Laura Marling með sína fjórðu plötu á fimm árum

Breska þjóðlagasöngkonan Laura Marling gefur út sína fjórðu plötu „Once I Was An Eagle“ þann 27. Maí næstkomandi. Laura Marling hefur ábyggilega hlustað einu sinni til tvisvar á Joni Mitchell og á köflum mætti halda að hún væri amma hennar eða í minnsta lagi frænka. Þrátt fyrir að vera aðeins 23. ára hefur Marling þegar afrekað að vera tilnefnd tvisvar til hina virtu Mercury Prize verðlauna, árið 2008 fyrir frumburðin „Alas, I Cannot Swim“ og árið 2010 fyrir „I Speak Because I Can“.  Árið 2011 hlaut hún Brit Awards og NME Awards fyrir plötuna „ A Creature I Don‘t Know“.
Laura Marling hefur þó gert meira en að vinna til verðlauna, hún var til að mynda helsta ástæða þess að hljómsveitin Noah and the Whale byrjaði að njóta vinsælda. Hún var meðlimur bandsins frá 16 ára aldri en hætti árið 2008 til að einbeita sér að sínum eigin ferli. Þá sleit hún sambandi sínu við söngvara bandsins Charlie Fink sem tók sambandsslitunum mjög nærri sér og notaði innblástur ástarsorgarinnar við gerð plötunar „The First Days of Spring“. Hún er af mörgum talin besta plata sveitarinnar og mætti Fink alveg láta segja sér oftar upp. Nói og hvalirnir hafa þó ekki siglt í strand og nýjasta plata þeirra Heart Of Nowhere“  er ekki alslæm.
Marling átti einnig í ástarsambandi við Marcus Mumford söngvara Mumford & Sons. Á væntanlegri plötu Marling syngur hún um öfundsjúka stráka í laginu „I Was An Eagle“ og er sagt að þar skírskjóti hún í samband sitt við Marcus.
„Once I Was An Eagle“ hefur hlotið einróma lof þeirra gagnrýnenda sem sagt hafa skoðun sína á gripnum og telja flestir þetta besta verk hennar til þessa. Marling ákvað að styðjast ekki við hljómsveit við gerð plötunnar ólíkt fyrri verkum hennar og er aðeins sellóleikari og trommari sem koma að hljóðfæraleik auk Marling á gítar. Platan hefur að geyma 16 lög sem flest eru í „singer songwriter“  stílnum og fóru aðeins 10 dagar í að taka þau upp. „Once I Was An Eagle“ rennur þægilega í gegn og virkar sem ágætis svefnmeðal þó það sé hætta á að maður rumski inná milli þar sem kraftmiklar þjóðlagaballöður halda hlustandanum á tánum.

– Daníel Pálsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *