Úrvalslisti Kraums 2015

Öldungaráð Kraums hefur tilnefnt 21 plötur á Úrvalslista Kraums en þann 11. desember næstkomandi verður tilkynnt hvaða 5-6 plötur af þessum tuttugu koma til með að skipa Kraumslistann 2015. Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru. Viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.

Úrvalslisti Kraum­sverðlaun­anna er val­in af fimmtán manna dóm­nefnd, svo­kölluðu öld­ung­ar­ráði. Ráðið skipa Árni Matth­ías­son (formaður), Al­ex­andra Kj­eld, Arn­dís Björk Ásgeirs­dótt­ir, Arn­ar Eggert Thorodd­sen, Andrea Jóns­dótt­ir, Bene­dikt Reyn­is­son, Elísa­bet Indra Ragn­ars­dótt­ir, Heiða Ei­ríks­dótt­ir, Helga Þórey Jóns­dótt­ir, Hild­ur Maral Hamíðsdótt­ir, Jó­hann Ágúst Jó­hanns­son, María Lilja Þrast­ar­dótt­ir, Matth­ías Már Magnús­son, Óli Dóri og Trausti Júlí­us­son.

Ráðið fór yfir á þriðja hundrað hljóm­platna sem komið hafa út á ár­inu, en þar af voru 170 ra­f­ræn­ar út­gáf­ur. Stærri dóm­nefnd hef­ur nú hafið störf og sér um að velja 6 plöt­ur af Kraum­slist­an­um sem hljóta munu Kraum­sverðlaun­in.

 

Úrvalslisti Kraums 2015 – Listinn er birtur í stafrófsröð

as­dfgh – Stein­gerv­ing­ur
Dj flug­vél og geim­skip – Nótt á hafs­botni
Dul­vit­und – Lífs­ins þungu spor
Fuf­anu – Few More Days To Go
Gísli Pálmi – Gísli Pálmi
Gunn­ar Jóns­son Colli­der – Apes­hedder
Jón Ólafs­son & Fut­ur­egrap­her – Eitt
Krist­ín Anna Val­týs­dótt­ir – Howl
Lord Pusswhip – … is Wack
Misþyrm­ing – Söngv­ar elds og óreiðu
Mr Silla – Mr Silla
Muck – Your Joyous Fut­ure
Myrra Rós – One Among­st Ot­h­ers
Nordic Af­fect – Clockwork­ing
Ozy – Dist­ant Present
Presi­dent Bongo – Serengeti
Sól­ey – Ask The Deep
Teit­ur Magnús­son – 27
Tonik En­semble – Snaps­hots
TSS – Me­an­ing­less Songs
Vag­ina­boys – Icelandick

KEXPort 2015

Tónleikahátíðin KEXPort verður haldin í fjórða skiptið í portinu fyrir aftan KEX Hostel laugardaginn 18. júlí næstkomandi frá tólf á hádegi til miðnættis. Tónleikarnir eru haldnir til heiðurs KEXP í Seattle og munu koma fram tólf tónlistaratriði á jafn mörgum klukkustundum. KEXP er útvarpsstöð sem sótt hefur Ísland árlega allt frá árinu 2009 og hefur unnið óeigingjarnt starf til kynningar íslenskrar tónlistar í Bandaríkjunum og víðar í heiminum.

Hátíðin er haldin í portinu fyrir aftan Kex Hostel og eru þeir opnir almenningi á meðan rúm leyfir. Mikill stemmning er fyrir KEXPort í ár og er óhætt að segja að segja að fjölbreytni tónlistaratriða sé með besta móti.
Myndbandstöku af tónleikunum í ár verður streymt beint í gegnum KEXP.ORG, Kexland.is og MusicReach.tv og er það í fyrsta skiptið sem það verður gert.

Dagskrá tónlistaratriða er efirfarandi:

12:00 Sóley

13:00 Teitur Magnússon

14:00 Kælan Mikla

15:00 Futuregrapher

16:00 Markús and the Diversion Sessions

17:00 Valdimar

18:00 Rökkurró

19:00 Muck

20:00 Gísli Pálmi

21:00 DJ Yamaho

22:00 Agent Fresco

23:00 Emmsje Gauti

Meðal þeirra sem hafa komið fram á KEXPort eru Samúel Jón Samúelsson Big Band, Kiriyama Family, Ghostigital, Low Roar, Sóley, Tilbury, Snorri Helgason, Úlfur Úlfur, Mr. Silla, Sykur, Dimma, Reykjavíkurdætur, Sometime, Kött Grá Pje, MUCK, Kippi Kanínus og Moses Hightower.

All Tomorrow’s Parties – Hátíð í Herstöð

Mynd: Ozzo.is

Það er mikið gleðiefni að All Tomorrow’s Parties hátíðin sé haldin í annað skipti á kalda landinu og í ár stækkaði hátíðin og bætti við sig þriðja deginum, auk tjaldsvæðis og partýtjalds. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem innihéldu Hróarskeldu, millilendingu í Barcelona og yfirbókaða flugvél var ég erlendis fram á fimmtudagsnótt og komst því miður ekki á fyrsta kvöldið, en heyrði mjög vel látið af Shellac og Mogwai, en heldur verr af rigningunni.

 

Gotnesk keyrsla

 

Þegar ég mætti á tónleikasvæðið var Sóley að syngja sitt hugljúfa krúttpopp og skapaði mjög notalega stemmningu í hinu risastóru flugskýli sem er aðalsvið hátíðarinnar. Rigningin lét sem betur fer ekki sjá sig þetta kvöldið og því myndaðist skemmtilegt andrúmsloft fyrir utan Atlantic Studios þar sem fólk sat og spjallaði á bekkjum, fékk sér að borða eða brá sér inn í partýtjaldið þar sem plötusnúðar léku listir sínar. Liars er band sem ég hef ekki hlustað á áður en þeir voru þrumuþéttir í þungri rokkkeyrslu. Þetta var nokkurs konar dimmt og gotneskt synþarokk mitt á milli Depache Mode og Bauhaus.

 

Næstir á svið í Atlantic voru svo gömlu skóglápskempurnar í Slowdive, sem margir voru spenntir fyrir. Þeir framleiddu hnausþykka gítarveggi yfir hægfljótandi trommubít og helltu úr fötum af fídbakki yfir áhorfendur. Þetta var afskaplega vandað hjá þeim en fyrir þá sem eru ekki kunnugir höfundaverki sveitarinnar varð þetta nokkuð keimlíkt þegar á leið.

 

Árás á augu og eyru

 

Næst á svið voru trip hop hetjurnar frá Bristol, Portishead, og flugskýlið fylltist óðum þegar líða dró nær miðnætti. Það var ljóst að þau voru helsta aðdráttarafl kvöldsins og eftirvæntingin í salnum var áþreifanleg þegar ljósin voru slökkt og beðið var eftir goðunum. Það sem gerðist næsta einn og hálfa tímann var útpæld árás á eyru og augu úr öllum mögulegum áttum. Tíu manna hljómsveitin framdi svartagaldur á sviðinu en  fyrstu lögin komu af þriðju plötu sveitarinnar, Third.  Beth Gibbons er sönglegt náttúruafl og hljómurinn var óaðfinnanlegur. Rauntíma myndböndum af hljómsveitinni á sviðinu voru brengluð með sækadelískum síum og varpað á risastórt tjald fyrir aftan þau sem hafði dáleiðandi áhrif.

 

Þau tóku góðu blöndu af öllum ferlinum en áhorfendur tóku við sér svo um munar í lögum af Dummy eins og Wandering Star, Sour Times og Glory Box þar sem allir sungu hástöfum með. Eftir rúman klukkutíma fóru þau af sviðinu og ég hef sjaldan séð áheyrendur jafn æsta í uppklappi. Þegar Rhodes hljómarnir úr Roads byrjuðu að óma byrjaði gæsahúðafiðringur að læða sér upp mænuna og ég gat ekkert gert annað en staðið dolfallinn og opinmynntur að drukkið í mig flutninginn. Síðasta lagið var We Carry On af Third sem er undir sterkum áhrifum frá þýsku súrkálsrokki og þá var myndavélunum beint út í áhorfendaskarann sem var að missa legvatnið í sameiginlegri hópsturlun. Þetta var performans á heimsmælikvarða og bestu tónleikar sem ég hef séð á Íslandi í ár.

 

Ég þurfti dágóðan tíma í fersku lofti til að jafna mig eftir Portishead en Fuck Buttons voru í essinu sínu að fremja hljóðræn hryðjuverk þegar ég mætti aftur inn í Atlantic Studios skemmuna. Þetta var marglaga óhljóðasúpa en við djúpa hlustun tóku melódíur að rísa upp úr eins og gárur á vatni. Ansi tilkomumikið og góður endir á kvöldinu en bliknaði samt í samanburði við myrkramessuna hjá Portishead.

 

Kvöld tvö

 

Ég hóf leikinn með Sin Fang sem hefur gjörbreytt tónleikum sínum frá því ég sá hann síðast. Í stað venjulegrar hljómsveitar kemur hann fram með tveimur trommuleikurum en sjálfur djöflast hann í hinum ýmsu raftólum ásamt því að eiga við eigin rödd með ýmis konar effektum. Þetta var hressileg tilbreyting og feikilega vel myndskreytt og lög eins og Young Boys og Look at the Light öðluðust annað líf í nýjum útsetningum.

 

Skandínavískt myrkur

 

Breska raftríóið Eaux voru næst á dagskrá í Andrews Theater með líflega blöndu af tekknói og súrkálsrokki undir nokkuð sterkum áhrifum frá kvikmyndatónlist John Carpenters. Tónlistin var mjög góð en algjört myrkur var í salnum og engin ljós á sviðinu. Það er erfitt að tengjast hljómsveit þegar þú sérð ekki andlitin á þeim og þó hljómurinn væri myrkur hefði ég viljað aðeins meiri birtu í salnum.

 

Eftir bíóið var haldið aftur í Atlantic Studios þar sem danska bandið I Break Horses voru að koma sér fyrir. Þau spiluðu draumkennt rafpopp með melankólískum melódíum undir áhrifum frá 9. áratugnum. Tónlistin var einhvern veginn mjög skandínavísk og minnti talsvert á sveitir eins og Bat For Lashes, Knife og Robyn. Þetta var vel gert hjá þeim og alls ekki leiðinlegt en samt ekki mjög eftirminnilegt.

 

Hvorki staður né stund

 

Devandra Banhart er hæfileikaríkur tónlistarmaður sem var þó mjög illa staðsettur á laugardagskvöldinu. Að fara á svið klukkan hálf 11 á undan Interpol á hinu risastóra Atlantic Studios sviði einn með gítar var hreinlega ekki að virka fyrir hann. Hann spilaði mjúkt og söng lágt þannig að kliðurinn nánast yfirgnæfði tónlistina nema maður væri fremst við sviðið. Lögin og framkoman voru líka hálf stefnulaus og hvorki fugl né fiskur.

 

Kuldalegt rokk og fötur af fídbakki

 

Aðalnúmer kvöldsins var síðan New York kuldarokkararnir í Interpol. Þeir stóðu fyllilega fyrir sínu og héldu þéttri keyrslu og góðum dampi í settinu í tæpan einn og hálfan tíma og áhorfendur sungu hástöfum með í helstu slögurunum. Lokaatriði hátíðarinnar var síðan leðurklædda költið Singapore Sling sem komu fram í viðhafnarútgáfu þar sem gamlir meðlimir eins og Einar Sonic, Ester Bíbí og Hákon stigu á stokk og voru þau mest um tíu á sviðinu. Rafmagnsgítarsurgið og fídbakkið var allsráðandi og slagarar eins og Life is Killing My Rock and Roll voru fluttir á tilkomumikinn hátt. Þau enduðu svo frábært sett á mínu uppáhalds Sling lagi, Guiding Light. Þrátt fyrir að fáir hafi verið eftir í salnum sló þetta tilheyrandi botn í epíska hátíð.

Það er svo sannarlega vonandi að All Tomorrow’s Parties sé komin til að vera á Íslandi því hátíðin í ár var frámunalega vel heppnuð á helstu mælikvarða sem hægt er að setja á tónlistarhátíðir. Dagskráin menntaðarfull og fjölbreytt, hljóðið til fyrirmyndar, umhverfið sjarmerandi og andrúmsloftið afslappað. Öll atriði byrjuðu á réttum tíma og ég verð að hrósa ljósameisturunum sérstaklega, það er sjaldgæft á Íslandi að lýsing sé í þeim gæðaflokki sem var á ATP. Atlantic Studios er með bestu tónleikastöðum á landinu í sínum stærðarflokki og það væri óskandi að skemman væri nýtt undir slíkt í auknum mæli.

Davíð Roach Gunnarsson

Airwaves yfirheyrslan – Sóley

Sóley Stefánsdóttir byrjaði feril sinn í hljómsveitinni Seabear og spilaði í fyrsta skiptið á Iceland Airwaves með henni árið 2008. Fyrsta útgáfa Sóley Theater Island EP kom út árið 2010 og platan We Sink fylgdi í kjölfarið árið 2011. Frá útgáfu hennar hefur Sóley vakið mikla athygli utan landsteinana og ferðast með tónlist sína vítt og breitt um heiminn. Sóley situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins.  

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Áður en ég varð tvítug þá þræddi ég OFF venjú tónleika airwaves og mér eru minnistæðastir tónleikar Hot Chip í 12 tónum árið 2005, mér fannst þeir algjör snilld og fyrsta platan þeirra er líka tryllt!


Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Það var í Listasafni Reykjavíkur árið 2008 með hljómsveitinni Seabear. Það var geðveikt gaman, við vorum reyndar nýkomin af frekar brjáluðu 5 vikna tónleikaferðalagi (þar sem Ísland hrundi á meðan!) en það var mjög gaman að loka þeim túr með skemmtilegum tónleikum í Listasafninu, fullt af fólki og brjáluð stemning (allavega í minningunni)!

 

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Ég hef spilað síðan 2008, 5 hátíðum. 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Bara ef ég hugsa til ársins í fyrra þá voru Dirty Projectors svo fáránlega góð læv að ég bara stóð og gapti…

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf? 

Mér fannst mjög gaman í fyrsta skipti sem ég spilaði sóló dótið mitt en það var í Kaldalóni árið 2011, alveg stappfullur salur og ég að spila músíkina mína í fyrsta skipti á íslandi. mjög gaman!

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Mér finnst Iðnó alltaf rosa sjarmerandi staður. 

 

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Beach House árið 2011, ég var að spila á sama tíma með Sin Fang.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Uhh hafa gaman!

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Ég er mjög spennt að sjá múm og sænsku tónlistarkonuna Anna Von Hauswolf, Yo La tengo og Krafwerk ef ég fæ miða. Líka Omar souleyman bara afþví hann heitir næstum því sóley, djók. En ég er ekki alveg búin að kíkja nógu vel á þetta…

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Þetta er náttúrulega fyrst og fremst árshátíð fyrir tónlistarsenuna á Íslandi. Og svo eru nú alltaf eitthvað bisness fólk í salnum og ég vinn til dæmis núna með rosa fínum bókara sem mætti á tónleika með mér í fyrra. 

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir? 

Bara allt þetta örugglega. Ég hef verið svo heppin að ég er búin að vera að túra síðan fyrsta platan mín kom út árið 2011 og það er kannski svoldið erfitt að segja hvað kemur beint í gegnum Iceland Airwaves en ég held að þetta tengist allt. Fólk kemur og sér tónleika, segir fleira fólki frá eða bransa fólk sem hefur samband eftir hátíðina… 

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Þær hafa allar sinn sjarma og góðu minningar…

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

uhhh, þetta er svolítið eins og að spyrja mig hvort mér finnist súkkulaði eða sushi betra. bæði betra!

 

Listasafnið eða Harpa?

Fer algjörlega eftir tónlistinni, partýið í Listasafninu og allskonar í Hörpu. 

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Í ár er ég bara að spila með sjálfri mér (sóley) og það verður bara hægt að fylgjast með á facebook: www.facebook.com/soleysoleysoley

 

Mynd: Sebastien Dehesdin

50 atriði tilkynnt á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 50 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári.

Þau eru: sóley, Savages (UK), Jon Hopkins (UK), John Grant (US), Mykki Blanco (US), Mac DeMarco (CA), Lay Low, Villagers (IE), PAPA (US), Empress Of (US), Lescop (FR), Agent Fresco, Young Fathers (SCO), For a Minor Reflection, Slow Magic (US), kimono, We Are Wolves (CA), Ghostigital, Dikta, San Fermin (US), Berndsen, Baby in Vain (DK), Sean Nicholas Savage (CA), Cousins (CA), Úlfur Úlfur, Aaron and the Sea (US), Biggi Hilmars, Kithkin (US), Eldar, Epic Rain, The Balconies (CA), Futuregrapher, Nordic Affect, Ylja, Wistaria, Tonik, Sindri Eldon and the Ways, Good Moon Deer, Rökkurró, Kött Grá Pjé, Jóhann Kristinsson, Kajak, Sometime, Saktmóðigur, Hudson Wayne, Boogie Trouble, Tanya & Marlon, M-Band, Original Melody og Nolem!

Opnunartónleikar Volta í kvöld

Tónleikastöðum í Reykjavík hefur farið fækkandi undanfarið, það var sorglegt að sjá á eftir Nasa og nú styttist í að Faktorý verði rifinn vegna uppbyggingar á reit Hjartagarðarins. Þess vegna fagna því allir góðir menn þegar nýir tónleikastaðir opna og Straumur er þar ekki undanskilinn. Í kvöld opnar skemmti- og tónleikastaðurinn Volta á Tryggvagötu 22 með stórtónleikum þar sem fram koma Hjaltalín, Bloodgroup, Ojba Rasta og Sóley.

Þetta er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur en Hjaltalín hafa hlotið mikið lof fyrir sína nýjustu plötu, Enter 4, sem meðal annars var valin plata ársins af tímaritinu Grapevine. Stórdöbbsveitin Ojba Rasta hefur einnig hlotið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu plötu sem kom út á árinu og Bloodgroup gáfu út sína þriðju plötu Tracing Echoes fyrir örfáum dögum en hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Þá hefur Sóley verið að sigra heiminn á liðnu ári með undurfögrum söng sínum.

Miklu hefur verið tjaldað til með staðinn sem er á tveimur hæðum með fatahengi, kokteilbar og setustofu á neðri hæð en bar, dansgólfi, reykherbergi og sviði með heimsklassa hljóðkerfi og hágæða ljósabúnaði á þeirri efri. Straumur hvetur alla þá sem geta haldið á hanska að láta sjá sig og styðja við þessa nýjustu viðbót í tónleikaflóru borgarinnar.

 

Konur í tónlist í kvöld

Í kvöld fara fram tónleikar í gamla Ellingsen húsinu úti á Granda undir yfirskriftinni konur í tónlist. Um er að ræða tónlistarviðburð haldin af konum og með konur í forsvari. Það er hljómsveitin Grúska Babúska sem heldur tónleikana, en auk hennar koma fram Sóley, Samaris, Mr. Silla og Dj Flugvélar og Geimskip. Húsið  opnar kl. 20.30, en tónleikarnir hefjast kl. 21. Aðgangur er ókeypis. Hlustið á lagið daradada með Grúsk Babúska hér fyrir neðan.