Vebeth ýta úr vör tónleikaröð

Fyrstu tónleikar í tónleikaröðinni „Kvöldstund með Vebeth“ verða haldnir föstudaginn 14. mars á Café Ray Liotta á Hverfisgötu. Vebeth er hreyfing tónlistar- og myndlistafólks sem aðhyllist svipaða fagurfræði og hafa m.a gefið út plötur undir merkjum hópsins. Á þessum fyrstu tónleikum koma fram hljómsveitirnar Russian.girls, Pink Street Boys og Two Step Horror en þær tvær fyrrnefndu hafa nýverið gengið til liðs við Vebeth. Tónleikarnir eru opnir öllum sem náð hafa áfengiskaupaaldri og aðgangseyrir er algjörlega ókeypis.

 

Fyrsta atriði á svið er Russian.girls, verkefni Guðlaugs Halldórs Einarssonar úr Captain Fufanu, sem spilar tilraunakennda og rafskotna skynvillutónlist. Þá munu Pink Street Boys spila hávaðarokk undir áhrifum sjöunda og áttunda áratugarins. Hljómsveitin Two Step Horror  endar svo kvöldið en hljómsveitin var stofnuð af Þórði Grímssyni og Önnu Margrét Björnsson fyrir um fimm árum síðan. Nýlega bættust þrír meðlimir við hljómsveitina, þeir Hafsteinn Michael Guðmundsson, Kolbeinn Soffíuson og Baldvin Dungal, en sveitin mun spila á tónlistarhátíðinni Berlin Psych Fest sem á sér stað í apríl þar sem þau munu meðal annars hita upp fyrir bresku „cult“ sveitina The Telescopes. Two Step Horror gefa út sína þriðju breiðskífu nú í vor en hún nefnist Nyctophlia.

 

Kjallarinn á Ray Liotta opnar klukkan 21:00 og klukkutíma síðar hefur Russian.Girls leik, Pink Street Boys fara á svið 23:00 og Two Step Horror slá svo botninn í dagskránna á miðnætti. Þá mun Straumur (Óli Dóri) sjá um skífuþeytingar á milli atriða og einnig að tónleikunum loknum inn í nóttina. Þetta verður einungis fyrsta kvöldið af mörgum en aðrir tónlistarmenn sem tilheyra Vebeth hópnum eru Singapore Sling, Dream Central Station, Rafsteinn, The Go-Go Darkness, The Third Sound, The Blanket of Death, The Dead Skeletons, The Meek ( US), DJ-Musician, Hank & Tank og Evil Madness.

Hér má svo hlusta á tóndæmi með sveitunum.

)
)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *