Rafmagnsstólinn: Jón Gabríel í Nolo

 

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

Að þessu sinni var það Jón Gabríel Lorange söngvari og gítarleikari Nolo sem var grillaður en hann hefur síðustu misseri einbeitt sér ásamt öðrum hljómsveitarmeðlimum að nýrri Nolo plötu.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndiru mest vilja hita upp fyrir? 

Ég væri mest til í að hita upp fyrir Kalla Bjarna, ekki grín.

 

Hvað er besta tónlistin sem þú hefur uppgötvað á árinu? 

lagið Dance of the Knights með Serguei Prokofiev.

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt/uppáhalds tónlist í bíómynd?

Uppáhalds kvikmyndatónskáldið mitt er Howard Shore, uppáhalds tónlist í bíómynd er í Stanley Kubrick myndinni Barry Lyndon eða Shining!

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni (og af hverju?)

Ég á mér ekkert eitt uppáhalds tímabil í tónlistarsögunni en 20. öldin stendur þó uppúr.

 

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?

Ég er eiginlega bara með Nolo lög og mín lög á Itunes. Þannig það er svarið við því. Annars nota ég Youtube, vínyl og ipod til að hlusta á aðra tónlist.

 

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega (undanfarið ca. ár)?

Bestu tónleikar sem ég hef séð “nýlega” eru örugglega Dirty Projectors á Airwaves 2012.

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn (íslandi / erlendis)?

Það eru ekki margir tónleikastaðir á Íslandi um þessar mundir en mér fannst Faktorý alltaf bestur. Annars eigum við eftir að spila á Paloma! Og gerum það 19. apríl!

 

Uppáhalds plötuumslag? 

líklegast þarna Santana platan með svörtum manni að halda á hvítum fugli. Man ekki hvað hún heitir… (Greatest Hits)

 

Þekkirðu Jakob Frímann (ef svo hvernig? hefurðu hitt hann?)? 

Hver er Jakob Frímann? Er hann á Bylgjunni?

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka jam-session með?

Ég myndi vilja taka jam-session með mjög mörgum en fyrsti sem kemur upp í huga er Bob Marley. Ég sendi honum e-mail um árið um hvort hann vildi syngja með Nolo, ekkert svar borist enn.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?

Ég væri mest til í að vinna með TUPAC SHAKUR!

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er , hver myndi það vera?

Ég myndi mest vilja vinna með upptökustjóranum George Martin, fimmti bítillinn.

 

 

Hvaða plata fer á á rúntinum? 

eitthvað rokkað og sultað eins og Master of Reality með Black Sabbath.

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?

Síðasta tónlist sem ég keypti var Leonard Cohen plata sem gjöf.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?

Þegar ég sleit 3 strengi í einni stroku.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?

Líklega þessa Santana plata sem ég minntist á áðan.

 

Enn í eftirpartínu?  

Í eftirpartíinu myndi ég setja á einhverja seiðandi píanótónlist með Debussy, já eða Erik Satie.

 

Hver er frægasti Facebook vinur þinn?

Ívar Björnsson er frægasti facebook vinur minn.

 

Uppáhalds borgin þín?  Reykjavík

 

 

Þið eruð að vinna að nýrri plötu, hvaða fimm orð myndu lýsa henni best?

sniðug, snúin, safarík, inlegg og epli.

 

Hvaðan kemur nafnið Nolo?

Nafnið Nolo birtist Ívari í draumi þar sem hann var á ferðalagi um Tyrkland með ferðafélaga sem var fjallageitin Nolo.

Spennumælir: It’s Album Time með Todd Terje

Norsarinn Todd Terje hefur í yfir áratug verið einn af fánaberum hinnar svokölluðu geimdiskó-senu ásamt samlöndum sínum Lindstrom og Prins Thomas. Sá geiri keyrir mikið á samruna diskótónlistar og bernskuára raftónlistarinnar, retrófútúrisma með áherslu á  rómantíska framtíðarsýn 7. og 8. áratugarins á tækniframfarir og geimferðir. Hugsið um kokteilboð í skýjaborginni úr Empire Strikes Back, diskótek í Deep Space Nine geimstöðinni, grafíkina á Moon Safari plötunni og búningahönnun og leikmynd Barbarellu.

 

Hann hefur getið sér gott orð fyrir ep-plötur og smáskífur á borð við Eurodans, Ragysh, Here come the Arps og nú síðast Inspector Norse sem tröllreið öllum dansgólfum sem fætur á festi sumarið 2012. Þá liggja eftir hann tugir ef ekki á annað hundrað endurhljóðblandanir, bæði af gömlum diskósmellum og nýrri listamönnum. En þrátt fyrir langan feril hefur hann aldrei áður reynt við breiðskífuformið fyrr en nú, á plötu sem ber hinn sjálfsmeðvitaða og galsafulla titil It’s Album Time … with Todd Terje.

Ástæðan fyrir þessum langa biðtíma er augljóslega ekki skortur á efni heldur að hann vildi vanda til verka og árangurinn er auðheyrður. Þetta er ekki samansafn af smáskífum heldur breiðskífa með stóru B- og R-i og áherslu á breidd. Hún hefur upphaf, miðju, endi og útpældar brýr og uppbyggingar þar á milli. Á plötunni er Terje er með annan fótinn á ströndinni en hinn út í geimi. En svo er hann líka með fullt af aukafótum sem hlaupa um dansgólf, kokteilboð, kvikmyndir, karnívöl og bara hvert sem þeim og Terje sýnist. Hann er tónlistarmaður með húmor fyrir sjálfum sér – en hann tekur húmorinn alvarlega og af barnslegri einlægni frekar en útjaskaðri kaldhæðni.

 

Upphafs- og titillagið er eins og tónlistin áður en tjaldið fellur og sýningin byrjar, upptaktur sem er ætlað að skapa eftirvæntingu. Leisure Suit Preben er fágaður lounge-djass með kosmískum undirtónum og Alfonso Muskedunder er 70’s spæjarafönk af bestu sort sem hljómar eins og eitthvað úr smiðju argentínska kvikmyndatónskáldsins Lalo Schifrin. Delorean Dynamite flýgur með þig upp fyrir gufuhvolfið og í fullkomnum heimi væri Strandbar þematónlist Ibiza frekar en David Guetta.

Terje sannar á plötunni að hann er algjört sándséní og hljóðheimurinn er hreint út sagt virtúósó. Þar dansa sembalar samba við sílófóna og bongótrommur bjóða léttfönkuðum gíturum upp í villtan vals. Í honum má líka finna píanó, strengi og örugglega tugi fermetra af effektarekkum sem líma alla þessa mismunandi parta saman. En hryggjarstykkið er samt hljóðgervlarnir sem eru undirliggjandi og alltumlykjandi og Todd Terje er yfirburðarmaður í þeirri deild. Hljómurinn stundum bjartur og tær eins og lækir í vorleysingum eða ægidjúpur bassi úr botni Kyrrahafsins. Synþarnir  hljóma sitt á hvað eins og geimskip í flugtaki, ölduniður eða geislabyssur, allt eftir því hvaða andrúmslofti lagið kallar eftir. Sólóið í Preben goes to Acapulco á eftir að framkalla bros út að eyrnasneplum og glott upp að hársverði hjá öllum með púls sem á það hlýða.

Um miðbik plötunnar róar hann hana niður með hægasta tempóinu og eina sungna laginu, Johnny and Mary, sem Bryan Ferry ljær rödd sína og aldraðan elegans. Það líður þó ekki á löngu áður en hann keyrir allt í gang aftur og Swing Star Pt. 1 og 2 eru crescendó-ið yfir í lokahluta verksins. Oh Joy er sjö mínútna lúxusútsýnisferð um fjarlægar vetrarbrautir og innan þess má finna kjarnað þykkni af Giorgio Moroder, Vangelis, Jean Michel Jarre og Yellow Magic Orchestra. Lotningarfullur virðingarvottur við synþameistara fortíðarinnar og það lag á plötunni sem er mest í anda I Feel Space, flagggeimskips senunnar sem Lindstrom lagði úr höfn með fyrir ríflega tíu árum síðan.

Rúsínan í háfleygum pylsuendanum er svo Inspector Norse sem með sínu hoppandi skoppandi sci-fi diskói gæti fengið hreyfihamlaðan mann til að rísa upp úr hjólastólnum og valhoppa í takt. Það sem einkennir plötuna er tilgerðarlaus og óbeisluð gleði ásamt óskammfeilnum tilvísunum í ótöff tónlistarstefnur sem eru miklu meira hylling en hæðni. Platan er heilsteypt og aðgengileg og á erindi til aragrúa fleiri en venjulegra raftónlistarhausa. Þetta tónlistarár þarf að vera virkilega gott ef að þetta telst ekki með því allra besta sem gerðist á því við lok þess. Todd Terje hefur með þessum fljúgandi diski tekið forystuna í geimkapphlaupinu.

It’s Album Time with Todd Terje: 21 Volt af 24 mögulegum.

Davíð Roach Gunnarsson

Rafmagnsstóllinn: Úlfur í Oyama

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

Að þessu sinni var það Úlfur Alexander Einarsson sem þenur raddböndin með rokksveitinni Oyama sem settist í rafmagnsstólinn, en hann hefur verið önnum kafinn undanfarnar vikur við upptökur á fyrstu breiðskífu Oyama sem er væntanleg næsta haust. Milli ofaskenndra kippa náði hann að hreyta út úr sér eftirfarandi svörum:

 

Hvað er það besta við að vera tónlistarmaður?
Gellur.

 

En versta?
Gellur.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndirðu mest vilja hita upp fyrir?
Neutral Milk Hotel.

 

Hvað er besta tónlist sem þú hefur uppgötvað á árinu?
Skúli Sverris.

 

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt?
Ég hef ekki hlustað mikið á kvikmyndatónlist, en ég þyrfti eiginlega að gera meira af því. Það er svo mikið af áhugaverðu dóti sem verður til þegar verið er að semja tónlist sem á að passa við bíómynd, aðrar áherslur í gangi. En ég elska Ennio Morricone.

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni?
80’s nýbylgja. Mikið af uppáhalds hljómsveitum mínum og áhrifavöldum uppáhalds hljómsveita minna urðu til á þessu tímabili.

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?
Sjitt, tölvan mín var að koma úr viðgerð og allt svona dót er horfið. En ég ætla að giska á að Sheila með Atlas Sound hafi verið mest spilaða lagið í iTunes hjá mér.

 

En plötur?
Ég ætla að giska á Bitches is Lord með Adrian Orange og síðan Microcastle og Halcyon Digest með Deerhunter hafi verið einhverstaðar á toppnum.

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega?
Nick Cave á ATP seinasta sumar. Það voru mest intense tónleikar sem að ég hef séð.

 

Uppáhalds plötuumslag?
Deceit með This Heat er í miklu uppáhaldi.

 

Þekkirðu Jakob Frímann?
Nei. En ég var á fundi um daginn þar sem hann var líka og hann var í frakka.

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka
jam-session með?
Dave Longstreth. Hann er ruglaður. Eða Boredoms, það væri örugglega geðveikt.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?
Kanye West. Hann er svo intense og svo ótrúlega steiktur og klár á sama tíma.

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er, hver myndi það vera?
Rick Rubin.

 

Hvaða plata fer á á rúntinum?
Roughness and Toghness með Graveslime.

 

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?
MBV með My Bloody Valentine.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?
Einu sinni spilaði tveggja manna pönkbandið mitt Fist Fokkers á tónleikum á Grand Rokk með einhverjum hljómsveitum sem við þekktum ekkert. Á þeim tónleikum klappaði enginn á milli laga hjá okkur. Það var magnað.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?
Fantómas.

 

Enn í eftirpartínu?
The Weeknd.

 

Uppáhalds borgin þín?
Ég hef aldrei tengt neitt sérstaklega við einhverja borg áður, en ég fór til Amsterdam um daginn og mér fannst það sjúklega næs borg.

 

Nú voruð þið í Oyama að taka upp ykkar fyrstu breiðskífu. Hvaða 5 orð lýsa
ferlinu best?
Svefn. Óvissa. Hiti. Einbeitning. Ánægja.

 

Nú vinnur hljómsveitin þín innan tónlistarstefnu sem kennd er við skógláp, gangið þið almennt í flottum skóm og skiptir það máli við sköpunina?
Við erum öll vel skóuð, annars hef ég ekki mikla skóðun á þessu máli.

Rafmagnsstóllinn: Þórður Grímsson

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

 

Þórður Grímsson, liðsmaður hljómsveitarinnar Two Step Horror, hlaut þann heiður að fá fyrstur að setjast í Rafmagnsstólinn, en hann stendur einmitt fyrir tónleikum í kvöld á Cafe Ray Liotta ásamt Vebeth hópnum. Þetta er það sem kom upp úr honum.

 

Hvað er það besta við að vera tónlistarmaður?
Það er held ég bara almennt gott að vera skapandi og búa til sinn eigin heim og loka sig af þar.

 

En versta?
Hlusta á skoðanir annarra sem eru á einhverri allt annarri bylgjulengd.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndirðu mest vilja hita upp fyrir?
Veit ekki með upphitun, en það væri gaman að gera eitthvað með Sonic Boom eða semja verk með Angelo Badalamenti til dæmis.

 

Hvað er besta tónlist sem þú hefur uppgötvað á árinu?
Ég enduruppgötvaði The Telescopes sem við erum að spila með á Berlin Psych Fest í Apríl. Annars er ég að fíla Russian.Girls mjög vel, það var góð uppgötvun þessa árs.

 

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt?
Krzysztof Komeda samdi mikið af frábærri tónlist fyrir kvikmyndir, t.a.m. Cul-de-sac, Rosemary’s Baby og Knife in the Water. Ég hef líka verið að hlusta á studio plötur og session sem hann var að fást við og það er allt saman alveg frábært.

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni?
Sjöundi áratugurinn af óteljandi ástæðum, en ég get nefnt nokkrar.
1. Skynvillutónlist á borð við July, Soft Machine, Pink Floyd, The Move, United States of America, Kaleidoscope, Red Krayola og óteljandi öðrum.
2. Fatastíllinn var góður.
3. Plötukoverin fengu áður óþekkt púður.
4. Síðasta tímabilið fyrir hnignunina.
5. Psych var ekki orðið sell out.

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?
Souvlaki Space Station – Slowdive (17)
Baby (Donnie & Joe Emerson cover) – Ariel Pink (14)
Mètché Dershé – Mulatu Astatke (13)
Jubilee Street – Nick Cave (12)
Head Over Heels – Tears for Fears (11)

 

En plötur?
Ég hugsa að Oscar Peterson og Mulatu Astatke sé frekar standard „go-to“ dinner músík, það er amk. tilefnið við að setja plötu á fóninn heima.

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega?
Pink Street Boys á undiröldutónleikum í Hörpu, Dirty Beaches í Hörpu og Nick Cave á All Tomorrow’s Parties.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Ég veit ekki, fer frekar sjalda á tónleika. Harpa kannski.

 

Uppáhalds plötuumslag?
Já Vebeth safnplötu umslagið er killer, en ég er bara ekki alveg búinn með það.

 

Þekkirðu Jakob Frímann?
Já, Anna kærastan mín þekkir hann. Hann mætti á myndlistasýninguna mína í sumar, ég hitti hann þá.

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka jam-session með?

Það hefði verið áhugavert að gera eitthvað með Syd Barret, ég hef alltaf verið mjög hrifinn af hans tónlist.

 

Uppáhalds plötubúð í heiminum?
Ég keypti fullt af góðum plötum í Rock and Roll Heaven í Orlando, en ætli að sé ekki mest PC að segja Lucky’s, frábær búð.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?
Snoop.

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er, hver myndi það vera?
Phil Spector.

 

Hvaða plata fer á á rúntinum?
FM Rondo.

 

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?
Ég eyddi rosa miklum pening í Pro Tools 11, annars er þetta genuinely erfið spurning.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?
Gleymt hvað kemur næst í sólói eða muldrað texta sem ég man ekki. Annars var það mjög neyðarlegt þegar ég sleit streng og kunni ekki að setja í nýjan á nýja gítarnum mínum og Baldvin þurfti að gera það fyrir mig á miðjum tónleikum.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?
Clinic.

 

Enn í eftirpartínu?
Einhver ný demo, ég verð sérlega ein- og sjálfhverfur þegar ég er kominn yfir áfengisþolmörk mín.

 

Uppáhalds borgin þín?
Berlin.

 

Þið eruð að fara að gefa út ykkar þriðju plötu, Nyctophilia, hvaða fimm orð myndu lýsa henni best?
Downtempo – draumkennt – trommuheilarokk – Reverb – Tremolo.

 

Þið eruð hluti af hóp eða hreyfingu sem kallast Vebeth, segðu okkur frá gildum og markmiðum hennar.
Vebeth fæddist í Reykjavík árið 2009 og samanstendur af fólki úr hinum ýmsu listrænu greinum sem deila svipaðri fagurfræði, tónlistarsmekk og listrænni sýn. Ætlun okkar var að gera meðlimum hópsins kleift að koma tónlist sinni og myndlist á framfæri og gefa tónlistina út án aðkomu þriðja aðila. Meðal meðlima Vebeth eru tónlistarmenn, myndlistarmenn, vídeólistamenn, textagerðarmenn, ljósmyndarar og hönnuðir sem gerir okkur kleift að vinna í margvíslegum miðlum og þar með skapa sjálfbæra útgáfu á eigin efni.

 

Við hverju má fólk búast við á tónleikunum ykkar í kvöld?
Rock’n’roll

Lokakvöld Sónar

Mynd: A. Albert

Lokakvöld Sónar-hátíðarinnar fyrir mig hófst með tónleikum Low Roar í flóanum. Hljómsveitin sem leidd er af Ryan var á sinni fyrstu plötu á ljúfsárum akústískum nótum hefur nú aukið við hljóðheiminn og er komin út í talsvert rafrænni pælingar og er það vel. Sveitin kom fram í viðhafnarútgáfu en auk Loga Guðmundssonar sem sér um trommur og hljómborð nutu þeir liðsinnis Mike úr Tung og Leifs Bjarnasonar á synþa. Því miður voru fáir mættir svona snemma því tónleikarnir voru hreint afbragð og sérstaklega var flutningur lokalagsins tilkomumikill. Þvínæst hljóp ég upp í Norðurljósasal þar sem ég náði síðasta lagi með Highlands, en bílskúrs og hússkotin popptónlistin þeirra lofar mjög góðu.

 

Reif í bergið

 

Þá var röðin komin að Mind in Motion, íslenskri rafsveit sem var starfandi á rave-tímabilinu í byrjun 10. áratugarins, en hafði komið saman aftur í tilefni Sónar eftir hvatningu á facebook. Þeir léku hreint og tært óldskúl hardcore, með hröðuðum raddsömplum og öllum pakkanum, og köstuðu meira að segja glowsticks út í salinn. Þá voru aðdáendur þeirra fremst við sviðið með dómaraflautur og það mátti sjá miðaldra reivara með bros á vör út um allan sal.

 

Fm Belfast voru í feikna stuði í Silfurbergi en löngu nóturnar hans Árna Vil komu öllum í mikið stuð, ekki síst í nýlegri lögum eins og Faster Than You. Þá sá ég Sykur í flóanum en þau nýttu tækifærið einnig í að koma með nýtt efni og sérstaklega hljómaði lagið Strange Loops, frábærlega sungið af Agnesi söngkonu, eins og verðandi slagari. Það geislaði af þeim á sviðinu og hljómurinn var hreint út sagt óaðfinnanlegur.

 

Fínir penslar og breiðir bassar

 

Ég gat hreinlega ekki ákveðið mig hvort ég færi á Trentemöller eða Major Lazer svo ég rölti bara á milli og tók inn sitt lítið af hvoru. Bæði atriði voru frábær en á mjög svo ólíkan hátt. Trentemöller var með hljómsveit með sér af mjög færum músíköntum og bauð upp á drungalegt tekknó með útpældum uppbyggingum og alls konar hljóðrænum smáatriðum.

 

Major Lazer hópurinn keyrði hins vegar allt í botn og sló áhorfendur í hausinn með tónlistarlegu ígildi sleggju, samsettri úr dancehall, dub step og hip hoppi. Það voru engin fíngerð blæbrigði í tónlistinni en bassinn var blastaður og sjóið í fyrirrúmi, með dönsurum, konfettí-sprengjum og öllum pakkanum. Á ákveðnum tímapunkti steig svo forsprakkinn Diplo inn í risastóra glæra plastkúlu og rúllaði í henni yfir áhorfendaskarann sem öskraði af ástríðu.

 

Á sama tíma að ári

 

Þegar ég fór aftur inn í Norðurljósasalinn hafði Trentemoller heldur betur gefið í í lokalaginu en þá var gítarleikarinn kominn út í villtan feedback kafla í anda Sonic Youth. Ég hélt svo út í nóttina þrunginn af bassa og með suð í eyrunum sem entist langt fram á kvöld.

 

Hátíðin í ár var feikilega vel heppnuð í nánast alla staði, hljóð og myndskreytingar voru í heimsklassa, tímasetningar stóðust og framkvæmd og hegðun hátíðargesta var til fyrirmyndar. Það er þess vegna mikið gleðiefni að þegar sé búið að tilkynna að hátíðin verði haldin aftur að ári. Umfjöllun straums um fyrri kvöld hátíðarinnar má lesa hér og hér.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Annar í Sónar

Mynd: A. Albert

Föstudagskvöldið mitt hófst í Norðurljósasalnum þar sem Starwalker, hljómsveit Barða Bang Gang og J.B. Dunckel úr Air, lék á sínum fyrstu tónleikum. Þau voru þó greinilega þaulæfð því engan byrjendabrag var að heyra á flutningnum. Þetta er feikilega vandað og stílhreint rafpopp og Duncel fór á kostum í villtu synþasólói í lokalaginu.

GP með make-up

Næst á dagskrá var furðufyrirbærið Gísli Pálmi sem lék á alls oddi í Sónarflóanum. Hann var með svaðalega augnmálningu og að sjálfsögðu ber að ofan og hoppaði og skoppaði um allt sviðið auk þess að klifra upp á hátalara og rappa úr sér lungun. Taktarnir voru framreiddir af tveimur mönnum með klúta sem huldu andlit sín, en þeir eru mjög flottir, einhvers konar mínímalískur fútúrismi.

Eftir að hafa fengið ráðlagðan kvöldskammt af GP hélt ég í Silfurberg þar sem Bonobo hafði komið sér fyrir á sviðinu ásamt hljómsveit. Þau léku áheyrilegt trip hop með exótískum áhrifum frá hinum ýmsu heimsálfum auk þess að njóta aðstoðar söngkonu í nokkrum lögum. Ég hoppaði svo aðeins niður til að sjá hina eitilhörðu rapppíu Cell7 og sá ekki eftir því. Fyrsta sólóplatan hennar var með betri íslensku plötum síðasta árs og lögin af henni skiluðu sér vel á sviðið en hún naut aðstoðar meðlima Moses Hightower við flutninginn.

Dökkt og bjart tekknó

Þá var röðin komin að Jon Hopkins en hann nýtti hljóðkerfi Silfurbergs til hins ýtrasta, keyrði allt í botn svo þú fannst fyrir drungalegu tekknóinu með öllum líkamanum en ekki bara eyrunum. Klúbbastemmningin var allsráðandi og Hopkins stjórnaði dansandi skaranum eins og her af strengjabrúðum. Ég hljóp síðan yfir í Norðurljósasalinn til að sjá restina af Kölch sem bauð líka upp tekknó, en þó nokkuð bjartara og poppaðra en Hopkins. En ekki síður skemmtilegt og ég hélt dansandi út í nóttina með bassatrommu í hverju hjartslagi.

Kvöldið var vel heppnað og hátíðin almennt farið mjög vel fram hingað til. Í kvöld eru það svo Major Lazer, James Holden og Trentemoller sem ég hlakka hvað mest til að sjá. Lesið um það á morgun en hér er hægt að lesa umfjöllun um fyrsta kvöld hátíðarinnar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónar fer vel af stað

Önnur útgáfa Reykjavíkurútibús Sónar hátíðarinnar hófst í gær og það er vonandi að hún festi sig í sessi sem árlegur viðburður.

 

Sax í Tonik

 

Það var gleðilegt að vel var mætt rétt upp úr 8 þegar fyrstu atriði kvöldsin voru að hefjast og það fyrsta á minni dagskrá var íslenski tónlistarmaðurinn Tonik. Hann spilaði frábært sett en með honum á sviðinu var Hörður úr M-Band sem söng og græjaðist auk selló- og saxafónleikara. Hljómurinn var dökkt og seyðandi tekknó og sálarfullur söngur Harðar var löðrandi í tilfinningu. Þrátt fyrir að hlaða raddbreytandi effektum á sönginn var mennskan undir niðri óyggjandi. Sellóið og saxafónninn voru síðan notuð á mjög óhefðbundinn hátt, oft ekki til að spila laglínur, heldur meira eins og hljóðgervlar sem byggðu ofan á hljóðheiminn. Allt í allt til mikillar fyrirmyndar og góður upptaktur að hátíðinni.

 

Minna er stundum of lítið

 

Ryuichi Sakamoto er stórmerkilegur tónlistarmaður en hann var meðlimur í japönsku sveitinni Yellow Magic Orchestra sem voru frumkvöðlar í raftónlist seint á 8. áratugnum og eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Þá hefur hann unnið mikið við kvikmyndatónlist og fékk meðal annars óskarsverðlaun í þeim flokki fyrir stórmyndina The Last Emperor. Það sem hann bauð upp á í Silfurbergi ásamt samstarfsmanni sínum Taylor Deupree var hins vegar einhvers konar öfgafull naumhyggja. Einni píanónótu haldið í hálfa mínútu í bland við rafhljóð sem voru svo fíngerð að þau voru nánast ógreinanleg.

 

Ég skil hugmyndina á bak við mínímalisma og get alveg notið hans en þetta var fullmikið af því góða, eins og æfing í engu, eða pínku ponsu meira heldur en þögn. Það lágstemmt að þú heyrðir nánast í fólki anda, svo ekki sé talað um stöðuga bassatrommuna sem drundi í gegnum gólfið frá neðri hæðinni. Þegar ákveðnum punkti er náð hættir minna að verða meira og heldur bara áfram að minnka. Risastór salurinn vann reyndar ekki með þeim og þetta hefði án efa virkað betur í Kaldalóni, en var í það minnsta full daufur kaffibolli fyrir minn smekk.

 

Hús og Högni

 

Eftir Sakamoto þurfti ég nauðsynlega að koma hreyfingu á blóðrásina og fékk hana í nokkrum lögum með Introbeats á Flóasvæðinu. Intro hefur um árabil verið einn fremsti hip hop taktsmiður landsins en er í seinni tíð farinn að færa sig yfir í hústónlistina. Hann var í feikna stuði og pumpaði út bassatrommu á hverju slagi í bland við fönkí bassalínur og bjartar melódíur og loksins var fólk farið að dansa af einhverri alvöru.

 

Þvínæst fylgdist ég með Högna úr GusGus og Hjaltalín frumflytja einstaklingsverkefni sitt, sem hann nefnir HE. Þetta voru metnaðarfull tónverk og dramatíkin keyrð í botn með slatta af strengjum, kórum og framsæknum rafpælingum. Stundum var tónlistin eins og GusGus í helmingi hægara tempói og stundum fór hún út í tilraunakennda raftakta í anda Autechre og Aphex Twin.
Tónlistin var fyrir utan söng Högna mestmegnis spiluð af bandi en magnaðar myndskreytingar bættu það upp. Það var skærum ljósgeisla beint á Högna og myndum af eldgosum, sólmyrkvum og afrískum sléttum var varpað á vegginn og sjónræna hliðin öll hin mikilfenglegasta. Í lokalaginu fékk hann svo heilan karlakór til að syngja með sér en það verður gaman að fylgjast með þessu verkefni í framtíðinni.

 

Klippt og skorið

 

Það var röð inn í Kaldalón en ég náði þó lokasprettinum með Good Moon Deer þar sem forsprakki hennar, Guðmundur Ingi Úlfarsson, klippti, límdi, bjagaði og beygði hljóðbúta af öllum stærðum og gerðum við villtan trommuleik Ívars Péturs. Það kom flott grafík úr skjávarpanum og lagið Again and Again var sérstaklega tilkomumikið, ég hefði viljað ná meira af þeim.

 

Þvínæst sá ég Danann Eloq í Silfurbergi sem var andstæðan við Sakamoto, skrúfaði allt í botn og engar fínhreyfingar í blæbrigðum eða framsetningu. Hann blastaði maximalískt dub step með hip hop áhrifum, og hljóðkerfið í Silfurbergi er svo gott að stundum var eins og bassinn ætti í samræðum við innyflin í þér. Þetta var alveg skemmtilegt en samt ekki sérlega merkileg tónlist, og þónokkur ostakeimur af henni.

 

Upplifun og Elegans

 

GusGus lokuðu svo kvöldinu með skynfæraupplifun á heimsmælikvarða eins og þeirra er von og vísa. Þeir léku mikið af nýju efni sem hljómaði mjög vel og ég er orðinn ansi spenntur fyrir plötunni sem er væntanleg. Högni og Daníel Ágúst sveimuðu elegant um sviðið og samsöngurinn í Crossfade, sem hlýtur að verða smáskífan af plötunni, var ægifagur og tær meðan Silfurbergið nötraði undan taktfastri bassatrommunni og dunandi dansi.

Heilt yfir var fyrsta kvöld Sónar vel heppnað og í kvöld hlakka ég til að sjá gúmmúlaði eins og Bonobo og Jon Hopkins. Fylgist með á straum.is næstu daga því við munum halda áfram með daglegar fréttir af Sónar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónar hefst í dag – 10 spennandi listamenn

Tónlistarhátíðin Sónar hefst í dag og við hvetjum alla tónlistaráhugamenn sem vettlingi geta valdið til að mæta á þá þriggja daga veislu sem fram undan er. Hátíðin sem hefur verið haldin árlega í Barcelona síðan 1994 fór fram í fyrsta skipti hér á landi í Hörpu á síðasta ári og var feikilega vel heppnuð eins og lesa má um hér. Það eru meira en 60 tónlistarmenn og plötusnúðar sem spila á hátíðinni en hér verða kynntir 10 sem við mælum sérstaklega með. Fylgist vel með á straum.is næstu daga því við verðum með daglega tónleikarýni af hátíðinni.

Major Lazer

Major Lazer er tónlistarhópur sem er leiddur af ofurpródúsernum Diplo sem hefur undir því nafni framleitt tvær plötur þar sem Dancehall, dubstep, reggí og gamaldags dub er málað með breiðum penslum og skærum litum á striga nútímalegrar danstónlistar.

 

Trentemoller

Danski tekknóboltinn Trentemoller hefur þeytt skífum á Íslandi oftar en hönd á festir og er með þeim bestu í því stuðfagi. Eftir hann liggja margar meistaralegar endurhljóðblandanir og þrjár sólóskífur en sú síðasta, Lost, var með betri raftónlistarplötum síðasta árs og nokkuð poppaðari en fyrri verk hans þar sem margir gestasöngvarar komu við sögu. Hann mun koma fram með live hljómsveit á Sónar.

 

Gus Gus

Gus Gus eru aðals- og kóngafólk íslensku danstónlistarsenunnar og þurfa engrar frekari kynningar við. Fyrir utan það að sveitin er tilbúin með nýja plötu og ekki er ólíklegt að eitthvað af henni heyrist á tónleikunum.

 

Jon Hopkins

Hopkins er rúmlega þrítugur Breti sem hefur undanfarið starfað með Brian Eno auk þess að gefa út eigið efni. Með sinni þriðju breiðskífu, Immunity, sem kom út á síðasta ári skaust hann hins vegar upp á stjörnuhimininn en hún lenti ofarlega á árslistum margra tímarita og spekúlanta. Tónlistin þræðir einstigið milli sveimtónlistar og tekknós af miklu listfengi en hann sótti Ísland heim á síðustu Airwaves hátíð en þeir tónleikar voru einn af hápunktum hátíðarinnar.

 

Bonobo

Bonobo er einyrki en í tónlist sinni vefur hann persneskt teppi úr þráðum ólíkra hljóðbúta úr öllum áttum og heimsálfum. Hann er á mála hjá hinni virtu Warp útgáfu, sem m.a. gefur út Aphex Twin og Boards of Canada, en platan hans Dial M for Monkey er algjört meistarastykki og ævintýri fyrir eyrun.

 

James Holden

James Holden er breskur plötusnúður og tónlistarmaður sem lét fyrst að sér kveða með kosmískri endurhljóðblöndun á lagi Nathan Fake, The Sky Is Pink. Hans nýjasta skífa, The Inheritors, sem kom út á síðasta ári er tilraunakennd diskósúpa undir sterkum áhrifum frá súrkáls- og síðrokki.

 

Sykur

Ein af hressari elektrósveitum landsins skartar grípandi lagasmíðum og groddalegum synþahljóm, en þau er vön því að tjalda öllu til á tónleikum.

 

Paul Kalkbrenner
Kalkbrenner er þýsk tekknógoðsögn sem varð gerð ódauðleg í myndinni Berlin Calling sem kortlagði hina víðfrægu berlínsku klúbbasenu.

 

Hermigervill

Sveinbjörn Thoroddsen, betur þekktur sem Hermigervill, hefur um árabil verið í fremstu víglínu íslenskrar raftónlistar. Í byrjun ferilsins með hugmyndaríkum Trip Hop plötum en í seinni tíð með hljóðgervladrifnum útgáfum af íslenskum dægurlögum og samstarfi við Retro Stefson. Hann er nú að vinna að sinni næstu breiðskífu og mun flytja nýtt efni á tónleikum sínum á Sónar.

 

Tonik

Einn af innlendu hápunktum síðustu Airwaves hátíðar var raftónlistarmaðurinn Tonik en melankólískt og sálarþrungið tekknóið bræddi bæði hjörtu og fætur í salnum. Hann kemur iðulega fram með selló- og/eða saxafónleikara sem gaman er að fylgjast með á sviði.

Bestu íslensku lög ársins 2013

 

30) Before – Vök

29) Maelstrom – Útidúr

 

 

28) Á Hvítum Hesti – Skúli mennski

      1. 07 Á hvítum hesti

 

 

 

 

27) MacGyver og ég – Sveinn Guðmundsson

 

 

26) Hve Ótt ég ber á – VAR

 

 

25) Autumn Skies #2 – Snorri Helgason   
      2. 01 Autumn Skies #2

 

 

 

24) Blóðberg – Mammút

 

 

 

23) All Is Love – M-band

 

 

 

22) Restless (ft. Unnsteinn) – Sisy Ey

 

 

 

21) Again – Good Moon Deer

 

 

 

20) Cheater – Love & Fog

 

 

19) Release Me (ft. DJ YAMAHO) – Intro Beats

 

 

 

18) Harlem Reykjavík – Hermigervill

 

 

 

17) 1922 – Kristján Hrannar

 

 

 

16) Aheybaró – Kött Grá Pjé & Nolem

 

Lög í 15. – 1. sæti

 

 

 

Bestu íslensku plötur ársins 2013

 

 

 

 

20) Þórir Georg – Ælulykt

 

19) Tilbury – Northern Comfort

 

18) Útidúr – Detour

 

17) Oyama – I Wanna

 

16) Ojba Rasta – Friður

15) Nolo – Human

 

14) Sigur Rós – Kveikur

 

 

13) Emiliana Torrini – Tookah

 

12)  Ólöf Arnalds – Sudden Elevation

 

11) Per: Segulsvið – Tónlist fyrir Hana

Gasvinur:

      1. gasvinurmaster

 

10) Tonmo – 1

Hinn 19 ára gamli reykvíkingur Tómas Davíð sem gengur undir listamannsnafninu Tonmo gaf  út sína fyrstu ep plötu á árinu. Platan sem nefnist 1 er 8 laga raftónlistarplata undir áhrifum hip-hop og chillwave sem rennur ljúft í gegn. Tómas samdi og tók upp plötuna þegar hann bjó í Huntington Beach í Kaliforníu fyrr á árinu.

 

 

 

 

9) Cell7 – Cellf

Tónlistarkonan Ragna Kjartansdóttir úr hinni sálugu hip-hop hljómsveit Subterranean snéri til baka á árinu með sína fyrstu sólóplötu, Cellf. Á plötunni nýtur Ragna aðstoðar þeirra Introbeats og Earmax við taktsmíðar á frábærri hip hop plötu sem inniheldur jafnt grípandi partýslagara og pólitískar bollaleggingar. Ragna hefur engu gleymt í rappinu þrátt fyrir langa pásu og flæðir eins og jökulá í leysingum.

 

 

 

 

8) Snorri Helgason – Autumn Skies

Þriðja plata Snorra Helgasonar, Autumn Skies, gefur fyrri verkum Snorra ekkert eftir og minnir á köflum talsvert á Dylan á Nashville Skyline. Kántrískotið þjóðlagapoppið umvefur mann eins mjúkt teppi og er tilvalið til að orna sér við á köldum vetrarnóttum. Án efa notalegasta plata ársins.

 

 

 

 

 

7) Jóhann Kristinsson – Headphones

Þriðja plata Jóhanns Kristinssonar, Headphones, er heilsteypt og persónulegt verk þar sem tónlistarmaðurinn sýnir mikil þroskamerki í lagasmíðum. Upptökur og hljómur eru fádæma fullorðins og þó lítið hafi farið fyrir plötunni er hún ákaflega stór í sniðum. Jóhann klífur í hæstu hæðir mikilfengleika og dramatíkur í mörgum epískum lögum og framkallar gæsahúðir á gæsahúðir ofan.

 

 

 

 

6) Mammút – Komdu til mín svarta systir

Þriðja plata Mammút var lengi í smíðum en fimm ár eru liðin frá því að sveitin sendi frá sér plötuna Karkari.  Útkoman er  þyngri hljómur og þéttari lagasmíðar án þess að tapa neinu af ungæðislegum kraftinum sem einkenndi fyrri verk sveitarinnar.

 

 

 

5) Ruxpin – This Time We Go Together

Það fer ekki mikið fyrir Ruxpin í íslenskri tónlistarsenu en hann lætur verkin tala. Platan This Time We Go Together er feikilega áferðarfalleg og hugvitssamleg raftónlistarplata, sem minnir um margt á Boards of Canada og aðgengilegri hliðar Aphex Twin og Autechre.

 

 

 

4) Just Another Snake Cult – Cupid Makes A Fool of Me

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Í haust gaf Þórir út plötuna  Cupid Makes A Fool of Me sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp að bestu gerð. Það eru fleiri hugmyndir í einu lagi á Cupid en finnast á breiðskífum flestra tónlistarmanna og mikið um vinstri beygjur og óvæntar stefnubreytingar. Það mætti segja að platan sé losaraleg í besta skilningi þess orðs, alls konar mismunandi hugmyndir sem hanga rétt svo saman, en samt á akkúrat réttan hátt. Plata sem hljómar ekki eins og neitt annað í íslenskri tónlistarsenu.

 

 

 

3) Múm –  Smilewound

Hljómsveitin múm gaf út sína sjöttu breiðskífu fyrr á þessu ári. Plötunnar sem ber nafnið Smilewound hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu en hún markaði endurkomu Gyðu Valtýsdóttur, söngkonu og sellóleikara, sem hætti í sveitinni fyrir meira en áratug síðan. Útkoman er aðgengilegasta plata hljómsveitarinnar til þessa.

 

 

 

2) Grísalappalísa – Ali

Hljómsveitin Grísalappalísa var stofnuð árið 2012 af Gunnari Ragnarssyni og Sigurði Möller Sívertsen úr hinni sálugu Jakobínurínu, Bergi Thomas Anderson úr Oyama, Alberti Finnbogasyni og Tuma Árnasyni úr The Heavy Experience ásamt Baldri Baldurssyni. Platan Ali er einn sterkasti frumburður íslenskrar rokksveitar sem litið hefur ljós í langan tíma. Á henni blandast groddaleg nýbylgja við súrkálsrokk og sækadelíu með íslenskum textum sem eiga meira skylt við framsækna ljóðlist en hefðbundna rokktexta.

 

 

 

 

1) Sin Fang – Flowers

Sindri Már Sigfússon er einn afkastamesti tónlistarmaður landsins um þessar mundir en gæðastandarinn á efninu er þó alltaf jafn hár. Hann er stöðugt að þróast sem lagasmiður og Young Boys og What’s wrong with your eyes eru með allra bestu lögum ársins. Platan er tekin upp af Alex Somers sem galdrar fram ævintýralega hljóm þar sem fyllt er upp í hverja einustu glufu með áhugaverðum hljóðum án þess þó að verða nokkurn tímann ofhlaðinn.