Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 31. 7

Hljómsveitin Grísalappalísa ætlar að blása til veislu á tónleikastaðnum Faktorý vegna nýútkominnar plötu sinnar, ALI. Með Grísalappalísu verða Ojba Rasta og DJ Flugvél og Geimskip. Húsið opnar 21:00. Það kostar 1000 krónur inn, eða 3000 krónur og fyrsta plata Grísalappalísu, ALI, fylgir með. 

 

 

Fimmtudagur 1. 8

Frumsýninga á heimildamyndinni um kvennapönkhljómsveitina Pussy Riot kl 19:30. Kvennapönkhljómsveitin Viðurstyggð mun hita allhressilega upp og léttar veitingar verða í boði frá kl 19:30, en myndin hefst á slaginu kl 20:00. Hægt er að tryggja sér miða á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða á frumsýninguna í miðasölu Bíó Paradís en hún er opin daglega frá kl 17.

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einnig að koma fram. Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Upphitun fyrir Innipúkann á Kex klukkan 21:00. Samaris leika fyrir gesti og hægt verður að kaupa armbönd á hátíðina sjálfa.

Myrra Rós og Elín Ey spila á tónleikum á Café Rósenberg klukkan 21. 1000 krónur inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Treisí spila á Dillon klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Bíó Paradís heldur áfram að bjóða upp á sumartónleika, en þetta verða þeir síðustu í bili og verða þeir því í stóra sal hússins og hefst tónlistin klukkan 22:00. Samaris og Arnljótur koma fram.

 

 

Föstudagur 2. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í tólfta skipti í Reykjavík um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2013 teygir sig yfir tvo daga og fer fram föstudags- og laugardagskvöld, dagana 2. og 3. ágúst. Hátíðin í ár fer fram á Faktorý. það kostar 3000 fyrir eitt kvöld en 4900 fyrir bæði kvöldin.

Föstudagur:
Gísli Pálmi
Valdimar
Steed Lord
Prins Póló
Skelkur í bringu

 

 

Thule kynnir útihátíð í bakgarðinum á Dillon um Verslunarmannahelgina. Verð fyrir eitt kvöld 2500 en 4500 fyrir þrjú kvöld. Dagskrá föstudags:

Dagskrá föstudags
21:00-22:00 Botnleðja
20:00-20:45 Leaves
19:15-19:45 Johnny And The Rest
18:30-19:00 Thingtak
17:45-18:15 Alchemia
17:00-17:30 Jósef “Elvis” Ólason/Grillveisla

 

 

 

Laugardagur 3. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn heldur áfram á Faktory.

Laugardagur: 

Botnleðja
Geiri Sæm
Ylja
Agent Fresco
Grísalappalísa

 

Rykkrokk hátíð í Fellagörðum verður sérstakt off venue á Innipúkanum í ár. Rykkrokk var síðast haldið 1995 og verður dagskráin klæðskerasniðin nútímanum með nostalgísku ívafi. Allir sem koma fram hafa sterka tengingu við Breiðholtið:
-Langi Seli og Skuggarnir
-Prins Póló
-Gríspalappalísa
-Tanya & Marlon
-Samaris
Frítt inn! og innipúkar úr öllum hverfum Reykjavíkur hvattir til að koma uppí Fellagarða.Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Blaz Roca
20:00-20:45 Vintage Caravan
19:15-19:45 Sindri Eldon & The Ways
18:30-19:00 The Wicked Strangers
17:45-18:15 Rekkverk
17:00-17:30 Grillveisla
Sunnudagur 4. 8

 

Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Brain Police
20:00-20:45 Dimma
19:15-19:45 Esja
18:30-19:00 TBA
17:45-18:15 Herbert Guðmundsson
17:00-17:30 Grillveisla

30 atriði tilkynnt á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 30 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári.  Listamennirnir eru: Midlake (US), Emiliana Torrini, FM Belfast, Girls In Hawaii (BE), Ólöf Arnalds, Retro Stefson, Amiina, Moses Hightower, Sarah MacDougall (CA), Apparat Organ Quartet, Árstíðir, Royal Canoe (CA), Kiriyama Family, Skúli Sverrisson, Hermigervill, Sun Glitters (LU), Captain Fufanu, Sign, Stafrænn Hákon, Tempel (SE), Leaves, Endless Dark, Nóra, 1860, Dimma, Auxpan, Þórir Georg, Emmsjé Gauti, Kjurr og Nini Wilson!

Tónleikadagskráin 11.-13. apríl

Helgin hefst snemma að venju á straum.is sem af einskærri góðmennsku og útsjónarsemi leiðbeinir lesendum sínum um það helsta í tónleikalandslagi helgarinnar.

Fimmtudagur 11. apríl

Grísalappalísa, Oyama og Nolo boða til hljómleika á skemmtistaðnum Volta. Grísalappalísa er ný viðbót í tónlistarflóru höfuðborgarsvæðisins en forsprakki hennar, Gunnar Ragnarsson, var áður söngvari Jakobínurínu. Sveitin gaf út sitt fyrsta lag, Lóan er komin, á dögunum sem er ólgandi pönkfönkaður nýbylgjusmellur af bestu gerð. Fyrsta breiðskífa þeirra kemur út von bráðar á vegum 12 tóna og lofar sveitin því að hún muni valda miklum usla í tilfinningalífi landans. Tilraunapoppsveitin Nolo gaf nýverið frá sér EP plötuna Human á bandcamp og ómstríðu óhljóðabelgirnir í Oyama hafa verið iðnir við kolann í tónleikahaldi undanfarið. Þá lofa tónleikahaldarar að leynigestur muni koma fram og eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að skýra frá því hver hann er. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar einn þúsara inn.

 

Ólöf Arnalds ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og heldur útgáfutónleika fyrir sína nýjustu plötu, Sudden Elevation, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Platan var tekin upp á tveimur vikum haustið 2011 í sumarbústað í Hvalfirðinum en Skúli Sverrisson stjórnaði upptökum. Húsið opnar klukkan 21:00, tónleikarnir hefjast 21:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Wireless tónleikasería tónlistarveitunnar Gogoyoko heldur áfram í kvöld þegar Borko stígur á stokk á Kex Hostel. Hann kemur fram ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara en á næstunni heldur hann í tónleikaferð um Evrópu og ætti því að vera í keppnisformi á kexinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og 1500 krónur veita aðgöngu að gleðinni.

 

Snorri Helgason hefur undanfarin tvö ár komið fram með Mr. Sillu, Guðmundi Óskari úr Hjaltalín og Magnúsi Elíasen trommara (sem er í of mörgum hljómsveitum til að ég muni þær) á tónleikum en þau hafa nú stigið skrefið til fulls og stofnað The Snorri Helgason Band. Þau eru nú að vinna í sinni fyrstu plötu undir því nafni og ætla að prufukeyra nýja efnið á Faktorý. Einnig koma fram Mr Silla og Pétur Ben sem hlaut einróma lof fyrir sína nýjustu plötu, God’s Lonely Man. Tónleikarnir hefjast 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Föstudagur 12. apríl

Á Kex Hostel verður slegið upp tónleikum í tilefni af því að 83 dagar eru til festivalsins á Rauðasandi. Fjórar hljómsveitir sem munu spila á hátíðinni ætla að taka forskot á sæluna en þær eru: Boogie Trouble, Nolo, Hljómsveitt og Hymnalaya. Aðgangur er ókeypis og jafnframt munu þeir fyrstu þyrstu til að mæta fá ókeypis glaðning í gleri en herlegheitin hefjast 20:30. Þá munu aðstandendur Rauðsandsfestivalsins kynna fyrirkomulag hátíðarinnar og miðasölu.

 

Undiraldan heldur sínu striki í Hörpunni en á föstudaginn koma fram Vök, sigursveit músíktilrauna, og tónlistar- og myndlistarkonan Berglind Ágústsdóttir. Tónleikarnir hefjast stundvíslega 17:30 og aðgangur er sem fyrr ókeypis en vakin skal athygli á því að í þetta skiptið eru tónleikarnir haldnir á Kolabrautinni á fjórðu hæð hússins, en ekki í Kaldalónssalnum.

 

Leaves, Stafrænn Hákon og Monotown slá upp tónleikaveislu á Volta en í tilkynningu frá þeim kemur fram að á viðburðinum verði kafað djúpt ofan í hyldýpi og áður óþekktar tíðnir kannaðar. Þá séu Leaves með nýtt efni í bígerð og að nýjasta plata Stafræns Hákons hafi verið tekin upp með höfuðið í hanskahólfi Massey Ferguson gröfu. Hvort að grafan verði með á sviðinu á Volta kemur ekki fram en þetta hljómar óneitanlega spennandi. Húsið opnar 21:00 og miðaverð er 1500 krónur.

 

Rvk Soundsystem láta engan bilbug á sér finna og halda áfram með fastakvöld sín á Faktorý þar sem þeir leika reggí, dancehall og dub fyrir dansþyrsta eyjarskeggja. Gestasnúður kvöldsins er Dj Cyppie og gestir eru hvattir til að brenna niður Babýlon og dansa af sér skónna. Að venju er senan í hliðarsal Faktorý, plötusnúðarnir hefja gleðina rétt fyrir miðnætti og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Á efri hæð Faktorý verða tónleikar til styrktar Regnbogabörnum, samtökum sem berjast gegn einelti. Fram koma Fm Belfast, Prins Póló, Úlfur Úlfur, Kjurr og sigursveit músíktilrauna, Vök. Aðgangseyrir er 1500 krónur og rennur óskiptur til Regnbogabarna.

Laugardagur 13. apríl

Á Bar 11 verður haldið ROKKFEST 2013 þar sem sex þekktar og minna þekktar rokksveitir koma fram. Á fb-síðu viðburðarins kemur fram að nóg sé komið af poppi og metal og Rokkfestið sé fyrsta skrefið í yfirvofandi upprisu rokksins. Þær sveitir sem hafa boðað koma sína eru Mammút, Sindri Eldon & The Ways, Japanese Super Shift and the Future Band, Dorian Gray, Treisí og Casio Fatso. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Spy Kids 3D munu koma og spila tryllt indí pönk fyrir rokkþyrsta geðsjúklinga á Dillon.

Það verður þungur laugardagur í Lucky Records plötubúðinni á Rauðarárstígnum en þar munu harðkjarnasveitirnar Muck, In The Company of Men og Klikk leika fyrir slammi en hljómleikarnir hefjast klukkan 15:00. Aðgangur er ókeypis en straumur mælir með því að fólk styrki þessa stórgóðu plötubúð með vínilkaupum.

 

Á  Rósenberg verða tónleikar með Krístjáni Hrannari, Smára Tarf og Þoku. Kristján mun spila lög af fyrstu sólóplötu sinni sem kemur út í sumar. Leikar hefjast kl 21:00 og það kostar 1500 krónur inn

Á Gamla Gauknum munu leiða saman hesta sína hljómsveitirnar Momentum og Kontinuum. Sérstakir gestir verður hljómsveitin We Made God. Tónleikarnir hefjast kl 23:00 en húsið opnar 21:00. Aðgangseyrir eru 1500 kr.

Tónleikadagskrá helgarinnar 8 – 9. mars

Af nógu er að taka í tónleikadagskrá helgarinnar og Straumur hefur tekið saman það helsta sem er á boðstólum þessa aðra helgi marsmánuðar.

Föstudagur 8. mars

Rokksveitin Dream Central Station heldur útgáfutónleika fyrir sína fyrstu plötu sem er samnefnd sveitinni á Volta í kvöld. Plata sveitarinnar sem kom út í haust hefur fengið góða dóma gagnrýnenda og var meðal annars valin fimmta besta íslenska plata ársins á straum.is. Um upphitun sjá melódíska noiserokkararnir í Oyama og lo-fi-grallararnir í Nolo. Aðgangseyrir er 1000 krónur eða 2000 krónur og þá fylgir frumburður sveitarinnar með. Hurðin opnar klukkan 22:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar. Hallberg Daði, forsprakki Dream Central Station, mun síðan þeyta skífum ásamt Dj Pilsner að tónleikunum loknum.

 

Low Roar treður upp ásamt hljómsveit á Dillon klukkan 22:00 í kvöld. Low Roar hófst sem einstaklingsverkefni Ryan Karazija en fyrstu plötu hans var afskaplega vel tekið og vakti meðal annars athygli tónlistartímaritsins NME. Tónlist Low Roar er lágstemmd, sveimandi og þrungin tilfinningu en á tónleikunum mun hann flytja nýtt efni í bland við gamalt en á næstunni hefjast upptökur á nýrri plötu listamannsins. Aðgangur er ókeypis fyrir alla sem hafa náð áfengiskaupaaldri.

 

Folk-hátíð í Reykjavík er í fullum gangi á Kex-hostelinu um helgina en á föstudagskvöldinu koma fram Elín Ey, Árstíðir, Valgeir Guðjónsson og Þjóðlagasveit höfuðborgarinnar. Aðgangseyrir er 3000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 8.

Laugardagur 9. mars

Raftónlistarmaðurinn Kippi Kanínus og hljómsveitin GP! munu leiða saman hesta sína í tónleikum á Faktorý. Kippi Kanínus hefur fengist við tilraunakennda raftónlist í 12 ár en á tónleikunum kemur hann fram ásamt hljómsveit sem inniheldur meðal annars Magnús Elíasen á trommur, Pétur Ben á Selló og gítar og Sigtrygg Baldursson á slagverk. GP! er ekki rapparinn Gísli Pálmi heldur hljómsveit Guðmundar Pétursson sem hefur um áratugaskeið verið einn fremsti gítarleikari þjóðarinnar. Á tónleikum ferðast sveitin um lendur þaulskipulags spuna undir áhrifum frá síðrokki, kaut-blús og glam-jazzi. Tónleikarnir hefjast á slaginu 11 og kostar einn Brynjólf Sveinsson (1000) inn.

 

Hljómsveitin Leaves var að ljúka við sína fjórðu hljóðverðsplötu og munu frumflytja nýtt efni á tónleikum á Bar 11. Aðgangur virðist vera ókeypis.

 

Folk hátíðin heldur áfram á laugardagskvöldinu en þá stíga á stokk Pétur Ben, Benni Hemm Hemm, Ólöf Arnalds og Magnús og Jóhann. Tónleikarnir hefjast sem fyrr klukkan 8 og aðgangseyrir er 3000 krónur.

 

TriAngular eru klúbbakvöld sem áður hafa verið haldin á Jacobsen og Faktorý en hafa nú flutt sig um set og verða í fyrsta skiptið á Volta á laugadagskvöldið. Þema kvöldanna er að fá þrjá þungavigtarmenn í klúbbatónlist í hvert skipti til að galdra fram dansvæna tóna og táldraga mannskapinn í tryllingslegan transdans. Í þetta skiptið munu þeir BenSol, CasaNova og Hendrik sjá um það hlutverk. Húsið opnar klukkan 23:00, dansinn dunar til 4:30 og það kostar einn rauðan seðil inn.