Ty Segall og Thee Oh Sees og fleiri á ATP

Nú rétt í þessu var tilkynnt að á All Tomorrow’s Parties hátíðinni næsta sumar eru Sleep, Thee Oh Sees, TY SEGALL and THE MUGGERS, Angel Olsen, Les Savy Fav og Tortoise nýjustu viðbæturnar við daskránna. Áður hafði verið tilkynnt um hryllingsmyndameistarann John Carpenter, sem  í fyrsta sinn á ferlinum flytur tónlist sína opinberlega á hátíðinni.

 

Rithöfundurinn, ljóðskáldið og tónlistarkonan Anika (Invada, Stones Throw) mun koma fram með líbísku söngkonunni og lagahöfundinum Yasmine Hamdan, Blanck Mass mætir en það er sólóverkefni sem Benjamin John Power úr Fuck Buttons ber ábyrgð á. Argentínska dúóið Mueran Humanos sem býr nú í Berlín kemur einnig en þau  gefa út hjá ATP Recordings.

 

Þá munu Örvar Smárason og Gunnar Tynes úr múm spila tónlist undir sýningu myndarinnar ‘Menschen am Sonntag’ (People on Sunday), þýskri þögulli kvikmynd frá 1930 sem er byggð á handriti Billy Wilder. Þá mun uppistandarinn Stewart Lee einnig koma fram.

 

Þetta verður í fjórða skiptið sem ATP hátíðin fer fram á Íslandi en hún verður eins og áður í Ásbrú og stendur yfir dagana 1.-3. Júlí.

All Tomorrow’s Parties: Föstu- og laugardagskvöld

Eftir útsýnisferð um Keflavík og hangs kaffihúsi og síðar bar var ég mættur upp á varnarliðssvæði til að ná í skottið á bandarísku óhljóðasveitinni Lightning Bolt. Þeir framleiddu fyrirtaks hávaða og ágætis Mosh Pitt hafði myndast fyrir framan þá. Trommuleikarinn hamaðist af svo miklum móð að þetta var dálítið eins og að fylgjast með tugþrautarmanni sitjandi á sama stað, svo mikil er líkamlega áreynslan.

 

Gömlu kempurnar í Mudhoney grönsuðu skemmuna í ræmur og fólk hafði á orði að því liði eins Jordan Catalano í My So Called life. Drive Like Jehru tóku svo við og harðrokkuðu áhorfendur með frábærri spilamennsku og þéttri keyrslu í rúman klukkutíma eða svo.

 

Költ í rökkri

 

Þvínæst var komið að dulúðlega postrokksveitinni Godspeed You Black Emperor. Ég þekki lítið til hljómsveitarinnar en þau voru svona 20 á myrku sviðinu með endalaust af græjum og hljóðfærum og þetta leit eiginlega út eins og trúarathöfn hjá költi við varðeld út í skógi. Ég hafði ekki hugmynd um hver spilaði á fiðlu, gítar, bassa eða hljómborð en það skipti ekki máli, allt skipaði þetta þéttan múrsteinavegg af músík í endalausum uppbyggingum og cresendó-um sem enduðu í stórum hvellum og hljóðsprengingum.

 

Sænski ambíenttekknó galdramaðurinn The Field var næstur og byggði hægt en örugglega upp danstrylling á gólfinu fyrir framan sviðið með taktföstum og lágstemmdum endurtekningum sem hann byggði endalaust ofan á. Í lokin var stemmningin komin upp í 9 þegar dj-inn sem fylgdi honum eftir setti á lagið Open Eye Signal með Jon Hopkins sem passaði fullkomlega í kjölfarið og skemman dansaði áfram inn í nóttina. Þegar langt var liðið á morguninn heyrði ég hins vegar lag úr bíl með hljómsveitinni Clipping sem mér fannst alveg stórkostlegt. Þeir höfðu víst átt að vera að spila á föstudaginn en vegna flugvélavesens var þeim frestað til laugardagsins. Meira af því síðar.

 

Lútuprogg og bleikur bílskúr

 

Ég ákvað að hefja laugardagskvöldið á heimsókn í Andrews Theater bíóið í fyrsta skipti á þessari hátíð. Þar var sveitin Xylouris White að spila sem samanstóð af lútuleikara og flottasta trommara hátíðarinnar. Þeir spiluðu einhvers konar djassað lútuprogg sem hefði getað verið sándtrakk við grimms ævintýri eða 1001 nótt. Þetta var aðallega instrumental en af og til tók lútuleikarinn sig til og kyrjaði möntrur á einhverju tungumáli sem hljómaði arabískt. Þetta var dáleiðandi og mjög sérstakt og fín byrjun á þriðja í ATP.

 

Bílskúrsæringjarnir í Pink Street Boys voru næstir á dagskrá, nokkuð undarlega staðsettir í bíósal með sætum. En það kom alls ekki að sök, bleiku strákarnir eru með harða aðdáendur sem mynduðu dansstemmningu fremst, en mér þótti skemmtileg tilbreyting að sjá þá einu sinni sitjandi og í sal með góðu hljóðkerfi. En þrátt fyrir að umgjörðin væri meira fansí en þar sem þeir eru vanir að spila var hráleikinn og pönkuð framkoman ekkert fágaðari.

 

Slípað popp og útpæld óhljóð

 

Þá var haldið aftur yfir í Atlantic Studios að sjá hina fornfrægu no wave/noise hljómsveit Swans. Hljóðstyrkurinn í skemmunni hafði verið hækkaður upp í að minnsta kosti 18 og hljómurinn keyrði yfir þig eins og 20 tonna trukkur. Þetta var mjög tilkomumikið og slatti af töff abstrakt óhljóðapælingum en þetta var full hátt og í of stórum skömmtum fyrir óvön eyru eins og mín þannig ég sagði þetta ágætt eftir 50 mínútur.

 

Sigursveit músíktilrauna í ár, Rhytmatik, voru í Andrews Theater og lofuðu ansi góðu. Þeir eru ekki að finna upp hjólið en grípandi melódíur og slípað klassískt gítarsándið á örugglega eftir að höfða til margra. Söngurinn hefði þó mátt vera aðeins betri, hann var einhvern veginn aðeins of mikið að reyna, en hann mun örugglega finna eigin rödd með áframhaldandi æfingu og spilamennsku.

 

Þegar við komum til baka í Atlantic Studios var Ghostigital að ljúka sér af með noise-hip hoppinu sem hann er frægur fyrir. Það skemmdi þó fyrir að rödd Einars Arnars heyrðist ekki nógu vel í mixinu. Þannig ég ákvað að hlaupa yfir á bandið sem ég hafði heyrt úr bílskotti nóttina áður, Clipping, og það var besta ákvörðun helgarinnar.

 

Uppgötvun hátíðarinnar

 

Hip Hop var mín fyrsta tónlistarást og hefur fylgt mér út lífið en ég verð að vera hreinskilinn með það að oft skilar það sér ekki vel á tónleikum. Yfirleitt bara DJ sem setur á taktana, rappið og orðin heyrast ekki nógu vel, og það vill brenna við sjóið úrkynjist í endalaust „Let me hear you say hell yeah!!“ peppupp-krádið rúnk. En því var svo sannarlega ekki fyrir að fara hjá Clipping sem fyrir mér voru uppgötvun og bestu tónleikar hátíðarinnar.

 

Þó þeir hafi spilað í bíósalnum var ekki sitjandi sálu að sjá í Andrews Theater. Það voru tveir menn á bak við tölvur og græjur og einn rappari sem var svo karismatískur að hann svitnaði sjarma. Hann var tekknískt frábær og svo skýrmæltur að ég heyrði megnið af textunum mjög vel þrátt fyrir að hafa aldrei heyrt lögin áður. Hann rappaði með mismandi röddum og stílum og á köflum hraðar en ljós ferðast. Taktarnir voru bæði tilraunakenndir og djammvænir og aldrei eins í fjórar mínútur, heldur fullir af óvæntum kaflaskiptingum og avant gard óhljóðaspuna.

 

Á einum tímapunkti sagði rapparinn, Daveed Diggs, „It’s all fucked up now“ og lét míkrafóninn detta í sviðið og labbaði í burtu. Hljóðgaurarnir tóku við keflinu og lúppuðu setninguna, hröðuðu á henni, klipptu hana niður í öreindir sínar og límdu aftur saman í svona 5 mínútur þangað til hún sprakk í loft upp og rapparinn kom aftur á sviðið við taumlaus fagnaðarlæti áhorfenda. Það var smá Andre 3000 í honum, smá Gift of Gab úr Blackalicous og nettur Saul Williams líka. Mig langar að segja stjörnu vera fædda en þetta er líklega aðeins of beitt fyrir það. Það eina sem slæma sem ég hef að segja um tónleikana var lengdin, 45 mínútur, glæpsamlega stutt og ég var glorhungraður í meira. Tékkið á Clipping núna!

 

Reif í nýklassík

 

Kiasmos í Atlantic Studios var síðasta atriði helgarinnar og þrátt fyrir að standast ekki samanburð við Clipping stóðu þeir sig með stakri prýði með blöndu af hörðu tekknói og nýklassík. Þrátt fyrir að vera tveir bakvið tölvur heyrði maður samt að þeir voru að gera slatta live og orkan og dansinn þeirra var smitandi. Eftir að þeir hættu tók plötusnúður við sem hélt stemmningunni áfram þar til vel rúmlega þrjú og dansiball myndaðist í skemmunni.

 

Ég tók rútuna heim í hamingjurússi eftir helgina. Eftirbragð af ótal fjölbreyttum tónlistaratriðum og vinalegri stemmningu maraði í meðvitundinni. Hæsti tindurinn fyrir mig persónulega var tilraunarapptríóið Clipping en leðureðlan og eilífðartöffarinn Iggy Pop fylgdi fast á þeirra hæla. Ég hlakka til morgna framtíðarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson

Fimmtudagskvöldið á All Tomorrow’s Parties

Mynd: Óli Dóri

All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin var sett með trukki í gær og allsvakalegri dagskrá. Ég mætti í Keflavík um sjöleitið til að sjá Ninja Tune pródúsantinn Bug í Atlantic Studios og hann heiðraði lágu tíðnirnar svo um munar. Hann framleiðir einhvers konar blöndu af reggíton og hip hop og hljómaði dálítið eins og prótótýpan af Major Lazer. Bassadroppin voru eins og kjarnorkusprengjur og heil sveit af lögreglubílasírenum var mætt í síðasta lagið. Sér til halds og traust hafði hann söngkonu og tvo rappara sem peppuðu krádið upp í hæstu hæðir.

 

Byltingin verður ekki borðuð (allavega ekki í morgunmat)

 

Þar næst var komið að blökku byltingarfréttaveitunni Public Enemy. Þeir mættu með sex manna herdeild með sér sem hafði þann helsta starfa að standi vígalegir með krosslagðar hendur eða hnefa upp í loft eftir tilefninu. Chuck D fór í loftköstum um sviðið milli þess að predika yfir mannsöfnuðinum og Flavor Flav fór með hlutverk sitt sem hinn upprunalegi hype-maður af stakri sturlun. Á einum tímapunkti tilkynnti hann að daginn áður hafi hann verið að eignast sitt sjötta barnabarn og áhorfendaskarinn sjúllaðist í fagnaðarlátum. Ég fílaði leikrænu tilburðinu og hersýningar-væbið og það eina sem skemmdi fyrir var hljóðið. Það er ákveðinn glæpur að sjá eina byltingarkenndustu rödd tónlistarsögunnar á sviði en heyra stundum vart orðaskil því henni er drekkt í bassa.

 

Við erum öll hundar

 

Næstu á svið var pönkafinn og leðureðlan Iggy moðerfokking Popp. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur dúndraði strax í slagarana I Wanna Be Your Dog, Lust For Life og Passenger. Iggy virðist vera einhvers konar vampíra. Hann hefur litið eins út í 15 ár og hlýtur að hafa selt einhverjum vafasömum sál sína til þess að halda sinni frábæru rödd kominn á þennan aldur og geta hlykkjast svona um sviðið. Þekktur íslenskur söngvari spyr oft hvort það séu ekki allir sexí. Svarið er nei, en Iggy var það svo sannarlega þetta kvöld og miklu meira til. Við vorum öll hundurinn hans.

 

Fánaberar krúttindístefnunnar í Belle And Sebastian voru næst og léku á alls oddi í nýju og gömlu efni. Þau voru með strengjasveit, trompet og allar græjur þannig að lög eins og Summer Is Wasted, I’m a Coockoo og Boy With The Arab Strab hljómuðu frámunalega vel. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra eldgamla lagið Dog on Wheels þar sem íslenski trompetleikarinn Eiríkur fór á kostum.

 

Demantar sem glampar á

 

Það var farið að tæmast nokkuð í skemmunni þegar Run The Jewels byrjuðu en það var missir þeirra sem fóru. El-P og Killer Mike eru ferskasta rappdúó undanfarinna ára og kemistrían á milli þeirra var ósvikin og smitandi. Þeir skoppuðu í takt um sviðið, göntuðust og kláruðu línur hvors annars af fádæma krafti, öryggi og áreynsluleysi. Það verður þó að segjast að hljóðið hefði getað verið betra, líkt og á Public Enemy var bassinn full yfirgnæfandi og átti það til að fletja út raddirnar og háu tíðnirnar.

 

Heilt yfir var kvöldið helvel heppnað og það sem stóð upp úr var Afi Pönk, Iggy Pop, sem að sprengdi kúlskalann í loft upp af endalausu öryggi.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Topp 10 erlend atriði á ATP

Tónlistarhátíðin All Tomorrow’s Parties hefst á morgun og í tilefni af því setti Straumur saman lista með þeim tíu erlendu atriðum sem við mælum sérstaklega með. Við hvetjum alla til að leggja land undir fót (í 40 mínútna rútuferð til Ásbrú) og njóta þess mikla tónlistarhlaðborðs sem boðið er upp á um helgina. Á straum.is næstu daga verður svo hægt að lesa umfjöllun um hátíðina.

 

Belle and Sebastian

 

Eitt stærsta indí band allra tíma hefur aldrei klikkað í tvo áratugi þó svo plöturnar séu vissulega misgóðar. Þeir hafa hins vegar sannað sig sem spikfeitt live-band og síðasta plata þeirra inniheldur fádæma funky partýslagara á borð við Party Line. Við sáum þá á Primavera hátíðinni fyrir örstuttu síðan og það kemur enginn svikinn af tónleikum með þeim.

 

The Field

 

Sænski raftónlistarmaðurinn The Field reiðir sig á naumhyggju og endurtekningu sem fer með hlustendur í ferðalag um leiðsluástand. Hljóðheimurinn er byggður úr sekúndubrots hljóðbútum sem er raðað saman af nákvæmni og hugvitssemi sem eiga fáa sína líka.

 

Run The Jewels

 

Run The Jewels er samstarfsverkefni El-P og Killer Mike sem hófst þegar að sá fyrrnefndi pródúseraði plötu fyrir þann síðarnefnda. Meðan á upptökum stóð hófur þeir samstarf í stúdíóinu og ákváðu svo að gefa afraksturinn ókeypis á netinu. Það vatt svo aldeilis upp á sig og var valin ein besta plata ársins sem þeir fylgdu síðan eftir með Run The Jewels 2 sem toppaði marga árslista um síðustu áramót.

 

The Bug

 

Paddan er listamannsnafn hins breska Kevin Martin sem gefur út hjá hinni fornfrægu Ninja Tune útgáfu. Hann blandar saman reggí-i við trip- og hip hop í ómótstæðilega grautarsúpu sem unun er á að hlíða.

 

Iggy Pop

 

Gamli ber að ofan pönkafinn er ennþá í fullu fjöri og ristjórnarmeðlimir straum.is geta borið vitni um að tónleikar hans í Listasafni Reykjavíkur fyrir örfáum árum stóðu fyllilega undir öllum væntingum.

 

Swans

 

Goðsagnakennda no wave hljómsveitin Swans er nú loksins að koma til landsins eftir að fellibylurinn Sandy kom í veg fyrir tónleika þeirra á Airwaves árið 2012. Plata þeirra Be Kind lenti ofarlega á mörgum árslistum yfir bestu plötur 2014 og tónleikar þeirra eru alræmdir fyrir allra handa tæting og trylling.

 

Lighnting Bolt

 

Óhljóðadúettinn Lighting Bolt er frægur fyrir óhefðbundna nálgun á tónleika þar sem þeir spila iðulega niðrá gólfi frekar en uppi á sviðinu. Trommari þeirra Brian Chippendale vann með Björk á plötunni Volta.

 

Public Enemy

 

Svarta fréttaveitan má kannski muna fífil sinn fegurri en Chuck D býr yfir meiri orku en Kárahnjúkavirkjun og Flavor Flav veit svo sannarlega ennþá hvað klukkan slær. Trúið hæpinu og berjið niður valdið.

 

Ice Age

 

Dönsku unglingarnir í Ice Age sóttu Ísland heim á Airwaves í hittí fyrra og trylltu viðstadda með óviðjafnanlegum hávaða og ungæðislegri sviðsframkomu.

 

Mudhoney

 

Mudhoney hafa starfað í þrjá áratugi og voru leiðandi afl í grugg-senunni frá Seattle borg í byrjun tíunda áratugarins.

Síðustu listamennirnir tilkynntir á ATP

Tónlistarhátíðin ATP á Íslandi hefur nú tilkynnt síðustu nöfn listamanna sem munu koma fram á hátíðinni í ár, 2. – 4. júlí.

Val listamannanna að þessu sinni er í höndum Bedroom Community útgáfunnar annarsvegar og Rásar 2 hinsvegar. Báðir aðilar hafa valið þrjá listamenn til að koma fram á Andrew’s Theatre sviðinu, en auk þeirra munu tveir listamenn til viðbótar hafa möguleika á að troða upp á hátíðinni í ár í gegnum sérstaka keppni á vegum ATP (sjá að neðan).

Listamennirnir eru sem hér segir:

Bedroom Community í Andrews Theatre – föstudagur, 3. júlí:
Valgeir Sigurðsson ásamt Liam Byrne
Daníel Bjarnason
JFDR
Vinningshafi – upprennandi listamaður/hljómsveit

Rás 2 í Andrews Theatre – laugardagur, 4 .júlí:
Pink Street Boys
Rythmatik
Börn
Vinningshafi – upprennandi listamaður/hljómsveit

Með þessari nýju viðbót er heildarlisti yfir þá listamenn sem koma fram sem hér segir:
Iggy Pop, Drive Like Jehu, Belle and Sebastian, Public Enemy, Swans, Godspeed You! Black Emperor, Run The Jewels, Mudhoney, Loop, Lightning Bolt, Bardo Pond, Kiasmos, HAM, Ghostigital, Ought, Clipping, The Bug, Younghusband, Xylouris White, Deafheaven, Iceage, Chelsea Wolfe, The Field, White Hills, Ghostigital, Oyama, Vision Fortune, Grísalappalísa, Valdimar, Stafrænn Hákon, Mr Silla, Kippi Kaninus, Tall Firs, Grimm Grimm, Ben Frost + Valgeir Sigurðsson, Daníel Bjarnason, Jófríður (sóló), Pink Street Boys, Rythmatik og Börn.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir ungra & upprennandi listamanna, en þeir sem sækja um eiga möguleika á því að koma fram á hátíðinni í ár. Valið er í höndum Bedroom Community og Rásar 2 sem velja eitt atriði hvort fyrir sín kvöld í Andrews Theatre. Jafnframt verða tveir listamenn til viðbótar valdir sem 3. og 4. sæti og hljóta að launum hátíðarpassa á ATP á Íslandi.
Hægt er að sækja um hér fram til 26. maí en einnig er frekari upplýsingar þar að finna.

Bráðlega verður svo tilkynnt um hverjir munu koma til með að velja kvikmyndadagskrá hátíðarinnar í ár og hvaða veitingar verða í boði á hátíðarsvæðinu.

Public Enemy og Swans á ATP

Hip Hop goðin í Public Enemy eru væntanleg til Íslands í sumar á All Tomorrow’s Parties hátíðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar en fjölda annarra listamanna hefur einnig verið bætt við dagskrána, og ber þar hæst Swans sem áttu að spila á Airwaves 2012 og margir voru svekktir þegar þeir neyddust til að afboða vegna fellibylsins Sandy. Þá kemur einnig fram að Lightning Bolt, Bardo Pond, Grísalappalísa, Valdimar, Stafrænn Hákon, Oyama, Mr Silla og Kippi Kaninus muni koma fram.

 

All Tomorrow’s Parties hátíðin fer fram í þriðja skipti á Ásbrú í sumar dagana 2.-4. júlí, en áður hafa hljómsveitir eins og Belle and Sebastian, Iggy Pop, Run The Jewels og Godspeed you! Black Emperor verið kynntar til leiks á hátíðina. Hér fyrir neðan má horfa á „hið svarta CNN“, eins og Public Enemy sögðu sjálfa sig vera á hátindi sínum:

Iggy Pop á All Tomorrow’s Parties

Nú rétt í þessu var tilkynnt að aldni æringinn og eilífðarpönkarinn Iggy Pop muni koma fram á All Tomorrow’s Parties hátíðinni í Sumar. Þá var einnig tilkynnt að sveitirnar Drive Like Jehu, The Bug, Ought, Kiasmos, HAM, Xylouris White, Clipping og Grimm Grimm komi fram. Þetta bætist við langan lista listamanna sem áður hefur verið kynntur þar sem hæst ber nöfn eins og Belle and Sebastian, Run The Jewels og Godspeed You! Black Emperor. Þetta er í þriðja skiptið sem All Tomorrows hátíðin fer fram á Íslandi en hún verður 2.-4. júlí á gamla varnarliðssvæðinu Ásbrú fyrir utan Keflavík. Hér er hægt að lesa umfjöllun Straums um síðustu hátíð.

Godspeed You! og Run The Jewels á ATP

Í dag var tilkynnt að Godspeed You! Black Emperor og hip hop sveitin Run The Jewels séu meðal þeirra sem munu spila á All Tomorrow’s Parties hátíðinni á næsta ári. Aðrir sem bætt var við dagskrána eru Deafheaven og sænski raftónlistarmaðurinn The Field. Þá var tilkynnt í gær að bandaríska gruggbandið Mudhoney, dönsku pönkararnir í Ice Age og Ghostigital muni einnig koma fram. Aðalatriði hátíðarinnar verða svo skosku indírisarnir í Belle and Sebastian en hátíðin fer fram 2.-4. júlí á gamla varnarliðssvæðinu Ásbrú.

Belle and Sebastian aðalnúmerið á ATP 2015

Skoska hljómsveitin Belle and Sebastian verður aðalnúmerið á fyrsta kvöldi tónlistarhátíðarinnar All Tomorrows Parties sem verður haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ 2. til 4. júlí á næsta ári. Hér er uppfjöllun okkar um hátíðina sem fram fór í ár.

Belle & Sebastian  valdi einmitt hljómsveitir á fyrstu ATP hátíðina sem haldin var, “The Bowlie Weekender” á Camber Sands, árið 1999.

“Við hlökkum ótrúlega mikið til að spila á ATP á Íslandi. Við höfum sterka tengingu við ATP og getum ekki beðið eftir að koma fram á ATP hátíð á einum af okkar eftirlætis stöðum. Við vorum yfir okkur hrifin af Camber Sands árið 1999 og Minehead árið 2010, þannig að það að fá að spila á Íslandi verður frábært. Það er rosalega langt síðan við spiluðum á Íslandi. Það verður æðislegt. Við getum ekki beðið!” – Richard Colburn, Belle & Sebastian 

Í dag hefst sérstakt tilboð á miðum sem kosta 60 evrur (85 evrur með rútu) fyrir passa á alla hátíðina, en þeir eru af afar skornum skammti. Er þetta gert svo erlendir gestir hafi meiri tíma til að bóka flug og gistingu en hefur verið. Þegar þessir miðar seljast upp verður svo boðið upp á tilboðsmiða á 90 evrur en venjulegt verð er svo 110 evrur. Hér má nálgast miða. Gistimöguleika og fleira verður tilkynnt um síðar.

Barry Hogan, stofnandi ATP segir: “Með hverju árinu stækkar hátíðin og við erum að vinna í að bóka frábærar hljómsveitir til að fylgja eftir Portishead og Nick Cave and the Bad Seeds. Belle and Sebastian eru nú fyrsta aðalhljómsveit dagskrár sem við lofum að verður spennandi þriðji kafli í sögu ATP á Íslandi.”


All Tomorrow’s Parties – Hátíð í Herstöð

Mynd: Ozzo.is

Það er mikið gleðiefni að All Tomorrow’s Parties hátíðin sé haldin í annað skipti á kalda landinu og í ár stækkaði hátíðin og bætti við sig þriðja deginum, auk tjaldsvæðis og partýtjalds. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem innihéldu Hróarskeldu, millilendingu í Barcelona og yfirbókaða flugvél var ég erlendis fram á fimmtudagsnótt og komst því miður ekki á fyrsta kvöldið, en heyrði mjög vel látið af Shellac og Mogwai, en heldur verr af rigningunni.

 

Gotnesk keyrsla

 

Þegar ég mætti á tónleikasvæðið var Sóley að syngja sitt hugljúfa krúttpopp og skapaði mjög notalega stemmningu í hinu risastóru flugskýli sem er aðalsvið hátíðarinnar. Rigningin lét sem betur fer ekki sjá sig þetta kvöldið og því myndaðist skemmtilegt andrúmsloft fyrir utan Atlantic Studios þar sem fólk sat og spjallaði á bekkjum, fékk sér að borða eða brá sér inn í partýtjaldið þar sem plötusnúðar léku listir sínar. Liars er band sem ég hef ekki hlustað á áður en þeir voru þrumuþéttir í þungri rokkkeyrslu. Þetta var nokkurs konar dimmt og gotneskt synþarokk mitt á milli Depache Mode og Bauhaus.

 

Næstir á svið í Atlantic voru svo gömlu skóglápskempurnar í Slowdive, sem margir voru spenntir fyrir. Þeir framleiddu hnausþykka gítarveggi yfir hægfljótandi trommubít og helltu úr fötum af fídbakki yfir áhorfendur. Þetta var afskaplega vandað hjá þeim en fyrir þá sem eru ekki kunnugir höfundaverki sveitarinnar varð þetta nokkuð keimlíkt þegar á leið.

 

Árás á augu og eyru

 

Næst á svið voru trip hop hetjurnar frá Bristol, Portishead, og flugskýlið fylltist óðum þegar líða dró nær miðnætti. Það var ljóst að þau voru helsta aðdráttarafl kvöldsins og eftirvæntingin í salnum var áþreifanleg þegar ljósin voru slökkt og beðið var eftir goðunum. Það sem gerðist næsta einn og hálfa tímann var útpæld árás á eyru og augu úr öllum mögulegum áttum. Tíu manna hljómsveitin framdi svartagaldur á sviðinu en  fyrstu lögin komu af þriðju plötu sveitarinnar, Third.  Beth Gibbons er sönglegt náttúruafl og hljómurinn var óaðfinnanlegur. Rauntíma myndböndum af hljómsveitinni á sviðinu voru brengluð með sækadelískum síum og varpað á risastórt tjald fyrir aftan þau sem hafði dáleiðandi áhrif.

 

Þau tóku góðu blöndu af öllum ferlinum en áhorfendur tóku við sér svo um munar í lögum af Dummy eins og Wandering Star, Sour Times og Glory Box þar sem allir sungu hástöfum með. Eftir rúman klukkutíma fóru þau af sviðinu og ég hef sjaldan séð áheyrendur jafn æsta í uppklappi. Þegar Rhodes hljómarnir úr Roads byrjuðu að óma byrjaði gæsahúðafiðringur að læða sér upp mænuna og ég gat ekkert gert annað en staðið dolfallinn og opinmynntur að drukkið í mig flutninginn. Síðasta lagið var We Carry On af Third sem er undir sterkum áhrifum frá þýsku súrkálsrokki og þá var myndavélunum beint út í áhorfendaskarann sem var að missa legvatnið í sameiginlegri hópsturlun. Þetta var performans á heimsmælikvarða og bestu tónleikar sem ég hef séð á Íslandi í ár.

 

Ég þurfti dágóðan tíma í fersku lofti til að jafna mig eftir Portishead en Fuck Buttons voru í essinu sínu að fremja hljóðræn hryðjuverk þegar ég mætti aftur inn í Atlantic Studios skemmuna. Þetta var marglaga óhljóðasúpa en við djúpa hlustun tóku melódíur að rísa upp úr eins og gárur á vatni. Ansi tilkomumikið og góður endir á kvöldinu en bliknaði samt í samanburði við myrkramessuna hjá Portishead.

 

Kvöld tvö

 

Ég hóf leikinn með Sin Fang sem hefur gjörbreytt tónleikum sínum frá því ég sá hann síðast. Í stað venjulegrar hljómsveitar kemur hann fram með tveimur trommuleikurum en sjálfur djöflast hann í hinum ýmsu raftólum ásamt því að eiga við eigin rödd með ýmis konar effektum. Þetta var hressileg tilbreyting og feikilega vel myndskreytt og lög eins og Young Boys og Look at the Light öðluðust annað líf í nýjum útsetningum.

 

Skandínavískt myrkur

 

Breska raftríóið Eaux voru næst á dagskrá í Andrews Theater með líflega blöndu af tekknói og súrkálsrokki undir nokkuð sterkum áhrifum frá kvikmyndatónlist John Carpenters. Tónlistin var mjög góð en algjört myrkur var í salnum og engin ljós á sviðinu. Það er erfitt að tengjast hljómsveit þegar þú sérð ekki andlitin á þeim og þó hljómurinn væri myrkur hefði ég viljað aðeins meiri birtu í salnum.

 

Eftir bíóið var haldið aftur í Atlantic Studios þar sem danska bandið I Break Horses voru að koma sér fyrir. Þau spiluðu draumkennt rafpopp með melankólískum melódíum undir áhrifum frá 9. áratugnum. Tónlistin var einhvern veginn mjög skandínavísk og minnti talsvert á sveitir eins og Bat For Lashes, Knife og Robyn. Þetta var vel gert hjá þeim og alls ekki leiðinlegt en samt ekki mjög eftirminnilegt.

 

Hvorki staður né stund

 

Devandra Banhart er hæfileikaríkur tónlistarmaður sem var þó mjög illa staðsettur á laugardagskvöldinu. Að fara á svið klukkan hálf 11 á undan Interpol á hinu risastóra Atlantic Studios sviði einn með gítar var hreinlega ekki að virka fyrir hann. Hann spilaði mjúkt og söng lágt þannig að kliðurinn nánast yfirgnæfði tónlistina nema maður væri fremst við sviðið. Lögin og framkoman voru líka hálf stefnulaus og hvorki fugl né fiskur.

 

Kuldalegt rokk og fötur af fídbakki

 

Aðalnúmer kvöldsins var síðan New York kuldarokkararnir í Interpol. Þeir stóðu fyllilega fyrir sínu og héldu þéttri keyrslu og góðum dampi í settinu í tæpan einn og hálfan tíma og áhorfendur sungu hástöfum með í helstu slögurunum. Lokaatriði hátíðarinnar var síðan leðurklædda költið Singapore Sling sem komu fram í viðhafnarútgáfu þar sem gamlir meðlimir eins og Einar Sonic, Ester Bíbí og Hákon stigu á stokk og voru þau mest um tíu á sviðinu. Rafmagnsgítarsurgið og fídbakkið var allsráðandi og slagarar eins og Life is Killing My Rock and Roll voru fluttir á tilkomumikinn hátt. Þau enduðu svo frábært sett á mínu uppáhalds Sling lagi, Guiding Light. Þrátt fyrir að fáir hafi verið eftir í salnum sló þetta tilheyrandi botn í epíska hátíð.

Það er svo sannarlega vonandi að All Tomorrow’s Parties sé komin til að vera á Íslandi því hátíðin í ár var frámunalega vel heppnuð á helstu mælikvarða sem hægt er að setja á tónlistarhátíðir. Dagskráin menntaðarfull og fjölbreytt, hljóðið til fyrirmyndar, umhverfið sjarmerandi og andrúmsloftið afslappað. Öll atriði byrjuðu á réttum tíma og ég verð að hrósa ljósameisturunum sérstaklega, það er sjaldgæft á Íslandi að lýsing sé í þeim gæðaflokki sem var á ATP. Atlantic Studios er með bestu tónleikastöðum á landinu í sínum stærðarflokki og það væri óskandi að skemman væri nýtt undir slíkt í auknum mæli.

Davíð Roach Gunnarsson