Retro Stefson, Hermigervill, Sin Fang, Moses Hightower, Prins Póló og Cell 7 koma fram á lokatónleikum Lunga sem fara fram á laugardaginn. Forsala miða fer fram á midi.is á 3.900 kr til miðnættis þann 18. júlí. Miðasala fer svo fram í Herðubreið á Seyðisfirði á föstudeginum kl 12:00-20:00 og á laugardeginum frá 11:00 – 21:00, eftir það er hægt að kaupa miða við inngang fram eftir kvöldið. Lokatónleikar LungA hafa fest sig í sessi sem gleðilegur viðburður á laugardagskvöldinu; uppskeruhátíð og tónlistarveisla.
Tag: Retro Stefson
Fyrsta lagið frá Uni Stefson
Unnsteinn Manúel Stefánsson söngvari hljómsveitarinnar Retro Stefson gaf í dag út lagið Enginn Grætur við texta Jónasar Hallgrímssonar. Lagið er fyrsta sólóefni Unnsteins en upptökustjórn var í höndum Friðfinns Oculus Sigurðssonar.
mynd: Saga Sig
Fyrstu listamennirnir tilkynntir á Aldrei fór ég Suður
Ellefta Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 18. og 19. apríl næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag fyrstu listamennina sem koma fram í ár. Þeir eru:
★ MAUS
★ Retro Stefson
★ Cell 7
★ Mammút
★ Grísalappalísa
★ Tilbury
★ DJ flugvél og geimskip
Fyrsta kvöldið á Airwaves
Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson
Iceland Airwaves hátíðin var sett í gær með pompi og prakt og fréttaritari straums fór á stúfana og reyndi að sjá eins marga tónleika og unnt var. Dagurinn var tekinn snemma og fyrst var haldið í fatabúðina JÖR til að sjá rafpoppsveitina Sykur off-venue. Þau komu fram í nokkurs konar órafmagnaðri útgáfu, eða öllu heldur minna rafmögnuð en þau eru venjulega, einn meðlimur spilaði á gítar, annar á hljómborð og sá þriðji á trommur. Þessi uppsetning var ákaflega skemmtileg og dró fram nýjar víddir í gömlum lögum auk þess sem tilþrifamiklir raddfimleikar söngkonunnar Agnesar nutu sín vel.
Þvínæst var haldið á Loft Hostel þar sem skóáhugamennirnir í Oyama voru að koma sér fyrir á sviðinu. Þeir hófu tónleikana á nýju efni sem lofar mjög góðu. Mónótónísk rödd söngkonunnar Júlíu, sem minnir mig nokkuð á söngkonu Stereolab, skar í gegnum ómstríða hávaðaveggi gítarleikaranna eins og steikarhnífur á smjörstykki.
Harður, hrár og pönkaður kjarni
Ég náði þó einungis þremur lögum því ég var búinn að lofa sjálfum mér að sjá kanadíska bandið Metz og hljóp beinustu leið niður í kjallara á 11-unni. Talsvert suð hefur verið í kringum sveitina en kjarni hennar er harður og pönkaður til hins ýtrasta. Þeir voru þrír á sviðinu í sveittum og skítugum kjallaranum en hljóðstyrkurinn var skrúfaður í botn og þyngslin talin í tonnum. Þrátt fyrir að hafa litla þekkingu á öfgarokki af þessum skóla þá var ekki hægt annað en að hrífast með óbeislaðri spilagleðinni og hráum einfaldleikanum. Fremst við sviðið myndaðist flösuþeytandi pyttur og undir lok tónleikana voru menn farnir að hlaupa upp á svið og krádsörfa villt og galið.
Þvínæst hélt ég á Dillon að sjá lo-fi popparana í Nolo. Síðan ég sá þá síðast hafa þeir breyst þó nokkuð, hafa bætt við sig trommara, spila á fleiri hljóðfæri en áður og notast í mörgum lögum við raddbreytandi hljóðeffekta. Það kemur alveg frábærlega út og sum af þeirra bestu lögum, eins og Fondu og Skelin Mín, sem ég hef heyrt ótalmörgum sinnum fengu nýtt líf og aukinn kraft í þessum útsetningum. Alveg stórgóðir tónleikar og fyrsti hápunktur kvöldsins.
Skrýtin birta og sálardjúpt tekknó
Á þessum tímapunkti var ég búinn að sjá fjóra tónleika en samt var opinber dagskrá hátíðarinnar sjálfrar ekki hafin. Ég hóf hana á nýbylgjusveitinni Grísalappalísu en Gunnar annar söngvari hennar var valhoppandi um allt sviðið í laginu Lóan er komin ég mætti á svæðið. Þeir léku tvö ný lög ásamt því að taka ábreiðu af Megasi, sem óneitanlega virðist mikill áhrifavaldur á sveitina. Þeir voru þrumuþéttir eins og venjulega og léku á alls oddi í lokalaginu Skrýtin Birta. Það eina sem skyggði á performansinn er að lítið af fólki var komið í risastóra rýmið í Hafnarhúsinu svona snemma og sveitin nýtur sín kannski betur í minna rými þar sem hún er í meira návígi við áhorfendur.
Ég hafði heyrt góða hluti um raftónlistarmanninn Tonik en honum tókst að fram úr eftirvæntingum á tónleikum sínum á Harlem. Hann kom fram með Herði úr M-Band, sem djöflaðist í tækjum og tólum ásamt því að syngja í nokkrum lögum, auk sellóleikara. Grunnurinn var tekknó, en anguvær söngur Harðar og smekklegt sellóið umbreyttu tónlistinni í einhvers konar melankólískt sálar-tekknó. Það var markviss uppbygging í tónleikunum og engar pásur á milli laga sem einungis jók á draumkennda upplifunina.
Hámörkuð gleði
Á eftir Tonik kom rafpoppsveitin Love & Fog sér fyrir á sviðinu og framreiddu grípandi rafpopp sem innihélt í það minnsta tvo upprennandi slagara. Hljóðheimurinn þeirra er smekklegur og þungur á botninum og ólíkar raddir Jóns og Axels harmóneruðu vel. Það verður gaman að fylgjast með hvað þau afreka í náinni framtíð.
Þegar þarna var komið við sögu voru batteríin nánast ofhlaðin af mikilli tónlistarinntöku og farið að kenna á bakeymslum eftir standslaust tónleikastand frá því fimm um daginn en ég ákvað að enda þetta í Hörpu. Þar sá ég fyrst Retro Stefson í Norðurljósasalnum og það var greinilega engin þreyta í áhorfendunum sem hreinlega átu stemmninguna úr lófa sveitarinnar. Þau tóku nýtt lag sem hljómaði mjög vel og skreyttu önnur lög með alls konar útúrdúrum og bútum úr öðrum lögum til að hámarka gleðina.
Emiliana á heimavelli
Að lokum fór ég á Emiliönu Torrini en tækifæri til að sjá hana á tónleikum gefst ekki á hverjum degi. Hún tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu sem ég hef því miður kynnt mér lítið, en það kom ekki að sök því flutningurinn og lögin voru framúrskarandi. Það er smátt svæði á milli þess að vera óþolandi væminn og einlægt krúttlegur, en Emiliana dansaði alltaf réttu megin línunnar og hún virtist ánægð með að halda tónleika á heimavelli og talaði við salinn á íslensku. Eftir uppklapp tók hún síðan Sunny Road af plötunni Fisherman’s Woman og endaði svo á útjaskaða slagaranum Jungle Drum, sem ég held þó að flestir nema mest harðbrjósta hipsterar fíli smávægis undir niðri.
Allt í allt var fyrsta kvöldið vel heppnað og ég náði að sjá rjómann af íslensku böndunum sem komu fram, þó maður missi alltaf af einhverju. Hápunktarnir í þetta skipti voru Nolo, Tonik og Emiliana Torrini. Í kvöld er það svo Yo La Tenga og heill hellingur af öðru, en fylgist vel með á straum.is því við höldum áfram með daglega umfjöllun um hátíðina næstu daga.
Davíð Roach Gunnarsson
Airwaves Yfirheyrslan – Þorbjörg í Retro
Mynd: Oliver James L’eroe.
Í yfirheyrsluherberginu þennan föstudag situr Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir, hljómborðsleikari Retro Stefson. Hún hefur spilað á Airwaves síðan á barnsaldri og við þjörmuðum að henni og fengum hana til að segja okkur allt sem hún veit um hátíðina.
Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Það var á Ariwaves 2006 og við spiluðum þá á Grand Rokk. Vorum svo lítil að það átti varla að hleypa okkur inn á staðinn þegar við mættum í sándtékk. Eftirminnilegast voru tónleikarnir sjálfir, var búin að vera mega spennt og hlakka til svo lengi. Ég man svo hvað ég var hissa þegar ég sá röðina fyrir utan þegar við vorum að fara að byrja. Stemmningin var rosa góð á tónleikunum og allt gekk vel. Svo er meira að segja til mega krúttlegt myndband af okkur frá þessum tónleikum, og viðtal þar sem allir eru rosa litlir og feimnir og sumir ekki einu sinni komnir í mútur. Tónleikarnir á Gauknum með Datarock og Whitest Boy Alive á eftir voru líka mjög eftirminnilegir og fáránlega góðir og skemmtilegir tónleikar. Whitest Boy Alive enduðu að mig minnir á Show Me Love með Robin S, sem var frekar gott!
Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður í áttunda skiptið núna í ár.
Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?
Vá, það eru svo margir. Datarock og Whitest boy alive eins og ég nefndi áðan. Svo voru líka Chromeo tónleikarnir á Gauknum 2007 klikkaðir. Trentemøller (sem ég elskaði ó svo mikið) árið 2008 í Listasafninu. Og Metronomy 2009 í Listasafninu.. Ég gæti haldið lengi áfram.
Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?
Þeir voru á Nasa árið 2008 minnir mig. Við vorum nýbúin að gefa út fyrstu plötuna okkar og dálítið hype í gangi. Ég man bara hvað ég var glöð og stressuð í bland þegar ég sá hvað það var troðfullt á Nasa og geðveik stemmning. Tónleikarnir gengu svo fáránlega vel og allir mega glaðir.
Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Nasa. Punktur. Annars finnst mér Iðnó komast næst Nasa í útliti á salnum sjálfum og það myndast alltaf góð stemmning þar. Mér finnst það dáldið kósý og finnst að Iðnó ætti að vera notað meira undir tónleika og fleiri skemmtanir.
Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ég var heví fúl að hafa misst af Robyn og líka Moderat árið 2010. Við vorum að spila á einhverju menntaskólaballi á sama tíma og Moderat áttu að vera svo ég fór ekkert. Síðan hafði dagskránni seinkað þannig að ég hefði alveg náð að sjá hluta af tónleikunum. Frekar fúlt. Svo var ég líka mjög leið að hafa misst af Tune-Yards árið 2011.
Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Hmm bara ekki vera of stressaðir og reyna of mikið þó að það sé eitthvað mikilvægt fólk á hátíðinni og svoleiðis. Hafa frekar bara gaman og skemmtilegt að hafa tónleikana kannski pínku öðruvísi en venjulega.
Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Er mjög spennt fyrir að sjá þrívíddarsjó-ið hjá Kraftwerk. Hef aldrei séð þá live heldur. Svo er ég líka spennt fyrir MØ, Jon Hopkins, Omar Souleyman og AlunaGeorge (sem ég næ reyndar ekki að sjá því við erum að spila á sama tíma).
Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Rosalega mikla bara. Þetta vekur svo ótrúlega mikla athygli á landinu og því sem er að gerast hér í tónlistarlífinu. Svo er hátíðin líka bara mikilvæg fyrir okkur sjálf, íslenskt tónlistarfólk og -áhugamenn, einskonar árshátíðin okkar og eitthvað til að hlakka til.
Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Hmm ég er ekki alveg viss. Örugglega svona 7 eða 8 sinnum. Vorum eitt árið að spila þrisvar sinnum á official dagskránni og svipað oft off venue. Held þetta hafi verið 2008.
Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?
Ég held bara 2006. Þá var þetta allt svo nýtt og spennandi. Mig langaði svo að fara 2005 því bræður mínir voru að fara og fullt af skemmtilegum hljómsveitum eins og Architecture in Helsinki og Annie og fleiri. En ég var náttúrulega bara 15 ára og frekar fúl að fá ekki að fara. Þess vegna var ég svo þakklát og glöð að komast 2006. Var búin að kynna mér allt rosa vel og mætti snemma á alla tónleika, náði að sjá eiginlega allt sem mig langaði til. Búin að fá lánuð skilríki hjá vinkonu stóra bróður míns og leggja kennitöluna og stjörnumerki á minnið og svona.
Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk klárlega.
Listasafnið eða Harpa?
Mér finnst meiri Airwaves stemmning í Listasafninu og ég er búin að sækja marga frábæra tónleika þar á Airwaves, en Harpan er líka mjög næs þegar það er vont veður t.d. Myndast líka minni raðir og það eru rosa flott ljós og gott hljóð þar.
Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Við í Retro erum að spila í Norðurljósum í Hörpu á miðvikudeginum kl. 23:20 og í Listasafninu á föstudeginum á miðnætti. Svo verðum við líka á off venue dagskránni, erum í Jör á fimmtudeginum kl. 17, á föstudeginum á Hotel Marina kl. 19:00 og svo í Bláa lóns partíinu á laugardeginum kl. 14:00.
Tónleikar helgarinnar
Eins og flestar vikur er fjölbreytt úrval tónleika á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi og hér verður farið yfir það helsta.
Miðvikudagur 7. ágúst
Tónlistarhópurinn Tónleikur mun halda sína stærstu tónleika hingað til á Rósenberg í kvöld. Tónleikur er hópur sem samanstendur af listamönnum sem öll eiga það sameiginlegt að semja sína eigin tónlist og í kvöld munu koma fram yfir tugur flytjenda; Martin Poduška, Raffaella, Ragnar Árni, slowsteps, val kyrja/Þorgerður Jóhanna, Tinna Katrín, Þorvaldur Helgason, Jakobsson, FrankRaven, Johnny and the Rest, Hljómsveitt og Forma. Fjörið hefst klukkan 20:30 og ókeypis er inn, en hattur verður á staðnum til að taka við frjálsum framlögum.
Hljómsveitin Eva verður öfug, hinsegin og alls konar á Kíkí í kvöld þar sem hún hitar upp fyrir Gay Pride gönguna sem verður um helgina. Leynigestur kvöldsins verður engin önnur en hin íðilfagra Ólafía Hrönn og mun hún flytja áheyrendum nokkur af sínum einstöku lögum. Öfurheitin hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.
Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari og Ingimar Andersen saxófónleikari leika djass frá 10 til 1 á Boston. Báðir eru þeir búsettir erlendis og taka hér höndum saman eftir langan aðskilnað og ókeypis er inn á viðburðinn.
Fimmtudagur 8. ágúst
Hljómsveitin Orfía, samstarfsverkefni Arnar Eldjárns og Soffíu Bjargar, spilar á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Örn og Soffía stofnuðu hljómsveitina Orfía árið 2011 eftir að hafa starfað saman í hljómsveitinni Brother grass um árabil.
Hljóðverk eftir Berglindi Jónu Hlynsdóttir & Guðmund Stein Gunnarsson verður flutt af Hljómskálanum í Hljómskálagarðinum klukkan 18:00. Verkið er hljóðinnsetning og myndverk í almenningsrými sem nýtir Hljómskálann sjálfan, sögu hans, staðsetningu í borginni og umhverfi til þess að lífga við þessa táknmynd sem er í senn minnisvarði, hús og svæði sem hefur sérstakt menningarlegt og sögulegt gildi í borginni.
Opnunarhátíð Hinsegindaga verður haldin í Silfurbergi í Hörpu og hefst klukkan 21:00. Á stokk stíga ýmsir þjóðþekktir tónlistarmenn sem á einn eða annan hátt tengjast sögu hinsegin fólks, baráttu þess og listsköpun. Aðgangseyrir er 2500 krónur.
Föstudagur 9. ágúst
Retro Stefson og Hermigervill munu kveðja hinn ástsæla tónleikastað Faktorý. Segja má að hljómsveitin hafi stigið sín fyrstu spor á staðnum þegar hún kom fram á Airwaves hátíðinni 2006 þó að staðurinn hafi þá borið heitið Grand Rokk. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.
Brimbrettarokksveitin Bárujárn efnir til tónleika til að fagna nýútkomnum geisladiski sínum. Tónleikarnir munu fara fram í kjallara skemmtistaðarins Bar 11 að Hverfisgötu 18 og hefjast leikar klukkan 22:00. Á tónleikunum verða öll lögin af disknum leikin, en auk þess hefur sveitin rifjað upp nokkur af sínum gömlu lögum og má því búast við löngu og sveittu prógrammi. Um upphitun sér hin stórefnilega brimrettarokksveit Godchilla og ljóðskáldið Jón Örn Loðmfjörð. Aðgangur er ókeypis en bjór og geisladiskar verða til sölu á tilboðsverði.
Strengja-og vélasveitin Skark gerir atlögu að tónleikaforminu í bílastæðahúsi Hörpu. Verk eftir Pál Ragnar Pálsson, Viktor Orra Árnason, György Ligeti, Alfred Schnittke og John Wilbye verða flutt en atlagan hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.
Laugardagur 10. ágúst
Helgi Rafn, söngvari og lagahöfundur, flytur 10 ný “kammer pop” lög á íslensku og ensku fyrir raddir og strengi ásamt Bartholdy strengjakvartettnum frá London. Tónleikarnir verða í húsnæði Leikfélags Kópavogs, en það rými var valið svo hægt væri að skapa leikræna og nána stemmingu. Aðgangseyrir er 1200 krónur og hljómleikarnir hefjast klukkan 21:00.
Sunnudagur 11. ágúst
Frá upphafi hefur Faktorý átt sér heitan draum um stefnumót við stórhljómsveitina Gus Gus. Nú mun sá draumur loks verða að veruleika því hljómsveitin hefur þáð heimboð á Faktorý. Til slíks viðburðar er ekkert kvöld meira viðeigandi en síðasta kvöld staðarins, sunnudagurinn 11. ágúst. Gestir ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því hljómsveitin ætlar að spila gamla slagara í bland við nýtt óútgefið efni af væntanlegri plötu sveitarinnar. Uppselt er á viðburðinn en þeim lesendum sem eru virkilega heitir er bent á barnaland.
30 atriði tilkynnt á Iceland Airwaves
Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 30 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári. Listamennirnir eru: Midlake (US), Emiliana Torrini, FM Belfast, Girls In Hawaii (BE), Ólöf Arnalds, Retro Stefson, Amiina, Moses Hightower, Sarah MacDougall (CA), Apparat Organ Quartet, Árstíðir, Royal Canoe (CA), Kiriyama Family, Skúli Sverrisson, Hermigervill, Sun Glitters (LU), Captain Fufanu, Sign, Stafrænn Hákon, Tempel (SE), Leaves, Endless Dark, Nóra, 1860, Dimma, Auxpan, Þórir Georg, Emmsjé Gauti, Kjurr og Nini Wilson!
Nýtt myndband með Retro Stefson
Það er skammt stórra högga á milli hjá gleðidanssveitinni Retro Stefson sem í dag frumsýndi glænýtt myndband við lagið Qween sem gerði allt vitlaust á vinsældalistum landsins á síðasta ári. Einungis mánuður er síðan síðasta myndband sveitarinnar leit dagsins ljós en þar klæddu þrír hljómsveitarmeðlimir sig upp í dragi. Í nýja myndbandinu sem er tekið upp við rætur Esjunnar er söngvarinn Unnsteinn Manuel í veiðimannaham og skýtur hvítan ref með riffli. Refurinn umbreytist við það í skjannahvíta fegurðardís og óvænt atburðarás tekur við. Myndbandinu er leikstýrt af Reyni Lyngdal og hægt er að horfa á það hér fyrir neðan.
Retro Stefson í dragi – Nýtt myndband
Nýtt myndband við lagið She said með hljómsveitinni Retro Stefson var frumsýnt í dag. Í því má meðal annars sjá bræðurna Unnstein Manuel og Loga Pedro klædda upp sem dragdrottningar og hóp manna með svínagrímur að breikdansa inn á barnum Harlem. Myndbandinu var leikstýrt af Einari Baldvin Arasyni og framleitt af Pegasus. En sjón er texta ríkari, horfið á myndbandið hér fyrir neðan.
Sónarskoðun – Fyrri hluti
Sónar hátíðin er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur og fyrra kvöld hátíðarinnar var mögnuð upplifun og sannkölluð flugeldasýning fyrir skilningarvitin. Fyrsta atriðið sem ég sá dagskránni var plötusnúðatvíeykið Thugfucker í Silfurbergi sem samanstendur af hinum íslenska Hólmari og Greg frá New York. Þeir dúndruðu drungalegu tekknói í mannskapinn og stjórnuðu dansinum eins og brúðumeistarar með útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum.
Kraftwerk á krakki
Þvínæst rölti ég yfir í Norðurljósasalinn og til að sjá Diomond Version sem ég hafði aldrei heyrt um áður en smekkvís kunningi hafði mælt með þeim. Sá vissi greinilega hvað hann söng því þetta var ein magnþrungnasta tónleikaupplifun sem ég hef orðið vitni að undanfarin misseri. Tveir menn á bakvið tölvur og græjur en fyrir framan þá var nokkurs konar hávaðalínurit og fyrir aftan þá tveir skjáir með alls konar grafík, svona pixlaðir skjáir með áferð eins og ljósaskilti í Vegas. Þetta var í stuttu máli sagt eins og Kraftwerk á krakki. Tónlistin var grjóthart iðnaðarsalt, rifið bassasánd, taktar úr pumpandi pistónum bílvéla og færibanda. Allt saman kalt, hrátt og steinsteypt. Sjónræna hliðin var svo dýrindis djöflasýra og allt virkaði þetta eins og stórskotahríð á skilningarvitin.
Kampavín og sígarettur
Modeselektor voru það band sem ég var spenntastur fyrir þetta kvöldið og voru stórgóðir en bliknuðu þó eylítið í samanburði við Diamond Version. Tónleikarnir voru þó skemmtilegir og fjölbreyttir og snertu á dubstep, tekknói, hip hop og almennri gleðitónlist. Á milli laga töluðu þeir með effekti á röddinni sem lét þá hljóma eins og íkorna og á ákveðnum tímapunkti tilkynntu þeir að nú myndu þeir taka sígarettulagið. Og kveiktu sér í. Ég fylgdi þeirra fordæmi. Þvínæst opnuðu þeir kampavínsflösku og sprautuðu yfir salinn eins og þeir hefðu sigrað í formúlu 1. Þetta var stórgóð skemmtun og tilraunakenndum myndböndum var einnnig varpað á skjá til að auka upplifunina.
Nýtt efni frá Gus Gus
Gus Gus byrjuðu tónleika sína á nýju lagi sem var sérdeilis æðislegt. Hljómaði eins og fyrsta smáskífa af væntanlegri plötu og viðlagið sungið af Högna var löðrandi í grípandi danstónlistarnostalgíu; „Do you remember the days, when we started to crossfade.“ Tónleikarnir voru heilt yfir frábær skemmtun en ég hef þó séð þau betri, fjarvera Urðar var nokkuð truflandi, en rödd hennar var spiluð af bandi í einstaka viðlagi. Högni og Daníel Ágúst stóðu sig þó með glæsibrag og fleiri ný lög ómuðu sem lofa góðu fyrir komandi plötu.
Ógrynni af Ást
Þá hljóp ég yfir í norðurljósasalinn og náði þremur lögum með Retro Stefson sem rokkuðu salinn í ragnarök. Það var ekki þurr flík í húsinu og Unnsteinn hafði salinn í hendi sér og lét fólk hoppa, skoppa og dansa asnalega milli þess sem hann kynnti hljómsveitina. Trentemoller var síðasta atriði á dagskrá og settið hans sveik engan. Dunandi og pumpandi tekknó sem var aðgengilegt en samt framsækið og helling af hnefum á lofti í salnum. Þegar hérna var komið við sögu var ölvun orðin umtalsverð og þegar hann spilaði I feel Love með Donnu Summer missti ég stjórn á öllum hömlum og hoppaði um og veifaði höndunum í algleymisdansi.
Eftir það sagði skylduræknin til sín og kíkti á dj-settið hjá James Blake í bílakjallaranum. Það var ekki alveg jafn mikið rave og ég hafði ímyndað mér, einungis smátt svæði hafði verið afmarkað í kjallaranum, en tónlistin var þó nokkuð góð. Dubstep, Dancehall og reggískotin danstónlist voru hans helstu vopn og krúnudjásnið var frábært remix af Drop it like it’s hot með Snoop Dogg. Hér gæti ég sagst hafa farið heim til að fylla á rafhlöðurnar fyrir síðara kvöldið, en það væri lygi. Allt í allt var fyrra kvöld Sónarsins frábærlega vel heppnað og sannkölluð árshátíð fyrir augu og eyru.
Davíð Roach Gunnarsson