Opnunartónleikar Volta í kvöld

Tónleikastöðum í Reykjavík hefur farið fækkandi undanfarið, það var sorglegt að sjá á eftir Nasa og nú styttist í að Faktorý verði rifinn vegna uppbyggingar á reit Hjartagarðarins. Þess vegna fagna því allir góðir menn þegar nýir tónleikastaðir opna og Straumur er þar ekki undanskilinn. Í kvöld opnar skemmti- og tónleikastaðurinn Volta á Tryggvagötu 22 með stórtónleikum þar sem fram koma Hjaltalín, Bloodgroup, Ojba Rasta og Sóley.

Þetta er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur en Hjaltalín hafa hlotið mikið lof fyrir sína nýjustu plötu, Enter 4, sem meðal annars var valin plata ársins af tímaritinu Grapevine. Stórdöbbsveitin Ojba Rasta hefur einnig hlotið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu plötu sem kom út á árinu og Bloodgroup gáfu út sína þriðju plötu Tracing Echoes fyrir örfáum dögum en hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Þá hefur Sóley verið að sigra heiminn á liðnu ári með undurfögrum söng sínum.

Miklu hefur verið tjaldað til með staðinn sem er á tveimur hæðum með fatahengi, kokteilbar og setustofu á neðri hæð en bar, dansgólfi, reykherbergi og sviði með heimsklassa hljóðkerfi og hágæða ljósabúnaði á þeirri efri. Straumur hvetur alla þá sem geta haldið á hanska að láta sjá sig og styðja við þessa nýjustu viðbót í tónleikaflóru borgarinnar.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *