Airwaves Yfirheyrslan – Ási í Muck

Ási Þórðarson sem lemur húðir með groddarokksveitinni Muck var kallaður til yfirheyrslu í þetta skiptið og sagði okkur allt um reynslu sína af Airwaves.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Ég held að það hafi verið Airwaves 2008. Ég man samt ekkert mikið eftir henni annað en það var geggjað að sjá Crystal Castles.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Mín fyrsta upplifun  var á Airwaves 2010 þegar ég spilaði með Markúsi & The Diversion Sessions á stað sem hét Risið þá en ég held að heiti Glaumbar í dag. Timber Timbre voru á undan okkur og ég man hvað mér fannst það absúrd dót. Það var samt ekkert mikið af fólki þarna. Allir rosa pen og slakir. Gott gigg samt. Fyrsta skiptið sem Muck spilaði var á Airwaves 2011. Spiluðum á Amsterdam á sama kvöldi og Liturgy minnir mig. Það var fokkings brjálað dæmi.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Síðan 2010 svo þetta er 3 hátíðin sem ég spila á.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Ætli það séu ekki Timber Timbre tónleikarnir. Þeir voru ótrúlegir. Mér fannst Iceage líka frekar nettir.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Eitt eftirminnilegasta kvöldið var miðvikudagskvöld á Airwaves 2011. Þá byrjaði ég á að spila með Markúsi & The Diversion Sessions í Kaldalóni í Hörpu. Við vorum með 11 manna band, brass og allan pakkann og áttum geðveikt gigg fyrir fullum sal. Svo eftir það þá hljóp ég spretthlaup með trommudótið mitt yfir á gamla Bakkus á Tryggvagötu og spilaði alveg rosa gigg með Muck. Fólk var að brjóta glös og slamma eins og brjálæðingar. Gott kvöld!

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Mér finnst þetta alltaf verða betra og betra. Viðmótið við listamenn, úrvalið af hljómsveitum o.s.frv. Airwaves er fyrirmyndartónlistarhátíð.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Sakna Faktorý. Held að það verði alltaf uppáhalds staðurinn til að spila á.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Sé eftir að hafa ekki farið á Hauschka í fríkirkjunni. Bömmerrrrr.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Borða vel, reyna að sofa eitthvað, ekki vera í fýlu þó giggið sé lélegt. Reyna að njóta hátíðarinnar til hins ýtrasta.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Í ár er ég spenntastur fyrir Savages og Metz.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þessi hátíð er náttúrulega ótrúlega mikilvæg fyrir íslenskt tónlistarlíf. Þessi hátíð tengir hljómsveitir við erlenda áhorfendur og bransafólk að utan. Þetta er alvöru hátíð með fagmannlegri umgjörð og ég held að það sé ótrúlega hollt fyrir hljómsveitir að komast í tæri við það.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?
Við höfum fengið dálítið hype og fólk er spennt að sjá okkur. Við höfum kynnst fólki sem hefur hjálpað okkur að fá umfjöllun ytra og það er bara snilld!

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Ætli það séu ekki svona 9.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?
Allar. Það er svo gaman að spila.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk þegar ég er úti að hlaupa. Yo La Tengo annars alltaf.

 

Listasafnið eða Harpa?
Listasafnið fyrir nostalgíugildið.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Er að spila með hljómsveitinni Muck og það er hægt að sjá okkur á eftirfarandi stöðum:
Bar 11 – Miðvikudaginn 30 okt (Off venue)
Lucky Records – Fimmtudaginn 31. okt (off Venue)
Harpa – Norðurljós Fimmtudaginn 31. okt (Airwaves)
Harpa – Kolabrautin – Föstudaginn 1. okt (Off venue)
Kexp Session – Kex Hostel – Laugardaginn 2. Okt ( Off venue)
Gamli Gaukurinn – Laugardaginn 2. okt (Airwaves)

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?
Hey bara meira rokk og minna hótel skiluru. Tékkið á snillingunum í Captain Fufanu á Airwaves því þeir lofa að vera með eitthvað kreisí sett.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *