Tónleikahelgin 30. maí til 1. júní

Í hinu vikulega helgaryfirliti straum.is er stiklað á stóru og smáu í tónleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu.

Fimmtudagur 30. maí

Þjóðlagasveitin Ylja sem hefur verið að gera það gott á rás 2 undanfarnar vikur með ábreiðu af Daft Punk smellinum Get Lucky leikur á tónleikum í Loft-hostel í Bankastræti. Bandið hefur leik klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.

Á Volta verða ókeypis hljómleikar með Dj. Flugvél og Geimskip, Knife Fights, Kælunni miklu og Spy Kids 3D. Gleðin hefst klukkan 21:00.

Nýaldarsveitin Per:Segulsvið mun leika næfurþunnar zumba möntrur fyrir gesti á Bunk Bar. Per er að eigin sögn eitt stórkostlegasta tónleikaband íslandssögunnar og vísar í tónleika í Reiðhöllinni fyrir einhverjum árum máli sínu til stuðnings. Þar hafi þakið sprungið af höllini og 6 hrossum verið fórnað í þágu listsköpunar. Um sannleiksgildi sögunnar mun straum.is ekki dæma en tónleikarnir á Bunk Bar hefjast klukkan 21:00.

Á Dillon verður haldið fjórða kvöldið í Desibil tónleikaröðinni þar sem lögð er áhersla á noise, drone, industrial, crust, hardcore punk og dark ambient tónlist. Fyrir óinnvígða mætti segja að tónlistin einblíni á hljóðtíðnir, hávaða, bjögun og öfgakennda nálgun á tónlist. Að þessu sinni munu Harry Knuckles og Godchilla stíga á stokk og sjá um óhljóðasköpun. Kvöldin eru hugsuð fyrir fólk með opna huga og ævintýragjarnar hljóðhimnur og eru haldin síðasta fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Hljómleikurinn hefst klukkan 9 og aðgangur er ókeypis.

Plötusnúðasamsteypan RVK Soundsystem stendur fyrir dansiballi á Dollý þar sem reggí, döbb og dancehall verður í hávegum haft. Það stendur yfir frá 21:00 til lokunar og aðgangur ókeypis.

Föstudagur 31. maí

Dj Flugvél og Geimskip verður aftur á ferðinni á föstudagskvöldinu en í þetta skipti á Hemma og Valda ásamt Helga Mortal Kombat og Krakkbot. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðstandendur þeirra lofa gestum tónlist fyrir alla, tölvuhljóðum, hlýju veðri, nýjum heimi og ókeypis aðgangi.

Laugardagur 1. júní

Í tilefni af 70 ára opnunarafmæli Sundhallar Hafnarfjarðar og hafnfirsku menningarhátíðinni Bjartir Dagar verður slegið upp tónleikum á pottasvæði sundlaugarinnar. Þeir hefjast klukkan 14:00 og aðgangur er ókeypis en eftirfarandi hljómsveitir koma fram:

Vök
Margrét Rán Magnúsdóttir og Andri Már Enoksson skipa Dúettinn Vök sem er sigurvegari nýliðinna Músíktilrauna. Tónlist þeirra er best lýst sem eiturljúfri raftónlist með melódískum söng.

Fox Train Safari
Fox Train Safari, sendir frá sér sína fyrstu breiðskífu með haustinu. Þar verður að finna funk, soul og R&B. Hljómsveitin ætlar að spila tónlist í takt við veðurblíðuna sem lofað er á laugardaginn.

Magnús Leifur
Magnús sem var áður í Hafnfirsku hljómsveitinni Úlpu vinnur nú að sinni fyrstu plötu sem einyrki en áætluð útgáfa á henni er nú í sumar. Á tónleikunum í sundhöllinni mun hann koma fram ásamt hljómsveit.

Sveinn Guðmundsson
Sveinn hefur nýlokið upptökum á sinni fyrstu plötu “Fyrir herra Spock, MacGyver og mig” sem kemur út í sumar. Þetta verður í fyrsta sinn sem Sveinn leikur lög af plötunni sem er rólyndis gítarmúsík með póstmódernískum og sjálfspeglandi textum.

Sólbjört leikur á Gong
Sólbjört Guðmundsdóttir er kundalini jógakennari eftir forskrift Yogi Bhajan. Sérstakt áhugsvið hennar innan þess er jóga hljóðs og samskipta (Naad jóga). Gong hefur verið notað í árþúsundir við andlega iðkun en hlustun róar og styrkir taugakerfi manneskjunnar og veitir djúpa slökun og frið.

CocoRosie gefa út nýja plötu með hjálp Valgeirs Sigurðssonar

Bianca Casady og Sierra Casady eru betur þekktar undir nöfnunum „Coco“ og „Rosie“ og saman mynda þær franska/bandaríska dúettinn CocoRosie. Þær eru systur og sendu frá sér sína fimmtu plötuna Tales Of A Grass Widow þann 27. maí en þær sendu fyrst frá sér plötuna La maison de mon reve árið 2004. Erfitt er að skilgreina hvers konar tónlist þær stöllur fást við en „freak folk“ kemst allavega nálægt því. Þær koma báðar að söngnum en „Rosie“ sér að mestu leyti um hljóðfæraleikinn en „Coco“ notaðist fyrst um sinn helst við barnahljóðfæri við gerð tónlistarinnar og framkallaði hin furðulegustu hljóð.
Valgeir Sigurðsson sá um upptökur á Tales Of A Grass Widow en hann er enginn nýgræðingur og hefur m.a. unnið með Björk, Thom Yorke, Bonnie Prince Billy og Feist. Á nýju plötunni virðist meira vera notast við synthesizera og trommuheila en áður ásamt taktkjafti sem lætur á sér bera í nokkrum laganna 11. Hin kynvillti Antony Hegarty úr Antony and the Johnsons syngur með stelpunum í laginu „Tears For Animals“ af mikilli einlægni eins og ella. Platan er þung og sumir hafa haft orð á því að hún sé of niðurdrepandi á köflum en síðasta lagið er rúmar 18 mínútur og er helmingur lagsins þögn. Tales Of A Grass Widow fær hins vegar fína dóma hjá flestum gagnrýnendum og greinilegt að Valgeir hefur unnið gott verk.

Lög af plötunni Tales Of A Grass Widow

-Daníel Pálsson

Alveg sama hvort fólki finnist nýja platan góð

Enski tónlistarmaðurinn og leikarinn Tricky gaf út sína tíundu plötu False Idols í dag. Tricky eða Adrian Nicholas Matthews Thaws eins og hann var skýrður af móður sinni sem fyrirfór sér þegar hann var aðeins fjögurra ára gamall hefur getið sér orð sem einn af frumkvöðlum trip-hop stefnunar. Hann var meðlimur í hljómsveitinni  Massive Attack en tók aðeins þátt í fyrstu plötu sveitarinnar Blue Lines sem var gefin út árið 1991. Í framhaldi af því þróuðust hugmyndir hans í aðra átt og úr varð fyrsta sóló plata hans Maxinquaye sem er einmitt titluð í höfuðið á móðir hans. Síðan þá hefur hann m.a. unnið með Björk, Bobby Gillespie, Cyndi Lauper og leikið í hasar myndinni The Fifth Element.
False Idol hefst á laginu „Somebody’s Sins“ þar sem Tricky fær lánaða línuna „ jesus died for someone‘s sins, but not mine“  úr laginu „Gloria“ eftir Patty Smith. Söngkonan Nneka og Peter Silberman úr The Antlers eru meðal þeirra sem láta í sér heyra á plötunni en auk þeirra ljá Francesca Belmonte og Fifi Rong Tricky rödd sína og í laginu „Chinese Interlude“ er sungið á kínversku. Platan er hálfgert aftur hvarf til Maxinquaye og eru gagnrýnendur sammála um að Tricky sé að rifja upp gamla góða takta sem hafi týnst í millitíðinni. Sjálfum er Tricky alveg sama hvort fólki finnst nýja platan góð eða ekki, því nú sé hann búinn að finna sjálfan sig aftur og er að gera það sem hann vill.

– Daníel Pálsson

Lord Pusswhip rímixar Oyama

Pródúsantinn Lord Pusswhip hefur nú endurhljóðblandað lagið Sleep eftir ómstríðu skóglápsrokksveitina Oyama. Lagið er af I Wanna, fyrstu Ep-plötu sveitarinnar. Í meðförum Lord Pusswhip er gítarveggjum  lagsins skipt út fyrir draumkenndan sveim og trommuheila með helling af bergmáli er skellt undir herlegheitin. Hlustið á endurhljóðblöndunina hér fyrir neðan.

Straumur 27. maí 2013

Í Straumi í kvöld förum við yfir væntanlegar plötur frá Disclosure og Mount Kimbie, auk þess sem við skoðum nýtt efni frá Boards Of Canada, Smith Westerns,  Say Lou Lou og mörgum öðrum.  Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 í kvöld á X-inu 977.

Straumur 27. maí 2013 by Olidori on Mixcloud

1) We are faster than you – Fm Belfast
2) Reach For The Dead – Boards of Canada
3) When a Fire Starts to Burn – Disclosure
4) Stimulation – Disclosure
5) Grab Her! – Disclosure
6) Julian (The Chainsmokers remix) – Say Lou Lou
7) Doin’ Right (The Goden Pony remix) – Daft Punk
8) Blood and Form – Mount Kimbie
9) Slow – Mount Kimbie
10) Meter, Pale, Tone (ft. King Krule) – Mount Kimbie
11) All These Things (ft. Holly Mirranda) – MMoths
12) She Burns (ft. Mara Carlyle) – Joe Goddard
13) Swimming Pools (Jesse Rose remix) – Kendrick Lamar
14) Sleep (LAWD PUSSWHIP remix) – OYAMA
15) 3am Spiritual – Smith Westerns

Laura Marling með sína fjórðu plötu á fimm árum

Breska þjóðlagasöngkonan Laura Marling gefur út sína fjórðu plötu „Once I Was An Eagle“ þann 27. Maí næstkomandi. Laura Marling hefur ábyggilega hlustað einu sinni til tvisvar á Joni Mitchell og á köflum mætti halda að hún væri amma hennar eða í minnsta lagi frænka. Þrátt fyrir að vera aðeins 23. ára hefur Marling þegar afrekað að vera tilnefnd tvisvar til hina virtu Mercury Prize verðlauna, árið 2008 fyrir frumburðin „Alas, I Cannot Swim“ og árið 2010 fyrir „I Speak Because I Can“.  Árið 2011 hlaut hún Brit Awards og NME Awards fyrir plötuna „ A Creature I Don‘t Know“.
Laura Marling hefur þó gert meira en að vinna til verðlauna, hún var til að mynda helsta ástæða þess að hljómsveitin Noah and the Whale byrjaði að njóta vinsælda. Hún var meðlimur bandsins frá 16 ára aldri en hætti árið 2008 til að einbeita sér að sínum eigin ferli. Þá sleit hún sambandi sínu við söngvara bandsins Charlie Fink sem tók sambandsslitunum mjög nærri sér og notaði innblástur ástarsorgarinnar við gerð plötunar „The First Days of Spring“. Hún er af mörgum talin besta plata sveitarinnar og mætti Fink alveg láta segja sér oftar upp. Nói og hvalirnir hafa þó ekki siglt í strand og nýjasta plata þeirra Heart Of Nowhere“  er ekki alslæm.
Marling átti einnig í ástarsambandi við Marcus Mumford söngvara Mumford & Sons. Á væntanlegri plötu Marling syngur hún um öfundsjúka stráka í laginu „I Was An Eagle“ og er sagt að þar skírskjóti hún í samband sitt við Marcus.
„Once I Was An Eagle“ hefur hlotið einróma lof þeirra gagnrýnenda sem sagt hafa skoðun sína á gripnum og telja flestir þetta besta verk hennar til þessa. Marling ákvað að styðjast ekki við hljómsveit við gerð plötunnar ólíkt fyrri verkum hennar og er aðeins sellóleikari og trommari sem koma að hljóðfæraleik auk Marling á gítar. Platan hefur að geyma 16 lög sem flest eru í „singer songwriter“  stílnum og fóru aðeins 10 dagar í að taka þau upp. „Once I Was An Eagle“ rennur þægilega í gegn og virkar sem ágætis svefnmeðal þó það sé hætta á að maður rumski inná milli þar sem kraftmiklar þjóðlagaballöður halda hlustandanum á tánum.

– Daníel Pálsson

Hefði getað samið „Get Lucky“ á klukkutíma

Hin yfirlýsingaglaði leppur hljómsveitarinnar Beady Eye; Liam Gallagher hefur aðallega komist í fréttirnar fyrir skrautleg ummæli síðan það flosnaði upp úr samstarfi  Oasis árið 2009. Í flestum tilfellum varðar það að einhverju leiti bróðir hans Noel en Liam var líklega farið að vanta smá athygli  og ákvað nú á dögunum að tjá sig aðeins um Daft Punk.
„ Ég gæti samið þetta lag á klukkutíma. Ég skil ekki þennan spenning, skiljið þig hvað ég á við?“ Sagði Liam í samtali við The Sun varðandi smellinn „Get Lucky“ frá franska dúettnum sem fékk hjálp frá Pharrell Williams og tilvonandi Íslands vininum Nile Rodgers við gerð lagsins. Liam Gallagher lét sér ekki nægja að drulla yfir lagið og bætti við „ Takið þið helvítis hjálmana af ykkur og sjáum hvernig þið lítið út án þeirra“.
20. maí lét Beady Eye frá sér nýtt myndband við lagið „Second Bite of The Apple“ og er plata væntanleg frá þeim þann 10. Júní næstkomandi og ber titilinn „BE“. „ Við erum búnir að setjast niður og einbeita okkur vel að þessu verkefni, hreinsa hugan og ekkert af þessu kjaftæði eins og það var á tíunda áratugnum. Þessi plata er mjög sérstök fyrir okkur.“ Segir Liam um aðra plötu hljómsveitarinnar.

Hér má sjá myndbandið við lagið „Second Bite of The Apple“.

 

Tónleikar helgarinnar 24. – 26. maí

Föstudagur 24. maí

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess hefst. Hátíðin er haldin á KEX Hostel og Volta og koma 17 hljómsveitir fram á hátíðinni. Þrjár hljómsveitir koma frá Ástralíu og Skotlandi og svo 14 frá Íslandi.

Kex Hostel:

20:00: Þórir Georg

20:45: Withered Hand

Volta:

21:15: Tonik

22:00: Good Moon Deer

22:50: Bloodgroup

23:40: PVT

00:40: Sykur

 

 

Laugardagur 25. maí

MC Bjór og Bland spilar sína fyrstu tónleika í verslun Lucky Records, Rauðarárstíg 6 klukkan 17:00.

Reykjavík Music Mess heldur áfram:

Kex Hostel:

20:00: Good Moon Deer

20:45: Stafrænn Hákon

Volta:

21:15: Just Another Snake Cult

22:00: OYAMA

22:50: Muck

23:40: DZ Deathrays

00:40: Mammút

Ofvitarnir, Sayatan og Skerðing koma fram á Dillon. Ókeypis inn og tónleikarnir hefjast á slaginu 22:00.

 

Sunnudagur 27. maí

Síðasti dagur Reykjavík Music Mess:

Kex Hostel:

20:00: Just Another Snake Cult

20:45: MMC

Volta:

21:15: Loji

22:00: Stafrænn Hákon

22:50: Withered Hand

23:40: Monotown

 

 

Lag og myndband frá Boards of Canada

Rafsveitin Boards of Canada hefur nú sett á Soundcloud síðu sína lagið sem var frumflutt með myndbandi á húsvegg í Tókýó í gær. Það er hið fyrsta sem heyrist af Tomorrow’s Harvest, breiðskífu þeirra sem kemur út þann 10. júní. Lagið sem nefnist Reach For the Dead er prýðisgott og ber öll helstu höfundareinkenni sveitarinnar. Það hefst á gullfallegum og hægfljótandi ambíent-synthum sem eru þó alltaf lítllega bjagaðir af suði og skruðningum. Þegar líður á lagið fara svo trommurnar að sækja í sig veðrið með harðari og hraðari takti og agressívari hljóðgerfla-arpeggíum. Það er í senn hugljúft og ógnvekjandi á þennan ólýsanlega hátt sem skosku bræðrunum hefur tekist að fullkomna. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og hér má lesa söguna af stórfurðulegri auglýsingarherferð fyrir væntanlega plötu.

Uppfært: Nú hefur einnig verið sett á netið ægifagurt myndband við lagið sem einnig má horfa á hér fyrir neðan. Þess má geta að þetta er einungis annað myndbandið sem hefur verið opinberlega gert af Boards of Canada.

Boards of Canada sýna nýtt myndband í Tókýo

Boards of Canada halda áfram að koma aðdáendum sínum á óvart en skemmst er að minnast afar óhefðbundinnar auglýsingarherferðar fyrir nýjustu plötu dúettsins. Í gær birtist færsla á facebook-síðu sveitarinnar sem innihélt einungis götunúmer í Tókýó, dagsetninguna 22. maí og tímasetninguna 12 á miðnætti. Á þessum stað í Tókýó var varpað myndbandi á húsvegg fyrir stundu sem virðist vera tónlistarmyndband við nýtt lag frá sveitinni. Horfið á myndbönd af vettvanginum hér fyrir neðan en hljóðgæðin í því efra eru betri en tónlistarmyndbandið nýtur sín betur í því neðra. Þar fyrir neðan má sjá stiklu og auglýsingu fyrir væntanlega plötu skoska rafbræðradúettsins, Tomorrow’s Harvest, sem kemur út á vegum Warp útgáfunnar 10. júní næstkomandi.