Airwaves yfirheyrslan – Axel í Rökkurró

Axel sem leikur á gítar með Rökkurró sat fyrir svörum í yfirheyrslu dagsins. Rökkurró snéru nýlega aftur eftir um tveggja ára pásu með nýtt lag í farteskinu, Killing Time, og mæta fersk til leiks á Airwaves í ár.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Ef mig misminnir ekki þá var fyrsta hátíðin sem ég fór á sem gestur árið 2005 og ég man rosalega vel eftir tónleikum Skáta í Hafnarhúsinu. Þvílík stemmning og þvílíkt band! Þeirra er og verður ávallt sárt saknað.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Ég spilaði fyrst 2008 eða 2009 eftir að ég gekk til liðs við Rökkurró. Man ekki hvort það var. Við spiluðum á Listasafninu og það var frekar geggjað.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður mín fimmta hátíð sem listamaður.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Hún er alltaf að stækka og verða betri. Aðbúnaður og skipulag er nánast óaðfinnanlegt og slíkt er ekki gefins á svona hátíðum. Verst finnst mér að hátíðin sem og íslensk tónlistarmenning í heild sinni er aðeins farin að finna fyrir þessari absúru hótelbyggingaráráttu.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Á Íslandi er það Iðnó. Draumasalur. Ótrúlega gamalt og fallegt andrúmsloft þar inni. Góð aðstaða fyrir tónlistarmenn sem og gesti og stórt svið sem rúmar fjölmennar og ofvirkar hljómsveitir og það er líka nógu hátt til að þú sjáir uppá það sama hvar þú stendur. Rjómasound líka.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?
Sjitt ég veit það ekki. Ég er löngu hættur að reyna að skipuleggja mig eitthvað fyrir þessa hátíð því ég enda alltaf á því að missa af öllu sem ég planaði. Ég fylgi yfirleitt bara einhverju fæði og ramba inná eitthvað stöff með góðu fólki. Maður á ekki að svekkja sig á því sem maður missir af, miklu betra að njóta þess sem maður sér. Kannski ætti ég samt að segja !!! árið sem þeir, Bloc Party og Chromeo voru á sama tíma. Fór á BP í Flensborgarskólanum kvöldið áður og endaði síðan á Chromeo en eftirá að hyggja hefði ég kannski átt að safna grýlukertum á undirvagninn á mér í röð fyrir utan !!! til að ná nokkrum lögum.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Ekki hafa áhyggjur af slottinu þínu. Airwaves er frekar ólíkt almennri íslenskri tónleikamenningu þar sem allir mæta á svæðið nokkrum klukkutímum of seint eftir stífa for-bjórun í heimahúsi sökum óbærilegs áfengisverðs og almenns slugsagangs. Bransafólk er óútreiknanlegt og mikilvægast er að vera glaður og hress því það skilar sér alltaf í frammistöðuna. Það skiptir ekki öllu að þú sért að spila á erfiðu slotti fyrir framan hálftóman sal. Það kemur Airwaves á eftir þessu Airwaves-i og bjór er góður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Omar Souleyman og Fucked Up eru þeir erlendu listamenn sem ég er spenntastur fyrir. Verst að þetta er á sama tíma. Ég hugsa að Souleyman verði fyrir valinu hjá mér enda ekki á hverjum degi sem manni gefst færi á að sjá Sýrlenskt skemmtaragúru leika slagara á borð við “Saddam Habibi”. Ég alla veganna hoppaði hæð mína af gleði þegar ég sá að við vorum færð í dagskránni og það varð raunhæfur möguleiki fyrir mig að komast á Omar. Af íslenska dótinu er ég einna spenntastur fyrir Grísalappalísu, ég hef heavy gaman af plötunni þeirra. Oyama líka. Djöfull eru þau öll sæt og klár. Einnig er ég spenntur fyrir nýju stöffi frá bæði Agent Fresco og For a Minor Reflection og svo má enginn missa af Samaris og Ojbarasta.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þetta er lífæð íslensku tónlistarsenunnar. Þetta er skemmtilegasta vika ársins og í raun og veru stærsta og besta tækifæri íslenskra tónlistarmanna að leika fyrir fersk eyru og einnig er frábært og alls ekkert sjálfgefið fyrir hinn almenna tónlistaráhugamann að fá það ferskasta og mest spennandi að utan hingað heim.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Í ár spila ég fimm sinnum en einu sinni þá spiluðum við held ég 7 sinnum. Það er alltof mikið. Mig minnir að einhver hafi sagt mér að stórsveitin Reykjavík! hafi afrekað það að spila 15 sinnum árið 2008. Djöfull er það klikkað. Djöfull eru þeir klikkaðir. Kannski er þetta samt allt helber lygi…

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði ágætis staðir til síns brúks.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Ég er bara að spila með hljómsveitinni Rökkurró og dagskráin okkar er sem stendur:

Miðvikudagurinn 30. Okt:
17.30 12 Tónar (off venue)
20:00 Kaffibarinn (off venue)

Föstudagurinn 1. Nóv:
18:00 Loft Hostel (off venue)
22:30 *ON VENUE SHOW* Harpa Reykjavik Concert and Conference Centre -KALDALÓN

Laugardagurinn 2. Nóv:
18:30 Kex Hostel – KEXP Showcase (off venue)

Ef þetta hentar þér illa geturðu svosum bara fylgst með mér úr fjarska á meðan ég baða mig eða eitthvað…

Airwaves yfirheyrslan – Sindri Eldon

Sindri Eldon hefur reynslu af Iceland Airwaves bæði sem blaðamaður fyrir Reykjavík Grapevine og sem tónlistarmaður með hljómsveitunum Dáðadrengjum, Dynamo Fog og Sindra Eldon & The Ways. Við spjölluðum við Sindra um hátíðina.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Að spila með Dáðadrengjum á Airwaves 2003. Ég svona semi vissi hvaða hátíð þetta var fyrir það, en vissi ekkert að þetta væri eitthvað mikið mál. Ég var sautján ára og nýbyrjaður að drekka (ég blómstraði seint), og svo allt í einu var ég á NASA að opna fyrir Quarashi fyrir framan fullan sal af útlendingum. Það var ýkt kúl, eins og maður sagði gjarnan 2003.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Uuu, 2003, 2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og svo núna 2013, með ýmsum hljómsveitum, þannig að þær verða tíu allt í allt.

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Ekkert stendur upp úr í fljótu bragði.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Sindri Eldon & the Ways í fyrra. Við vorum með svo geðveikt slot, maður! Hálftvö á laugardagsnótt, Amsterdam smekkfullt af blindfullu fólki í góðum fílíng, við í geðveiku formi, tókum klukkutímasett eins og einhvers konar goð meðal manna. Nei djók. Eða þú veist samt ekki djók, við vorum ógeðslega góðir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin? 

Veitekki… hún var fyrst bara einhver svona vonlaus íslendinga-ófagmennska þar sem við vorum reddandi öllu með því að plögga dóti með lánum og loforðum. Svo varð þetta að einhverju svona kúl thing, þökk sé Sjálfstæðisflokknum og Dóra Ásgríms. Matadorpeningarnir flæddu óheflaðir um æðar efnahagsins, og stóru nöfnin byrjuðu að mæta. Síðan pompaði náttúrulega botninn undan öllu því hérna um árið, og hátíðin var mjög lágstemmd í nokkur ár, bara íslensk númer og einhverjir desperate útlendingar. Síðan þá er Airwaves búin að skríða aftur inn í ágætis sess, sem eitthvað svona fyrir-hruns-revival-fyrirbæri, aðallega þökk sé kvikmyndaiðnaðnum, og stóru nöfnin byrjuð að mæta aftur. The sky’s the limit!

 

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Finnst þeir allir alveg ýkt lélegir á heimsmælikvarða. Allir bestu staðirnir eru off-venue. Fuck the system!

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Úff, ég veit ekki… það eru alltaf einhverjir typpatrúðar ráfandi um röflandi um hvað Ghostigital eða Bloodgroup eða Reykjavík! eða einhverjir hafi verið svo geðveikir, maður er löngu hættur að taka mark á þessu.

 

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Hvort sem þú talar ensku eða íslensku við salinn, ekki útskýra af hverju þú ert að tala íslensku/ensku. Öllum er sama, fíflið þitt. Ekki biðja fólk um að koma nær sviðinu, ekki láta fólk klappa í takt, ekki segja okkur um hvað lögin eru, ekki reyna að vera fyndinn, ekki reyna að púlla íslenskan aulahúmor á útlendingana, ekki tala um hversu fullur/þunnur þú ert… bara ekki fokking vera óþolandi fáviti talandi um ömurlegt kjaftæði. Mér er alveg sama hversu lengi ég beið í röð eftir að sjá bandið þitt, ef ég heyri þig segja sögu af því hvernig lagið þitt var samið meðan bassaleikarinn var með flensu eða eitthvað svoleiðis, ég fokking grýti þig með glerflösku. Haltu fokking kjafti.

 

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Neinei, finnst bara best að ráfa milli venuea að sjá hvað fólk hefur upp á að bjóða.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Hún er mjög gott showcase fyrir það besta sem íslensk tónlist hefur upp á að bjóða. Öll böndin gera sitt besta til að vera kúl fyrir útlendingana, og það er bara rokk.

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir? 

Engin.

 

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

U, ég held við höfum verið með tíu gigg allt í allt 2011, og við þurftum að afbóka eitt þeirra. Síðan þá höfum við farið aðeins varlegara í að bóka off-venue gig.

 

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Ekki gott að segja… þær hafa verið mjög hressar margar hverjar.

 

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo. Ég hef séð Kraftwerk tvisvar, og þetta er bara ljósashow með góðri tónlist. Ég veit ekki hversu lífleg YLT eru, en þau hljóta að vera meiri spennandi að horfa á en Kraftwerk.

 

 

Listasafnið eða Harpa?

Fokking hvorugt. Sportbarinn í Ármúla.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Sindri Eldon & the Ways! www.facebook.com/events/1392415404323527

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Rokk í smettið!

Airwaves yfirheyrslan – Tonik

Í yfirheyrslu dagsins þjörmuðum við að Antoni Kaldal Ágústsyni sem framleiðir græjumúsík undir listamannsnafninu Tonik. Hann var auðveldur viðureignar og sagði okkur allt sem hann veit um Airwaves hátíðina í svo mörgum orðum.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2003. Trabant á Nasa og svo var Mugison með eftirminnilega frammistöðu á Pravda.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

Sama ár á Grandrokk (síðar Faktory/iðnaðarsvæði/eitthvað random hótel). Lék með tölvuprojektinu Tonik, Jón Þór úr Lada Sport/Love & Fog spilaði á gítar. Spiluðum á undan Sk/um, sem var samstarfsverkefni Jóhanns Ómarssonar (Skurken) og Þorsteins Ólafssonar (Prince Valium).

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Níu hátíðum.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?
Útitónleikarnir með Elektro Guzzi í fyrra voru frekar eftirminnilegir. Einnig gæti ég talið til Dirty Projectors og Moderat.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Erfitt val. Þegar kemur að Tonik, þá hafa síðustu ár farið í markvissar tilraunir og þróun með lifandi flutning og því margt sem kemur upp í hugann. Þessi þróun er enn í gangi, en tónleikarnir í fyrra eru þó eftirminnilegir. Þar varð til eitthvað á sviði sem við erum að skrásetja og koma á plötu.

Tonik – Snapshot One (Live at Iceland Airwaves Festival 2012) from Tonik on Vimeo.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mest megnis hafa breytingar verið af jákvæðum toga og eiga skipuleggjendurnir mikið lof
skilið. Ég upplifi hátíðina markvissari en áður. Augljós breyting er að ferðamenn eru í meiri hluta. Það mun koma betur í ljós í ár hvernig dagsetningarnar kring um mánaðamótin október nóvember séu að virka.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Satt best að segja á ég mér ekki uppáhalds tónleikastað.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Sumarið eftir að Klaxons spilaði, þá sá ég svolítið eftir að hafa ekki séð þá.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Njóta.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Úr erlendu deildinni væru það Sun Glitters, Anna Von Hausswolff og Jon Hopkins. Ég sá Gold Panda árið 2010 og get mælt með honum. Úr íslensku deildinni mun ég reyna að sjá Úlf Eldjárn, Emiliönu Torrini og Samúel Jón Samúelsson Big Band.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Heilmikla.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig?

Allskonar. Það eru ýmis tækifæri sem hægt er að rekja beint til Iceland Airwaves.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Jon Hopkins?

 

Listasafnið eða Harpa?

Harlem?

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Það mun vera Tonik. http://facebook.com/tonikmusic

Tonik – Snapshot Two (feat. Jóhann Kristinsson) from Tonik on Vimeo.

Airwaves yfirheyrslan – Stafrænn Hákon

Ólafur Örn Josephsson tónlistar­maður hefur gefið út tónlist undir listamannsnafninu Stafrænn Hákon frá árinu 1999 og spilaði í fyrsta skipti á Iceland Airwaves 2001. Ólafur ræddi við okkur um Airwaves og bandið sitt Stafrænan Hákon.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Fyrsta hátíðin árið 1999 í einhverju flugskýli .. voru tvö bönd að mig minnir, Gus Gus og Sigur Rós. Bæði frekar eftirminnilegt

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

Spilaði fyrsta skiptið árið 2001, þá með hljómsveitinni Ampop.  Það var á Kaffi Thomsen og það var svaka stuð. Fullt af fólki og allir frekar sáttir enda mjög spennandi allt saman.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

hmmmm….. 2001, 2007, 2010, 2011 og 2012,  þannig að núna árið 2013 er 6. skiptið.

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Margir mjög góðir sem maður hefur dottið inná. Man hversu Sigur Rós voru góðir í Hafnarhúsinu árið 2001 enda frekar heitir á þeim tíma.  Svo voru Deerhof árið 2007 helvíti magnað.  Annars Heavy Experience árið 2011 á Amsterdam eitt það eftirminnilegasta af þessu.


Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur? 

Það var sennilega árið 2011 með hljómsveitinni Náttfara í Norðurljósum í Hörpunni.  Magnað sánd og manni leið virkilega vel það kvöldið á sviðinu.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Hún stækkar og stækkar með hverju árinu virðist vera. Og ekki verra að alltaf verið að batna til muna aðstæður og fleira í þeim dúr.  Virkilega vel framkvæmd í gangi hjá fólkinu sem skipuleggur og leggur hönd á plóg. Get ekki ímyndað mér haustmánuði án þessarar hátíðar.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Amsterdam auðvitað og svo náttla Iðnó alltaf góður. 

 

 Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Njóta þess að spila og gefa sig 110% í þetta stöff… annars er þetta vonlaust og hælarnir kælast fljótt.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Yo La Tengo (séð áður en alltaf til í meira, eitt það magnaðasta tónleikaband sem ég hef upplifað.) Nolo með trommara og Stroff auðvitað.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska tónlistarmenn að fá tækifæri til að koma fram á svona glæsilegri hátíð. Ekki sjálfgefið og það ætti að halda flestum á tánum.  Þetta er orðinn heljarinnar megamessa í íslensku listalífi, svo einfalt er það.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð? 

Í fyrra var það 5 sinnum með offvenue.. það var feikinóg.

 

 Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

allar góðar á sinn hátt.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo án vafa enda ennþá frekar fersk, Krafwerk gæti ég hugsað mér að sjá fyrir 35 árum.

 

Listasafnið eða Harpa?

Fer eftir atriðum.  Annars er ég yfirleitt með vonbrigðum með hljómburð í Listasafninu.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Þetta skiptið er það bara Stafrænn Hákon.  Náttfari í fríi að mér skilst og Per:Segulsvið fær aldrei aðgang að slíkri hátíð.

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Já ætla að láta móðir mína sauma STROFF á allar flíkurnar mínar fyrir hátíðina, til að þrengja soldið að ökklum og úlnliðum.

 

 

Airwaves yfirheyrslan – Agnes í Sykur

Agnes Björt Andradóttir söngkona hljómsveitarinnar Sykur hefur vakið mikla athygli síðustu ár fyrir magnaða sviðsframkomu og feikna sterka rödd. Agnes spilar í ár á sinni þriðju Airwaves hátíð ásamt hljómsveit sinni Sykur.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni? 

Það var árið 2008. Það sem var eftirminnilegast á hátíðinni það árið voru tónleikar hljómsveitarinnar Mae Shi sem er experimental indie band frá Los Angeles sem átti vel við litlu rebel Agnesi. Svo fór ég í eftirminnilegt pottapartí í ókunnugu húsi þar sem alklæðnaður var skylda, það er frekar ógirnilegt að fara í heitapott í gallabuxum ásamt 20 manns.


Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Fyrsta skipti sem ég spilaði á airwaves var árið 2011. Það var sturluð upplifun. Við spiluðum á Nasa, klukkan 3, aðfaranótt sunnudags fyrir troðfullan sal af sveittu fólki sem þráði ekkert annað en að dansa og skemmta sér. Stemningin var helluð. Við komum með lítið brimbretti með okkur og Stefán sörfaði krádið. Þetta er í top 3 af skemmtilegustu giggum sem að ég hef einhverntíman spilað. R.I.P Nasa!

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað? 

Í ár er ég að spila á þriðju hátíðinni minni. Ég spilaði 2011 og 2012 með Sykur.


Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur? 

Mae Shi

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því af því að mér finnst ég hafa breyst svo mikið sjálf. En ég hef tekið eftir því að fleiri erlendir gestir hafa bæst í hópinn og stemningin og undirbúningurinn eykst með hverju árinu finnst mér. Fyrir mér hefur hátíðin stækkað og þetta er orðið bara svona eins og jólin eða páskarnir.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið? 

Fyrst og fremst að vera prófessjonal, halda einbeitingu, sofa vel, ekki vera þunn/ur. Airwaves er hátíð þar sem fólk kemur saman, óháð aldri, búsetu eða whatever-the-shit-they’re-about með það eitt í huga að skemmta sér. Yfir krádinu ríkir ákveðið frelsi og jákvæðni. Þau gigg sem bjóða uppá þetta krád eru bestu giggin til að spila á, þau geta kennt manni svo margt á ljúfan máta. Ef þú ert að spila í fyrsta skipti á airwaves, njóttu þess og ekki vera feimin/n að leyfa sjálfum þér að upplifa þig eina/n af krádinu.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Uppskera, árshátíð og góð tenging fyrir senuna út í heim.


Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?  

Metið er minnir mig sjö tónleikar árið 2011. Við spilum fjóra tónleika í ár.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo? 

Kraftwerk

 

Listasafnið eða Harpa?

Fer eftir ýmsu

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér? 

Ég er að spila með Sykur. Hérna er dagskráin okkar —

miðvikudagur = Jör klukkan 17:00 (off venue)

föstudagur = Þjóðleikhúskjallarinn klukkan 2:10

laugardagur = Laundromat Cafe klukkan 15:00 (off venue) og Harpa Norðurljós klukkan 00:40

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Hlakka til að sjá ykkur elskur! LET’S GO!

 

 

Airwaves yfirheyrslan: Snorri Helga

Snorri Helgason spilaði á Iceland Airwaves fyrst árið 2006 með hljómsveit sinni Sprengjuhöllinni en síðan þá hefur hann komið fram á hverri einustu hátíð. Snorri gaf nýlega út hina frábæru plötu Autumn Skies en hann mun flytja efni af henni á hátíðinni i ár.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Ég held að fyrsta og eina skiptið sem ég hafi farið á Airwaves hafi verið 2005 eða 4 þegar það var í Laugardalshöll að mestu leyti. Fatboy Slim og eitthvað sjitt (2002). Svo hef ég spilað á hverri hátíð síðan 2006.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Ég spilaði fyrst á Airwaves 2006 með Sprengjuhöllinni á Grand Rokk. Það var ógeðslega gaman. Þetta voru kannski okkar 7-8 tónleikar eða eitthvað svoleiðis. Við vorum bara nýbyrjaðir og sumir okkar eiginlega nýbyrjaðir að spila á hljóðfærin sín. En við höfðum hjartað á réttum stað og það skilaði sér og það var mega stemmning.


Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

2006-2013. Þetta verður þá mín áttunda.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

FM Belfast á gamla Gauk á Stöng líklega á Airwaves 2007. Djös stemmning.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

2008 spilaði Sprengjuhöllin á Lúdó sem var í kjallaranum þar sem Bónus er núna á Hallveigarstíg. Þetta var hellað venue og svona frekar mikill fermingarveislufílingur yfir öllu. Það vantaði bara heitu brauðréttina og nokkrar ömmur. Ofan á allt þetta var ég alveg fáránlega veikur þennan dag og spilaði allt giggið eiginlega í algjöru óráði. Í síðasta laginu hneig ég næstum því niður en náði að styðja mig við magnarann minn. Staulaðist heim alveg gjörsamlega búinn á því. En þetta var gott gigg.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin

Bara til hins betra. Allt skipulag og allt utanumhald er orðið miklu miklu betra. Það er bara allt annar fílingur yfir þessu núna en fyrir nokkrum árum. Miklu meira pottþétt og pro og þá er þetta allt saman miklu skemmtilegra.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Á Íslandi er það líklega Græni Hatturinn á Akureyri og Sjóræningjahúsið á Patreksfirði. En ef ég á að velja eitthvað Airwavesvenue þá er það pottþétt Gamla Bíó.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Passið upp á að hvíla ykkur og heilsuna. Í alvöru. Þetta er djös törn og mikið álag á líkamann. Farið í sund og reynið að borða eins vel og getið. Ekki bara pullur og börrar. En auðvitað verðiði að njóta líka. Þetta er gaman.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Yo La Tengo. Ekki spurning.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Mjög mjög mikla. Þetta er algjör vítamínsprauta fyrir senuna alla.

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

Ég fann útgefanda á Winter Sun á GAS-svæðinu á hátíðinni 2011 sem gaf hana svo út ári seinna. 2012 vorum við bókuð á Eurosonic og fundum synch-agent í LA sem hefur reynst okkur vel. Svo hef ég kynnst fullt af góðu fólki sem hefur hjálpað mér í gegnum tíðina með alls konar smáatriði og tengingar og plöggerí.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

13 stykki árið 2011. Það var assskoti mikið.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

2012. Hún var bara einhvern veginn svo drullu næs. Þær verða einhvern veginn alltaf betri með hverju árinu. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig þau ætla að toppa sig í ár. Engin pressa samt.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La fökkkings Tengo baby.

 

 

Listasafnið eða Harpa?

Harpa. Alla leið í bankann.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er bara að spila með SnoHe flokknum. Tvisvar on-venue með hljómsveitinni og svo 4 sinnum off-venue. Það er best að fylgjast með okkur á Fésinu: www.facebook.com/helgasonsnorri

 

Ljósmynd: Jónatan Grétarsson. 

Airwaves yfirheyrslan – Helgi Gang Related

Helgi Pétur Hannesson trommari hefur spilað með hinum ýmsu hljómsveitum á Iceland Airwaves frá árinu 2003. Í ár spilar Helgi með Gang Related og Þóri Georg. Við ræddum við Helga um reynslu hans af hátíðinni.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Ég spilaði fyrst árið 2003 með hljómsveitinni Dáðadrengir, það var alveg ótrúlega gaman. Ég hafði aldrei farið áður, nema bara á staka tónleika, þannig að þetta var allt saman mjög nýtt og spennandi og maður var mjög þakklátur og spenntur fyrir að fá að spila. En ég man satt að segja eftir fáu sem ég sá það árið eða hvernig tónleikar okkar dáðadrengja tókust

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað? 

Ég er búinn að spila á öllum hátíðum síðan þá, þannig að þetta verður mín ellefta í ár


Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Tv on the radio á gauknum, 2003 líklega, það eru ennþá eftirminnilegustu og bestu tónleikar sem ég hef séð á airwaves. !!! voru líka veeel trylltir

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur? 

Lokatónleikar dáðadrengja á gauknum 2005. Það var mjög skrítið allt saman


Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir hvernig hátíðin hefur breyst, aðal breytingin hefur líklega átt sér stað hjá mér sjálfum. Ég er orðinn eldri, latari og leiðinlegri og er eiginlega hættur að setja á mig pressu um að þurfa að sjá allt það sem mig langar til að sjá (nema í ár!). Ef það er löng röð á stað sem mig langar á þá fer ég yfirleitt bara á aðra staði og tjekka á random böndum. Það er alltaf næs að detta inn á einhverja góða hljómsveit sem maður hefur aldrei heyrt í áður. En auðvitað lætur maður sig hafa það að tjilla í röð fyrir einhverja snilld

 

 

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Grand Rokk/Faktorý var alltaf í miklu uppáhaldi

 

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Dirty Projectors

 

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent? 

Það er alveg ótrúlega mikið að góðum böndum/tónlistarmönnum í ár. Ég er spenntastur fyrir Fucked up, Mac DeMarco, Metz og Goat

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

 

Frekar mikla held ég. Airwaves er í rauninni svona árleg vítamínsprauta fyrir hljómsveitir, þeas þær hljómsveitir sem spila á hátíðinni

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Í fyrra spilaði ég 8 eða 9 sinnum, það er mitt persónulega met. Met sem ég hyggst ekki slá neitt á næstunni

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

2003 og eflaust 2013

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Kraftwerk

 

Listasafnið eða Harpa?

Listasafnið

 

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

GANG RELATED: Gaukurinn, föst, kl 20.  / Amsterdam, sun, kl 21 / Bar11, fim, kl 18:30 (off-venue)

ÞÓRIR GEORG: Amsterdam, fim, kl 22:30.

MORÐINGJARNIR: bar11, lau, kl 16:30 (off-venue)

 

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

*písmerki*

Airwaves Yfirheyrslan – Ási í Muck

Ási Þórðarson sem lemur húðir með groddarokksveitinni Muck var kallaður til yfirheyrslu í þetta skiptið og sagði okkur allt um reynslu sína af Airwaves.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Ég held að það hafi verið Airwaves 2008. Ég man samt ekkert mikið eftir henni annað en það var geggjað að sjá Crystal Castles.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Mín fyrsta upplifun  var á Airwaves 2010 þegar ég spilaði með Markúsi & The Diversion Sessions á stað sem hét Risið þá en ég held að heiti Glaumbar í dag. Timber Timbre voru á undan okkur og ég man hvað mér fannst það absúrd dót. Það var samt ekkert mikið af fólki þarna. Allir rosa pen og slakir. Gott gigg samt. Fyrsta skiptið sem Muck spilaði var á Airwaves 2011. Spiluðum á Amsterdam á sama kvöldi og Liturgy minnir mig. Það var fokkings brjálað dæmi.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Síðan 2010 svo þetta er 3 hátíðin sem ég spila á.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Ætli það séu ekki Timber Timbre tónleikarnir. Þeir voru ótrúlegir. Mér fannst Iceage líka frekar nettir.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Eitt eftirminnilegasta kvöldið var miðvikudagskvöld á Airwaves 2011. Þá byrjaði ég á að spila með Markúsi & The Diversion Sessions í Kaldalóni í Hörpu. Við vorum með 11 manna band, brass og allan pakkann og áttum geðveikt gigg fyrir fullum sal. Svo eftir það þá hljóp ég spretthlaup með trommudótið mitt yfir á gamla Bakkus á Tryggvagötu og spilaði alveg rosa gigg með Muck. Fólk var að brjóta glös og slamma eins og brjálæðingar. Gott kvöld!

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Mér finnst þetta alltaf verða betra og betra. Viðmótið við listamenn, úrvalið af hljómsveitum o.s.frv. Airwaves er fyrirmyndartónlistarhátíð.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Sakna Faktorý. Held að það verði alltaf uppáhalds staðurinn til að spila á.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Sé eftir að hafa ekki farið á Hauschka í fríkirkjunni. Bömmerrrrr.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Borða vel, reyna að sofa eitthvað, ekki vera í fýlu þó giggið sé lélegt. Reyna að njóta hátíðarinnar til hins ýtrasta.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Í ár er ég spenntastur fyrir Savages og Metz.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þessi hátíð er náttúrulega ótrúlega mikilvæg fyrir íslenskt tónlistarlíf. Þessi hátíð tengir hljómsveitir við erlenda áhorfendur og bransafólk að utan. Þetta er alvöru hátíð með fagmannlegri umgjörð og ég held að það sé ótrúlega hollt fyrir hljómsveitir að komast í tæri við það.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?
Við höfum fengið dálítið hype og fólk er spennt að sjá okkur. Við höfum kynnst fólki sem hefur hjálpað okkur að fá umfjöllun ytra og það er bara snilld!

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Ætli það séu ekki svona 9.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?
Allar. Það er svo gaman að spila.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk þegar ég er úti að hlaupa. Yo La Tengo annars alltaf.

 

Listasafnið eða Harpa?
Listasafnið fyrir nostalgíugildið.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Er að spila með hljómsveitinni Muck og það er hægt að sjá okkur á eftirfarandi stöðum:
Bar 11 – Miðvikudaginn 30 okt (Off venue)
Lucky Records – Fimmtudaginn 31. okt (off Venue)
Harpa – Norðurljós Fimmtudaginn 31. okt (Airwaves)
Harpa – Kolabrautin – Föstudaginn 1. okt (Off venue)
Kexp Session – Kex Hostel – Laugardaginn 2. Okt ( Off venue)
Gamli Gaukurinn – Laugardaginn 2. okt (Airwaves)

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?
Hey bara meira rokk og minna hótel skiluru. Tékkið á snillingunum í Captain Fufanu á Airwaves því þeir lofa að vera með eitthvað kreisí sett.

Ingibjörg í Boogie Trouble

Hin frámunalega fönkí Ingibjörg Elsa Turchi sem slær bassa með Boogie Trouble, Babies og Bjór var spurð spjörunum úr um Airwaves í yfirheyrslu dagsins.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2011, en það ár var ég ekki í neinum hljómsveitum sem spiluðu. Hafði samt spilað frá 2007.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Það var með hljómsveitinni Rökkurró árið 2007 í Iðnó.  Ég man eiginlega ekkert eftir tónleikunum en það hlýtur bara að hafa verið gaman. Kannski pínu stress.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Í ár mun ég spila á minni sjöttu hátíð.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?

Ætli það sé ekki á Airwaves 2012 með Boogie Trouble. Við vorum með tvenna tónleika á sjálfri hátíðinni og þeir fyrri voru í Kaldalóni, sem er sitjandi salur, klukkan 19 á föstudegi. Á tónleikum með Boogie þá er það lenska að allir hafi reimað á sig dansskóna og höfðum við oftast spilað eftir miðnætti en þarna sátum við dálítið eins og fyrir dómnefnd. En svo í miðju setti stóð sem betur fer einhver upp og byrjaði að dansa sem endaði með því að næstum allir stóðu upp og dönsuðu í sætunum sínum sem var gaman og þó nokkur léttir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Einfaldlega stækkað og svo er off-venue prógrammið orðið jafn viðamikið og hátíðin sjálf, sem er ágætt fyrir þá sem ná ekki að kaupa miða. Það gefur líka fleiri hljómsveitum tækifæri á að spila.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Mér finnst Iðnó alltaf mjög notalegur, þegar það er þannig tónlist sem við á. Í raun er ég hrifnust af þeim stöðum þar sem nándin við hljómsveitina er sem mest og því er ég ekki hrifinn af of stórum sviðum í alltof miklu fjölmenni. Inn í spilar líka að ég er lágvaxin og þarf oft að hafa mikið við til að sjá sem best.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ekki neinum sem ég man eftir í fljótu bragði, það hefur örugglega bara leitt til þess að ég hef farið á einhverja aðra í staðinn, kannski einhverja hljómsveit sem ég þekkti ekkert.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Að taka þessu með ró og hafa gaman af.

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Ég er alltaf mjög spennt fyrir íslenskum böndum og svo langar mig að ná miða á Kraftwerk. En ég hef ekki skoðað line-upið mikið.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

Aðallega erlend fjölmiðlaumfjöllun. Einnig hafa KEXP-vídjóin gert góða hluti fyrir bönd sem ég hef spilað með.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Árið 2012 spilaði ég samtals 13 sinnum, með tveimur böndum, að off-venueum og KEXP vídjóum meðtöldum.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Listasafnið.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Með Boogie Trouble verð ég on-venue á laugardeginum kl. 21.20. Svo verðum við 5 sinnum off-venue. Einnig mun ég spila tvisvar off-venue með Babies og einu sinni með rapphljómsveitinni Bjór.

Airwaves yfirheyrslan – Jóhann Kristinsson

Tónlistarmaðurinn Jóhann Kristinsson gaf út sína þriðju plötu Headphones nýlega en hann mun koma fram á Iceland Airwaves í nóvember og spila lög af henni. Í Airwaves yfirheyrslu dagsins tókum við Jóhann tali.  

 

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

Árið 2011 spilaði ég á Airwaves í hljómsveitinni hjá Jóni Þór.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Einni on-venue en kannski þremur off-venue.

 

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mér finnst eins og stærri nöfn séu að bætast við listann og meira og meira af útlendingum sem sækja hátíðina. Leiðinlegt að missa staði eins og Nasa og Faktorý en rosalega jákvætt og skemmtilegt að fá Hörpuna inn í þetta dæmi.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Kaldalón, Þjóðleikhúskjallarinn og auðvitað Eldborg.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Patrick Watson í Þjóðleikhúskjallaranum árið 2006. Það voru magnaðir og dáleiðandi tónleikar.

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Ég sá dálítið eftir því að hafa misst af Beach House.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Reyna að spila nóg off-venue en passa sig samt á því að keyra sig ekki út. Þá er ekkert gaman að spila lengur.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Yo La Tengo/Skúli Sverrisson


Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Hátíðin hefur mjög jákvæð áhrif í för með sér. Bæði vegna þess að hingað kemur allskonar bransalið en líka bara vegna þess að listamenn æfa sig svo vel og mikið fyrir hana. Airwaves er metnaðarsprauta fyrir tónlistarlífið.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Ekkert gríðarlega oft. Fjórum sinnum eða eitthvað svoleiðis.

 

Listasafnið eða Harpa?

Harpa

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér? 

Ég er að spila á off-venue tónleikum á Skuggabar á fimmtudagskvöldinu kl.18.30 og on-venue kvöldið eftir í Iðnó kl.20.00. Ég er bara í einni hljómsveit sem heitir eftir mér sjálfum (sólóstöff).