Ein þjóð undir grúvinu og rigningunni – Secret Solstice 2018

Mynd: Ívar Eyþórsson

Fimmta Secret Solstice hátíðin er að baki við mikinn fögnuð partýþyrstra ungmenna og tónlistarunnenda en bölmóð sumra áhyggjufullra foreldra og íbúa Laugardalsins. Fjórir heilir dagar af rokki, labbi, rappi, dansi, raftónlist, hoppi, klappi og á köflum volki í misblíðu veðri.

Ég mætti á svæðið í mildri fimmtudagsrigningu og labbaði rakleiðis í Valhöll þar sem ofurstjörnuplötusnúðurinn Steve Aoki var í miðjum transklisjuklíðum á sviðinu. Ég er mjög langt frá því að vera aðdáandi þeirrar stefnu sem hann aðhyllist sem hefur verið kölluð electro-house, trance, EDM og dub- eða brostep í gegnum tíðina, sem nýtur sín líklega best í Las Vegas eða á Ibiza. En flestir unglingarnir á svæðinu elskuðu þetta og virtust hreinlega borða úr lófanum á honum þar sem hann hoppaði og skoppaði upp á dj-borðinu.

 Engin þverflauta

Það er svo merki um ákveðna skitzófreníu í dagskránni að strax á eftir unglingatranssúperstjörnunni komu hin mjög svo miðaldra rokkbrýni snemmtíunda áratugarins, Jet Black Joe. Ég set stórt spurningarmerki við að kombakk frá íslenskri 90’s hljómsveit sé sem var aldrei þekkt utan landssteinanna sé kynnt sem eitt af aðalatriðunum á tónlistarhátíð sem á að vera alþjóðleg, en þarna voru þeir samt og ég fékk engu um það ráðið. Þeir stóðu sig þó ágætlega og það kom mér á óvart hvað ég þekkti mörg lög með þeim, ekki bara Higher and Higher, en það olli mér vonbrigðum að þverflautusólóið vantaði í því lagi.

Ég hafði heyrt slæma hluti og raddleysi um rámu powerballöðugyðjuna Bonnie Tyler þannig ákvað að athuga plötusnúðasett með Bigga Veiru úr Gusgus í Hel. Það var svo gott að ég ílengdist svo lengi að mér var ekki hleypt inn á svæðið aftur þrátt fyrir að 80’s-stjarnan ætti talsvert eftir af settinu sínu. Það sem ég heyrði hins vegar voru lýsingarorð eins og „pínlegt“ þannig ég missi ekki svefn yfir því.

Föstudagskvöldið sá ég fyrst ungstyrnið Aron Can á stóra sviðinu. Hann stóð sig vel og ungdómurinn át þetta upp til agna. Hann tók meðal annars einhvers konar tekknó-útgáfu af enginn mórall og endaði með fulla vasa eins og venjulega. Mér fannst þó fullmikið af þeim leiðigjarna sið tónlistarmanna að í gríð og erg sleppa sönglínum sínum og í staðinn beina hljóðnemanum að áhorfendum í eins konar samsöng. Þetta er að mínu mati stílbragð sem ætti að nota afar sparlega, ég er komin ntil að horfa á tiltekinn listamann syngja, ekki viðvaninga úr áhorfendaskaranum, og þetta er ekki gítarpartý í Vestmannaeyjum.

Frábær draumakona en slakur Gucci

Ég var mjög spenntur fyrir Gísla Pálma sem hefur vart komið fram í ár eða svo en kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum með nýja þröngskífu fyrir skemmstu. En hann virtist bara því miður vera í mjög tæpu formi þessa helgina og það sást að hann hafði ekki rappað life lengi; hann náði ekki að klára hröðu línurnar í lögunum sínum, virtist þrjóta rödd og kraft. Alvia sem kom fram í tveimur lögum með honum var miklu betri en hann. Síðan kom breska söngkonan IAMDDB flutti nútímalegt R&B, sálartónlist og hiphop á Valhallarsviðinu og komst mjög vel frá því.

Þvínæst tók rapparinn Goldlink við keflinu og hélt góðum dampi í þéttu setti með óhefluðu flæði og töktum sem duttu oft yfir í poppað dubstep sem var vel viðeigandi á hátíð sem þessari. Bresk-íslenski kvennarokkkvartettinn Dream Wife stóð sig frábærlega á Gimli-sviðinu og söngkonan Rakel Mjöll fór á kostum í raddslaufum meðan ofursvöl gítarpían bauð upp á bjögunarfimleika í hæsta gæðaflokki. Ég náði svo restinni af trap-goðsögninni og glæponarapparanum Gucci Mane og það verður að segjast eins og er að þar var fátt um fína drætti, lítil innlifun og mér leið eins og ég væri að hlusta á einhvern sem væri bara í vinnunni.

 Taumlaus nautn í Hel

En eftir að útidagskránni lýkur er vegurinn til heljar breiður og varðaður glymjandi ásetningi. Laugardalshöllinni er þessa helgi breytt í niðadimmt tekknógímald fyrir utan neonlitaðan pýramída fyrir ofan plötusnúðinn sem dúndraði bassatrommu á hverju slagi í sameiginlegan hjartslátt dansgólfsins. Þarna var enginn dæmdur, allir voru jafnir fyrir myrkrinu og taktinum, og nautnin var taumlaus. Hljóðlist sem arkar aftur í frumstæðan takt ættbálkaathafna Afríku og leiddi mig í leiðsluástand sem endaði ekki fyrr en ljósin voru kveikt nokkrum tímum síðar.

Á laugardeginum hóf ég leikinn á kanadíska bassa-trommu-tvíeykinu Death From Above á stóra sviðinu sem fóru hamförum í rokkuðum hávaðagjörningi. Það eru ótrúlegt hvernig einn bassaleikari getur framkallað hljóðvegg á pari við risahljómsveit en Jesse F. Keeler misnotaði bassann sinn með hjálp skrilljón pedala á hátt sem ætti að vera ólöglegur. Birnir var í roknastuði á Gimli-sviðinu og fékk til liðs við sig nýgræðingana í Clubdub og svo Hr. Hnetusmjör sem fór á kostum í síðasta laginu „Já ég veit“.

 Appelsínugul viðvörun á Earthgang

Rappdúettinn Earthgang var næstur á svið í Gimli og voru sem einskær dans á túlípönum, einn klæddur í hvítan samfesting með skíðagleraugu og annar í regnbogalitaðan hipstergalla. Þeir flæddu eins og Amazon á regntímabilinu og minntu mig á sveitir eins og Pharcyde, Gravediggaz og Outkast í tilraunakenndum töktum, tryllingslegum rímum og sviðsframkomu sem jaðraði við appelsínugula viðvörun. Ég náði svo restinni af Slayer sem skiluðu sínu á fúnksjonal og effektívan hátt en tónlistin þeirra er ekki minn kaffibolli, mér fannst lögin einhæf og stefnan sem þeir aðhyllast eiga meira skylt við þrekæfingu eða íþrótt heldur en list.

Á sunnudeginum mætti ég galvaskur á George Clinton en þó ekki nógu vel klæddur fyrir syndafallið sem var í uppsiglingu. En gamli grúvhundurinn mætti til leiks um sexleitið og var með um það bil íbúafjölda Kópaskers með sér á sviðinu. Það voru margir gítarar, bassaleikarar, saxafónar, trompetar, dansarar, bakraddasöngvarar, hljómborð og allra handa búningar sem tóku þátt í þessum farandsirkus fönkhetjunnar þar sem maður vissi aldrei hverju maður átti von á næst. Tónlistin flakkaði milli fönks, rokks, hip hopps og jafnvel nú-metals þar sem frábærir hljóðfæraleikarar tóku sóló á heimsmælikvarða. Það brast á með fimm mínútna Scat-sólói, twerk-dansi, rappi frá barnabarni Clintons og allra handa furðuverum og skrýtnum búningum. Hljómsveitarleiðtoginn sjálfur söng svo sem ekki mikið enda orðinn gamall og lúinn en hélt samt uppi stuðinu með dansi og hvatningu. Ein þjóð undir grúvinu og rigninguna.

 Syndafall og ógnandi lögregla

En á meðan tveggja tíma tónleikum Clintons stóð bætti stöðugt í rigninguna sem var á nánast gamla-testaments-skala undir lokin. Ég tók ekki mikið eftir því á meðan á herlegheitunum stóð en eftir á var ég svo blautur inn að beini ég þurfti frá að hverfa heim á leið í sturtu og hrein föt sökum yfirgengilegs kulda. Þegar ég mætti aftur var tónleikasvæðið orðið eitt risastórt leðjusvað en ég náði þó rest af tónleikum með elektrófönkaranum Egyptian Lover og breska rapparanum Stormzy sem stóðu sig vel þrátt fyrir veðrið.

Hátíðin var heilt yfir vel heppnuð í ár þrátt fyrir ákveðið stefnuleysi í vali á tónlistaratriðum og gula veðurviðvörun á sunnudagskvöldinu. Það var góður andi á hátíðinni almennt fyrir utan það að ég hef aldrei séð jafn mikið af agressívum lögreglumönnum með fíkniefnahunda á Secret Solstice áður. Ég varð vitni lögreglumönnum með hunda labbandi um Hel þar sem var leitað á fólki á miðju dansgólfinu fyrir framan alla. Fólk sem var leitað á lét sig snögglega hverfa þrátt fyrir að ekkert hafi fundist á því, hafandi verið niðurlægt og stimplað sem dópistar frammi fyrir alþjóð. Það verður ekki séð hvernig þessar aðfarir auki öryggi eins einasta manns á hátíðinni, og þær virðast hluti af fordómum lögreglunnar gegn danstónlist og ungu fólki, þar sem lögreglan er til að mynda aldrei með viðlíka viðbúnað á Iceland Airwaves hátíðinni.

Ég vona svo sannarlega að hátíðin verði haldin að ári þó það séu áhöld um það út af hörðum mótmælum sumra íbúa Laugardalsins. Þrátt fyrir að eitthvað sé um ölvun og fíkniefnaneyslu á svæðinu er stemmningin margfalt rólegri en á menntaskólaböllum og útihátíðum sem ég stótti sem unglingur. Heimur batnandi fer og æskan líka. Laugardalurinn er fullkomið svæði fyrir hátíð af þessu tagi og þegar best lætur vekur upp minningar frá Hróarskeldu, Primavera og öðrum tónlistarhátíðum á meginlandi Evrópu. Ég vonast til að skemmta mé vel í dalnum að ári ef að Guð á áhyggjufullir foreldrar í Laugarneshverfi leyfa. Vonandi sést þá líka eitthvað til sólarinnar í Sólstöðunum.

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur 25. júní 2018

Í Straumi í kvöld verður farið yfir nýtt efni frá listamönnum á borð við Kornél Kovács, Hana Vu, Purling Hiss, Kuna Maze, Sophie, Still Corners og mörgum fleirum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 á X-inu 977.

1) Metropolis – Kornél Kovács

2) Boys – Lizzo

3) Shallow – Hana Vu

4) Out Tonight – Purling Hiss

5) 14th – Kuna Maze

6) Game – Kuna Maze

7) Forever Always – Peter Cotton Tale

8) Not Okay – Sophie

9) Immaterial – Sophie

10) Smoke Screen – Brother May

11) Rehearsal – Klubbhuset

12) Dino – Dinamarca

13) Wanna Slip (Olof Dreijer remix) – Fever Ray

14) Black Lagoon – Still Corners

Straumur 4. júní 2018

Í Straumi í kvöld verður farið yfir nýjustu plötu Kanye West auk þess sem leikinn verða ný lög frá The Internet, Otha, Fort Romeau, Pusha T, Bella Boo og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 á X-inu 977!

1) I Thought about Killing you – Kanye West
2) Wouldn’t Leave – Kanye West
3) Come over – The Internet
4) Magnifique – Juniore
5) One of The Girls – Otha
6) Pablo – Fort Romeau
7) Humility – Gorillaz
8) The Story Of Adidion – Pusha T
9) Fire Fire – Bellaboo
10) Don’t Even Try – Yuksek & JD Samson
11) Another Time Lover – Kadhja Bonet