Sumarlagið 2012

 

      1. ”[audio
@http://straum.is/wp-content/uploads/2012/07/Víðsjá-Sumarlagið-2012-fin.mp3″ volslider=”y” style=”outline”]

Á hverju sumri velta tónlistaráhugmenn því fyrir sér hvaða lag eigi eftir að einkenna þennan árstíma þetta árið. Þessari spurningu er alls ekki auðsvarað og svarið er auðvitað persónubundið fyrir hvern og einn. Það eru þó ákveðin atriði sem nota má til að skilgreina gott sumarlag og hvað það þarf á að halda til að teljast eitt slíkt. Það þarf auðvitað að minna á eitthvað sem tengist sumrinu og einkennast af ákveðnu kæruleysi í bland við frelsi.

Lagið Hvernig á að særa vini sína sem hljómsveitin múm gaf fyrst út í sumar er eitt af þeim lögum sem hreinlega hrópa „sumar“.

Stemmingin í laginu fangar íslenskt sumar á einstakan máta og það svífur yfir mann líkt og dreymandi sumargolan. Lagið er á safnplötunni Early Birds, safni laga sem urðu til undir lok tuttugustu aldar áður en fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Yesterday Was Dramatic – Today is OK, leit dagsins ljós.

Ef eitthvað í titli lags minnir á sumarið kemst lagið nær því að geta kallast sumarlag. Bandaríska tónlistarmanninum Advanced Base hefur augljóslega orðið hugsað til sumarsins þegar hann samdi lagið Summer music sem er á plötu hans A Shut-In’s Prayer sem kom út í vor.

Margir hafa tilnefnt lagið The House That Heaven Built, af annarri plötu kanadísku rokkhljómsveitarinnar Japandroids, lag sumarsins. Það ætti að koma fáum á óvart, lagið hefur flest til brunns að bera til að hljóta þann titil. Það er epískt með öflugt viðlag og fær mann til að gleyma stað og stund og njóta augnabliksins. Hljómsveitin spilar á tónleikum í Reykjavík í lok sumars og því fá Íslendingar tækifæri til að syngja með þeim áður en sumarið er á enda.

Sumarlög geta líka haft þann eiginleika að vera tímalaus og minna jafnvel á liðin sumur. Hljómsveitin Woods sendi frá sér hið fallega lag Cali in A Cup í sumar og þó lagið sé nýtt er eitthvað við það sem lætur mann ferðast aftur í tímann.


Lag Frank Ocean Sweet Life hefur svipaðan eiginleika og lag Woods. Þó að það sé ögn nútímalegra, gæti það vel verið týndur sumarsmellur úr smiðju Stevies Wonders. Lagið er á fyrstu plötu Ocean sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda frá því hún kom út í þessum mánuði.


Öll þessi lög eiga skilið að fá tilnefningu til þessa merka titils en það er þó eitt lag sem stendur upp úr og hefur allt það sem áður hefur verið nefnt og eitthvað meira sem erfitt er að útskýra, til að teljast lag sumarsins 2012.

Lagið er Get Free með Major Lazer og söngkonunni Amber Coffman úr Dirty Projectors. Það er fyrsta smáskífan af væntanlegri breiðskífu Major Lazer sem kemur út seinna á þessu ári. Lagið sömdu Major Lazer, Coffman og David Longstreth, félagi hennar úr Dirty Projectors sem einnig spilar á gítar í laginu. Þegar ég heyrði lagið fyrst er hljómsveitin sendi það frá sér nokkrum dögum fyrir síðasta vetrardag kvaddi ég veturinn með sól í hjarta því ég vissi að sumarið var komið.

2 thoughts on “Sumarlagið 2012”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *