Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá jamie XX, Diplo, Evian Christ, Disclosure og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977!
1) El Rito – Destroyer
2) With Me – Cashmere Cat
3) Drop The Game – Flume & Chet Faker
4) What About Us – Flume & Chet Faker
5) No Eyes ft. Jaw (Gamper & Dadoni remix) – Claptone
6) Untitled – Jamie xx
7) Salt Carousel – Evian Christ
8) Voices (Wookie remix) – Disclosure
9) Will Calls (Diplo remix) – Grizzly Bear
10) Timeaway (Darkstar remix) – Darkstar
11) Better in the Dark (Tiger & Woods remix) – Say Lou Lou
12) Come Save Me (Andrew Weatherall remix) – Jagwar Ma
13) The Way (Blood Orange mix) – Friends
14) Never Run Away (String Synth) – Kurt Vile
Laugardagurinn á Airwaves hófst ekki vel þegar fréttir bárust af því að skoska sveitin Django Django hafi þurft að aflýsa tónleikum sínum í Hörpu vegna veikinda. Það var það atriði sem ég var einna spenntastur fyrir á hátíðinni en hafði þó þau áhrif að ég þurfti ekki að velja milli þeirra og Dirty Projectors sem áttu spila á sama tíma og ég var líka mjög spenntur fyrir.
Skógláp í kjallara
Laugardagskvöldið mitt hófst í myrkum kjallara 11-unnar þar sem skóglápararnir í Oyama, höfðu komið sér fyrir. Oyama spila melódískt hávaðarokk í anda My Bloody Valentine og svipaðra sveita sem voru upp á sitt besta í byrjum 10. áratugarins, og stóðu sig með stakri prýði. Ég þurfti ekki að leita langt í næsta skammt af tónlist því á eftir hæðinni hafði Just Another Snake Cult nýhafið leik. Síðast þegar ég sá hann var hann með stóra hljómsveit með sér en nú naut hann einungis liðfylgis fiðlu og sellóleikara en sjálfur sá hann um söng, syntha og ýmis raftól. Angurvært og tilraunakennt rafpoppið rann vel niður, þetta var oft á mörkum þess að vera falskt, en samt svo óheyrilega fallegt. Hann toppaði í síðasta laginu Way Over Yonder in the Minor Key.
Hnökralaus flutningur
Næst þurfti ég að gera hlé á tónleikadagskrá vegna næringar og ritstarfa en mætti þó galvaskur í Listasafn Reykjavíkur til að sjá Brooklyn-sveitina Friends. Þau spiluðu hressilegt rafpopp og voru nokkuð mörg að hamast á sviðinu en náðu þó ekki að fanga athygli áhorfenda sérstaklega vel sem líklega voru flestir komnir til að sjá nágranna þeirra úr Brooklyn, Dirty Projectors. Þau stigu á svið á miðnætti og höfðu salinn í hendi sér frá fyrsta lagi. Aðallega voru flutt lög af nýjustu plötu sveitarinnar, Swing Lo Magellan, og var flutningurinn svo að segja hnökralaus. Það var hreint út sagt magnað að verða vitni að flóknum raddsetningum og framúrstefnulegum útsetningunum á sviðinu að því er virðist án þess að neitt hafi verið spilað af bandi. Oft kölluðust raddir söngkvennanna á við tilraunakennd gítarsóló og gæsahúð og taumlaus gleði fylgdi í kjölfarið. Tónleikarnir náðu hámarki í hinu dramatíska en þó mínímalíska The Gun Has No Trigger og þetta voru án efa bestu tónleikarnir sem ég sá á Airwaves í ár.
Ég hljóp þá yfir í Hafnarhúsið til að ná Gus Gus sem ég hafði ekki séð síðan þeir spiluðu sína síðustu tónleika á Nasa. Gus Gus eru orðin vel sjóuð af tónleikahaldi og sveitin kann upp á hár að rífa upp stemmningu með vel skipulögðum uppbyggingum og ná oft að teygja lögin sín upp í meira en tíu mínútur án þess að nokkrum leiðist þófið eða dansinn hætti að duna.
Sunnudagskvöld
Þrátt fyrir að fáir höndli yfirleitt að fara út á sunnudeginum eftir fjögurra daga maraþon djamm og tónleikaviðveru þá hefur sunnudagskvöldið löngum verið eitt af mínum uppáhalds á Airwaves. Því miður voru ekki stórir tónleikar á Nasa eins og undanfarin ár en þó var ýmislegt í boði og sörf-rokksveitin Bárujárn var fyrst á dagskrá á Gamla Gauknum. Sindri er afskaplega skemmtilegur gítarleikari og hann fór hamförum í flottum sólóum og snaggaralegum riffum, ekki síst í laginu Skuggasveinn.
Þvínæst rölti ég niður á Þýskabarinn þar sem trúbatrixan Elín Ey var að koma sér fyrir. Hún hefur afskaplega fallega rödd en innhverf kassagítardrifin trúbadortónlistin var ekki alveg minn expressóbolli og ég vonaðist eftir meira stuði. Það mætti á svæðið með hinni ákaflega vel stílíseruðu Sometime og 90’slegri danstónlist þeirra. Á köflum trip hop-leg en stundum meira út í reif og stemmningin var á uppleið.
Bassinn tekinn í göngutúr
Síðasta atriði kvöldsins voru diskóboltarnir í Boogie Trouble sem hljóta að vera eitt mest grúvandi band á Íslandi um þessar mundir. Ingibjörg tók bassann í göngutúr og gítarinn minnti á útúrkókað diskófönk úr klámmyndum frá öndverðum áttunda áratugnum. Þau lokuðu kvöldinu með stæl en mig þyrsti í meira. Því var haldið yfir í Iðusali þar sem Rafwaves var enn í fullum gangi og Oculus dúndraði dýrindis djöflatekknói ofan í þær 20 hræður sem enn voru eftir og dönsuðu úr sér líftóruna.
Heilt yfir var þessi Airwaves hátíð frábærlega vel heppnuð þrátt fyrir að ýmislegt hafi unnið á móti henni. Þar mætti helst nefna veðrið og nokkrar afbókanir hjá stórum nöfnum. Hápunktarnir hjá mér í ár voru Doldrums á fimmtudagskvöldinu, Hjálmar og Jimi Tenor á föstudaginn og Dirty Projectors á laugardaginn. Þá verð ég að minnast á að ég sá hvorki né heyrði af mörgum risastórum röðum, sem oft áður hafa hrjáð hátíðina, og er það afar góðs viti.
Fjórtánda Iceland Airwaves tónlistarhátíðin hefst í dag en hún hefur verið haldin í Reykjavík í októbermánuði ár hvert síðan 1999. Hátíðin hefur á þessum tíma þróast og tekið breytingum, en segja má að meginmarkmið hennar sé enn það sama – að kynna íslenska tónlist fyrir erlendum fjölmiðlum og plötuútgefendum. Á hverju ári er um margt úr að velja af öllum þeim frábæru erlendu og innlendu hljómsveitum og listamönnum sem fram koma á hátíðinni. Hér eru nokkur bönd sem við mælum með.
Dirty Projectors
Dirty Projectors hefur þróast á skömmum tíma úr því að vera skúffuverkefni eins manns yfir í eina af metnaðarfyllstu tilraunarokkhljómsveitum samtímans. Í sumar gaf hljómsveitin út sína sjöttu plötu Swing Lo Magellan. David Longstreth söngvari og lagasmiður sveitarinnar sá um allar upptökur á plötunni, sem stóðu yfir í heilt ár. Hann samdi yfir 40 lög fyrir hana þótt aðeins 12 þeirra hafi ratað á endanlega útgáfu hennar. Dirty Projectors munu spila í Listasafni Reykjavíkur á laugardaginn klukkan 0:00.
Kanadíska dúóið Purity Ring gaf út nokkrar sterkar smáskífur á árinu 2011 og sendu frá sér sína fyrstu stóru plötu á þessu ári sem hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda. Purity Ring samanstendur af þeim James og Corin Roddick sem hafa gefið fá viðtöl og haldið myndum af sér frá fjölmiðlum. Purity Ring mun spila á Listasafni Reykjavíkur klukkan 23:00 á fimmtudaginn.
DIIV
Brooklyn hljómsveitin DIIV sem hét upphaflega Dive var stofnuð árið 2011 sem sólóverkefni gítarleikara Beach Fossils – Zachary Cole Smith. Fyrsta stóra plata hljómsveitarinnar Oshin kom út í sumar. Platan er full af skemmtilega útpældu gítarrokki af bestu gerð. Hljómsveitin kemur fram á Bella Union kvöldinu í Iðnó á laugardaginn klukkan 0:25.
I Break Horses
Sænska hljómsveitin I Break Horses gaf út sína fyrstu plötu í fyrra sem ber nafnið Hearts. Á plötunni blandar hljómsveitin saman áhrifum frá shoe-gaze rokki tíunda áratugarins við nútíma raftónlist með góðum árangri. I Break Horses kemur fram á Bella Union kvöldinu í Iðnó á laugardaginn klukkan 23:30.
Viðtal sem við tókum við I Break Horses:
2. Airwaves 3 2
Ghostpoet
Breski rapparinn Ghostpoet sem heitir réttu nafni Obaro Ejimiwe kemur frá Suður-London. Hann gaf út EP-plötu árið 2010 en hans fyrsta plata Peanut Butter Blues & Melancholy Jam kom út árið 2011 og var tilnefnd til Mercury-verðlaunanna. Ghostpoet hefur verið líkt við listamenn á borð við Mike Skinner og Dizzee Rascal og má flokka undirspilið sem blöndu af allskyns nútíma raftónlist. Hann kemur fram á Þýska barnum á laugardaginn klukkan 23:20.
Friends
Nafnið á hljómsveitinni Friends kemur frá uppáhalds Beach Boys plötu Brian Wilsons. Hljómsveitin kemur frá Brooklyn í New York og spilar metnaðarfullt popp sem sungið er af hinni frábæru söngkonu Samantha Urbani. Hljómsveitin sem hefur getið sér gott orð fyrir tónleikahald mun koma fram á Listasafni Reykjavíkur klukkan 23:00 á laugardaginn.
Swans
Hljómsveitin Swans var stofnuð í New York árið 1982 af Michael Gira og starfaði til ársins 1997. Fyrir rúmum tveimur árum ákvað Gira að endurvekja þessa goðsagnakenndu No Wave hljómsveit með nýjum áherslum. Sveitin hefur síðan gefið út tvær plötur sem báðar hafa fengið góða dóma. Swans spila í Norðurljósasal Hörpu á fimmtudaginn klukkan 23:30. Swans komast ekki útaf fellibylnum Sandy, en íslenski snillingurinn Mugison kemur í þeirra stað!
Viðtal sem við tókum við Swans:
3. Airwaves 2 4 hluti
Hér má heyra lagið Song For A Warrior af síðustu plötu Swans sungið af Karen O úr Yeah Yeah Yeahs
Haim
Systra tríóið Haim kemur frá Los Angeles og spila tónlist sem minnir á rokksveitir 8. áratugarins. Hljómsveitin stefnir að útgáfu sinnar fyrstu plötu von bráðar. Haim spila á Gamla Gauknum fimmtudaginn 1. nóvember klukkan 0:10.
Captain Fufanu
Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson og Guðlaugur Halldór Einarsson skipa raftónlistar dúóið Captain Fufanu sem hefur verið starfrækt frá árinu 2008 og hefur getið sér gott orð fyrir öfluga tónleika sem svíkja engan sem hafa gaman af metnaðarfullri raftónlist. Captain Fufanu kemur frá á efri hæð Faktorý klukkan 0:20 á föstudaginn.
Pascal Pinon
Hljómsveitin sem skipuð er tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum hefur verið virk frá árinu 2009. Hljómsveitin sendir frá sér sína aðra plötu Twosomeness í dag sem óhætt er að mæla með. Hljómsveitin kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó í kvöld.
Ekki Vanmeta – Pascal Pinon
4. 01 Ekki Vanmeta
Sin Fang
Sindri Már Sigfússon forsprakki Sin Fang lísti því yfir í Iceland Airwaves sérþætti straums á dögunum að ný plata með hljómsveitinni væri væntanleg snemma á næsta ári. Hlustið á viðtalið hér fyrir neðan. Sing Fang kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó í kvöld og á Listasafni Reykjavíkur klukkan 22:00 á laugardaginn.
Viðtal við Sindra
5. Airwaves 2 1 hluti
Nolo
Ívar Björnsson og Jón Lorange sem skipa hljómsveitina Nolo hafa sent frá sér nokkur frábær demó upp á síðkastið sem gefa til kynna að þriðja plata Nolo verði ekki úr þessum heimi. Sveitin kemur fram á Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn klukkan 20:00.
Elektro Guzzi
Austurríska teknósveitin Elektro Guzzi hefur vakið athygli fyrir skemmtilega sviðsframkomu á mörgum af helstu tónlistarhátíðum í Evrópu undanfarið ár. Hljómsveitin spilar á efri hæðinni á Faktorý á föstudaginn klukkan 1:10.
The Vaccines
Ein af vinsælustu gítarrokk hljómsveitum breta síðustu misseri inniheldur íslendinginn Árna Hjörvar sem áður var í hljómsveitunum Future Future og Kimono. Hljómsveitin spilar á Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn klukkan 0:00.
Viðtal sem tókum við Árna Hjörvar úr The Vaccines: