Fimmtudagskvöldið á All Tomorrow’s Parties

Mynd: Óli Dóri

All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin var sett með trukki í gær og allsvakalegri dagskrá. Ég mætti í Keflavík um sjöleitið til að sjá Ninja Tune pródúsantinn Bug í Atlantic Studios og hann heiðraði lágu tíðnirnar svo um munar. Hann framleiðir einhvers konar blöndu af reggíton og hip hop og hljómaði dálítið eins og prótótýpan af Major Lazer. Bassadroppin voru eins og kjarnorkusprengjur og heil sveit af lögreglubílasírenum var mætt í síðasta lagið. Sér til halds og traust hafði hann söngkonu og tvo rappara sem peppuðu krádið upp í hæstu hæðir.

 

Byltingin verður ekki borðuð (allavega ekki í morgunmat)

 

Þar næst var komið að blökku byltingarfréttaveitunni Public Enemy. Þeir mættu með sex manna herdeild með sér sem hafði þann helsta starfa að standi vígalegir með krosslagðar hendur eða hnefa upp í loft eftir tilefninu. Chuck D fór í loftköstum um sviðið milli þess að predika yfir mannsöfnuðinum og Flavor Flav fór með hlutverk sitt sem hinn upprunalegi hype-maður af stakri sturlun. Á einum tímapunkti tilkynnti hann að daginn áður hafi hann verið að eignast sitt sjötta barnabarn og áhorfendaskarinn sjúllaðist í fagnaðarlátum. Ég fílaði leikrænu tilburðinu og hersýningar-væbið og það eina sem skemmdi fyrir var hljóðið. Það er ákveðinn glæpur að sjá eina byltingarkenndustu rödd tónlistarsögunnar á sviði en heyra stundum vart orðaskil því henni er drekkt í bassa.

 

Við erum öll hundar

 

Næstu á svið var pönkafinn og leðureðlan Iggy moðerfokking Popp. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur dúndraði strax í slagarana I Wanna Be Your Dog, Lust For Life og Passenger. Iggy virðist vera einhvers konar vampíra. Hann hefur litið eins út í 15 ár og hlýtur að hafa selt einhverjum vafasömum sál sína til þess að halda sinni frábæru rödd kominn á þennan aldur og geta hlykkjast svona um sviðið. Þekktur íslenskur söngvari spyr oft hvort það séu ekki allir sexí. Svarið er nei, en Iggy var það svo sannarlega þetta kvöld og miklu meira til. Við vorum öll hundurinn hans.

 

Fánaberar krúttindístefnunnar í Belle And Sebastian voru næst og léku á alls oddi í nýju og gömlu efni. Þau voru með strengjasveit, trompet og allar græjur þannig að lög eins og Summer Is Wasted, I’m a Coockoo og Boy With The Arab Strab hljómuðu frámunalega vel. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra eldgamla lagið Dog on Wheels þar sem íslenski trompetleikarinn Eiríkur fór á kostum.

 

Demantar sem glampar á

 

Það var farið að tæmast nokkuð í skemmunni þegar Run The Jewels byrjuðu en það var missir þeirra sem fóru. El-P og Killer Mike eru ferskasta rappdúó undanfarinna ára og kemistrían á milli þeirra var ósvikin og smitandi. Þeir skoppuðu í takt um sviðið, göntuðust og kláruðu línur hvors annars af fádæma krafti, öryggi og áreynsluleysi. Það verður þó að segjast að hljóðið hefði getað verið betra, líkt og á Public Enemy var bassinn full yfirgnæfandi og átti það til að fletja út raddirnar og háu tíðnirnar.

 

Heilt yfir var kvöldið helvel heppnað og það sem stóð upp úr var Afi Pönk, Iggy Pop, sem að sprengdi kúlskalann í loft upp af endalausu öryggi.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *