MSTRO – So In Love With U

Reykvíski tónlistarmaðurinn Stefán Páll Ívarsson sem gengur undir listamannsnafninu MSTRO gaf á dögunum út lagið So In Love With U sem verður á hans fyrstu stóru plötu sem kemur út í febrúar. Myndband við lagið kom út á sama tíma og var því leikstýrt af Stefáni og Magnúsi Thoroddsen Ívarssyni. Lag og myndband bera með sér einstaklega ferskan keim og verður fróðlegt að fylgjast með MSTRO á þessu ári.

 

Two Step Horror með Ricky Nelson ábreiðu

Reykvíska tvíeykið Two Step Horror sendu fyrr í dag frá sér demo ábreiðu af laginu Lonesome Town sem samið var af Baker Knight og flutt af söngvaranum Ricky Nelson á 6. áratugnum. Í flutningi Two Step Horror má segja að lagið verði ögn drungalegra og þau geri það að sínu.

Kveikur komin á netið

Þó svo nýjasta plata Sigur Rósar Kveikur komi ekki út fyrr en á þjóðhátíðardegi Íslendinga hafa þeir Jónsi, Georg Hólm og Orri Páll leyft aðdáendum að taka smá forsmekk á sæluna og sett plötuna í heild sinni á vef Amazon til hlustunar. 16 ár eru liðin síðan fyrsta breiðskífa Sigur Rósar Von kom út en í fyrra sendi bandið frá sér Valtara og bæta þeir nú sjöundu plötunni safnið. Kveikur er fyrsta platan sem Sigur Rós gefur út undir merkjum XL Recordings þó svo XL hafi reyndar eitthvað komið að útgáfu Með suð í eyrum spilum við endalaust en Sigur Rós sleit upp samstarfi við EMI í fyrra. Kjartan Sveinsson kvaddi einnig hljómsveitina í fyrra og er þetta í fyrta skiptið sem Sigur Rós gefur út plötu sem tríó síðan Von kom út.
Kveikur inniheldur 9 lög og nú þegar hafa birst myndbönd við lögin „Ísjaki“, „Brennisteinn“ og nú síðast þann 6. júní bættu þeir við athyglisverðu sjónarspili við titillag plötunnar. Meðlimir sáu sjálfir um upptökur og hafa lýst afrakstrinum sem ágengara efni en áður hefur heyrst frá hljómsveitinni. Plötunni verður svo fylgt vel eftir og eru tónleikar víða um Evrópu á döfinni nú í súmar.

Hlustið á Kveik hér

-Daníel Pálsson

Útgáfutónleikar Sin Fang

Íslenska hljómsveitin Sin Fang með Sindra Má Sigfússyni fremstan í flokki heldur útgáfutónleika vegna plötunnar Flowers í Iðnó á morgun kl. 21:00. Um upphitun sjá sigurvegarar músíktilrauna í ár Vök , en þau voru einmitt að skrifa undir útgáfusamning við Record Records. Miðasala á tónleikana er á midi.is eins verður hægt að kaupa miða við hurðina, meðan húsrúm leyfir. 

Sin Fang hefur verið iðinn undanfarnar vikur en hljómsveitin er nýkomin heim úr þriggja vikna tónleikaferð um Þýskaland. Hljómsveitin sendi einnig nýlega frá sér myndband við lagið What’s Wrong With Your Eyes en lagið er að finna á breiðskífunni Flowers. Myndbandinu var leikstýrt af Mána Sigfússyni

mynd: Ingibjörg Birgisdóttir

CocoRosie gefa út nýja plötu með hjálp Valgeirs Sigurðssonar

Bianca Casady og Sierra Casady eru betur þekktar undir nöfnunum „Coco“ og „Rosie“ og saman mynda þær franska/bandaríska dúettinn CocoRosie. Þær eru systur og sendu frá sér sína fimmtu plötuna Tales Of A Grass Widow þann 27. maí en þær sendu fyrst frá sér plötuna La maison de mon reve árið 2004. Erfitt er að skilgreina hvers konar tónlist þær stöllur fást við en „freak folk“ kemst allavega nálægt því. Þær koma báðar að söngnum en „Rosie“ sér að mestu leyti um hljóðfæraleikinn en „Coco“ notaðist fyrst um sinn helst við barnahljóðfæri við gerð tónlistarinnar og framkallaði hin furðulegustu hljóð.
Valgeir Sigurðsson sá um upptökur á Tales Of A Grass Widow en hann er enginn nýgræðingur og hefur m.a. unnið með Björk, Thom Yorke, Bonnie Prince Billy og Feist. Á nýju plötunni virðist meira vera notast við synthesizera og trommuheila en áður ásamt taktkjafti sem lætur á sér bera í nokkrum laganna 11. Hin kynvillti Antony Hegarty úr Antony and the Johnsons syngur með stelpunum í laginu „Tears For Animals“ af mikilli einlægni eins og ella. Platan er þung og sumir hafa haft orð á því að hún sé of niðurdrepandi á köflum en síðasta lagið er rúmar 18 mínútur og er helmingur lagsins þögn. Tales Of A Grass Widow fær hins vegar fína dóma hjá flestum gagnrýnendum og greinilegt að Valgeir hefur unnið gott verk.

Lög af plötunni Tales Of A Grass Widow

-Daníel Pálsson

Lord Pusswhip rímixar Oyama

Pródúsantinn Lord Pusswhip hefur nú endurhljóðblandað lagið Sleep eftir ómstríðu skóglápsrokksveitina Oyama. Lagið er af I Wanna, fyrstu Ep-plötu sveitarinnar. Í meðförum Lord Pusswhip er gítarveggjum  lagsins skipt út fyrir draumkenndan sveim og trommuheila með helling af bergmáli er skellt undir herlegheitin. Hlustið á endurhljóðblöndunina hér fyrir neðan.