Tónleikahelgin 30. maí til 1. júní

Í hinu vikulega helgaryfirliti straum.is er stiklað á stóru og smáu í tónleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu.

Fimmtudagur 30. maí

Þjóðlagasveitin Ylja sem hefur verið að gera það gott á rás 2 undanfarnar vikur með ábreiðu af Daft Punk smellinum Get Lucky leikur á tónleikum í Loft-hostel í Bankastræti. Bandið hefur leik klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.

Á Volta verða ókeypis hljómleikar með Dj. Flugvél og Geimskip, Knife Fights, Kælunni miklu og Spy Kids 3D. Gleðin hefst klukkan 21:00.

Nýaldarsveitin Per:Segulsvið mun leika næfurþunnar zumba möntrur fyrir gesti á Bunk Bar. Per er að eigin sögn eitt stórkostlegasta tónleikaband íslandssögunnar og vísar í tónleika í Reiðhöllinni fyrir einhverjum árum máli sínu til stuðnings. Þar hafi þakið sprungið af höllini og 6 hrossum verið fórnað í þágu listsköpunar. Um sannleiksgildi sögunnar mun straum.is ekki dæma en tónleikarnir á Bunk Bar hefjast klukkan 21:00.

Á Dillon verður haldið fjórða kvöldið í Desibil tónleikaröðinni þar sem lögð er áhersla á noise, drone, industrial, crust, hardcore punk og dark ambient tónlist. Fyrir óinnvígða mætti segja að tónlistin einblíni á hljóðtíðnir, hávaða, bjögun og öfgakennda nálgun á tónlist. Að þessu sinni munu Harry Knuckles og Godchilla stíga á stokk og sjá um óhljóðasköpun. Kvöldin eru hugsuð fyrir fólk með opna huga og ævintýragjarnar hljóðhimnur og eru haldin síðasta fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Hljómleikurinn hefst klukkan 9 og aðgangur er ókeypis.

Plötusnúðasamsteypan RVK Soundsystem stendur fyrir dansiballi á Dollý þar sem reggí, döbb og dancehall verður í hávegum haft. Það stendur yfir frá 21:00 til lokunar og aðgangur ókeypis.

Föstudagur 31. maí

Dj Flugvél og Geimskip verður aftur á ferðinni á föstudagskvöldinu en í þetta skipti á Hemma og Valda ásamt Helga Mortal Kombat og Krakkbot. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðstandendur þeirra lofa gestum tónlist fyrir alla, tölvuhljóðum, hlýju veðri, nýjum heimi og ókeypis aðgangi.

Laugardagur 1. júní

Í tilefni af 70 ára opnunarafmæli Sundhallar Hafnarfjarðar og hafnfirsku menningarhátíðinni Bjartir Dagar verður slegið upp tónleikum á pottasvæði sundlaugarinnar. Þeir hefjast klukkan 14:00 og aðgangur er ókeypis en eftirfarandi hljómsveitir koma fram:

Vök
Margrét Rán Magnúsdóttir og Andri Már Enoksson skipa Dúettinn Vök sem er sigurvegari nýliðinna Músíktilrauna. Tónlist þeirra er best lýst sem eiturljúfri raftónlist með melódískum söng.

Fox Train Safari
Fox Train Safari, sendir frá sér sína fyrstu breiðskífu með haustinu. Þar verður að finna funk, soul og R&B. Hljómsveitin ætlar að spila tónlist í takt við veðurblíðuna sem lofað er á laugardaginn.

Magnús Leifur
Magnús sem var áður í Hafnfirsku hljómsveitinni Úlpu vinnur nú að sinni fyrstu plötu sem einyrki en áætluð útgáfa á henni er nú í sumar. Á tónleikunum í sundhöllinni mun hann koma fram ásamt hljómsveit.

Sveinn Guðmundsson
Sveinn hefur nýlokið upptökum á sinni fyrstu plötu “Fyrir herra Spock, MacGyver og mig” sem kemur út í sumar. Þetta verður í fyrsta sinn sem Sveinn leikur lög af plötunni sem er rólyndis gítarmúsík með póstmódernískum og sjálfspeglandi textum.

Sólbjört leikur á Gong
Sólbjört Guðmundsdóttir er kundalini jógakennari eftir forskrift Yogi Bhajan. Sérstakt áhugsvið hennar innan þess er jóga hljóðs og samskipta (Naad jóga). Gong hefur verið notað í árþúsundir við andlega iðkun en hlustun róar og styrkir taugakerfi manneskjunnar og veitir djúpa slökun og frið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *