Bestu íslensku plötur ársins 2015

10) Good Moon Deer – Dot

Austfyrski raftónlistarmaðurinn Good Moon Deer gaf sína fyrstu breiðskífu út ókeypis á netinu fyrri part árs. En platan er langt frá því að vera verðlaus, heldur mjög hugvitsamlega gert bútasaumsteppi sampla úr ýmsum áttum. Tempóið er flöktandi og síbreytilegt, hljóðbútar eru klipptir í agnarsmáar agnir og endurraðað, og þegar best lætur minnir Dot á taktmeistara á borð við Prefuse 73.

9) Lord Pusswhip – Lord Pusswhip Is Wack

Beitt og beinskeytt breiðskífa Lord Pusswhip. Pönkað hip-hop þar sem Lordarinn leiðir saman fjöldan allan af hæfileikafólki og útkoman er eins og ekkert annað sem er að gerast í íslenskri tónlist í auknablikinu.

8) Helgi Valur – Notes from the Underground

Notes from the Underground er ferðalag Helga Vals Ásgeirssonar til heljar og til baka. Platan sem var samin í geðrofi – niðurtúr í Berlín og í bata í Reykjavík fangar orku manns sem er á krossgötum. Falleg breiðskífa sem nær hápunkti sínum í hinu epíska lagi Love, Love, Love, Love.

7) Singapore Sling – Psych fuck

Sling hafa alltaf verið fánaberar íslensks innisólgleraugnarokks og ákveðinn fasti í tónlistarsenunni. Sama hvort að krútt eða rapp eru helsta trendið þá stundina standa Singapore Sling alltaf til hliðar og halda sínu striki í níhílísku töffararokkinu. Psych Fuck er þó jafnvel harðari og myrkari heldur en þeirra fyrri verk og er þá mikið sagt. Stundum er söngurinn hlaðinn svo mikilli bjögun að það hljómar eins og Henrik leigi stúdíótíma af satan.

6) Markús & The Diversion Sessions – The Truth the Love the Life

Biðin eftir þessari breiðskífu hefur verið löng og ströng en útkoman svíkur ekki neinn. Sterkir og skemmtilegir textar, létt kærulaus Pavement flutningur með smá Megas inn á milli.

5) Mr Silla – Mr Silla

Fyrsta plata tónlistarkonunar Sigurlaugar Gísladóttur eða Mr.Silla kom út í október 2015. Þrátt fyrir það hefur Sigurlaug verið áberandi í íslenskri tónlist í rúman áratug m.a. sem meðlimur hljómsveitarinnar múm. Platan sem heitir einfaldlega Mr.Silla er í senn einstök og angurvær sem oft fer ekki saman.

4)  Gísli Pálmi – Gísli Pálmi

Gísli Pálmi sprakk í loft upp í vor þegar hans fyrsta breiðskífa sem er samnefnd honum kom loksins út. Allir hip hop unnendur landsins og unglingar í efra Breiðholti misstu líkamsvessa af gleði og heyrst hefur að vinna hafi lagst af í Plain Vanilla í þrjá daga eftir útkomu gripsins. Og skyldi engan undra því hér er um að ræða einu bestu hip hop plötu sem komið hefur út á Íslandi. Bara bítin eru hátækni framtíðarmúsík í efsta klassa og Gísli Pálmi er frábær rappari sem hefur byggt upp karakter og söguheim sem eru algjörlega hans eigin. Hækkum bassann og gefum í botn.

3) Vaginaboys – Icelandick

Vaginaboys eru óvæntasta uppgötvun ársins í íslensku tónlistarlífi. 80’s elektró R’n’B með átótúnuðum söng og íslenskum textum sem þræða einstigi milli væmni og klámfengni. Þeirra bestu hliðar skína í gegn á stuttskífunni Icelandick sem kom út í lok árs. Við kaupum þetta í heildsölu og fáum ekki nóg!

2) Pink Street Boys – Hits#1

Annað árið í röð eiga Pink Street Boys næst bestu plötu ársins hjá Straumi. Allir þeir sem hafa séð bandið á tónleikum vita hversu krafturinn er mikill hjá þessu einstaka bandi. Á plötunni ná þeir að fanga þennan kraft og gott betur.

1) Tonik Ensemble – Snapshots

Snapshots er geysilega metnaðarfullt verk þar sem nostrað er við hvert einasta smáatriði. Hér er allt útpælt: frá uppbyggingu laga og plötunnar sem heild niður í smáhljóð sem heyrist í byrjun eins lags og svo aldrei aftur. Það er þykkt og sterkt heildarsánd yfir plötunni sem er bæði angurvært og melankólískt á sama tíma. Tonik Ensemble er kominn í fremstu röð íslenskra raftónlistarsveita og Snapshots er fagleg og fullorðins en samt með risastóra sál sem skín í gegnum alla plötuna.

Tonik Ensemble – Until We Meet Again (ft. Shipsea) from Sigrún Hreins on Vimeo.

Úrvalslisti Kraums 2015

Öldungaráð Kraums hefur tilnefnt 21 plötur á Úrvalslista Kraums en þann 11. desember næstkomandi verður tilkynnt hvaða 5-6 plötur af þessum tuttugu koma til með að skipa Kraumslistann 2015. Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru. Viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.

Úrvalslisti Kraum­sverðlaun­anna er val­in af fimmtán manna dóm­nefnd, svo­kölluðu öld­ung­ar­ráði. Ráðið skipa Árni Matth­ías­son (formaður), Al­ex­andra Kj­eld, Arn­dís Björk Ásgeirs­dótt­ir, Arn­ar Eggert Thorodd­sen, Andrea Jóns­dótt­ir, Bene­dikt Reyn­is­son, Elísa­bet Indra Ragn­ars­dótt­ir, Heiða Ei­ríks­dótt­ir, Helga Þórey Jóns­dótt­ir, Hild­ur Maral Hamíðsdótt­ir, Jó­hann Ágúst Jó­hanns­son, María Lilja Þrast­ar­dótt­ir, Matth­ías Már Magnús­son, Óli Dóri og Trausti Júlí­us­son.

Ráðið fór yfir á þriðja hundrað hljóm­platna sem komið hafa út á ár­inu, en þar af voru 170 ra­f­ræn­ar út­gáf­ur. Stærri dóm­nefnd hef­ur nú hafið störf og sér um að velja 6 plöt­ur af Kraum­slist­an­um sem hljóta munu Kraum­sverðlaun­in.

 

Úrvalslisti Kraums 2015 – Listinn er birtur í stafrófsröð

as­dfgh – Stein­gerv­ing­ur
Dj flug­vél og geim­skip – Nótt á hafs­botni
Dul­vit­und – Lífs­ins þungu spor
Fuf­anu – Few More Days To Go
Gísli Pálmi – Gísli Pálmi
Gunn­ar Jóns­son Colli­der – Apes­hedder
Jón Ólafs­son & Fut­ur­egrap­her – Eitt
Krist­ín Anna Val­týs­dótt­ir – Howl
Lord Pusswhip – … is Wack
Misþyrm­ing – Söngv­ar elds og óreiðu
Mr Silla – Mr Silla
Muck – Your Joyous Fut­ure
Myrra Rós – One Among­st Ot­h­ers
Nordic Af­fect – Clockwork­ing
Ozy – Dist­ant Present
Presi­dent Bongo – Serengeti
Sól­ey – Ask The Deep
Teit­ur Magnús­son – 27
Tonik En­semble – Snaps­hots
TSS – Me­an­ing­less Songs
Vag­ina­boys – Icelandick

Innipúkinn – Festival í borg

Mynd: Þórir Bogason

Kvöld 1

 

Hátíðin Innipúkinn fór fyrst fram árið 2002 sem einhvers konar svar miðbæjarins við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, og hefur svo verið haldin næstum því ár hvert síðan þá. Í ár fór hátíðin fram á samliggjandi skemmtistöðunum Húrra og Gauknum og til að undirstrika hátíðarbraginn var götunni fyrir framan þá lokað og settar grastorfur og bekkir fyrir framan. Aðaltónleikarnir mætti segja að hafi verið á Húrra þar sem var blönduð dagskrá, en á Gauknum var fókus á sérstaka tónlistarafkima á hverju kvöldi, hart rokk á föstudegi, raftónlist á laugardeginum og rapp á síðasta kvöldinu.

 

Dj Flugvél og Geimskip var að koma sér fyrir þegar ég mætti á Húrra og krúttlegið hljómborðspoppið fór vel í áhorfendur sem fjölgaði ótt í salnum eftir því sem leið á tónleikana. Ég yfirgaf þó Geimskipið til að tónlistarlega andstæðu þess, Pink Street Boys sem spiluðu á Gauknum. Þar voru öllu færri en þemað á Gauknum þetta kvöldið var rokk í harðari kantinum. Pink Street Boys spiluðu harða, hraða og fasta blöndu af pönki og garage-rokki sem reif í hljóðhimnuna á yfirgengilegum hljóðstyrk. Þetta var hreint og tært rokk og ekki vottur af hipster-pósi sem var ansi hressandi, en ég þoldi samt ekki við mikið lengur en 20 mínútur því mér þykir of vænt um heyrnina mína.

 

Arabískir skalar og gjafir jarðar

 

Plötusnúðurinn KGB var næstur á svið með rokkverkefni sitt sem hann kallar Justman. Hann hafði innlimað ryþmapar Boogie Trouble og Teit úr Ojba Rasta og spilaði nokkuð lágstemmt indígítarpopp nokkuð í anda sveita eins og Pavement. Eitt lagið skar sig þó úr en í því byggði hann á arabískum tónskölum sem var afskaplega vel heppnað. Borko mætti til leiks í félagsskap raftónlistarmannsins Futuregrapher og framleiddi tilraunakennt rafpopp. Þvínæst fóru fjölmenningarnir í Orphic Oxtra á svið og héldu upp balkanskri brúðkaupsstemmningu næsta hálftímann eða svo, áður en reggístórsveitin Ojba Rasta tók við.

 

Ojba Rasta eru óðum að fylla upp í reggítómið sem Hjálmar skyldu eftir sig og stóðu sig með mikilli prýði þetta kvöld, ekki síst í lögunum Gjafir Jarðar og Hreppstjórinn. Heilt yfir var kvöldið mjög vel heppnað og grastorfunar og bekkirnir fyrir framan Húrra mynduðu skemmtilega hátíðarstemmningu þar sem fólk sat, reykti og spjallaði á milli atriða.

 

Kvöld 2

 

Ég byrjaði laugardagskvöldið á rafdúettinum Good Moon Dear, sem spiluðu á Gauknum. Það er Guðmundur Ingi Úlfarsson sem er heilinn á bak við verkefnið en honum til halds og trausts hefur hann trommuleikarann Ívar Pétur úr sveitunum Miri og FM Belfast. Tónlistin stígur einstigi á milli Hip Hop og House og byggir að stórum hluta á hljóðbútum sem eru teygðir og skældir í allar áttir, og minnir mig stundum á taktmeistarann Prefuse 73. Þetta var djassað og spunakennt og greinileg kemestría á milli félaganna á sviðinu.

 

Þvínæst náði ég í skottið á hljómsveitinni Kvöl sem spilaði einhvers konar dauft bergmál af Joy Division, frambærilegt en nokkuð óeftirminnilegt. Low Roar hefur vaxið og dafnað frá því hann vakti fyrst athygli með kassagítardrifnu singer-songwriter poppi, og hefur nú stækkað við sig með gítarleikara, trommara og sérstakan græjumeistara sem spilar bæði á hljómborð, og fokkar í hljóðum hinna í rauntíma. Þá söng Mr. Silla með honum í nokkrum lögum og var stórgóð. Sum af bestu lögunum minna nokkuð á raftónlistartímabil Radiohead, og er það vel.

 

101 Abba

 

Mr. Silla var svo næst á svið með sóló-sett sem var ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt. Frá lágstemmdri trip hop elektróník úr tölvunni yfir í Joplin-lega blúsara þar sem hún spilaði undir á rafmagnsgítar, en undurfögur röddin var alltaf í forgrunni. Benni Hemm Hemm hefur ekki verið mjög áberandi undanfarið svo ég var forvitinn að sjá hvað hann hefði upp á að bjóða á Innipúkanum. Það kom svo sannarlega á óvart, en fyrir utan um 10 manna hljómsveit með slatta af blæstri, var um tugur bakraddasöngvara mættur á sviðið, og hersingin spilaði svo einungis Abba lög. Það var eitthvað skemmtilega kaldhæðið við að sjá rjómann af 101 hipsterum leika Abba lög og áhorfendur tóku við sér og dönsuðu svo um munar.

 

Kvöldið endaði svo eins og hið fyrra, með sjóðheitu reggíi, en að þessu sinni voru það Amaba Dama sem léku fyrir dansinum.

 

Kvöld 3

 

Lokakvöldið hjá mér hófst svo á Markús and the Diversion Session sem spiluðu letilegt 90’s slackerrock af miklu en afslöppuðu öryggi. Þá var flutningur Ólafar Arnalds hugljúfur og blíður en eftir hana var skipt um gír. Þá tók harðsvíraða grúvgengið í Boogie Trouble við keflinu en þau nutu þó aðstoðar Ólafar Arnalds á bakröddum. Þau fönkuðu þakið af húsinu í sjóðheitum hrynhita og dansinn dunaði svo um munaði.

 

Þvínæst kom lokaatriði hátíðarinnar, sjálfur meistari Megas steig á svið með sínum helstu lærisveinum, Grísalappalísu. Lísurnar keyrðu í gegnum helstu lög Megasar af rokna krafti meðan meistarinn lék á alls oddi í flutningnum. Þrátt fyrir að líkamlegt atgervi hans bjóði ekki upp á mikla hreyfingu sá Gunnar Ragnarsson um þá deild af miklu öryggi og hann og Baldur tóku svo undir í bakröddum.

 

Alvöru valkostur

 

Þetta er líklega í 13. skiptið sem Innipúkinn er haldinn um Verslunarmannahelgi og það er ljóst að hann lætur engan bilbug á sér finna eftir allan þennan tíma. Það er nauðsynlegt að hafa valkost við útihátíðir fyrir heimakæra borgarbúa og púkinn í ár stóð fyllilega undir því. Þriggja daga dagskráin var fjölbreytt og bauð upp á ýmis atriði sem maður sér ekki á venjulegum tónleikum í Reykjavík, svo sem Megas með Grísalappalísu og Benna Hemm Hemm syngja Abba lög. Þá skapaði grasi skreytt gatan fyrir framan Gaukinn og Húrra alvöru festivals-stemmningu, en þó ekki útihátíðlega.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tónleikadagskráin 11.-13. apríl

Helgin hefst snemma að venju á straum.is sem af einskærri góðmennsku og útsjónarsemi leiðbeinir lesendum sínum um það helsta í tónleikalandslagi helgarinnar.

Fimmtudagur 11. apríl

Grísalappalísa, Oyama og Nolo boða til hljómleika á skemmtistaðnum Volta. Grísalappalísa er ný viðbót í tónlistarflóru höfuðborgarsvæðisins en forsprakki hennar, Gunnar Ragnarsson, var áður söngvari Jakobínurínu. Sveitin gaf út sitt fyrsta lag, Lóan er komin, á dögunum sem er ólgandi pönkfönkaður nýbylgjusmellur af bestu gerð. Fyrsta breiðskífa þeirra kemur út von bráðar á vegum 12 tóna og lofar sveitin því að hún muni valda miklum usla í tilfinningalífi landans. Tilraunapoppsveitin Nolo gaf nýverið frá sér EP plötuna Human á bandcamp og ómstríðu óhljóðabelgirnir í Oyama hafa verið iðnir við kolann í tónleikahaldi undanfarið. Þá lofa tónleikahaldarar að leynigestur muni koma fram og eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að skýra frá því hver hann er. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar einn þúsara inn.

 

Ólöf Arnalds ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og heldur útgáfutónleika fyrir sína nýjustu plötu, Sudden Elevation, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Platan var tekin upp á tveimur vikum haustið 2011 í sumarbústað í Hvalfirðinum en Skúli Sverrisson stjórnaði upptökum. Húsið opnar klukkan 21:00, tónleikarnir hefjast 21:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Wireless tónleikasería tónlistarveitunnar Gogoyoko heldur áfram í kvöld þegar Borko stígur á stokk á Kex Hostel. Hann kemur fram ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara en á næstunni heldur hann í tónleikaferð um Evrópu og ætti því að vera í keppnisformi á kexinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og 1500 krónur veita aðgöngu að gleðinni.

 

Snorri Helgason hefur undanfarin tvö ár komið fram með Mr. Sillu, Guðmundi Óskari úr Hjaltalín og Magnúsi Elíasen trommara (sem er í of mörgum hljómsveitum til að ég muni þær) á tónleikum en þau hafa nú stigið skrefið til fulls og stofnað The Snorri Helgason Band. Þau eru nú að vinna í sinni fyrstu plötu undir því nafni og ætla að prufukeyra nýja efnið á Faktorý. Einnig koma fram Mr Silla og Pétur Ben sem hlaut einróma lof fyrir sína nýjustu plötu, God’s Lonely Man. Tónleikarnir hefjast 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Föstudagur 12. apríl

Á Kex Hostel verður slegið upp tónleikum í tilefni af því að 83 dagar eru til festivalsins á Rauðasandi. Fjórar hljómsveitir sem munu spila á hátíðinni ætla að taka forskot á sæluna en þær eru: Boogie Trouble, Nolo, Hljómsveitt og Hymnalaya. Aðgangur er ókeypis og jafnframt munu þeir fyrstu þyrstu til að mæta fá ókeypis glaðning í gleri en herlegheitin hefjast 20:30. Þá munu aðstandendur Rauðsandsfestivalsins kynna fyrirkomulag hátíðarinnar og miðasölu.

 

Undiraldan heldur sínu striki í Hörpunni en á föstudaginn koma fram Vök, sigursveit músíktilrauna, og tónlistar- og myndlistarkonan Berglind Ágústsdóttir. Tónleikarnir hefjast stundvíslega 17:30 og aðgangur er sem fyrr ókeypis en vakin skal athygli á því að í þetta skiptið eru tónleikarnir haldnir á Kolabrautinni á fjórðu hæð hússins, en ekki í Kaldalónssalnum.

 

Leaves, Stafrænn Hákon og Monotown slá upp tónleikaveislu á Volta en í tilkynningu frá þeim kemur fram að á viðburðinum verði kafað djúpt ofan í hyldýpi og áður óþekktar tíðnir kannaðar. Þá séu Leaves með nýtt efni í bígerð og að nýjasta plata Stafræns Hákons hafi verið tekin upp með höfuðið í hanskahólfi Massey Ferguson gröfu. Hvort að grafan verði með á sviðinu á Volta kemur ekki fram en þetta hljómar óneitanlega spennandi. Húsið opnar 21:00 og miðaverð er 1500 krónur.

 

Rvk Soundsystem láta engan bilbug á sér finna og halda áfram með fastakvöld sín á Faktorý þar sem þeir leika reggí, dancehall og dub fyrir dansþyrsta eyjarskeggja. Gestasnúður kvöldsins er Dj Cyppie og gestir eru hvattir til að brenna niður Babýlon og dansa af sér skónna. Að venju er senan í hliðarsal Faktorý, plötusnúðarnir hefja gleðina rétt fyrir miðnætti og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Á efri hæð Faktorý verða tónleikar til styrktar Regnbogabörnum, samtökum sem berjast gegn einelti. Fram koma Fm Belfast, Prins Póló, Úlfur Úlfur, Kjurr og sigursveit músíktilrauna, Vök. Aðgangseyrir er 1500 krónur og rennur óskiptur til Regnbogabarna.

Laugardagur 13. apríl

Á Bar 11 verður haldið ROKKFEST 2013 þar sem sex þekktar og minna þekktar rokksveitir koma fram. Á fb-síðu viðburðarins kemur fram að nóg sé komið af poppi og metal og Rokkfestið sé fyrsta skrefið í yfirvofandi upprisu rokksins. Þær sveitir sem hafa boðað koma sína eru Mammút, Sindri Eldon & The Ways, Japanese Super Shift and the Future Band, Dorian Gray, Treisí og Casio Fatso. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Spy Kids 3D munu koma og spila tryllt indí pönk fyrir rokkþyrsta geðsjúklinga á Dillon.

Það verður þungur laugardagur í Lucky Records plötubúðinni á Rauðarárstígnum en þar munu harðkjarnasveitirnar Muck, In The Company of Men og Klikk leika fyrir slammi en hljómleikarnir hefjast klukkan 15:00. Aðgangur er ókeypis en straumur mælir með því að fólk styrki þessa stórgóðu plötubúð með vínilkaupum.

 

Á  Rósenberg verða tónleikar með Krístjáni Hrannari, Smára Tarf og Þoku. Kristján mun spila lög af fyrstu sólóplötu sinni sem kemur út í sumar. Leikar hefjast kl 21:00 og það kostar 1500 krónur inn

Á Gamla Gauknum munu leiða saman hesta sína hljómsveitirnar Momentum og Kontinuum. Sérstakir gestir verður hljómsveitin We Made God. Tónleikarnir hefjast kl 23:00 en húsið opnar 21:00. Aðgangseyrir eru 1500 kr.

Konur í tónlist í kvöld

Í kvöld fara fram tónleikar í gamla Ellingsen húsinu úti á Granda undir yfirskriftinni konur í tónlist. Um er að ræða tónlistarviðburð haldin af konum og með konur í forsvari. Það er hljómsveitin Grúska Babúska sem heldur tónleikana, en auk hennar koma fram Sóley, Samaris, Mr. Silla og Dj Flugvélar og Geimskip. Húsið  opnar kl. 20.30, en tónleikarnir hefjast kl. 21. Aðgangur er ókeypis. Hlustið á lagið daradada með Grúsk Babúska hér fyrir neðan.