All Tomorrow’s Parties: Föstu- og laugardagskvöld

Eftir útsýnisferð um Keflavík og hangs kaffihúsi og síðar bar var ég mættur upp á varnarliðssvæði til að ná í skottið á bandarísku óhljóðasveitinni Lightning Bolt. Þeir framleiddu fyrirtaks hávaða og ágætis Mosh Pitt hafði myndast fyrir framan þá. Trommuleikarinn hamaðist af svo miklum móð að þetta var dálítið eins og að fylgjast með tugþrautarmanni sitjandi á sama stað, svo mikil er líkamlega áreynslan.

 

Gömlu kempurnar í Mudhoney grönsuðu skemmuna í ræmur og fólk hafði á orði að því liði eins Jordan Catalano í My So Called life. Drive Like Jehru tóku svo við og harðrokkuðu áhorfendur með frábærri spilamennsku og þéttri keyrslu í rúman klukkutíma eða svo.

 

Költ í rökkri

 

Þvínæst var komið að dulúðlega postrokksveitinni Godspeed You Black Emperor. Ég þekki lítið til hljómsveitarinnar en þau voru svona 20 á myrku sviðinu með endalaust af græjum og hljóðfærum og þetta leit eiginlega út eins og trúarathöfn hjá költi við varðeld út í skógi. Ég hafði ekki hugmynd um hver spilaði á fiðlu, gítar, bassa eða hljómborð en það skipti ekki máli, allt skipaði þetta þéttan múrsteinavegg af músík í endalausum uppbyggingum og cresendó-um sem enduðu í stórum hvellum og hljóðsprengingum.

 

Sænski ambíenttekknó galdramaðurinn The Field var næstur og byggði hægt en örugglega upp danstrylling á gólfinu fyrir framan sviðið með taktföstum og lágstemmdum endurtekningum sem hann byggði endalaust ofan á. Í lokin var stemmningin komin upp í 9 þegar dj-inn sem fylgdi honum eftir setti á lagið Open Eye Signal með Jon Hopkins sem passaði fullkomlega í kjölfarið og skemman dansaði áfram inn í nóttina. Þegar langt var liðið á morguninn heyrði ég hins vegar lag úr bíl með hljómsveitinni Clipping sem mér fannst alveg stórkostlegt. Þeir höfðu víst átt að vera að spila á föstudaginn en vegna flugvélavesens var þeim frestað til laugardagsins. Meira af því síðar.

 

Lútuprogg og bleikur bílskúr

 

Ég ákvað að hefja laugardagskvöldið á heimsókn í Andrews Theater bíóið í fyrsta skipti á þessari hátíð. Þar var sveitin Xylouris White að spila sem samanstóð af lútuleikara og flottasta trommara hátíðarinnar. Þeir spiluðu einhvers konar djassað lútuprogg sem hefði getað verið sándtrakk við grimms ævintýri eða 1001 nótt. Þetta var aðallega instrumental en af og til tók lútuleikarinn sig til og kyrjaði möntrur á einhverju tungumáli sem hljómaði arabískt. Þetta var dáleiðandi og mjög sérstakt og fín byrjun á þriðja í ATP.

 

Bílskúrsæringjarnir í Pink Street Boys voru næstir á dagskrá, nokkuð undarlega staðsettir í bíósal með sætum. En það kom alls ekki að sök, bleiku strákarnir eru með harða aðdáendur sem mynduðu dansstemmningu fremst, en mér þótti skemmtileg tilbreyting að sjá þá einu sinni sitjandi og í sal með góðu hljóðkerfi. En þrátt fyrir að umgjörðin væri meira fansí en þar sem þeir eru vanir að spila var hráleikinn og pönkuð framkoman ekkert fágaðari.

 

Slípað popp og útpæld óhljóð

 

Þá var haldið aftur yfir í Atlantic Studios að sjá hina fornfrægu no wave/noise hljómsveit Swans. Hljóðstyrkurinn í skemmunni hafði verið hækkaður upp í að minnsta kosti 18 og hljómurinn keyrði yfir þig eins og 20 tonna trukkur. Þetta var mjög tilkomumikið og slatti af töff abstrakt óhljóðapælingum en þetta var full hátt og í of stórum skömmtum fyrir óvön eyru eins og mín þannig ég sagði þetta ágætt eftir 50 mínútur.

 

Sigursveit músíktilrauna í ár, Rhytmatik, voru í Andrews Theater og lofuðu ansi góðu. Þeir eru ekki að finna upp hjólið en grípandi melódíur og slípað klassískt gítarsándið á örugglega eftir að höfða til margra. Söngurinn hefði þó mátt vera aðeins betri, hann var einhvern veginn aðeins of mikið að reyna, en hann mun örugglega finna eigin rödd með áframhaldandi æfingu og spilamennsku.

 

Þegar við komum til baka í Atlantic Studios var Ghostigital að ljúka sér af með noise-hip hoppinu sem hann er frægur fyrir. Það skemmdi þó fyrir að rödd Einars Arnars heyrðist ekki nógu vel í mixinu. Þannig ég ákvað að hlaupa yfir á bandið sem ég hafði heyrt úr bílskotti nóttina áður, Clipping, og það var besta ákvörðun helgarinnar.

 

Uppgötvun hátíðarinnar

 

Hip Hop var mín fyrsta tónlistarást og hefur fylgt mér út lífið en ég verð að vera hreinskilinn með það að oft skilar það sér ekki vel á tónleikum. Yfirleitt bara DJ sem setur á taktana, rappið og orðin heyrast ekki nógu vel, og það vill brenna við sjóið úrkynjist í endalaust „Let me hear you say hell yeah!!“ peppupp-krádið rúnk. En því var svo sannarlega ekki fyrir að fara hjá Clipping sem fyrir mér voru uppgötvun og bestu tónleikar hátíðarinnar.

 

Þó þeir hafi spilað í bíósalnum var ekki sitjandi sálu að sjá í Andrews Theater. Það voru tveir menn á bak við tölvur og græjur og einn rappari sem var svo karismatískur að hann svitnaði sjarma. Hann var tekknískt frábær og svo skýrmæltur að ég heyrði megnið af textunum mjög vel þrátt fyrir að hafa aldrei heyrt lögin áður. Hann rappaði með mismandi röddum og stílum og á köflum hraðar en ljós ferðast. Taktarnir voru bæði tilraunakenndir og djammvænir og aldrei eins í fjórar mínútur, heldur fullir af óvæntum kaflaskiptingum og avant gard óhljóðaspuna.

 

Á einum tímapunkti sagði rapparinn, Daveed Diggs, „It’s all fucked up now“ og lét míkrafóninn detta í sviðið og labbaði í burtu. Hljóðgaurarnir tóku við keflinu og lúppuðu setninguna, hröðuðu á henni, klipptu hana niður í öreindir sínar og límdu aftur saman í svona 5 mínútur þangað til hún sprakk í loft upp og rapparinn kom aftur á sviðið við taumlaus fagnaðarlæti áhorfenda. Það var smá Andre 3000 í honum, smá Gift of Gab úr Blackalicous og nettur Saul Williams líka. Mig langar að segja stjörnu vera fædda en þetta er líklega aðeins of beitt fyrir það. Það eina sem slæma sem ég hef að segja um tónleikana var lengdin, 45 mínútur, glæpsamlega stutt og ég var glorhungraður í meira. Tékkið á Clipping núna!

 

Reif í nýklassík

 

Kiasmos í Atlantic Studios var síðasta atriði helgarinnar og þrátt fyrir að standast ekki samanburð við Clipping stóðu þeir sig með stakri prýði með blöndu af hörðu tekknói og nýklassík. Þrátt fyrir að vera tveir bakvið tölvur heyrði maður samt að þeir voru að gera slatta live og orkan og dansinn þeirra var smitandi. Eftir að þeir hættu tók plötusnúður við sem hélt stemmningunni áfram þar til vel rúmlega þrjú og dansiball myndaðist í skemmunni.

 

Ég tók rútuna heim í hamingjurússi eftir helgina. Eftirbragð af ótal fjölbreyttum tónlistaratriðum og vinalegri stemmningu maraði í meðvitundinni. Hæsti tindurinn fyrir mig persónulega var tilraunarapptríóið Clipping en leðureðlan og eilífðartöffarinn Iggy Pop fylgdi fast á þeirra hæla. Ég hlakka til morgna framtíðarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *