Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sindri Sin Fang opnar sig loksins um ást sína á hip-hop tónlist

Sindri Már Sigfússon er skrambi afkastamikill náungi. Ekki aðeins tekst honum að gleðja fólk reglulega með hljómsveitinni Seabear, heldur gefur hann líka út plötur og kemur fram undir nafninu Sin Fang, sem er einskonar sóló-hliðarverkefni Sindra (skemmtileg staðreynd: Seabear var einusinni sólóverkefni líka, en svo breyttist Seabear í hljómsveit). Svo tekur hann stundum líka upp plötur með öðrum tónlistarmönnum og aðstoðar þá í hvívetna (hann vann t.d. að síðustu plötu öðlingsins Snorra Helgasonar, hinni stórgóðu Winter Sun). 

Nema hvað, það eru alltaf að koma út plötur með Sindra og nú er ný slík á leiðinni undir merkjum Sin Fang. Heitir sú Flowers og er alveg bráðskemmtileg. Sindri ætlar að fagna útgáfu plötunnar á skemmtistaðnum Harlem í kvöld (fimmtudag, sko) og lofar í viðburðarsíðu partýsins að hann ætli að spila fullt af kræsilegri hip hop músík. Þetta er auðvitað mikið gleðiefni, enda platan stórkostleg áhlustunar og svo er líka alltaf gaman að drekka bjór og hlusta á næs hip hop. Af því tilefni sendum við Sindra tölvupóst og báðum hann að segja okkur aðeins frá hip hopinu í lífi sínu.

Sæll Sindri, til hamingju með nýju Sin Fang plötuna!

Halló! Takk!

Ég er búinn að hlusta aðeins á hana. Þetta er gæða gripur! En það er helst til lítið rappað á henni. Af hverju er það?

Takk! Við klipptum út allt rappið á seinustu stundu í mixinu.

[Look at the Light af breiðskífunni Flowers. Rappleysi lagsins er tiltölulega áberandi]

Gætirðu hugsað þér að gera einhverntíman rapp plötu?

Nei ég held að ég leyfi ekta röppurum að sjá um það. Ég held að ég myndi ekki vera neitt rosalega sannfærandi rappari. því miður.

En að búa til takta fyrir einhvern annan sem rappar?

Já, það gæti verið gaman að prófa.

Að öllu gamni slepptu, þá hefur ekki farið fram hjá neinum að þú ert mikill hiphop aðdáandi, eins og sjá má ef maður eltir þig á Twitter og viðlíka samskiptamiðlum. Af hverju höfðar hip hop tónlist svona sterklega til þín? Hvað er það við hip hop músík sem gerir hana ómótstæðilega í þínum eyrum?

Ég veit það ekki alveg. stundum finnst mér lögin bara vera fyndinn en stundum finnst mér eins og maður sé að fá að kíkja inní einhvern heim sem er frekar langt frá mínum veruleika. Og stundum eru þetta bara svo skemmtileg lög.


Hverjar eru helstur rapp-hetjurnar sem þú hlustar á? Aðhyllistu einhvern sérstakan skóla hip hops (suðurríkjaskólann, gangsta rabb, old skool, etc)?

Ég hlustaði eiginlega bara á hip hop og rapp þegar að ég var unglingur. Þá var það Wu Tang, Smiff n Wessun, Black Moon, Outkast, Redman, Roots osfv. Svo tók ég reglulega upp Kronik þáttinn sem Robbi Rapp stýrði á kassettu. Hlusta á það í bland við nýtt svo að ég myndi bara segja að ég hlusti á ’90s rapp í bland við svona nýtt hóstasafts pillu rapp.

Hvað finnst þér um svona bakpokarapp, eins og Sole og allt Anticon gengið. Og Slug og þá.

Kveikti eiginlega aldrei á þeirri bylgju.

Hverjir finnst þér svona bestir allra tíma? Og af hverju?

Wu Tang? Enter the 36 Chambers?

Hver er besta hip hop plata allra tíma að þínum dómi og af hverju?

Þær plötur sem ég hef örugglega hlustað á mest eru Doggystyle með Snoop og Ready to Die með Biggie. Hlusta ennþá á þær.

En hverju hefurðu verið að veita athygli svona upp á síðkastið? Hvaða nýja gengi ertu að fíla?

A$AP Rocky finnst mér vera mjög skemmtilegt. veit ekki hvort að R. Kelly falli undir hip hop en ég hlusta mikið á hann. Sérstaklega ef að ég er að fá mér.

Talandi um A$AP Rocky, hvað finnst þér um það gengi allt? Er eitthvað varið í þetta?

Mér finnst A$AP Rocky sjálfur allavegana mjög skemmtilegur. Hef ekki tékkað á miklu frá hinum röppurunum í þessu gengi. Peso, Purple Swag, Fucking Problems eru allt æðisleg lög.


En Odd Future krakkana. Eru textarnir of hómófóbískir/kvenfyrirlitaðir til að maður geti haft gaman af þessu með góðri samvisku?

Ég er ekki ennþá búinn að kveikja á þessu. Fíla samt Frank Ocean plötuna mjög vel. Held að þessir krakkar séu samt að reyna að sjokkera frekar en að vera einhverjir homophobes eða kvennhatarar.

Hvaðan færðu þínar upplýsingar um rabbmúsík? Það er ekki mikið fjallað um hana í íslenskum fjölmiðlum, ef frá er talinn frábær þáttur Danna Delúx á Rás 2. Ertu að sækja þessa músík mest erlendis frá?

Bara frá vinum og blogg síðum. Hef ekki tékkað nógu oft á þættinum hans Danna Delúx en ætla að bæta úr því.

Hefurðu veitt íslensku hip hopi sérstaka athygli? Hverja fílarðu þar, og hvers vegna?

Hef ekki fylgst neitt sérstaklega vel með því seinustu ár. Fíla Gísla Pálma mjög vel þessa dagana.

Hvað finnst þér um Afkvæmi Guðanna?

Eru þeir ekki hættir? Hættu að hringja í mig hættu að senda mér smsss.

Tókstu afstöðu með Móra eða Poetrix í bífinu þeirra?

Haha nei.

En Móra eða Erpi?

Neibb.

En Erp eða Subta krewinu?

Nei ég vil ekki vera drepinn. Er samt til í að dissa eitthvað indie band sko.

Hver er frægasti rappari sem þú hefur hitt?

Hitaði einusinni upp fyrir Ghostface Killah. Held að ég hafi ekki heilsað honum samt.

Hver er flottasta ríma sem þú hefur heyrt?

“You say no to drugs / Juicy J can’t”

Ef þú mættir gera lag með einum rappara, hver yrði það?

Ol’ Dirty Bastard.

Hvort finnst þér mikilvægara upp á gott hip hop lag, takturinn (músíkin) eða textinn?

Bara misjafnt. Textinn þarf nú ekki að vera merkilegur. Held að þetta ég hafi spilað þetta lag oftast í fyrra, þar sem textinn er aðalega um að hann búi við hliðina á kobe bryant.

Hvor finnst þér betri, 50 Cent eða Eminem?

Eminem finnst mér skárri.

Hvað verðurðu svona helst að spinna í Sin Fang partýinu á fimmtudagskvöld? Hvað verður mikið af fríbjór?

Bara eitthvað nýtt í bland við gamalt. Það verður vonandi bara nóg af bjór. Annars kaupi ég kannski bara kassa af Hennesy.

Viðtal og myndvinnsla: Haukur S. Magnússon. Haukur er á Twitter. Það var og.