Bestu íslensku lög ársins 2015

Bestu íslensku lögin 2015 by Straumur on Mixcloud

25) Nissan Sunny – Laser Life

 

24) Roska – Gímaldin

 

23) Girlfriend For The Summer – Sumar Stelpur

 

22) Í næsta lífi – xxx Rottweiler hundar

 

21) 2AM – Japanese Super Shift

 

20) Desert – H.dór

 

19) Harmala – Gunnar Jónsson Collider

 

18) SU10 – Daveeth

 

17) Koddíkossaslag – Kött Grá Pjé

 

16) Low Road – Wesen

 

15) Draumalandið – Gísli Pálmi

 

14) Your Collection (Nick Zinner remix) – Fufanu

 

13) Special Places (ft. Jófríður) – Muted

 

12) Quicksand – Björk

 

11) ÆJL -Singapore Sling

 

10) The Dream – Buspin Jieber

Lokalag ep plötunnar We Came As We Left sem kom út 25. mars. Líkt og bandaríski fóstbróðir hans Com Truise tekur Buspin Jieber það besta úr raftónlist 9. áratugarins og blandar því saman við nýrri áherslur.

9) Enginn  Þríkantur hér – Elli Grill og Leoncie

Maður mynd halda að það fá Leoncie til að syngja með sér lag væri ávísun á grínflipp sem endist ekki lengi. En þetta lag, sem er í raun endurgerð á lagi Leoncie, er alveg stórgott þó það sé líka dálítið fyndið. Takturinn er eins og fljótandi kódín og Elli Grill og Leoncie skiptast á súrrealískum línum og það er mikil kemistría á milli þeirra.

8) Endurminning (Lauren Auder) – Lord Pusswhip

Á fyrstu plötu Pusswhip úir og grúir af tilraunakenndu, lyfjuðu og pönkuðu hipp hoppi en lagið sem greip okkur mest var hið ljúfsára Endurminning þar sem hann fær söngvaranna Lauren Auder til liðs við sig. Ægifagurt í einfaldleika sínum og minnir nokkuð á skjannahvíta soul söngvarann Spooky Black.

7) Kalt – Kælan Mikla

Kalt ber svo sannarlega nafn með rentu því trommuheila og hljómborðshljómurinn er svalur virðingarvottur við drungalegt síðpönk fyrri hluta 9. áratugarins og hrá ljóðræna textans er ískaldari en sjálfur Gísli Pálmi.

6) So In Love With U – MSTRO

Reykvíski tónlistarmaðurinn Stefán Páll Ívarsson sem gengur undir listamannsnafninu MSTRO gaf út þetta stórkostlega lag í upphafi árs. Stöðugur taktur, drungaleg söngrödd og skýr skilaboð.

5) Love Love Love Love – Helgi Valur

Meistaraverk Helga Vals af plötu hans Notes from the Underground. Samið inn á geðdeild í miðju geðrofi. Stórbrotið og epískt lag um ástina.

4) We Live For Ages – Hjaltalín

Fyrsta lagið sem Hjaltalín sendir frá sér frá því að platan Enter IV kom út árið 2012. Ef þetta lag er forsmekkurinn af því sem koma skal er ekki annað hægt en að vera spenntur fyrir framtíð hljómsveitarinnar. Ferskt, kærulaust og jákvætt.

3) Stelpur – Jón Þór

Í Stelpur fangar Jón Þór kjarna þess að vera ungur, örvæntingarfullur og ástsjúkur í miðri hringiðu reykvísks næturlífs. Passlega hrátt sándið og fáránlega grípandi viðlagið klístrast við heilabörkinn í marga daga eftir hlustun.

2) Morgunmatur – GKR

GKR skapaði sér heldur betur nafn í sterkri hip hop senu á árinu með lofsöng um mikilvægustu máltíð dagsins, morgunmatinn. Þegar aðrir rapparar rappa um hvað þeir eru harðir hefur GKR ótrúlega næmt auga fyrir amstri hversdagslífsins.

1) Elskan Af Því Bara – Vaginaboys

Þessi angurværi R’n’B slagari kom eins og þruma úr heiðskýru lofti í vor. 808 trommuheili, 80’s synþar og átótúnaður söngur skapa seiðandi ástaróð sem er sexí og sorglegur í hnífjöfnum hlutföllum.

Bestu íslensku plötur ársins 2015

10) Good Moon Deer – Dot

Austfyrski raftónlistarmaðurinn Good Moon Deer gaf sína fyrstu breiðskífu út ókeypis á netinu fyrri part árs. En platan er langt frá því að vera verðlaus, heldur mjög hugvitsamlega gert bútasaumsteppi sampla úr ýmsum áttum. Tempóið er flöktandi og síbreytilegt, hljóðbútar eru klipptir í agnarsmáar agnir og endurraðað, og þegar best lætur minnir Dot á taktmeistara á borð við Prefuse 73.

9) Lord Pusswhip – Lord Pusswhip Is Wack

Beitt og beinskeytt breiðskífa Lord Pusswhip. Pönkað hip-hop þar sem Lordarinn leiðir saman fjöldan allan af hæfileikafólki og útkoman er eins og ekkert annað sem er að gerast í íslenskri tónlist í auknablikinu.

8) Helgi Valur – Notes from the Underground

Notes from the Underground er ferðalag Helga Vals Ásgeirssonar til heljar og til baka. Platan sem var samin í geðrofi – niðurtúr í Berlín og í bata í Reykjavík fangar orku manns sem er á krossgötum. Falleg breiðskífa sem nær hápunkti sínum í hinu epíska lagi Love, Love, Love, Love.

7) Singapore Sling – Psych fuck

Sling hafa alltaf verið fánaberar íslensks innisólgleraugnarokks og ákveðinn fasti í tónlistarsenunni. Sama hvort að krútt eða rapp eru helsta trendið þá stundina standa Singapore Sling alltaf til hliðar og halda sínu striki í níhílísku töffararokkinu. Psych Fuck er þó jafnvel harðari og myrkari heldur en þeirra fyrri verk og er þá mikið sagt. Stundum er söngurinn hlaðinn svo mikilli bjögun að það hljómar eins og Henrik leigi stúdíótíma af satan.

6) Markús & The Diversion Sessions – The Truth the Love the Life

Biðin eftir þessari breiðskífu hefur verið löng og ströng en útkoman svíkur ekki neinn. Sterkir og skemmtilegir textar, létt kærulaus Pavement flutningur með smá Megas inn á milli.

5) Mr Silla – Mr Silla

Fyrsta plata tónlistarkonunar Sigurlaugar Gísladóttur eða Mr.Silla kom út í október 2015. Þrátt fyrir það hefur Sigurlaug verið áberandi í íslenskri tónlist í rúman áratug m.a. sem meðlimur hljómsveitarinnar múm. Platan sem heitir einfaldlega Mr.Silla er í senn einstök og angurvær sem oft fer ekki saman.

4)  Gísli Pálmi – Gísli Pálmi

Gísli Pálmi sprakk í loft upp í vor þegar hans fyrsta breiðskífa sem er samnefnd honum kom loksins út. Allir hip hop unnendur landsins og unglingar í efra Breiðholti misstu líkamsvessa af gleði og heyrst hefur að vinna hafi lagst af í Plain Vanilla í þrjá daga eftir útkomu gripsins. Og skyldi engan undra því hér er um að ræða einu bestu hip hop plötu sem komið hefur út á Íslandi. Bara bítin eru hátækni framtíðarmúsík í efsta klassa og Gísli Pálmi er frábær rappari sem hefur byggt upp karakter og söguheim sem eru algjörlega hans eigin. Hækkum bassann og gefum í botn.

3) Vaginaboys – Icelandick

Vaginaboys eru óvæntasta uppgötvun ársins í íslensku tónlistarlífi. 80’s elektró R’n’B með átótúnuðum söng og íslenskum textum sem þræða einstigi milli væmni og klámfengni. Þeirra bestu hliðar skína í gegn á stuttskífunni Icelandick sem kom út í lok árs. Við kaupum þetta í heildsölu og fáum ekki nóg!

2) Pink Street Boys – Hits#1

Annað árið í röð eiga Pink Street Boys næst bestu plötu ársins hjá Straumi. Allir þeir sem hafa séð bandið á tónleikum vita hversu krafturinn er mikill hjá þessu einstaka bandi. Á plötunni ná þeir að fanga þennan kraft og gott betur.

1) Tonik Ensemble – Snapshots

Snapshots er geysilega metnaðarfullt verk þar sem nostrað er við hvert einasta smáatriði. Hér er allt útpælt: frá uppbyggingu laga og plötunnar sem heild niður í smáhljóð sem heyrist í byrjun eins lags og svo aldrei aftur. Það er þykkt og sterkt heildarsánd yfir plötunni sem er bæði angurvært og melankólískt á sama tíma. Tonik Ensemble er kominn í fremstu röð íslenskra raftónlistarsveita og Snapshots er fagleg og fullorðins en samt með risastóra sál sem skín í gegnum alla plötuna.

Tonik Ensemble – Until We Meet Again (ft. Shipsea) from Sigrún Hreins on Vimeo.

Úrvalslisti Kraums 2015

Öldungaráð Kraums hefur tilnefnt 21 plötur á Úrvalslista Kraums en þann 11. desember næstkomandi verður tilkynnt hvaða 5-6 plötur af þessum tuttugu koma til með að skipa Kraumslistann 2015. Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru. Viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.

Úrvalslisti Kraum­sverðlaun­anna er val­in af fimmtán manna dóm­nefnd, svo­kölluðu öld­ung­ar­ráði. Ráðið skipa Árni Matth­ías­son (formaður), Al­ex­andra Kj­eld, Arn­dís Björk Ásgeirs­dótt­ir, Arn­ar Eggert Thorodd­sen, Andrea Jóns­dótt­ir, Bene­dikt Reyn­is­son, Elísa­bet Indra Ragn­ars­dótt­ir, Heiða Ei­ríks­dótt­ir, Helga Þórey Jóns­dótt­ir, Hild­ur Maral Hamíðsdótt­ir, Jó­hann Ágúst Jó­hanns­son, María Lilja Þrast­ar­dótt­ir, Matth­ías Már Magnús­son, Óli Dóri og Trausti Júlí­us­son.

Ráðið fór yfir á þriðja hundrað hljóm­platna sem komið hafa út á ár­inu, en þar af voru 170 ra­f­ræn­ar út­gáf­ur. Stærri dóm­nefnd hef­ur nú hafið störf og sér um að velja 6 plöt­ur af Kraum­slist­an­um sem hljóta munu Kraum­sverðlaun­in.

 

Úrvalslisti Kraums 2015 – Listinn er birtur í stafrófsröð

as­dfgh – Stein­gerv­ing­ur
Dj flug­vél og geim­skip – Nótt á hafs­botni
Dul­vit­und – Lífs­ins þungu spor
Fuf­anu – Few More Days To Go
Gísli Pálmi – Gísli Pálmi
Gunn­ar Jóns­son Colli­der – Apes­hedder
Jón Ólafs­son & Fut­ur­egrap­her – Eitt
Krist­ín Anna Val­týs­dótt­ir – Howl
Lord Pusswhip – … is Wack
Misþyrm­ing – Söngv­ar elds og óreiðu
Mr Silla – Mr Silla
Muck – Your Joyous Fut­ure
Myrra Rós – One Among­st Ot­h­ers
Nordic Af­fect – Clockwork­ing
Ozy – Dist­ant Present
Presi­dent Bongo – Serengeti
Sól­ey – Ask The Deep
Teit­ur Magnús­son – 27
Tonik En­semble – Snaps­hots
TSS – Me­an­ing­less Songs
Vag­ina­boys – Icelandick

KEXPort 2015

Tónleikahátíðin KEXPort verður haldin í fjórða skiptið í portinu fyrir aftan KEX Hostel laugardaginn 18. júlí næstkomandi frá tólf á hádegi til miðnættis. Tónleikarnir eru haldnir til heiðurs KEXP í Seattle og munu koma fram tólf tónlistaratriði á jafn mörgum klukkustundum. KEXP er útvarpsstöð sem sótt hefur Ísland árlega allt frá árinu 2009 og hefur unnið óeigingjarnt starf til kynningar íslenskrar tónlistar í Bandaríkjunum og víðar í heiminum.

Hátíðin er haldin í portinu fyrir aftan Kex Hostel og eru þeir opnir almenningi á meðan rúm leyfir. Mikill stemmning er fyrir KEXPort í ár og er óhætt að segja að segja að fjölbreytni tónlistaratriða sé með besta móti.
Myndbandstöku af tónleikunum í ár verður streymt beint í gegnum KEXP.ORG, Kexland.is og MusicReach.tv og er það í fyrsta skiptið sem það verður gert.

Dagskrá tónlistaratriða er efirfarandi:

12:00 Sóley

13:00 Teitur Magnússon

14:00 Kælan Mikla

15:00 Futuregrapher

16:00 Markús and the Diversion Sessions

17:00 Valdimar

18:00 Rökkurró

19:00 Muck

20:00 Gísli Pálmi

21:00 DJ Yamaho

22:00 Agent Fresco

23:00 Emmsje Gauti

Meðal þeirra sem hafa komið fram á KEXPort eru Samúel Jón Samúelsson Big Band, Kiriyama Family, Ghostigital, Low Roar, Sóley, Tilbury, Snorri Helgason, Úlfur Úlfur, Mr. Silla, Sykur, Dimma, Reykjavíkurdætur, Sometime, Kött Grá Pje, MUCK, Kippi Kanínus og Moses Hightower.

Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Annar í Sónar

Mynd: A. Albert

Föstudagskvöldið mitt hófst í Norðurljósasalnum þar sem Starwalker, hljómsveit Barða Bang Gang og J.B. Dunckel úr Air, lék á sínum fyrstu tónleikum. Þau voru þó greinilega þaulæfð því engan byrjendabrag var að heyra á flutningnum. Þetta er feikilega vandað og stílhreint rafpopp og Duncel fór á kostum í villtu synþasólói í lokalaginu.

GP með make-up

Næst á dagskrá var furðufyrirbærið Gísli Pálmi sem lék á alls oddi í Sónarflóanum. Hann var með svaðalega augnmálningu og að sjálfsögðu ber að ofan og hoppaði og skoppaði um allt sviðið auk þess að klifra upp á hátalara og rappa úr sér lungun. Taktarnir voru framreiddir af tveimur mönnum með klúta sem huldu andlit sín, en þeir eru mjög flottir, einhvers konar mínímalískur fútúrismi.

Eftir að hafa fengið ráðlagðan kvöldskammt af GP hélt ég í Silfurberg þar sem Bonobo hafði komið sér fyrir á sviðinu ásamt hljómsveit. Þau léku áheyrilegt trip hop með exótískum áhrifum frá hinum ýmsu heimsálfum auk þess að njóta aðstoðar söngkonu í nokkrum lögum. Ég hoppaði svo aðeins niður til að sjá hina eitilhörðu rapppíu Cell7 og sá ekki eftir því. Fyrsta sólóplatan hennar var með betri íslensku plötum síðasta árs og lögin af henni skiluðu sér vel á sviðið en hún naut aðstoðar meðlima Moses Hightower við flutninginn.

Dökkt og bjart tekknó

Þá var röðin komin að Jon Hopkins en hann nýtti hljóðkerfi Silfurbergs til hins ýtrasta, keyrði allt í botn svo þú fannst fyrir drungalegu tekknóinu með öllum líkamanum en ekki bara eyrunum. Klúbbastemmningin var allsráðandi og Hopkins stjórnaði dansandi skaranum eins og her af strengjabrúðum. Ég hljóp síðan yfir í Norðurljósasalinn til að sjá restina af Kölch sem bauð líka upp tekknó, en þó nokkuð bjartara og poppaðra en Hopkins. En ekki síður skemmtilegt og ég hélt dansandi út í nóttina með bassatrommu í hverju hjartslagi.

Kvöldið var vel heppnað og hátíðin almennt farið mjög vel fram hingað til. Í kvöld eru það svo Major Lazer, James Holden og Trentemoller sem ég hlakka hvað mest til að sjá. Lesið um það á morgun en hér er hægt að lesa umfjöllun um fyrsta kvöld hátíðarinnar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 31. 7

Hljómsveitin Grísalappalísa ætlar að blása til veislu á tónleikastaðnum Faktorý vegna nýútkominnar plötu sinnar, ALI. Með Grísalappalísu verða Ojba Rasta og DJ Flugvél og Geimskip. Húsið opnar 21:00. Það kostar 1000 krónur inn, eða 3000 krónur og fyrsta plata Grísalappalísu, ALI, fylgir með. 

 

 

Fimmtudagur 1. 8

Frumsýninga á heimildamyndinni um kvennapönkhljómsveitina Pussy Riot kl 19:30. Kvennapönkhljómsveitin Viðurstyggð mun hita allhressilega upp og léttar veitingar verða í boði frá kl 19:30, en myndin hefst á slaginu kl 20:00. Hægt er að tryggja sér miða á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða á frumsýninguna í miðasölu Bíó Paradís en hún er opin daglega frá kl 17.

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einnig að koma fram. Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Upphitun fyrir Innipúkann á Kex klukkan 21:00. Samaris leika fyrir gesti og hægt verður að kaupa armbönd á hátíðina sjálfa.

Myrra Rós og Elín Ey spila á tónleikum á Café Rósenberg klukkan 21. 1000 krónur inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Treisí spila á Dillon klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Bíó Paradís heldur áfram að bjóða upp á sumartónleika, en þetta verða þeir síðustu í bili og verða þeir því í stóra sal hússins og hefst tónlistin klukkan 22:00. Samaris og Arnljótur koma fram.

 

 

Föstudagur 2. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í tólfta skipti í Reykjavík um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2013 teygir sig yfir tvo daga og fer fram föstudags- og laugardagskvöld, dagana 2. og 3. ágúst. Hátíðin í ár fer fram á Faktorý. það kostar 3000 fyrir eitt kvöld en 4900 fyrir bæði kvöldin.

Föstudagur:
Gísli Pálmi
Valdimar
Steed Lord
Prins Póló
Skelkur í bringu

 

 

Thule kynnir útihátíð í bakgarðinum á Dillon um Verslunarmannahelgina. Verð fyrir eitt kvöld 2500 en 4500 fyrir þrjú kvöld. Dagskrá föstudags:

Dagskrá föstudags
21:00-22:00 Botnleðja
20:00-20:45 Leaves
19:15-19:45 Johnny And The Rest
18:30-19:00 Thingtak
17:45-18:15 Alchemia
17:00-17:30 Jósef “Elvis” Ólason/Grillveisla

 

 

 

Laugardagur 3. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn heldur áfram á Faktory.

Laugardagur: 

Botnleðja
Geiri Sæm
Ylja
Agent Fresco
Grísalappalísa

 

Rykkrokk hátíð í Fellagörðum verður sérstakt off venue á Innipúkanum í ár. Rykkrokk var síðast haldið 1995 og verður dagskráin klæðskerasniðin nútímanum með nostalgísku ívafi. Allir sem koma fram hafa sterka tengingu við Breiðholtið:
-Langi Seli og Skuggarnir
-Prins Póló
-Gríspalappalísa
-Tanya & Marlon
-Samaris
Frítt inn! og innipúkar úr öllum hverfum Reykjavíkur hvattir til að koma uppí Fellagarða.Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Blaz Roca
20:00-20:45 Vintage Caravan
19:15-19:45 Sindri Eldon & The Ways
18:30-19:00 The Wicked Strangers
17:45-18:15 Rekkverk
17:00-17:30 Grillveisla
Sunnudagur 4. 8

 

Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Brain Police
20:00-20:45 Dimma
19:15-19:45 Esja
18:30-19:00 TBA
17:45-18:15 Herbert Guðmundsson
17:00-17:30 Grillveisla

Annar í Airwaves

Mynd: Iona Sjöfn

Ég hóf annað kvöld Airwaves á Kex Hostel þar sem tvær Hip Hop sveitir frá Seattle lögðu saman krafta sína. Shabazz Palaces er verkefni Ishmael Butler, sem var forsprakki rappsveitarinnar Digable Planets í byrjun tíunda áratugarins og hefur lengi verið í uppáhaldi hjá undirrituðum. Í Shabazz Palaces rær hann þó á tilraunakenndari mið með bassaþungum og draugalegum hljóðheimi og afar pólitískum textum. Hann kom fram ásamt trommara og kvennarappsveitinni Theesatifaction. Tónleikarnir voru um margt góðir en aðstæður á Kex Hostel eru þó ekki til fyrirmyndar, ekkert svið er til staðar svo það er nánast ómögulegt að sjá hljómsveitina.

Hressilegt powerpopp

Eftir að hafa sett batteríin í hleðslu með bjórsötri í heimahúsi hélt ég niður í Hafnarhúsið að sjá bandarísku indísveitina Phantogram. Þau voru einungis þrjú á sviðinu en hljóðheimurinn var í engu samræmi við fjöldann. Hljómsveitin spilar nokkurs konar maximalískt powerpopp með hip hop áhrifum og þau náðu upp mjög góðri stemmningu í pökkuðu listasafninu. Eftir að þau höfðu lokið sér af rölti ég yfir á Amsterdam og fylgdist með Gang Related sem voru í rokna rokkstuði. Hljóðið var frábært og letilegt slakker-rokkið var flutt af strákslegri gleði sem skein af hverju riffi.

Upplýstar trommur

Þvínæst rölti ég yfir götuna á Þýska barinn og náði þremur lögum með rapparanum Gísla Pálma. Það er hægt að nota mörg orð um Gísla Pálma en hefðbundið er ekki eitt af þeim. Mér finnst eins og hann sé ekki alvöru persóna heldur karakter úr bíómynd eftir Todd Solondz eða Harmony Korine. Það er alltaf upplifun að sjá hann á sviði og hann rappaði af guðs náð og áhorfendur hreinlega átu stemmninguna úr lófa hans. Þá var haldið aftur í Hafnarhúsið til að sjá hæpaðasta band kvöldsins, Purity Ring. Þau voru tvö á sviðinu, söngkona og græjukall, og fluttu framsækið tölvupopp af miklu öryggi. Sérstaklega skemmtilegt voru einhvers konar lampatrommur, sem að hljómuðu eins og stáltrommur og lýstust upp þegar barið var á þær. Tónleikarnir voru frambærilegir en stóðu kannski ekki alveg undir hæpinu og stemmningin var líflegri hjá Phantogram.

Skipulögð óreiða

Eftir að Purity Ring höfðu lokið sér af fór ég ásamt góðum hópi íslendinga og Kanadabúa yfir á Iðnó til að sjá listamanninn Doldrums frá Montreal. Tónlistin sem hann framreiddi var alveg dásamlega skipulögð óreiða. Hann kom fram ásamt trommuleikara og græjugellu en sjálfur sá hann um söng og óheyrilegt magn af tólum og tækjum, þar á meðal plötuspilara. Söngröddin hans var kraftmikil og afskaplega kvenleg og hann dansaði um sviðið og djöflaðist í græjum milli þess sem hann söng af innlifun og sveiflaði hljóðnemanum í allar áttir. Frábær lokapunktur á öðrum í Airwaves og hressasta atriðið hingað til.

 

Davíð Roach Gunnarsson