Airwaves Yfirheyrslan – Þorbjörg í Retro

Mynd: Oliver James L’eroe.

Í yfirheyrsluherberginu þennan föstudag situr Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir, hljómborðsleikari Retro Stefson. Hún hefur spilað á Airwaves síðan á barnsaldri og við þjörmuðum að henni og fengum hana til að segja okkur allt sem hún veit um hátíðina.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?


Það var á Ariwaves 2006 og við spiluðum þá á Grand Rokk. Vorum svo lítil að það átti varla að hleypa okkur inn á staðinn þegar við mættum í sándtékk. Eftirminnilegast voru tónleikarnir sjálfir, var búin að vera mega spennt og hlakka til svo lengi. Ég man svo hvað ég var hissa þegar ég sá röðina fyrir utan þegar við vorum að fara að byrja. Stemmningin var rosa góð á tónleikunum og allt gekk vel. Svo er meira að segja til mega krúttlegt myndband af okkur frá þessum tónleikum, og viðtal þar sem allir eru rosa litlir og feimnir og sumir ekki einu sinni komnir í mútur. Tónleikarnir á Gauknum með Datarock og Whitest Boy Alive á eftir voru líka mjög eftirminnilegir og fáránlega góðir og skemmtilegir tónleikar. Whitest Boy Alive enduðu að mig minnir á Show Me Love með Robin S, sem var frekar gott!

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður í áttunda skiptið núna í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Vá, það eru svo margir. Datarock og Whitest boy alive eins og ég nefndi áðan. Svo voru líka Chromeo tónleikarnir á Gauknum 2007 klikkaðir. Trentemøller (sem ég elskaði ó svo mikið) árið 2008 í Listasafninu. Og Metronomy 2009 í Listasafninu.. Ég gæti haldið lengi áfram.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?


Þeir voru  á Nasa árið 2008 minnir mig. Við vorum nýbúin að gefa út fyrstu plötuna okkar og dálítið hype í gangi. Ég man bara hvað ég var glöð og stressuð í bland þegar ég sá hvað það var troðfullt á Nasa og geðveik stemmning. Tónleikarnir gengu svo fáránlega vel og allir mega glaðir.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Nasa. Punktur. Annars finnst mér Iðnó komast næst Nasa í útliti á salnum sjálfum og það myndast alltaf góð stemmning þar. Mér finnst það dáldið kósý og finnst að Iðnó ætti að vera notað meira undir tónleika og fleiri skemmtanir.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ég var heví fúl að hafa misst af Robyn og líka Moderat árið 2010. Við vorum að spila á einhverju menntaskólaballi á sama tíma og Moderat áttu að vera svo ég fór ekkert. Síðan hafði dagskránni seinkað þannig að ég hefði alveg náð að sjá hluta af tónleikunum. Frekar fúlt. Svo var ég líka mjög leið að hafa misst af Tune-Yards árið 2011.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Hmm bara ekki vera of stressaðir og reyna of mikið þó að það sé eitthvað mikilvægt fólk á hátíðinni og svoleiðis. Hafa frekar bara gaman og skemmtilegt að hafa tónleikana kannski pínku öðruvísi en venjulega.

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Er mjög spennt fyrir að sjá þrívíddarsjó-ið hjá Kraftwerk. Hef aldrei séð þá live heldur. Svo er ég líka spennt fyrir MØ, Jon Hopkins, Omar Souleyman og AlunaGeorge (sem ég næ reyndar ekki að sjá því við erum að spila á sama tíma).

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Rosalega mikla bara. Þetta vekur svo ótrúlega mikla athygli á landinu og því sem er að gerast hér í tónlistarlífinu. Svo er hátíðin líka bara mikilvæg fyrir okkur sjálf, íslenskt tónlistarfólk og -áhugamenn, einskonar árshátíðin okkar og eitthvað til að hlakka til.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?


Hmm ég er ekki alveg viss. Örugglega svona 7 eða 8 sinnum. Vorum eitt árið að spila þrisvar sinnum á official dagskránni og svipað oft off venue. Held þetta hafi verið 2008.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?


Ég held bara 2006. Þá var þetta allt svo nýtt og spennandi. Mig langaði svo að fara 2005 því bræður mínir voru að fara og fullt af skemmtilegum hljómsveitum eins og Architecture in Helsinki og Annie og fleiri. En ég var náttúrulega bara 15 ára og frekar fúl að fá ekki að fara. Þess vegna var ég svo þakklát og glöð að komast 2006. Var búin að kynna mér allt rosa vel og mætti snemma á alla tónleika, náði að sjá eiginlega allt sem mig langaði til. Búin að fá lánuð skilríki hjá vinkonu stóra bróður míns og leggja kennitöluna og stjörnumerki á minnið og svona.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?


Kraftwerk klárlega.

 

Listasafnið eða Harpa?


Mér finnst meiri Airwaves stemmning í Listasafninu og ég er búin að sækja marga frábæra tónleika þar á Airwaves, en Harpan er líka mjög næs þegar það er vont veður t.d. Myndast líka minni raðir og það eru rosa flott ljós og gott hljóð þar.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?


Við í Retro erum að spila í Norðurljósum í Hörpu á miðvikudeginum kl. 23:20 og í Listasafninu á föstudeginum á miðnætti. Svo verðum við líka á off venue dagskránni, erum í Jör á fimmtudeginum kl. 17, á föstudeginum á Hotel Marina kl. 19:00 og svo í Bláa lóns partíinu á laugardeginum kl. 14:00.

Airwaves yfirheyrslan – Úlfur Oyama

Tónlistarmanninum Úlfi Alexander Einarssyni er margt til lista lagt. Auk þess að spila á gítar í hinni margmennu hljómsveit Útidúr þá þenur hann einnig raddbönd og spilar á gítar fyrir hljómsveit sína Oyama. Úlfur hefur spilað á Iceland Airwaves frá árinu 2008 og mun koma fram með Útidúr og Oyama á hátíðinni í ár.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Ég spilaði í fyrsta skipti á Airwaves árið 2008. Þá spilaði ég á Hressó með hljómsveitunum Fist Fokkers og Swords of Chaos. Það var geggjað. Ég man að mér leið eins og ég væri algjör rokkstjarna að vera að spila á Airwaves.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Final Fantasy 2008 og Dirty Projectors 2012.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur? 

Á Nasa með tveggjamanna pönk bandinu mínu Fist Fokkers árið 2010. Okkur fannst bara svo súrt og geðveikt að vera bara eitthvað tveir að rokka jafn stórum stað og Nasa. Já og líka Fist Fokkers á Amsterdam 2011! Þar tókum 5 cover lög í bland við lögin okkar. Staðurinn alveg pakkaður og við fórum yfir tímann okkar og það átti að slökkva á okkur áður en við gætum tekið seinasta lagið okkar en áhorfendurnir voru alveg brjálaðir og ég hljóp baksvið og fann norska bandið sem var að spila á eftir okkur og fékk leyfi frá þeim til að spila lengur og já. Það var bara geðveik stemning á þeim tónleikum, allir trylltir.


 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mér finnst hún bara alltaf næs. Alltaf misstór útlensk bönd að spila, en það skiptir ekki máli. Hátíðin er alltaf skemmtileg.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Daníel Bjarnason í Eldborg þegar hann var nýbúinn að gefa út Processions.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Spila líka á off-venue tónleikum! Þeir geta verið alveg jafn mikilvægir og on-venue tónleikarnir.  Leggja líka  metnað í það sem þú ert að gera! Þúst. KOMA SVO! HALLÓÓÓÓ!!!

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Mér finnst Mac Demarco og Anna von Haussvolff rosa skemmtileg. Síðan er Dj. Flugvél og Geimskip að fara gefa út nýja plötu og ég hlakka rosa mikið til að tékka á því. Tónleikar með Dj. F & G eru alltaf næs.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Airwaves heldur rosa miklu lífi í íslensku tónlistarsenunni. Líka góður stökkpallur fyrir íslensk bönd.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir? 

Airwaves hefur hjálpað þeim hljómsveitum sem ég er í alveg gríðarlega. Við erum að fá erlenda fjölmiðlaumfjöllun sem við hefðum annars ekki verið að fá og höfum myndað sambönd sem hafa gert það að verkum að við höfum farið að spila útum allan heim. T.d. þá fór hljómsveit sem ég er í, Útudúr, í mánaðarlangt tónleikaferðalag yfir allt Kanada í fyrra með kanadíska bandinu Brasstronaut af því að við kynntumst söngvaranum þegar þeir voru að spila hérna og héldum síðan góðu sambandi eftir það.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

2010 spilaði ég 11 tónleika með 3 mismunandi hljómsveitum.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Kraftwerk. (en þúst ég elska líka Yo La Tengo)

 

Listasafnið eða Harpa?

Mmm.. Listasafnið af því að ég á fleirri góðar minningar þaðan.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er að spila með Oyama og Útidúr.

https://facebook.com/oyamaband

https://facebook.com/utidurofficial

Airwaves yfirheyrslan – Jón Þór Love & Fog

Tónlistarmaðurinn Jón Þór Ólafsson hefur margoft spilað á Iceland Airwaves bæði með hljómsveitum og með sólóverkefni sínu. Jón Þór kemur fram með hljómsveit sinni Love & Fog á hátíðinni í ár.

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

 

Airvaves árið 2003 var fyrsta hátíðin sem ég spilaði á og naut sem gestur. Ég skemmti mér vel á á Nasa. Trabant voru góðir en The Kills voru lummó. Ég spilaði í fyrsta skipti á Airwaves þá á gítar með íslenska raftónlistarmanninum Tonik. Ég man ómögulega hvar þeir voru en stemmingin var örugglega góð. Það er alltaf góð stemming á Tonik.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Hátíðin í ár er tíunda IE hátíðin sem ég spila á. Það hlýtur að þýða að hún verði magiKul!!!

 

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Foreign Monkeys árið 2009 eru í fljótu bragði eftirminnilegastir. Líklega út af því að ég endaði inni í trommusettinu í lokalaginu þeirra.

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur? 

Það er erfitt að velja eftirminnilegustu tónleika sem ég hef spilað sjálfur á. Það var rosalega gaman að spila með Lada Sport árið 2006. Þá vorum við nýbyrjaðir að taka upp plötuna okkar Time And Time Again og blésum upp tvöhundruð hjartalaga blöðrur sem gengu á milli áhorfenda á Grand Rokk. Einnig eru off-venjú tónleikarnir Mjódd-waves á föstudeginum í fyrra frábærir. Ég var að spila órafmagnað sett af sólóskífunni minni. Óveðrið var þá sem mest, alveg brjálað rok og nötrandi kuldi. Gluggarnir sveifluðust til og kannski 15 manns að horfa á.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Hátíðin hefur aðallega verið að festa sig í sessi sem ein magnaðasta tónlistarhátíð í heimi. Hún hefur alltaf haldið fjölbreytileika sínum og mikið af sama fólki kemur til landsins ár eftir ár og sækir hátíðina vegna þess að andrúmsloftið í miðbænum er rafmagnað og nánast ólýsanlegt. Fólk gengur brosandi um með stjörnur í augunum.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Nasa er besti tónleikastaður sem íslendingar hafa átt og munu nokkurn tíma eiga. Það er virkilega grátlegt að missa hann.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Ég hef, eins og væntanlega margir, misst af mörgum geðveikum tónleikum. Mest sé ég þó eftir að hafa misst af Vampire Weekend og Klaxons.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Já, vertu þú sjálf(ur) og skemmtu þér vel.

 

Hverju ertu spenntust/spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Ég er spenntur að sjá Mac DeMarco, auk þess sem Yo La Tengo mun eiga fimmtudaginn fyrir mér. Af íslenskum böndum sé ég sjaldnast það sem ég ætla mér að sjá en oftast sé ég vini og kunningja búa til e-ð gúmmelaði.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Íslenska tónlistarsenan er líklega sífellt að snúast meir og meir í kringum hátíðina í stað þess að hátíðin sé að snúast í kringum tónlistarsenuna. Það er örugglega bara kostur frekar en galli því hljómsveitir og listamenn reyna oft að koma plötum og afurðum sínum út í kringum hátíðina. Iceland Airwaves er þar af leiðandi ákveðinn hápunktur á tónlistarárinu, í senn drifkraftur og uppskeruhátíð.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Ég held að ég hafi spilað á níu tónleikum á hátíðinni í fyrra. Það var gaman!

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Hátíðin í fyrra er í miklu uppáhaldi. Óveðrið gerði hana extra eftirminnilega.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Bæði! En ég sá Kraftwerk 2004 í Kaplakrika þannig að í ár heyri ég Yo La Tengo hjartað slá sem eitt!

 

Listasafnið eða Harpa? 

Listasafnið

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er að spila með Love & Fog á Harlem á miðvikudagskvöldinu og á Hressó á fimmtudagskvöldinu. Off-venjú á eftir að koma í ljós.

 

 

Airwaves yfirheyrslan – Sóley

Sóley Stefánsdóttir byrjaði feril sinn í hljómsveitinni Seabear og spilaði í fyrsta skiptið á Iceland Airwaves með henni árið 2008. Fyrsta útgáfa Sóley Theater Island EP kom út árið 2010 og platan We Sink fylgdi í kjölfarið árið 2011. Frá útgáfu hennar hefur Sóley vakið mikla athygli utan landsteinana og ferðast með tónlist sína vítt og breitt um heiminn. Sóley situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins.  

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Áður en ég varð tvítug þá þræddi ég OFF venjú tónleika airwaves og mér eru minnistæðastir tónleikar Hot Chip í 12 tónum árið 2005, mér fannst þeir algjör snilld og fyrsta platan þeirra er líka tryllt!


Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Það var í Listasafni Reykjavíkur árið 2008 með hljómsveitinni Seabear. Það var geðveikt gaman, við vorum reyndar nýkomin af frekar brjáluðu 5 vikna tónleikaferðalagi (þar sem Ísland hrundi á meðan!) en það var mjög gaman að loka þeim túr með skemmtilegum tónleikum í Listasafninu, fullt af fólki og brjáluð stemning (allavega í minningunni)!

 

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Ég hef spilað síðan 2008, 5 hátíðum. 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Bara ef ég hugsa til ársins í fyrra þá voru Dirty Projectors svo fáránlega góð læv að ég bara stóð og gapti…

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf? 

Mér fannst mjög gaman í fyrsta skipti sem ég spilaði sóló dótið mitt en það var í Kaldalóni árið 2011, alveg stappfullur salur og ég að spila músíkina mína í fyrsta skipti á íslandi. mjög gaman!

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Mér finnst Iðnó alltaf rosa sjarmerandi staður. 

 

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Beach House árið 2011, ég var að spila á sama tíma með Sin Fang.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Uhh hafa gaman!

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Ég er mjög spennt að sjá múm og sænsku tónlistarkonuna Anna Von Hauswolf, Yo La tengo og Krafwerk ef ég fæ miða. Líka Omar souleyman bara afþví hann heitir næstum því sóley, djók. En ég er ekki alveg búin að kíkja nógu vel á þetta…

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Þetta er náttúrulega fyrst og fremst árshátíð fyrir tónlistarsenuna á Íslandi. Og svo eru nú alltaf eitthvað bisness fólk í salnum og ég vinn til dæmis núna með rosa fínum bókara sem mætti á tónleika með mér í fyrra. 

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir? 

Bara allt þetta örugglega. Ég hef verið svo heppin að ég er búin að vera að túra síðan fyrsta platan mín kom út árið 2011 og það er kannski svoldið erfitt að segja hvað kemur beint í gegnum Iceland Airwaves en ég held að þetta tengist allt. Fólk kemur og sér tónleika, segir fleira fólki frá eða bransa fólk sem hefur samband eftir hátíðina… 

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Þær hafa allar sinn sjarma og góðu minningar…

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

uhhh, þetta er svolítið eins og að spyrja mig hvort mér finnist súkkulaði eða sushi betra. bæði betra!

 

Listasafnið eða Harpa?

Fer algjörlega eftir tónlistinni, partýið í Listasafninu og allskonar í Hörpu. 

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Í ár er ég bara að spila með sjálfri mér (sóley) og það verður bara hægt að fylgjast með á facebook: www.facebook.com/soleysoleysoley

 

Mynd: Sebastien Dehesdin

Airwaves yfirheyrslan – Ívar Nolo

Hljómsveitin Nolo spilaði fyrst á Iceland Airwaves árið 2009 þá sem tvíeyki. Nú hafa þeir félagar bætt við sig þriðja meðlimnum sem spilar á trommur. Við kölluðum Ívar Björnsson hljómborðsleikara hljómsveitarinnar til yfirheyrslu og spurðum hann út í reynslu hans af Iceland Airwaves.

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?


Fyrsta Airwaves hátíðin sem ég fór á var einmitt árið 2009 þegar Nolo var rétt að byrja. Við höfðum aldrei farið áður á hátíðina sem gestir og það eftirminnilegasta var sennilega að spila fyrir fullu húsi í brjálaðri stemningu, sem ný hljómsveit vorum við ekki vanir því.
Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Ég hef aðeins spilað á Airwaves með Nolo. Fyrsta Upplifunin var frábær og aðrar hljómsveitir eins og Sudden Weather Change hjálpuðu okkur að aðlagast nýjum aðstæðum. Það var gaman að kynnast svona mörgum hljómsveitum á stuttum tíma og maður lærði heilmikið eins og t.d. að hlaupa á milli tónleika og vera á 100% tempói yfir daginn að róta. Nolo hefur spilað frá því árið 2009 og er þetta fimmta hátíðin í röð sem við spilum á árið 2013.

 

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Ég myndi segja fyrstu tónleikarnir okkar Nolo á Airwaves. Að spila fyrir fullu húsi (þá Grand Rokk) var bara sturlun og að heyra fólk syngja með lögunum okkar var eitthvað sem við vorum ekki vanir. Annars er líka gaman að segja frá því þegar við spiluðum í Listasafninu í fyrra en þá var einmitt hápunktur stormsins mikla í gangi. Þakið ætlaði að rifna af húsinu bókstaflega. Vindurinn var gríðarlegur og ekki mátti miklu muna að þakið myndi fjúka í sjóinn (sem hafði gerst víst áður…)

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Þeir eru nokkrir, Dirty Projectors í fyrra voru frábær og magnað að sjá hversu góð þau eru live. Neon Indian voru einnig mjög flottir ásamt Beach House sem maður heillast mikið af.

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Það eru fleiri erlendar sveitir og ferðamenn að bætast inn á hátíðina ár eftir ár sem er bara gott. En Airwaves reynir alltaf að fá til sín efnilegar hljómsveitir sem eru við það að „meika það“ og það held ég að hafi ekkert breyst í gegnum síðustu ár. Ég myndi segja að þróunin hafi verið góð þessi 5 ár sem ég hef tekið þátt í.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Það var mjög gaman að spila í salnum Kaldalón í Hörpunni árið 2011. Svo er Listasafnið einnig frábær staður til þess að spila á en við vorum einmitt þar í fyrra og endurtökum leikinn nú í ár.


Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Engum, nema það þegar The Rapture komu hingað og spiluðu á Airwaves (2002) en maður var þá alltof ungur.
Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Að hafa gaman, ekki stressa sig of mikið, spila hæfilega oft (þá með Off Venue) og kynnast hljómsveitum því maður lærir alltaf eitthvað á því.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Við höfum alltaf verið að taka svona 3-4 gigg í gegnum árin en núna gæti metið verið slegið þar sem með öllu töldu þá gætu tónleikar okkar verið um 5-6 talsins.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Erlent er það Omar Souleyman og Kraftwerk en innlent er það sennilega FM Belfast, Loji, M-Band, Grísalappalísa, Oyama og Prins Póló.

 


Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Þessi hátíð er gríðarlega mikilvæg fyrir íslensku tónlistarsenuna. Hún gefur nýjum hljómsveitum og tónlistarmönnum tækifæri til þess að sanna sig og fá athygli erlendis. Þetta er algjör stökkpallur fyrir hljómsveitir hér á landi, maður veit aldrei hver er að horfa á tónleikana.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit?

 Nolo hefur fengið einhverja erlenda umfjöllun og fyrirspurnir en engin stórtíðindi.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

Ég get eiginlega ekki gert upp á milli hátíða. Kannski að hátíðin í ár verði sú uppáhalds?

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er að spila með Nolo og við komum fram á Harlem kl 23:20 á miðvikudeginum og svo í Listasafninu kl 20:00 á laugardeginum. En Off Venue erum við staðfestir á Dillon, Bar 11, Reykjavík Backpackers og Kex Hostel.

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Ást og frið

 

 

Airwaves yfirheyrslan – Siggi í UMTBS

Siggi úr Ultra Mega Technobandinu Stefáni situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins. Siggi hefur verið tíður gestur á Airwaves hátíðum liðinna ára og oft vakið athygli fyrir sviðsframkomu í æstari kantinum.

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Hef aldrei mætt sem gestur. Aðeins sem listamaður.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?


Fyrsta skiptið sem UMTBS spilaði á Airwaves var á miðvikudegi Airwaves árið 2006 á Pravda. Pravda var þá notaður sem fjölmiðlafulltrúaaðsetur og fáir tónleikar fóru þar fram (fyrir utan atriði í kringum tilraunakennda plötusnúða). Við spiluðum á sama tíma og We are scientists – band síns tíma. Gerðu ábreiðu af Hoppípolla með Sigur Rós og allir misstu andlitið. Því vorum við í vondum málum. Við fórum í útvarpsviðtal hjá Steina eitthvaðnafnson umboðsmaður í dag fyrir einhverjar hljómsveitir (Steinþór Helgi Arnsteinsson umboðmaður Hjaltalín) sem spurði hvort einhver ætlaði að mæta á okkur og hvort við værum nógu gamlir til þess að vera svona seint úti. Það mættu allir á okkur Steini. Enginn á We are scientists. Og ég var úti til miðnættis.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?


Endalaust mörgum. Stanslaust frá árinu 2006 fyrir utan 2011.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Ég sá Gavin Portland eitt árið. Þeir voru magnaðir. Einnig sé ég ekki eftir að hafa tékkað á Samaris á miðvikudeginum í fyrra. Núna þarf ég aldrei að sjá Portishead. Ég nenni aldrei í Hafnarhúsið, of mikil röð. Allaveganna ekki eftir að listamannapassinn gaf manni ekki forgang fremst.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?


Árið 2008 á Nasa með UMTBS. Þeir voru allt í lagi. Og á Hressó sama ár, þeir tónleikar voru hræðilegir.

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?


Listamannapassarnir gefa manni ekki lengur forgang fremst. Allt í góðu að selja fleiri miða og pakka staðina. Endilega selja á dýrari verði. Þetta verður að standa undir sér. En hleypa listamönnunum fremst eins og i den.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?


Núna? Það var Nasa. Hlakka til að sjá hvað kemur þangað í staðinn. Brillíant ákvörðun. En núna? Gamli Gaukurinn tekur náttúrulega við af Nasa og hljómar langbest af stöðunum niður í miðbæ, plús að hann rúmar sem flesta. En ég býst við að Harpan sé fín viðbót. Í fyrra pantaði ég mér hanastél á Airwaves og gekk í Hörpunni. Það héldu allir að ég væri svaka merkilegur. Það var gaman. Svo ég segi Harpan og Gaukurinn (ég get ekki svarað fyrir off venue, hef ekki kynnt mér það nógu vel). Ég gleymdi næstum því að spila sjálfur fyrir nokkrum árum. Það hefði verið pínu svekkjandi.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?


Þið getið mætt á hvaða tónleika sem þið viljið. Ekki bara kvöldið sem þið eruð að spila á. Og það er rosalega stór tónlistarhátíð í gangi út um allan miðbæ og víðar í Reykjavík. Ég hafði ekki hugmynd um það þegar ég spilaði fyrst á hátíðinni. Og ef þið haldið að listamannapassinn veiti ykkur forgang í tónleikaröðum þá nei…því miður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?


AlunaGeorge. Punktur. Er algjör fíkill í AlunaGeorge. Body Music sem er nýlega komin út er svakalega flott plata. Veit að mínir strákar vilja að ég segi Kraftwerk…en AlunaGeorge. Fyrirgefðu Arnþór, ég er bara meira spenntari fyrir AlunaGeorge. Hlustaðir þú á plötuna? Hún var brillíant.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Gífurlega mikla

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit?


Engin áhrif. Við höfum alltaf verið allt of seint á dagskránni til þess að einhver hagsmunaaðili innan tónlistariðnaðarins mæti. En það er alltaf mjög gaman að spila! Við erum í Hörpunni í ár snemma, þannig að við þurfum ekki jafn mikið kaffi til þess að halda okkur vakandi og seinustu ár. Það er mjög jákvætt (nema fyrir kaffifyrirtækin þarna úti eins og Nestlé…þótt ég drekki aldrei Nestlé).

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?


Í fyrra. Ég man best eftir henni. Sá líka Apparat í Hörpunni. Það var einstaklega skemmtilegt.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?


Kostar aukalega inn á Kraftwerk? Náði ég því rétt? Pínu svekkjandi. Ef einhver býður mér á Kraftwerk mæti ég. Annars sé ég bara hitt bandið. Eða ekki. Kannski eitthvað annað band. Kraftwerk eða AlunaGeorge? Alltaf AlunaGeorge. Það kostar líka ekkert aukalega inn á AlunaGeorge. [Því skal komið á framfæri hér að ekkert aukalega kostar inn á Kraftwerk tónleikana sem loka hátíðinni, hins vegar er takmarkað magn miða sem verður útdeilt eftir „Fyrstur kemur – fyrstur fær“ reglu klukkan 16:00 föstudaginn 1. nóvember  í Hörpu. Því miður fyrir Sigga munu listamannapassar ekki heldur veita forgang í þá röð.]

 

Listasafnið eða Harpa?


Harpa. Engar raðir.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?


UMTBS. Í Hörpunni klukkan 8 á föstudagskvöldinu. Einnig lokum við hátíðinni á Harlem. Held ég sé líka að spila í glugganum í Cintamani á föstudeginum (með Ultra þá). Gæti spilað meira. Tók vikuna frá.

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?


Mér finnst dálítið súrt að listamannapassinn hleypi manni ekki fremst lengur. Núna þarf maður að þykjast vera franskur pistlahöfundur sem týndi passanum sínum til þess að komast fremst. Dálítið leiðinlegt. Hef misst af nokkrum tónleikum sem ég ætlaði að sjá þegar fréttapassatrikkið virkaði ekki. Annars ekki neitt. Skemmtilegt fólk sem er alltaf að bóka mann á þessa hátíð. Vill allt fyrir mann gera og er ávallt einstaklega spennt fyrir fá mann. Hef búið í miðbænum í nokkur ár og finn alltaf fyrir breytingu á andrúmsloftinu þegar hátíðin fer fram. Það bönkuðu einu sinni þrír útlendingar upp hjá mér á sama deginum á Airwaves og spurðu hvort þeir væru mættir á Kex Hostel. Ég sagði vitanlega já og spilaði fyrir þá á píanóið. Þeir komust fljótt að því að íbúðin mín væri ekki Kex Hostel. Eins og ég segi. Jákvæðni. Og já. Breyta listamannapassanum og hleypa mér fremst. Takk.

Mynd: Leó Stefánsson

Airwaves yfirheyrslan – Gunnar í Grísalappalísu

Sá sem situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins er söng- og öskurspíran Gunnar Ragnarsson. Hann var eitt sinn í ungstirnisbandinu Jakobínurínu en þenur nú raddböndin með sveitinni Grísalappalísu, sem hefur vakið mikla athygli á þessu ári fyrir sínu fyrstu breiðskífu og kraftmikla tónleika.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

 

Það var árið 2004 og ég var 15 ára gamall. Móðir mín hafði talað við umsjónarmenn hátíðarinnar til þess að fulltryggja að ég kæmist á hátíðina þar sem ég væri nú góður drengur sem elskaði tónlist og væri ekki til vandræða. Ég fór ásamt Sigurði vini mínum sem var einu ári yngri og það var ekkert vesen fyrir okkur að komast inn á staðina og upplifunin var frábær fyrir okkur, vernduðu úthverfisdrengina. Mér eru eftirminnilegastir tónleikar The Shins á Gauknum en ég var mikill aðdáandi þeirra á þessum tíma enda algjört indípeð í pólóbol á þessu skeiði.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

 

Það var árið 2005 með hljómsveitinni Jakobínurínu á Grandrokki. Eins og eflaust margir muna varð eiginlega allt vitlaust og þetta kvöld hafði mikil áhrif á næstu ár í lífi okkar. Við fengum svaka athygli og frábæra dóma fyrir sjóvið m.a. frá David Fricke, Rolling Stone skríbenti og fréttaflutningur var í þá átt að við höfðum nánast „unnið“ Airwaves það árið. Við vorum algjör smábörn og atburðarrásin frá því að vera á Shins árið áður og fíla sig sem einhverskonar stjörnu árið eftir var nokkuð lygileg. Ég man óljóst eftir tónleikunum sjálfum nema að stemmningin var alveg frábær, áhorfendur voru allir sem einn með bros á vör og einfaldlega furðu slegnir yfir að sjá okkur smápollana hoppa og skoppa um sviðið. Ég held að spilagleðin hjá okkur á þessum tíma hafa verið svakalega smitandi – enda var þetta ótrúlega skemmtilegt fyrir okkur. Eftir tónleikana vildu allir tala við okkur og hrósa okkur í hástért, manni fannst þetta vera stærra kvöld en Músíktilraunir sem við höfðum unnið um vorið.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

 

2005, 2006, 2007 með Jako og nú er Grísalappalísa mætt í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

 

!!! (2007), fannst mér alveg frábært. Við vinirnir tættum í okkur Louden Up Now á sínum tíma en höfðum eiginlega gleymt þeim og vorum svo allt í einu mættir á þetta frábæra djamm hjá þeim nokkrum árum seinni. Frábært live band.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

 

Jakobínarína 2005 á Grandrokki sem ég lýsti áðan en svo voru tónleikarnir árið eftir á Listasafninu alveg jafn eftirminnilegir, sennilega bestu tónleikarnir okkar. Airwaves verðlaunuðu okkur fyrir frammistöðuna árið áður og gáfu okkur frábært slott á milli Apparat Organ Quartet og Go! Team. Við vorum mjög þéttir eftir stíf tónleikaferðalög og það elskuðu okkur allir í salnum og manni fannst maður vera algjör töffari eftir þetta sjóv. Eftir þessa tónleika spiluðum við sjaldan á Íslandi og mér fannst fólk svolítið missa áhugann á okkur, sem var algjörlega skiljanlegt þar sem við vorum ennþá að spila sama efni og vorum aldrei heima og líka með slatta af gelgjustælum. En Airwaves 2005 og 2006 voru algjörir hápunktur hjá þessari blessuðu hljómsveit.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

 

Ég hef nú reyndar ekkert farið síðan ég spilaði síðast. Vinir mínir kvarta frekar mikið yfir röðunum og það sé kannski of margir miðar seldir. Sömuleiðis að gæðin á erlendu músíköntunum hafi farið dvínandi, en lænöppið í ár er nú sennilega með því besta frá upphafi svo það á ekki lengur við.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

 

Grandrokk/Faktorý, út af tilfinningalegum ástæðum.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

 

Spiluðu Graveslime einhvern tímann á Airwaves? Og jú, öllum tónleikum Megasar & Senuþjófana.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

 

Æfa vel, vera metnaðarfullur og fyrst og fremst að njóta þess að spila.

 

Hverju ertu spenntust/spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Kraftwerk og off-venue tónleikum Veirumanna. Annars er ég spenntastur fyrir því að komast í Airwaves gír með Grísalappalísu.

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

 

$ böns af monnís mah’r! Stökkpallur og allt það, bla bla. Fyrst og fremst gott partí samt – og ástæða fyrir alla að vera í sínu besta formi.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

 

Airwaves 2005 hafði þau áhrif að Jakobínarína fékk fína og dannaða breska umboðsmenn, spiluðu á South by Southwest vorið eftir, og gaf út 7″ hjá Rough Trade. Þetta voru svona bein áhrif af því. Svo signuðu Parlophone okkur seinna meir.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

 

Tveimur, þetta er búið að breytast síðan ég var síðast í geiminu.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

 

2013, þetta verður rafmagnað!

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

 

Krafwerk er algjört uppáhald. Sá þá 2004 í Kaplakrika – með flottari tónleikum sem ég hef farið á.

Listasafnið eða Harpa?

 

Listasafnið, hef aldrei farið á Airwaves í Hörpunni.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

 

Með Grísalappalísu, við opnum hátíðína í Listasafninu kl 20 á miðvikudaginn. Svo erum við í 12 tónum á fimmtudeginum, 17.30/18.15 – man ekki. Svo erum við á Gamla Gauknum, kl 21.40 á föstudeginum og fögnum við þynnkunni kl 12.30 í Hörpunni á off-venue tónleikum fyrir utan 12 tóna verzlunina þar. Svo er aldrei að vita nema við komum ykkur á óvart á förnum vegi þegar þið búist alls ekki við því.

 

 

 

Airwaves yfirheyrslan – Sindri Sin Fang

Airwaves yfirheyrslan er nýr liður á síðunni til að kynna Iceland Airwaves hátíðina og nokkra af þeim íslensku listamönnum sem koma fram á hátíðinni í ár. Fyrstur til yfirheyrslu er Sindri Már Sigfússon sem flestir íslenskir tónlistaráhugamenn ættu að kannast við. Hann er forsprakki tveggja hljómsveita sem hafa spilað oft á Iceland Airwaves á síðustu árum – Seabear og Sin Fang en Sindri mun koma fram með þeirri seinni í Gamla Bió föstudaginn 2. nóvember klukkan 0:50. 

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Ég held að það hafi verið 2001. man ekkert hvað ég sá.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Það eru nokkrir.  Á seinustu árum var ég mjög hrifinn af Dirty Projectors og Haushka með samuli í fríkirkjunni var klikkað. Shins (2004) og Rapture (2002) tónleikarnir standa líka uppúr.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

2004 minnir mig áður en við gáfum út fyrstu seabear plötuna. Það var mjög skemmtilegt og kom skemmtilega á óvart hvað það mætti mikið af fólki. Hef spilað á 8 eða 9 hátíðum í það heila en þetta eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem ég hef spilað á.  Þetta var í fyrsta sinn sem við spiluðum með fullri hljómsveit og ég var bara mjög ánægður með að vera að spila yfirhöfuð.

 


Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mér finnst hún vera orðin meira pro. Vel farið með mann og svona. Mér finnst þetta ein skemmtilegasta vika ársins.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Ég er mjög hrifinn af Iðnó. Mér fannst líka mjög gaman að spila á Nasa á Airwaves því að það var eiginlega eina skiptið sem maður gat fengið alveg fullt af fólki á Nasa. Svo er ég mjög ánægður með að óperan sé komin inní þetta. 

 


Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Vorum að spila á sama tíma og Beach House eitt árið, það var leiðinlegt að missa af þeim. Eitt árið þá fórum við á Bandaríkjatúr á fimmtudeginum þannig að við misstum af öllu festivalinu.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? 

Við vorum að spila með Anna Von Hausswolff um daginn og það var rosalegt. Svo langar mig að sjá Goat, Jon Hopkins, Mariam The Believer og Mykki Blanco. Svo finnst mér fínt að labba bara um og sjá eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um hvað er.

 


Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þínar hljómsveitir? 

Hef alveg kynnst einhverju bransafólki í gegnum þessa hátíð og spilað á öðrum hátíðum eftir að einhver sá okkur þarna.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?


7-8 sinnum held ég. Ekkert miðað við Magga trommara (Magnús Tryggvason Eliassen  trommara Sin Fang)

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Bara skemmta sér og vera ekki að stressa sig of mikið á því að það séu einhverjir útlenskir blaðamenn í krádinu.