Rafsveitin Boards of Canada hefur nú sett á Soundcloud síðu sína lagið sem var frumflutt með myndbandi á húsvegg í Tókýó í gær. Það er hið fyrsta sem heyrist af Tomorrow’s Harvest, breiðskífu þeirra sem kemur út þann 10. júní. Lagið sem nefnist Reach For the Dead er prýðisgott og ber öll helstu höfundareinkenni sveitarinnar. Það hefst á gullfallegum og hægfljótandi ambíent-synthum sem eru þó alltaf lítllega bjagaðir af suði og skruðningum. Þegar líður á lagið fara svo trommurnar að sækja í sig veðrið með harðari og hraðari takti og agressívari hljóðgerfla-arpeggíum. Það er í senn hugljúft og ógnvekjandi á þennan ólýsanlega hátt sem skosku bræðrunum hefur tekist að fullkomna. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og hér má lesa söguna af stórfurðulegri auglýsingarherferð fyrir væntanlega plötu.
Uppfært: Nú hefur einnig verið sett á netið ægifagurt myndband við lagið sem einnig má horfa á hér fyrir neðan. Þess má geta að þetta er einungis annað myndbandið sem hefur verið opinberlega gert af Boards of Canada.