All Tomorrow’s Parties – Hátíð í Herstöð

Mynd: Ozzo.is

Það er mikið gleðiefni að All Tomorrow’s Parties hátíðin sé haldin í annað skipti á kalda landinu og í ár stækkaði hátíðin og bætti við sig þriðja deginum, auk tjaldsvæðis og partýtjalds. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem innihéldu Hróarskeldu, millilendingu í Barcelona og yfirbókaða flugvél var ég erlendis fram á fimmtudagsnótt og komst því miður ekki á fyrsta kvöldið, en heyrði mjög vel látið af Shellac og Mogwai, en heldur verr af rigningunni.

 

Gotnesk keyrsla

 

Þegar ég mætti á tónleikasvæðið var Sóley að syngja sitt hugljúfa krúttpopp og skapaði mjög notalega stemmningu í hinu risastóru flugskýli sem er aðalsvið hátíðarinnar. Rigningin lét sem betur fer ekki sjá sig þetta kvöldið og því myndaðist skemmtilegt andrúmsloft fyrir utan Atlantic Studios þar sem fólk sat og spjallaði á bekkjum, fékk sér að borða eða brá sér inn í partýtjaldið þar sem plötusnúðar léku listir sínar. Liars er band sem ég hef ekki hlustað á áður en þeir voru þrumuþéttir í þungri rokkkeyrslu. Þetta var nokkurs konar dimmt og gotneskt synþarokk mitt á milli Depache Mode og Bauhaus.

 

Næstir á svið í Atlantic voru svo gömlu skóglápskempurnar í Slowdive, sem margir voru spenntir fyrir. Þeir framleiddu hnausþykka gítarveggi yfir hægfljótandi trommubít og helltu úr fötum af fídbakki yfir áhorfendur. Þetta var afskaplega vandað hjá þeim en fyrir þá sem eru ekki kunnugir höfundaverki sveitarinnar varð þetta nokkuð keimlíkt þegar á leið.

 

Árás á augu og eyru

 

Næst á svið voru trip hop hetjurnar frá Bristol, Portishead, og flugskýlið fylltist óðum þegar líða dró nær miðnætti. Það var ljóst að þau voru helsta aðdráttarafl kvöldsins og eftirvæntingin í salnum var áþreifanleg þegar ljósin voru slökkt og beðið var eftir goðunum. Það sem gerðist næsta einn og hálfa tímann var útpæld árás á eyru og augu úr öllum mögulegum áttum. Tíu manna hljómsveitin framdi svartagaldur á sviðinu en  fyrstu lögin komu af þriðju plötu sveitarinnar, Third.  Beth Gibbons er sönglegt náttúruafl og hljómurinn var óaðfinnanlegur. Rauntíma myndböndum af hljómsveitinni á sviðinu voru brengluð með sækadelískum síum og varpað á risastórt tjald fyrir aftan þau sem hafði dáleiðandi áhrif.

 

Þau tóku góðu blöndu af öllum ferlinum en áhorfendur tóku við sér svo um munar í lögum af Dummy eins og Wandering Star, Sour Times og Glory Box þar sem allir sungu hástöfum með. Eftir rúman klukkutíma fóru þau af sviðinu og ég hef sjaldan séð áheyrendur jafn æsta í uppklappi. Þegar Rhodes hljómarnir úr Roads byrjuðu að óma byrjaði gæsahúðafiðringur að læða sér upp mænuna og ég gat ekkert gert annað en staðið dolfallinn og opinmynntur að drukkið í mig flutninginn. Síðasta lagið var We Carry On af Third sem er undir sterkum áhrifum frá þýsku súrkálsrokki og þá var myndavélunum beint út í áhorfendaskarann sem var að missa legvatnið í sameiginlegri hópsturlun. Þetta var performans á heimsmælikvarða og bestu tónleikar sem ég hef séð á Íslandi í ár.

 

Ég þurfti dágóðan tíma í fersku lofti til að jafna mig eftir Portishead en Fuck Buttons voru í essinu sínu að fremja hljóðræn hryðjuverk þegar ég mætti aftur inn í Atlantic Studios skemmuna. Þetta var marglaga óhljóðasúpa en við djúpa hlustun tóku melódíur að rísa upp úr eins og gárur á vatni. Ansi tilkomumikið og góður endir á kvöldinu en bliknaði samt í samanburði við myrkramessuna hjá Portishead.

 

Kvöld tvö

 

Ég hóf leikinn með Sin Fang sem hefur gjörbreytt tónleikum sínum frá því ég sá hann síðast. Í stað venjulegrar hljómsveitar kemur hann fram með tveimur trommuleikurum en sjálfur djöflast hann í hinum ýmsu raftólum ásamt því að eiga við eigin rödd með ýmis konar effektum. Þetta var hressileg tilbreyting og feikilega vel myndskreytt og lög eins og Young Boys og Look at the Light öðluðust annað líf í nýjum útsetningum.

 

Skandínavískt myrkur

 

Breska raftríóið Eaux voru næst á dagskrá í Andrews Theater með líflega blöndu af tekknói og súrkálsrokki undir nokkuð sterkum áhrifum frá kvikmyndatónlist John Carpenters. Tónlistin var mjög góð en algjört myrkur var í salnum og engin ljós á sviðinu. Það er erfitt að tengjast hljómsveit þegar þú sérð ekki andlitin á þeim og þó hljómurinn væri myrkur hefði ég viljað aðeins meiri birtu í salnum.

 

Eftir bíóið var haldið aftur í Atlantic Studios þar sem danska bandið I Break Horses voru að koma sér fyrir. Þau spiluðu draumkennt rafpopp með melankólískum melódíum undir áhrifum frá 9. áratugnum. Tónlistin var einhvern veginn mjög skandínavísk og minnti talsvert á sveitir eins og Bat For Lashes, Knife og Robyn. Þetta var vel gert hjá þeim og alls ekki leiðinlegt en samt ekki mjög eftirminnilegt.

 

Hvorki staður né stund

 

Devandra Banhart er hæfileikaríkur tónlistarmaður sem var þó mjög illa staðsettur á laugardagskvöldinu. Að fara á svið klukkan hálf 11 á undan Interpol á hinu risastóra Atlantic Studios sviði einn með gítar var hreinlega ekki að virka fyrir hann. Hann spilaði mjúkt og söng lágt þannig að kliðurinn nánast yfirgnæfði tónlistina nema maður væri fremst við sviðið. Lögin og framkoman voru líka hálf stefnulaus og hvorki fugl né fiskur.

 

Kuldalegt rokk og fötur af fídbakki

 

Aðalnúmer kvöldsins var síðan New York kuldarokkararnir í Interpol. Þeir stóðu fyllilega fyrir sínu og héldu þéttri keyrslu og góðum dampi í settinu í tæpan einn og hálfan tíma og áhorfendur sungu hástöfum með í helstu slögurunum. Lokaatriði hátíðarinnar var síðan leðurklædda költið Singapore Sling sem komu fram í viðhafnarútgáfu þar sem gamlir meðlimir eins og Einar Sonic, Ester Bíbí og Hákon stigu á stokk og voru þau mest um tíu á sviðinu. Rafmagnsgítarsurgið og fídbakkið var allsráðandi og slagarar eins og Life is Killing My Rock and Roll voru fluttir á tilkomumikinn hátt. Þau enduðu svo frábært sett á mínu uppáhalds Sling lagi, Guiding Light. Þrátt fyrir að fáir hafi verið eftir í salnum sló þetta tilheyrandi botn í epíska hátíð.

Það er svo sannarlega vonandi að All Tomorrow’s Parties sé komin til að vera á Íslandi því hátíðin í ár var frámunalega vel heppnuð á helstu mælikvarða sem hægt er að setja á tónlistarhátíðir. Dagskráin menntaðarfull og fjölbreytt, hljóðið til fyrirmyndar, umhverfið sjarmerandi og andrúmsloftið afslappað. Öll atriði byrjuðu á réttum tíma og ég verð að hrósa ljósameisturunum sérstaklega, það er sjaldgæft á Íslandi að lýsing sé í þeim gæðaflokki sem var á ATP. Atlantic Studios er með bestu tónleikastöðum á landinu í sínum stærðarflokki og það væri óskandi að skemman væri nýtt undir slíkt í auknum mæli.

Davíð Roach Gunnarsson

Fjöldi listamanna bætt við ATP

Átján listamönnum hefur nú verið bætt við dagskrá All Tomorrow’s Parties hátíðarinnar sem fer fram á Ásbrú 10.-12. júlí næstkomandi:

Mogwai
Slowdive
Devendra Banhart (Solo)
Shellac
Low
Loop
Liars
Hebronix
Ben Frost
I Break Horses
Pharmakon
HAM
Singapore Sling
Kria Brekkan
Sin Fang
Náttfari
Pascal Pinon
Fufanu

ATP hátíðin á Íslandi hefur því opinberað heildarlista yfir hvaða hljómsveitir og listamenn það eru sem munu koma fram á Ásbrú í sumar, annað árið sem hátíðin fer fram hér á landi.

 

Þegar hafa sveitirnar Portishead, Interpol, Swans, Kurt Vile & The Violators, Fuck Buttons, Eaux, Forest Swords, Samaris, Low Roar, For A Minor Reflection, Sóley og Mammút verið tilkynntar og munu koma fram hátíðardagana 10. – 12. júlí, auk Neil Young & Crazy Horse  í Laugardalshöll þann 7. júlí.

 

Barry Hogan, stofnandi ATP segir: “Við erum gríðarspennt að geta tilkynnt nokkrar af okkar uppáhalds hljómsveitum sem margar hverjar munu koma fram á Íslandi í fyrsta sinn. Þetta er einungis annað árið okkar, en engu að síður eru þarna ekta ATP hljómsveitir á borð við Mogwai og Shellac auk hljómsveita sem hafa haft mikil áhrif á okkur líkt og Loop og Low. Við elskum Ísland og getum ekki beðið eftir að snúa aftur til að deila þessum frábæru hljómsveitum og einstaka umhverfi með ykkur.”

 

Þó svo að heildarlisti hljómsveita sé nú tilbúinn eru ýmsar spennandi tilkynningar eftir, til að mynda hverjir munu koma til með að stjórna kvikmyndavali hátíðarinnar í ár auk hvaða veitingar það eru sem verða á boðstólum á Ásbrú í júlí.

Neil Young & The Crazy Horse til Íslands

Hinn kanadíska rokkhetja Neil Young er væntanleg til Íslands í sumar og mun halda tónleika í Laugardalshöllinni þann 7. júlí. Tónleikarnir eru haldnir í tengslum við All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðina. Hljómsveitin Crazy Horse sem hefur leikið með honum um áratugaskeið verður með í för en þetta verða fyrstu tónleikarnir á tónleikaferðalagi Young um Evrópu. All Tomorrow’s Parties verður haldin í Ásbrú 10. til 12. júlí en þar koma meðal annars fram Portishead, Interpol og Kurt Vile.

Kurt Vile og Swans á ATP

Sex erlendum hljómsveitum hefur nú verið bætt við dagskrá All Tomorrow’s Parties hátíðarinnar sem fer fram á Ásbrú 10.-12. júlí næstkomandi: Kurt Vile & The Violators, Swans, Fuck Buttons, The Haxan Cloak, Forest Swords og Eaux. Kurt Vile var áður í hljómsveitinn War on Drugs en síðasta sólóskífa hans, Walking on a Pretty Daze, hefur hlotið afbragðsdóma gagnrýnanda og var fimmta besta plata ársins að mati straum.is. Hin sögufræga stórsveit Swans átti að koma til Íslands á þarsíðustu Airwaves hátíð en þurfti frá að hverfa vegna fellibylsins Sandy, og þess vegna ánægjulegt að hana reki loksins á strandir landsins.

Kurt Vile & The Violators og Swans verða á meðal þeirra sem koma fram fimmtudaginn 10. júlí. Fuck Buttons og The Haxan Cloak koma fram föstudaginn 11. júlí ásamt Portishead sem tilkynnt var að kæmi fram á hátíðinni í síðustu viku. Forest Swords og Eaux munu spila á lokadegi hátíðarinnar laugardaginn 12. júlí ásamt Interpol sem einnig var tilkynnt í síðustu viku.

Áður var einnig búið að tilkynna hljómsveitirnar Mammút, For a Minor Reflection, Samaris, Sóley og Low Roar á hátíðina. Fleiri hljómsveitir sem fram koma á hátíðinni verða kynntar á næstu vikum en hægt er að lesa umfjöllun straum.is um síðustu All Tomorrow’s Parties hátíð hér. Hlustið á tóndæmi með sveitunum hér fyrir neðan.



Portishead og Interpol á ATP

Portishead og Interpol verða stærstu hljómsveitirnar á ATP-hátíðinni á Ásbrú  dagana 10.-12. júlí en hvorug hljómsveitin hefur komið fram áður á Íslandi. Portishead verður stærsta nafnið föstudaginn 11. júlí og Interpol stærsta nafnið laugardaginn 12. júlí. Hljómsveitirnar Mammút, For a minor Reflection, Samaris, Sóley og Low Roar verða einnig á meðal þeirra hljómsveita og tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni. Á næstu vikum verður tilkynntur fjöldinn allur af erlendum og íslenskum hljómsveitum til viðbótar.  Áætlað er að tónlistardagskrá hátíðarinnar standi frá 19:00-02:00 alla hátíðardagana og munu í heildina um 25 hljómsveitir koma fram.

Miðasala fer fram á midi.is, í verslunum Brim og atpfestival.com. Þriggja daga hátíðarpassar kosta 18.500 kr. og dagspassar kosta 12.900 kr. Einnig er hægt að kaupa hátíðarpassa og dagspassa með rútuferðum frá BSÍ. Nánari upplýsingar á midi.is.

ATP verður haldin á Ásbrú, fyrrum varnarliðssvæðinu, sem á sér sögu sem rekur aftur til ársins 1941 en bandaríski herinn yfirgaf svæðið árið 2006. Svæðið er staðsett í fimm mínútna aksturfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjanesbæ, um korter frá Bláa Lóninu og hálftíma frá höfuðborgarsvæðinu. Á hátíðarsvæðinu verða tvö svið sem bæði eru innandyra, auk annars konar skipulagðrar dagskrár sem felur meðal annars í sér kvikmyndasýningar, Popppunkt, fótboltamót þar sem hljómsveitir etja kappi við gesti hátíðarinnar o.fl.

ATP haldin aftur á Íslandi

Nú fyrir stundu var tilkynnt frá aðstandendum All Tomorrow’s Parties hátíðarinnar að hún muni verða haldin aftur á Íslandi á næsta ári. Hátíðin verður eins og í fyrra á Ásbrú, gömlu herstöðinni í Keflavík, og mun standa yfir frá fimmtudegi til laugardags 10.-12. júlí. Nick Cave var aðalnúmer hátíðarinnar í fyrra sem var frábærlega vel heppnuð og umhverfið á herstöðinni einstök umgjörð um tónleikahaldið. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og kaupa miða hér og hér má lesa umfjöllun straum.is um hátíðina í fyrra.