep, reggí og gamaldags dub er málað með breiðum penslum og skærum litum á striga nútímalegrar danstónlistar.

 

Trentemoller

Danski tekknóboltinn Trentemoller hefur þeytt skífum á Íslandi oftar en hönd á festir og er með þeim bestu í því stuðfagi. Eftir hann liggja margar meistaralegar endurhljóðblandanir og þrjár sólóskífur en sú síðasta, Lost, var með betri raftónlistarplötum síðasta árs og nokkuð poppaðari en fyrri verk hans þar sem margir gestasöngvarar komu við sögu. Hann mun koma fram með live hljómsveit á Sónar.

 

Gus Gus

Gus Gus eru aðals- og kóngafólk íslensku danstónlistarsenunnar og þurfa engrar frekari kynningar við. Fyrir utan það að sveitin er tilbúin með nýja plötu og ekki er ólíklegt að eitthvað af henni heyrist á tónleikunum.

 

Jon Hopkins

Hopkins er rúmlega þrítugur Breti sem hefur undanfarið starfað með Brian Eno auk þess að gefa út eigið efni. Með sinni þriðju breiðskífu, Immunity, sem kom út á síðasta ári skaust hann hins vegar upp á stjörnuhimininn en hún lenti ofarlega á árslistum margra tímarita og spekúlanta. Tónlistin þræðir einstigið milli sveimtónlistar og tekknós af miklu listfengi en hann sótti Ísland heim á síðustu Airwaves hátíð en þeir tónleikar voru einn af hápunktum hátíðarinnar.

 

Bonobo

Bonobo er einyrki en í tónlist sinni vefur hann persneskt teppi úr þráðum ólíkra hljóðbúta úr öllum áttum og heimsálfum. Hann er á mála hjá hinni virtu Warp útgáfu, sem m.a. gefur út Aphex Twin og Boards of Canada, en platan hans Dial M for Monkey er algjört meistarastykki og ævintýri fyrir eyrun.

 

James Holden

James Holden er breskur plötusnúður og tónlistarmaður sem lét fyrst að sér kveða með kosmískri endurhljóðblöndun á lagi Nathan Fake, The Sky Is Pink. Hans nýjasta skífa, The Inheritors, sem kom út á síðasta ári er tilraunakennd diskósúpa undir sterkum áhrifum frá súrkáls- og síðrokki.

 

Sykur

Ein af hressari elektrósveitum landsins skartar grípandi lagasmíðum og groddalegum synþahljóm, en þau er vön því að tjalda öllu til á tónleikum.

 

Paul Kalkbrenner
Kalkbrenner er þýsk tekknógoðsögn sem varð gerð ódauðleg í myndinni Berlin Calling sem kortlagði hina víðfrægu berlínsku klúbbasenu.

 

Hermigervill

Sveinbjörn Thoroddsen, betur þekktur sem Hermigervill, hefur um árabil verið í fremstu víglínu íslenskrar raftónlistar. Í byrjun ferilsins með hugmyndaríkum Trip Hop plötum en í seinni tíð með hljóðgervladrifnum útgáfum af íslenskum dægurlögum og samstarfi við Retro Stefson. Hann er nú að vinna að sinni næstu breiðskífu og mun flytja nýtt efni á tónleikum sínum á Sónar.

 

Tonik

Einn af innlendu hápunktum síðustu Airwaves hátíðar var raftónlistarmaðurinn Tonik en melankólískt og sálarþrungið tekknóið bræddi bæði hjörtu og fætur í salnum. Hann kemur iðulega fram með selló- og/eða saxafónleikara sem gaman er að fylgjast með á sviði.

Tónleikar helgarinnar

Eins og flestar vikur er fjölbreytt úrval tónleika á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi og hér verður farið yfir það helsta.

Miðvikudagur 7. ágúst

Tónlistarhópurinn Tónleikur mun halda sína stærstu tónleika hingað til á Rósenberg í kvöld. Tónleikur er hópur sem samanstendur af listamönnum sem öll eiga það sameiginlegt að semja sína eigin tónlist og í kvöld munu koma fram yfir tugur flytjenda; Martin Poduška, Raffaella, Ragnar Árni, slowsteps, val kyrja/Þorgerður Jóhanna, Tinna Katrín, Þorvaldur Helgason, Jakobsson, FrankRaven, Johnny and the Rest, Hljómsveitt og Forma. Fjörið hefst klukkan 20:30 og ókeypis er inn, en hattur verður á staðnum til að taka við frjálsum framlögum.

Hljómsveitin Eva verður öfug, hinsegin og alls konar á Kíkí í kvöld þar sem hún hitar upp fyrir Gay Pride gönguna sem verður um helgina. Leynigestur kvöldsins verður engin önnur en hin íðilfagra Ólafía Hrönn og mun hún flytja áheyrendum nokkur af sínum einstöku lögum. Öfurheitin hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari og Ingimar Andersen saxófónleikari leika djass frá 10 til 1 á Boston. Báðir eru þeir búsettir erlendis og taka hér höndum saman eftir langan aðskilnað og ókeypis er inn á viðburðinn.

Fimmtudagur 8. ágúst

Hljómsveitin Orfía, samstarfsverkefni Arnar Eldjárns og Soffíu Bjargar, spilar á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Örn og Soffía stofnuðu hljómsveitina Orfía árið 2011 eftir að hafa starfað saman í hljómsveitinni Brother grass um árabil.

Hljóðverk eftir Berglindi Jónu Hlynsdóttir & Guðmund Stein Gunnarsson verður flutt af Hljómskálanum í Hljómskálagarðinum klukkan 18:00. Verkið er hljóðinnsetning og myndverk í almenningsrými sem nýtir Hljómskálann sjálfan, sögu hans, staðsetningu í borginni og umhverfi til þess að lífga við þessa táknmynd sem er í senn minnisvarði, hús og svæði sem hefur sérstakt menningarlegt og sögulegt gildi í borginni.

Opnunarhátíð Hinsegindaga verður haldin í Silfurbergi í Hörpu og hefst klukkan 21:00. Á stokk stíga ýmsir þjóðþekktir tónlistarmenn sem á einn eða annan hátt tengjast sögu hinsegin fólks, baráttu þess og listsköpun. Aðgangseyrir er 2500 krónur.

Föstudagur 9. ágúst

Retro Stefson og Hermigervill munu kveðja hinn ástsæla tónleikastað Faktorý. Segja má að hljómsveitin hafi stigið sín fyrstu spor á staðnum þegar hún kom fram á Airwaves hátíðinni 2006 þó að staðurinn hafi þá borið heitið Grand Rokk. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Brimbrettarokksveitin Bárujárn efnir til tónleika til að fagna nýútkomnum geisladiski sínum. Tónleikarnir munu fara fram í kjallara skemmtistaðarins Bar 11 að Hverfisgötu 18 og hefjast leikar klukkan 22:00. Á tónleikunum verða öll lögin af disknum leikin, en auk þess hefur sveitin rifjað upp nokkur af sínum gömlu lögum og má því búast við löngu og sveittu prógrammi. Um upphitun sér hin stórefnilega brimrettarokksveit Godchilla og ljóðskáldið Jón Örn Loðmfjörð. Aðgangur er ókeypis en bjór og geisladiskar verða til sölu á tilboðsverði.

Strengja-og vélasveitin Skark gerir atlögu að tónleikaforminu í bílastæðahúsi Hörpu. Verk eftir Pál Ragnar Pálsson, Viktor Orra Árnason, György Ligeti, Alfred Schnittke og John Wilbye verða flutt en atlagan hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Laugardagur 10. ágúst

Helgi Rafn, söngvari og lagahöfundur, flytur 10 ný “kammer pop” lög á íslensku og ensku fyrir raddir og strengi ásamt Bartholdy strengjakvartettnum frá London. Tónleikarnir verða í húsnæði Leikfélags Kópavogs, en það rými var valið svo hægt væri að skapa leikræna og nána stemmingu. Aðgangseyrir er 1200 krónur og hljómleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Sunnudagur 11. ágúst

Frá upphafi hefur Faktorý átt sér heitan draum um stefnumót við stórhljómsveitina Gus Gus. Nú mun sá draumur loks verða að veruleika því hljómsveitin hefur þáð heimboð á Faktorý. Til slíks viðburðar er ekkert kvöld meira viðeigandi en síðasta kvöld staðarins, sunnudagurinn 11. ágúst. Gestir ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því hljómsveitin ætlar að spila gamla slagara í bland við nýtt óútgefið efni af væntanlegri plötu sveitarinnar. Uppselt er á viðburðinn en þeim lesendum sem eru virkilega heitir er bent á barnaland.

 

 

 

Sónarskoðun – Fyrri hluti

Sónar hátíðin er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur og fyrra kvöld hátíðarinnar var mögnuð upplifun og sannkölluð flugeldasýning fyrir skilningarvitin. Fyrsta atriðið sem ég sá dagskránni var plötusnúðatvíeykið Thugfucker í Silfurbergi sem samanstendur af hinum íslenska Hólmari og Greg frá New York. Þeir dúndruðu drungalegu tekknói í mannskapinn og stjórnuðu dansinum eins og brúðumeistarar með útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum.

Kraftwerk á krakki

Þvínæst rölti ég yfir í Norðurljósasalinn og til að sjá Diomond Version sem ég hafði aldrei heyrt um áður en smekkvís kunningi hafði mælt með þeim. Sá vissi greinilega hvað hann söng því þetta var ein magnþrungnasta tónleikaupplifun sem ég hef orðið vitni að undanfarin misseri. Tveir menn á bakvið tölvur og græjur en fyrir framan þá var nokkurs konar hávaðalínurit og fyrir aftan þá tveir skjáir með alls konar grafík, svona pixlaðir skjáir með áferð eins og ljósaskilti í Vegas. Þetta var í stuttu máli sagt eins og Kraftwerk á krakki. Tónlistin var grjóthart iðnaðarsalt, rifið bassasánd, taktar úr pumpandi pistónum bílvéla og færibanda. Allt saman kalt, hrátt og steinsteypt. Sjónræna hliðin var svo dýrindis djöflasýra og allt virkaði þetta eins og stórskotahríð á skilningarvitin.

Kampavín og sígarettur

Modeselektor voru það band sem ég var spenntastur fyrir þetta kvöldið og voru stórgóðir en bliknuðu þó eylítið í samanburði við Diamond Version. Tónleikarnir voru þó skemmtilegir og fjölbreyttir og snertu á dubstep, tekknói, hip hop og almennri gleðitónlist. Á milli laga töluðu þeir með effekti á röddinni sem lét þá hljóma eins og íkorna og á ákveðnum tímapunkti tilkynntu þeir að nú myndu þeir taka sígarettulagið. Og kveiktu sér í. Ég fylgdi þeirra fordæmi. Þvínæst opnuðu þeir kampavínsflösku og sprautuðu yfir salinn eins og þeir hefðu sigrað í formúlu 1. Þetta var stórgóð skemmtun og tilraunakenndum myndböndum var einnnig varpað á skjá til að auka upplifunina.

Nýtt efni frá Gus Gus

Gus Gus byrjuðu tónleika sína á nýju lagi sem var sérdeilis æðislegt. Hljómaði eins og fyrsta smáskífa af væntanlegri plötu og viðlagið sungið af Högna var löðrandi í grípandi danstónlistarnostalgíu; „Do you remember the days, when we started to crossfade.“ Tónleikarnir voru heilt yfir frábær skemmtun en ég hef þó séð þau betri, fjarvera Urðar var nokkuð truflandi, en rödd hennar var spiluð af bandi í einstaka viðlagi. Högni og Daníel Ágúst stóðu sig þó með glæsibrag og fleiri ný lög ómuðu sem lofa góðu fyrir komandi plötu.

Ógrynni af Ást

Þá hljóp ég yfir í norðurljósasalinn og náði þremur lögum með Retro Stefson sem rokkuðu salinn í ragnarök. Það var ekki þurr flík í húsinu og Unnsteinn hafði salinn í hendi sér og lét fólk hoppa, skoppa og dansa asnalega milli þess sem hann kynnti hljómsveitina. Trentemoller var síðasta atriði á dagskrá og settið hans sveik engan. Dunandi og pumpandi tekknó sem var aðgengilegt en samt framsækið og helling af hnefum á lofti í salnum. Þegar hérna var komið við sögu var ölvun orðin umtalsverð og þegar hann spilaði I feel Love með Donnu Summer missti ég stjórn á öllum hömlum og hoppaði um og veifaði höndunum í algleymisdansi.

Eftir það sagði skylduræknin til sín og kíkti á dj-settið hjá James Blake í bílakjallaranum. Það var ekki alveg jafn mikið rave og ég hafði ímyndað mér, einungis smátt svæði hafði verið afmarkað í kjallaranum, en tónlistin var þó nokkuð góð. Dubstep, Dancehall og reggískotin danstónlist voru hans helstu vopn og krúnudjásnið var frábært remix af Drop it like it’s hot með Snoop Dogg. Hér gæti ég sagst hafa farið heim til að fylla á rafhlöðurnar fyrir síðara kvöldið, en það væri lygi. Allt í allt var fyrra kvöld Sónarsins frábærlega vel heppnað og sannkölluð árshátíð fyrir augu og eyru.

Davíð Roach Gunnarsson

Spennandi tónar á Sónar – Seinni hluti

Sónar tónlistarveislan hefst í dag og Straumur hvetur alla sem á hanska geta haldið til að sjá eftirtalda listamenn en þegar þetta er skrifað eru enn til miðar á hátíðina.

James Blake

Hinn breski Blake er einungis 24 ára gamall en skaust upp á stjörnuhimininn með sinni fyrstu breiðskífu samnefndri listamanninum sem kom út í byrjun árs 2011. Þar blandaði hann saman dubstep og sálartónlist á einstaklega smekklegan hátt og var tilnefndur til hinnar virtu Mercury tónlistarverðlauna fyrir vikið. Fyrsta smáskífan af breiðskífu sem er væntanleg í vor kom út í síðustu viku og vonandi fáum við að heyra nýtt efni frá kappanum á tónleikum hans á laugardaginn. Þá mun hann einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpu á föstudagskvöldinu.

Gus Gus

Gus Gus eru fyrir löngu orðin að stofnun í íslenskri raftónlist og tónleikar þeirra eru á heimsmælikvarða á alla hljóð- og sjónræna kanta. Þeirra síðasta plata, Arabian Horse, fékk nánast einróma lof gagnrýnandi og er af mörgum talin þeirra besta verk. Þeir munu frumflytja nýtt efni á hátíðinni.

Trentemøller

Anders Trentemøller er einn fremsti raftónlistarmaður í Danaveldi og hefur heiðrað Íslendinga ófáum sinnum bæði með live tónlistarflutningi og skífuþeytingum. Hann mun leggja stund á hið síðarnefnda á í Norðurljósasal Hörpu á laugardagskvöldið og undirritaður getur staðfest að enginn verður svikinn af Trentemøller dj-setti. Þau eru  þung en jafnframt aðgengileg þar sem hann spilar oft eigin remix af þekktum poppslögurum.

Mugison

Ólafur Örn Elíasson, betur þekktur sem Mugison, hefur verið ein helsta poppstjarna Íslands undanfarin ár og selt meira en 30.000 eintök af sinni nýjustu plötu. Í byrjun ferilsins spilaði þó raftónlistin meiri rullu í tónlist hans og á Sónar hátíðinni mun hann notast við hljóðgervil sem hann smíðaði sjálfur, ásamt Páli Einarssyni félaga sínum, frá grunni. Ekki er ólíklegt að hann muni sína á sér sjaldséða hlið á hátíðinni og enginn ætti að láta það fram hjá sér fara.

Hermigervill

Hermigervill er frábær tónlistarmaður sem á sínum tveimur síðustu plötum hefur dundað sér við að uppfæra helstu dægurlagasmelli Íslandssögunnar yfir í rafrænan búning. Tónleikar með honum eru einstök upplifun þar sem hann kemur fram einn ásamt lager af raftólum og djöflast af mikilli innlifun á hljóðgervla, samaplera, plötuspilara, þeramín, og grípur jafnvel í fiðlu ef vel liggur á honum. Heyrst hefur að hann sitji á nýju frumsömdu efni og verður spennandi að heyra það á tónleikum hans um helgina.

Fyrstu tónlistarverðlaun Reykjavík Grapevine

Í nýjasta hefti tímaritsins Reykjavík Grapevine er kunngert um fyrstu titilhafa nýtilkominna tónlistarverðlauna blaðsins, en hugmyndin með þeim er að hvetja og styðja við íslenska tónlistarmenn sem þykja bera af um þessar mundir. Dómnefnd á vegum blaðsins, sem samanstóð af útvarpsmanninum Andra Frey Viðarssyni, Kamillu Ingibergsdóttir frá Iceland Airwaves hátíðinni og fulltrúa tónlistarskríbenta blaðsins, Robert Cluness, valdi verðlaunahafa í sex flokkum í kjölfar stífra fundarhalda sem áttu sér stað við lok desembermánaðar, en einu fyrirmæli sem dómnefndin hlaut var að vera samkvæm sannfæringu sinni og úttala málin almennilega áður en komist væri að niðurstöðu.

Var það einróma dómur nefndarinnar að Hjaltalín hafi átt íslenska plötu ársins með Enter 4, sem kölluð er „framúrskarandi meistaraverk“ í rökstuðningi hennar. Lag ársins 2012 var hið sívinsæla Háa C með Moses Hightower, en þar þykir bæði textagerð, taktur og hljómagangur koma saman og mynda nær fullkomna heild sem seint verður þreytt í spilun.

Rafsveitin langlífa GusGus taldist vera besta tónleikasveit landsins, en þrátt fyrir að hún eigi öfluga keppinauta um þessar mundir og hafi ekki spilað mikið árið 2012 þótti dómnefnd ótækt annað en að sæma hana titlinum í þetta fyrsta skipti sem hann er veittur, enda hafa sporgöngusveitir á borð við Retro Stefson lært mikið af goðsögnunum sjálfum.

Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson þóttu eiga eina vanmetnustu plötu ársins með samstarfsverkefninu The Box Tree, en þeim titli er ætlað að varpa ljósi og vekja athygli á tónlist sem fór ef til vill undir radarinn á liðnu ári en á þó fullt erindi við hlustendur. Af eilítið ólíkum toga er titillinn „Hljómsveit til að muna“ sem hin sívinsæla sveit Botnleðja hlaut að þessu sinni, en þar er ætlunin að hvetja lesendur blaðsins til þess að kynna sér sveitir eða tónlistarmenn sem hafa skarað fram úr á liðnum árum og sett mark sitt með svo óyggjandi hætti að tónlistarlandslag dagsins í dag væri vart hið sama hefði þeirra ekki notið við. Verður ekki annað sagt en að Hafnfirðingarnir knáu séu vel að titlinum komnir.

Það voru svo rokk æringjarnir í Muck sem dómnefndin taldi ástæðu til að verðlauna sem „Hljómsveit til að fylgjast með á komandi ári!“, en þessi háværa rokksveit þykir hafa vaxið úr öllu valdi undanfarin misseri og bíða spekúlantar þess nú spenntir að hún springi í loft upp og hrífi hinn almenna hlustenda með æsispennandi hörkukjarnamúsík sinni.

Í litlu partýi sem haldið var til að fagna verðlaununum á skemmmtistaðnum Dolly sl. föstudag tóku verðlaunahafar við verðlaunapeningum og viðurkenningaskjölum frá dómnefndarfulltrúa, auk þess sem Hjaltalín og rapparinn Gísli Pálmi tóku lagið. „Hugmyndin með þessari verðlaunaafhendingu allri er að gefa fólki klapp á bakið sem á það vonandi skilið,“ segir Haukur S. Magnússon, yfirritstjóri Reykjavík Grapevine. “Við vildum ekki vera með neinn íburð eða neitt, bara búa til litla dómnefnd með kláru fólki og halda svo smá partý með bjór og næs sem fyrst og fremst var ætlað tónlistarmönnunum sjálfum, þar sem þeir gætu boðið vinum og vandamönnum að eiga með sér notalega kvöldstund.”

 

Auk verðlaunapeninga og viðurkenningaskjala hljóta sveitirnar einnig límmiða til að skreyta plötur sínar með, svo þær geti selt á túristamarkaðnum, en handhafar plötu ársins fengu einnig gistingu á Hótel Búðum og flytjendum lags ársins er boðið út að borða á Tapas Barnum. “Ákaflega margir viðriðnir útgáfu Reykjavík Grapevine hafa jafnframt staðið í tónlistarstússi og við vildum þessvegna reyna að gera þetta bara svona eins og við hefðum sjálf fílað ef við myndum vinna einhver verðlaun. Engar tilnefningar eða stress, bara medalíur og bjór og svona dót sem er vonandi gagnlegt, eins og þessir límmiðar,” segir Haukur.” Eins og allir vita byggjum við á Grapevine afkomu okkar á því að skrifa fyrir ferðalanga og enskumælandi Íslendinga og framlag íslenskra tónlistarmanna til þess að gera landið eftirsóknarvert til heimsókna og jafnvel langdvala verður seint ofmetið. Við reynum að fylgjast glöggt með þessum músíköntum allt árið um kring og umfjallanir um þá eru með vinsælasta efni blaðsins. Því er ekkert eðlilegra en að við reynum að þakka einhvernvegin fyrir okkur og ég held að svona verðlaunanæs sé alveg fín leið til þess.”

Nánari rökstuðning fyrir valinu í hverjum flokki fyrir sig, auk útskýringa á dómnefndarferlinu öllu má finna í nýju hefti Reykjavík Grapevine, sem kom á göturnar og á netið sl. föstudag og er að vanda stútfullt af allskyns kræsingum (meðal annars ótrúlega lofsamlegum dómi um Hjaltalín plötuna).


Lokauppgjör Airwaves – Laugardagur og Sunnudagur

Mynd: Óskar Hallgrímsson

 

Laugardagurinn á Airwaves hófst ekki vel þegar fréttir bárust af því að skoska sveitin Django Django hafi þurft að aflýsa tónleikum sínum í Hörpu vegna veikinda. Það var það atriði sem ég var einna spenntastur fyrir á hátíðinni en hafði þó þau áhrif að ég þurfti ekki að velja milli þeirra og Dirty Projectors sem áttu spila á sama tíma og ég var líka mjög spenntur fyrir.

 

Skógláp í kjallara

 

Laugardagskvöldið mitt hófst í myrkum kjallara 11-unnar þar sem skóglápararnir í Oyama, höfðu komið sér fyrir. Oyama spila melódískt hávaðarokk í anda My Bloody Valentine og svipaðra sveita sem voru upp á sitt besta í byrjum 10. áratugarins, og stóðu sig með stakri prýði. Ég þurfti ekki að leita langt í næsta skammt af tónlist því á eftir hæðinni hafði Just Another Snake Cult nýhafið leik. Síðast þegar ég sá hann var hann með stóra hljómsveit með sér en nú naut hann einungis liðfylgis fiðlu og sellóleikara en sjálfur sá hann um söng, syntha og ýmis raftól. Angurvært og tilraunakennt rafpoppið rann vel niður, þetta var oft á mörkum þess að vera falskt, en samt svo óheyrilega fallegt. Hann toppaði í síðasta laginu Way Over Yonder in the Minor Key.

 

Hnökralaus flutningur

 

Næst þurfti ég að gera hlé á tónleikadagskrá vegna næringar og ritstarfa en mætti þó galvaskur í Listasafn Reykjavíkur til að sjá Brooklyn-sveitina Friends. Þau spiluðu hressilegt rafpopp og voru nokkuð mörg að hamast á sviðinu en náðu þó ekki að fanga athygli áhorfenda sérstaklega vel sem líklega voru flestir komnir til að sjá nágranna þeirra úr Brooklyn, Dirty Projectors. Þau stigu á svið á miðnætti og höfðu salinn í hendi sér frá fyrsta lagi. Aðallega voru flutt lög af nýjustu plötu sveitarinnar, Swing Lo Magellan, og var flutningurinn svo að segja hnökralaus. Það var hreint út sagt magnað að verða vitni að flóknum raddsetningum og framúrstefnulegum útsetningunum á sviðinu að því er virðist án þess að neitt hafi verið spilað af bandi. Oft kölluðust raddir söngkvennanna á við tilraunakennd gítarsóló og gæsahúð og taumlaus gleði fylgdi í kjölfarið. Tónleikarnir náðu hámarki í hinu dramatíska en þó mínímalíska The Gun Has No Trigger og þetta voru án efa bestu tónleikarnir sem ég sá á Airwaves í ár.

 

Ég hljóp þá yfir í Hafnarhúsið til að ná Gus Gus sem ég hafði ekki séð síðan þeir spiluðu sína síðustu tónleika á Nasa. Gus Gus eru orðin vel sjóuð af tónleikahaldi og sveitin kann upp á hár að rífa upp stemmningu með vel skipulögðum uppbyggingum og ná oft að teygja lögin sín upp í meira en tíu mínútur án þess að nokkrum leiðist þófið eða dansinn hætti að duna.

 

Sunnudagskvöld

 

Þrátt fyrir að fáir höndli yfirleitt að fara út á sunnudeginum eftir fjögurra daga maraþon djamm og tónleikaviðveru þá hefur sunnudagskvöldið löngum verið eitt af mínum uppáhalds á Airwaves. Því miður voru ekki stórir tónleikar á Nasa eins og undanfarin ár en þó var ýmislegt í boði og sörf-rokksveitin Bárujárn var fyrst á dagskrá á Gamla Gauknum. Sindri er afskaplega skemmtilegur gítarleikari og hann fór hamförum í flottum sólóum og snaggaralegum riffum, ekki síst í laginu Skuggasveinn.

 

Þvínæst rölti ég niður á Þýskabarinn þar sem trúbatrixan Elín Ey var að koma sér fyrir. Hún hefur afskaplega fallega rödd en innhverf kassagítardrifin trúbadortónlistin var ekki alveg minn expressóbolli og ég vonaðist eftir meira stuði. Það mætti á svæðið með hinni ákaflega vel stílíseruðu Sometime og 90’slegri danstónlist þeirra. Á köflum trip hop-leg en stundum meira út í reif og stemmningin var á uppleið.

 

Bassinn tekinn í göngutúr

 

Síðasta atriði kvöldsins voru diskóboltarnir í Boogie Trouble sem hljóta að vera eitt mest grúvandi band á Íslandi um þessar mundir. Ingibjörg tók bassann í göngutúr og gítarinn minnti á útúrkókað diskófönk úr klámmyndum frá öndverðum áttunda áratugnum. Þau lokuðu kvöldinu með stæl en mig þyrsti í meira. Því var haldið yfir í Iðusali þar sem Rafwaves var enn í fullum gangi og Oculus dúndraði dýrindis djöflatekknói ofan í þær 20 hræður sem enn voru eftir og dönsuðu úr sér líftóruna.

 

 

Heilt yfir var þessi Airwaves hátíð frábærlega vel heppnuð þrátt fyrir að ýmislegt hafi unnið á móti henni. Þar mætti helst nefna veðrið og nokkrar afbókanir hjá stórum nöfnum. Hápunktarnir hjá mér í ár voru Doldrums á fimmtudagskvöldinu, Hjálmar og Jimi Tenor á föstudaginn og Dirty Projectors á laugardaginn. Þá verð ég að minnast á að ég sá hvorki né heyrði af mörgum risastórum röðum, sem oft áður hafa hrjáð hátíðina, og er það afar góðs viti.

Davíð Roach Gunnarsson