Sónar fer vel af stað

Önnur útgáfa Reykjavíkurútibús Sónar hátíðarinnar hófst í gær og það er vonandi að hún festi sig í sessi sem árlegur viðburður.

 

Sax í Tonik

 

Það var gleðilegt að vel var mætt rétt upp úr 8 þegar fyrstu atriði kvöldsin voru að hefjast og það fyrsta á minni dagskrá var íslenski tónlistarmaðurinn Tonik. Hann spilaði frábært sett en með honum á sviðinu var Hörður úr M-Band sem söng og græjaðist auk selló- og saxafónleikara. Hljómurinn var dökkt og seyðandi tekknó og sálarfullur söngur Harðar var löðrandi í tilfinningu. Þrátt fyrir að hlaða raddbreytandi effektum á sönginn var mennskan undir niðri óyggjandi. Sellóið og saxafónninn voru síðan notuð á mjög óhefðbundinn hátt, oft ekki til að spila laglínur, heldur meira eins og hljóðgervlar sem byggðu ofan á hljóðheiminn. Allt í allt til mikillar fyrirmyndar og góður upptaktur að hátíðinni.

 

Minna er stundum of lítið

 

Ryuichi Sakamoto er stórmerkilegur tónlistarmaður en hann var meðlimur í japönsku sveitinni Yellow Magic Orchestra sem voru frumkvöðlar í raftónlist seint á 8. áratugnum og eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Þá hefur hann unnið mikið við kvikmyndatónlist og fékk meðal annars óskarsverðlaun í þeim flokki fyrir stórmyndina The Last Emperor. Það sem hann bauð upp á í Silfurbergi ásamt samstarfsmanni sínum Taylor Deupree var hins vegar einhvers konar öfgafull naumhyggja. Einni píanónótu haldið í hálfa mínútu í bland við rafhljóð sem voru svo fíngerð að þau voru nánast ógreinanleg.

 

Ég skil hugmyndina á bak við mínímalisma og get alveg notið hans en þetta var fullmikið af því góða, eins og æfing í engu, eða pínku ponsu meira heldur en þögn. Það lágstemmt að þú heyrðir nánast í fólki anda, svo ekki sé talað um stöðuga bassatrommuna sem drundi í gegnum gólfið frá neðri hæðinni. Þegar ákveðnum punkti er náð hættir minna að verða meira og heldur bara áfram að minnka. Risastór salurinn vann reyndar ekki með þeim og þetta hefði án efa virkað betur í Kaldalóni, en var í það minnsta full daufur kaffibolli fyrir minn smekk.

 

Hús og Högni

 

Eftir Sakamoto þurfti ég nauðsynlega að koma hreyfingu á blóðrásina og fékk hana í nokkrum lögum með Introbeats á Flóasvæðinu. Intro hefur um árabil verið einn fremsti hip hop taktsmiður landsins en er í seinni tíð farinn að færa sig yfir í hústónlistina. Hann var í feikna stuði og pumpaði út bassatrommu á hverju slagi í bland við fönkí bassalínur og bjartar melódíur og loksins var fólk farið að dansa af einhverri alvöru.

 

Þvínæst fylgdist ég með Högna úr GusGus og Hjaltalín frumflytja einstaklingsverkefni sitt, sem hann nefnir HE. Þetta voru metnaðarfull tónverk og dramatíkin keyrð í botn með slatta af strengjum, kórum og framsæknum rafpælingum. Stundum var tónlistin eins og GusGus í helmingi hægara tempói og stundum fór hún út í tilraunakennda raftakta í anda Autechre og Aphex Twin.
Tónlistin var fyrir utan söng Högna mestmegnis spiluð af bandi en magnaðar myndskreytingar bættu það upp. Það var skærum ljósgeisla beint á Högna og myndum af eldgosum, sólmyrkvum og afrískum sléttum var varpað á vegginn og sjónræna hliðin öll hin mikilfenglegasta. Í lokalaginu fékk hann svo heilan karlakór til að syngja með sér en það verður gaman að fylgjast með þessu verkefni í framtíðinni.

 

Klippt og skorið

 

Það var röð inn í Kaldalón en ég náði þó lokasprettinum með Good Moon Deer þar sem forsprakki hennar, Guðmundur Ingi Úlfarsson, klippti, límdi, bjagaði og beygði hljóðbúta af öllum stærðum og gerðum við villtan trommuleik Ívars Péturs. Það kom flott grafík úr skjávarpanum og lagið Again and Again var sérstaklega tilkomumikið, ég hefði viljað ná meira af þeim.

 

Þvínæst sá ég Danann Eloq í Silfurbergi sem var andstæðan við Sakamoto, skrúfaði allt í botn og engar fínhreyfingar í blæbrigðum eða framsetningu. Hann blastaði maximalískt dub step með hip hop áhrifum, og hljóðkerfið í Silfurbergi er svo gott að stundum var eins og bassinn ætti í samræðum við innyflin í þér. Þetta var alveg skemmtilegt en samt ekki sérlega merkileg tónlist, og þónokkur ostakeimur af henni.

 

Upplifun og Elegans

 

GusGus lokuðu svo kvöldinu með skynfæraupplifun á heimsmælikvarða eins og þeirra er von og vísa. Þeir léku mikið af nýju efni sem hljómaði mjög vel og ég er orðinn ansi spenntur fyrir plötunni sem er væntanleg. Högni og Daníel Ágúst sveimuðu elegant um sviðið og samsöngurinn í Crossfade, sem hlýtur að verða smáskífan af plötunni, var ægifagur og tær meðan Silfurbergið nötraði undan taktfastri bassatrommunni og dunandi dansi.

Heilt yfir var fyrsta kvöld Sónar vel heppnað og í kvöld hlakka ég til að sjá gúmmúlaði eins og Bonobo og Jon Hopkins. Fylgist með á straum.is næstu daga því við munum halda áfram með daglegar fréttir af Sónar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónar hefst í dag – 10 spennandi listamenn

Tónlistarhátíðin Sónar hefst í dag og við hvetjum alla tónlistaráhugamenn sem vettlingi geta valdið til að mæta á þá þriggja daga veislu sem fram undan er. Hátíðin sem hefur verið haldin árlega í Barcelona síðan 1994 fór fram í fyrsta skipti hér á landi í Hörpu á síðasta ári og var feikilega vel heppnuð eins og lesa má um hér. Það eru meira en 60 tónlistarmenn og plötusnúðar sem spila á hátíðinni en hér verða kynntir 10 sem við mælum sérstaklega með. Fylgist vel með á straum.is næstu daga því við verðum með daglega tónleikarýni af hátíðinni.

Major Lazer

Major Lazer er tónlistarhópur sem er leiddur af ofurpródúsernum Diplo sem hefur undir því nafni framleitt tvær plötur þar sem Dancehall, dubstep, reggí og gamaldags dub er málað með breiðum penslum og skærum litum á striga nútímalegrar danstónlistar.

 

Trentemoller

Danski tekknóboltinn Trentemoller hefur þeytt skífum á Íslandi oftar en hönd á festir og er með þeim bestu í því stuðfagi. Eftir hann liggja margar meistaralegar endurhljóðblandanir og þrjár sólóskífur en sú síðasta, Lost, var með betri raftónlistarplötum síðasta árs og nokkuð poppaðari en fyrri verk hans þar sem margir gestasöngvarar komu við sögu. Hann mun koma fram með live hljómsveit á Sónar.

 

Gus Gus

Gus Gus eru aðals- og kóngafólk íslensku danstónlistarsenunnar og þurfa engrar frekari kynningar við. Fyrir utan það að sveitin er tilbúin með nýja plötu og ekki er ólíklegt að eitthvað af henni heyrist á tónleikunum.

 

Jon Hopkins

Hopkins er rúmlega þrítugur Breti sem hefur undanfarið starfað með Brian Eno auk þess að gefa út eigið efni. Með sinni þriðju breiðskífu, Immunity, sem kom út á síðasta ári skaust hann hins vegar upp á stjörnuhimininn en hún lenti ofarlega á árslistum margra tímarita og spekúlanta. Tónlistin þræðir einstigið milli sveimtónlistar og tekknós af miklu listfengi en hann sótti Ísland heim á síðustu Airwaves hátíð en þeir tónleikar voru einn af hápunktum hátíðarinnar.

 

Bonobo

Bonobo er einyrki en í tónlist sinni vefur hann persneskt teppi úr þráðum ólíkra hljóðbúta úr öllum áttum og heimsálfum. Hann er á mála hjá hinni virtu Warp útgáfu, sem m.a. gefur út Aphex Twin og Boards of Canada, en platan hans Dial M for Monkey er algjört meistarastykki og ævintýri fyrir eyrun.

 

James Holden

James Holden er breskur plötusnúður og tónlistarmaður sem lét fyrst að sér kveða með kosmískri endurhljóðblöndun á lagi Nathan Fake, The Sky Is Pink. Hans nýjasta skífa, The Inheritors, sem kom út á síðasta ári er tilraunakennd diskósúpa undir sterkum áhrifum frá súrkáls- og síðrokki.

 

Sykur

Ein af hressari elektrósveitum landsins skartar grípandi lagasmíðum og groddalegum synþahljóm, en þau er vön því að tjalda öllu til á tónleikum.

 

Paul Kalkbrenner
Kalkbrenner er þýsk tekknógoðsögn sem varð gerð ódauðleg í myndinni Berlin Calling sem kortlagði hina víðfrægu berlínsku klúbbasenu.

 

Hermigervill

Sveinbjörn Thoroddsen, betur þekktur sem Hermigervill, hefur um árabil verið í fremstu víglínu íslenskrar raftónlistar. Í byrjun ferilsins með hugmyndaríkum Trip Hop plötum en í seinni tíð með hljóðgervladrifnum útgáfum af íslenskum dægurlögum og samstarfi við Retro Stefson. Hann er nú að vinna að sinni næstu breiðskífu og mun flytja nýtt efni á tónleikum sínum á Sónar.

 

Tonik

Einn af innlendu hápunktum síðustu Airwaves hátíðar var raftónlistarmaðurinn Tonik en melankólískt og sálarþrungið tekknóið bræddi bæði hjörtu og fætur í salnum. Hann kemur iðulega fram með selló- og/eða saxafónleikara sem gaman er að fylgjast með á sviði.

Flaming Lips á Iceland Airwaves

Tilkynnt var um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Iceland Airwaves hátíð í dag og þar ber hæst bandarísku indísveitina Flaming Lips, en hún mun loka hátíðinni á sunnudagskvöldinu. Af öðrum erlendum sveitum má nefna frönsku rafpönksveitina La Femme og Suður-Afríska tónlistarmanninn John Wizards. Aðrir erlendir listamenn eru East India Youth, Jungle og Blaenavon frá Bretlandi, hinn finnski Jaakko Eino Kalevi og Tiny Ruins frá Nýja Sjálandi.

 

Þá hafa íslensku sveitirnar Just Another Snake Cult, Highlands, Samaris, Mammút, Grísalappalísa, Vök, Muck, Snorri Helgason og Tonik verið bókaðar á hátíðina. Þrátt fyrir að fókus Iceland Airwaves sé á nýjar og upprennandi hljómsveitir hefur sú hefð komist á undanfarin ár að fá þekkta tónlistarmenn til að loka hátíðinni. Flaming Lips sem eru sannkallaðir risar í indíheiminum munu sjá um það hlutverk að þessu sinni ásamt annarri sveit, sem tilkynnt verður um síðar, að fram kemur í tilkynningu frá Iceland Airwaves. Flaming Lips hafa áður spilað á Iceland Airwaves árið 2000, en hátíðin fer fram í 15. sinn þann 5. til 9. nóvember næstkomandi.


Hliðarverkefni Caribou á Harlem Bar

Kanadíska rafsveitin Pick a Piper mun leika fyrir dansi á skemmtistaðnum Harlem Bar laugardagskvöldið 23. nóvember. Tónleikarnir hefjast á miðnætti og íslenska rafsveitin Tonik mun einnig koma fram. Eftir tónleikana mun aðalsprauta Pick a Piper, trommuleikarinn og plötusnúðurinn Brad Weber, þeyta skífum fram undir morgun.

Pick a Piper  er hliðarverkefni liðsmanna hljómsveitarinnar Caribou, sem tryllti landsmenn með eftirminnilegum tónleikum á Nasa um árið. Hljómsveitin gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu, samnefnda sveitinni, hjá úgáfufélaginu City Slang, en þeir gefa meðal annars út plötur Arcade Fire, Tindersticks og Caribou. Tónleikar Pick a Piper á Harlem marka upphaf tónleikaferðar þeirra um Evrópu og eru í raun fyrstu tónleikar þeirra utan Kanada.

Trentemøller og Diplo á Sónar

Rétt í þessu var tilkynnt að danska raftónlistarmanninum Trentemøller og hinum bandaríska Diplo hafi verið bætt við dagskrá Sónar hátíðarinnar sem fram fer í febrúar. Trentemøller er sannkallaður íslandsvinur en hann kom fram á hátíðinni í fyrra sem plötusnúður og lék fyrir pakkfullum Norðurljósasal. Í þetta skipti kemur hann hins vegar fram með live hljómsveit en hann sendi frá sér fyrr á árinu hina frábæru breiðskífu Lost. Diplo er forsprakki Major Lazer hópsins sem er eitt aðalnúmer hátíðarinnar í ár en hann mun einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpunnar.

Þá hefur í íslensku deildinni verið bætt við FM Belfast, Tonik, Cell 7 og Gluteus Maximus auk þess sem Högni Egilsson úr Hjaltalín og Gus Gus mun heimsfrumflytja sóló verkefni sitt, HE. Aðrir flytjendur á hátíðinni eru meðal annars Bonobo, James Holden, Paul Kalkenbrenner og Jon Hopkins sem gaf út eina bestu plötu ársins, Immunity, og stóð sig feikna vel á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð. Miðasala á hátíðina er í fullum gangi en hægt er að kaupa miða hér og skoða dagskrána hér. Enn á eftir að tilkynna um fleiri listamenn sem koma munu fram. Hlustið á tóndæmi hér fyrir neðan.


Fyrsta kvöldið á Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Iceland Airwaves hátíðin var sett í gær með pompi og prakt og fréttaritari straums fór á stúfana og reyndi að sjá eins marga tónleika og unnt var. Dagurinn var tekinn snemma og fyrst var haldið í fatabúðina JÖR til að sjá rafpoppsveitina Sykur off-venue. Þau komu fram í nokkurs konar órafmagnaðri útgáfu, eða öllu heldur minna rafmögnuð en þau eru venjulega, einn meðlimur spilaði á gítar, annar á hljómborð og sá þriðji á trommur. Þessi uppsetning var ákaflega skemmtileg og dró fram nýjar víddir í gömlum lögum auk þess sem tilþrifamiklir raddfimleikar söngkonunnar Agnesar nutu sín vel.

 

Þvínæst var haldið á Loft Hostel þar sem skóáhugamennirnir í Oyama voru að koma sér fyrir á sviðinu. Þeir hófu tónleikana á nýju efni sem lofar mjög góðu. Mónótónísk rödd söngkonunnar Júlíu, sem minnir mig nokkuð á söngkonu Stereolab, skar í gegnum ómstríða hávaðaveggi gítarleikaranna eins og steikarhnífur á smjörstykki.

 

Harður, hrár og pönkaður kjarni

 

Ég náði þó einungis þremur lögum því ég var búinn að lofa sjálfum mér að sjá kanadíska bandið Metz og hljóp beinustu leið niður í kjallara á 11-unni. Talsvert suð hefur verið í kringum sveitina en kjarni hennar er harður og pönkaður til hins ýtrasta. Þeir voru þrír á sviðinu í sveittum og skítugum kjallaranum en hljóðstyrkurinn var skrúfaður í botn og þyngslin talin í tonnum. Þrátt fyrir að hafa litla þekkingu á öfgarokki af þessum skóla þá var ekki hægt annað en að hrífast með óbeislaðri spilagleðinni og hráum einfaldleikanum. Fremst við sviðið myndaðist flösuþeytandi pyttur og undir lok tónleikana voru menn farnir að hlaupa upp á svið og krádsörfa villt og galið.

 

Þvínæst hélt ég á Dillon að sjá lo-fi popparana í Nolo. Síðan ég sá þá síðast hafa þeir breyst þó nokkuð, hafa bætt við sig trommara, spila á fleiri hljóðfæri en áður og notast í mörgum lögum við raddbreytandi hljóðeffekta. Það kemur alveg frábærlega út og sum af þeirra bestu lögum, eins og Fondu og Skelin Mín, sem ég hef heyrt ótalmörgum sinnum fengu nýtt líf og aukinn kraft í þessum útsetningum. Alveg stórgóðir tónleikar og fyrsti hápunktur kvöldsins.

 

Skrýtin birta og sálardjúpt tekknó

 

Á þessum tímapunkti var ég búinn að sjá fjóra tónleika en samt var opinber dagskrá hátíðarinnar sjálfrar ekki hafin. Ég hóf hana á nýbylgjusveitinni Grísalappalísu en Gunnar annar söngvari hennar var valhoppandi um allt sviðið í laginu Lóan er komin ég mætti á svæðið. Þeir léku tvö ný lög ásamt því að taka ábreiðu af Megasi, sem óneitanlega virðist mikill áhrifavaldur á sveitina. Þeir voru þrumuþéttir eins og venjulega og léku á alls oddi í lokalaginu Skrýtin Birta. Það eina sem skyggði á performansinn er að lítið af fólki var komið í risastóra rýmið í Hafnarhúsinu svona snemma og sveitin nýtur sín kannski betur í minna rými þar sem hún er í meira návígi við áhorfendur.

 

Ég hafði heyrt góða hluti um raftónlistarmanninn Tonik en honum tókst að fram úr eftirvæntingum á tónleikum sínum á Harlem. Hann kom fram með Herði úr M-Band, sem djöflaðist í tækjum og tólum ásamt því að syngja í nokkrum lögum, auk sellóleikara. Grunnurinn var tekknó, en anguvær söngur Harðar og smekklegt sellóið umbreyttu tónlistinni í einhvers konar melankólískt sálar-tekknó. Það var markviss uppbygging í tónleikunum og engar pásur á milli laga sem einungis jók á draumkennda upplifunina.

 

Hámörkuð gleði

 

Á eftir Tonik kom rafpoppsveitin Love & Fog sér fyrir á sviðinu og framreiddu grípandi rafpopp sem innihélt í það minnsta tvo upprennandi slagara. Hljóðheimurinn þeirra er smekklegur og þungur á botninum og ólíkar raddir Jóns og Axels harmóneruðu vel. Það verður gaman að fylgjast með hvað þau afreka í náinni framtíð.

 

Þegar þarna var komið við sögu voru batteríin nánast ofhlaðin af mikilli tónlistarinntöku og farið að kenna á bakeymslum eftir standslaust tónleikastand frá því fimm um daginn en ég ákvað að enda þetta í Hörpu. Þar sá ég fyrst Retro Stefson í Norðurljósasalnum og það var greinilega engin þreyta í áhorfendunum sem hreinlega átu stemmninguna úr lófa sveitarinnar. Þau tóku nýtt lag sem hljómaði mjög vel og skreyttu önnur lög með alls konar útúrdúrum og bútum úr öðrum lögum til að hámarka gleðina.

 

Emiliana á heimavelli

 

Að lokum fór ég á Emiliönu Torrini en tækifæri til að sjá hana á tónleikum gefst ekki á hverjum degi. Hún tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu sem ég hef því miður kynnt mér lítið, en það kom ekki að sök því flutningurinn og lögin voru framúrskarandi. Það er smátt svæði á milli þess að vera óþolandi væminn og einlægt krúttlegur, en Emiliana dansaði alltaf réttu megin línunnar og hún virtist ánægð með að halda tónleika á heimavelli og talaði við salinn á íslensku. Eftir uppklapp tók hún síðan Sunny Road af plötunni Fisherman’s Woman og endaði svo á útjaskaða slagaranum Jungle Drum, sem ég held þó að flestir nema mest harðbrjósta hipsterar fíli smávægis undir niðri.

Allt í allt var fyrsta kvöldið vel heppnað og ég náði að sjá rjómann af íslensku böndunum sem komu fram, þó maður missi alltaf af einhverju. Hápunktarnir í þetta skipti voru Nolo, Tonik og Emiliana Torrini. Í kvöld er það svo Yo La Tenga og heill hellingur af öðru, en fylgist vel með á straum.is því við höldum áfram með daglega umfjöllun um hátíðina næstu daga.

Davíð Roach Gunnarsson

Airwaves yfirheyrslan – Tonik

Í yfirheyrslu dagsins þjörmuðum við að Antoni Kaldal Ágústsyni sem framleiðir græjumúsík undir listamannsnafninu Tonik. Hann var auðveldur viðureignar og sagði okkur allt sem hann veit um Airwaves hátíðina í svo mörgum orðum.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2003. Trabant á Nasa og svo var Mugison með eftirminnilega frammistöðu á Pravda.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

Sama ár á Grandrokk (síðar Faktory/iðnaðarsvæði/eitthvað random hótel). Lék með tölvuprojektinu Tonik, Jón Þór úr Lada Sport/Love & Fog spilaði á gítar. Spiluðum á undan Sk/um, sem var samstarfsverkefni Jóhanns Ómarssonar (Skurken) og Þorsteins Ólafssonar (Prince Valium).

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Níu hátíðum.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?
Útitónleikarnir með Elektro Guzzi í fyrra voru frekar eftirminnilegir. Einnig gæti ég talið til Dirty Projectors og Moderat.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Erfitt val. Þegar kemur að Tonik, þá hafa síðustu ár farið í markvissar tilraunir og þróun með lifandi flutning og því margt sem kemur upp í hugann. Þessi þróun er enn í gangi, en tónleikarnir í fyrra eru þó eftirminnilegir. Þar varð til eitthvað á sviði sem við erum að skrásetja og koma á plötu.

Tonik – Snapshot One (Live at Iceland Airwaves Festival 2012) from Tonik on Vimeo.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mest megnis hafa breytingar verið af jákvæðum toga og eiga skipuleggjendurnir mikið lof
skilið. Ég upplifi hátíðina markvissari en áður. Augljós breyting er að ferðamenn eru í meiri hluta. Það mun koma betur í ljós í ár hvernig dagsetningarnar kring um mánaðamótin október nóvember séu að virka.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Satt best að segja á ég mér ekki uppáhalds tónleikastað.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Sumarið eftir að Klaxons spilaði, þá sá ég svolítið eftir að hafa ekki séð þá.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Njóta.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Úr erlendu deildinni væru það Sun Glitters, Anna Von Hausswolff og Jon Hopkins. Ég sá Gold Panda árið 2010 og get mælt með honum. Úr íslensku deildinni mun ég reyna að sjá Úlf Eldjárn, Emiliönu Torrini og Samúel Jón Samúelsson Big Band.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Heilmikla.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig?

Allskonar. Það eru ýmis tækifæri sem hægt er að rekja beint til Iceland Airwaves.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Jon Hopkins?

 

Listasafnið eða Harpa?

Harlem?

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Það mun vera Tonik. http://facebook.com/tonikmusic

Tonik – Snapshot Two (feat. Jóhann Kristinsson) from Tonik on Vimeo.

50 atriði tilkynnt á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 50 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári.

Þau eru: sóley, Savages (UK), Jon Hopkins (UK), John Grant (US), Mykki Blanco (US), Mac DeMarco (CA), Lay Low, Villagers (IE), PAPA (US), Empress Of (US), Lescop (FR), Agent Fresco, Young Fathers (SCO), For a Minor Reflection, Slow Magic (US), kimono, We Are Wolves (CA), Ghostigital, Dikta, San Fermin (US), Berndsen, Baby in Vain (DK), Sean Nicholas Savage (CA), Cousins (CA), Úlfur Úlfur, Aaron and the Sea (US), Biggi Hilmars, Kithkin (US), Eldar, Epic Rain, The Balconies (CA), Futuregrapher, Nordic Affect, Ylja, Wistaria, Tonik, Sindri Eldon and the Ways, Good Moon Deer, Rökkurró, Kött Grá Pjé, Jóhann Kristinsson, Kajak, Sometime, Saktmóðigur, Hudson Wayne, Boogie Trouble, Tanya & Marlon, M-Band, Original Melody og Nolem!

Tónleikar helgarinnar 24. – 26. maí

Föstudagur 24. maí

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess hefst. Hátíðin er haldin á KEX Hostel og Volta og koma 17 hljómsveitir fram á hátíðinni. Þrjár hljómsveitir koma frá Ástralíu og Skotlandi og svo 14 frá Íslandi.

Kex Hostel:

20:00: Þórir Georg

20:45: Withered Hand

Volta:

21:15: Tonik

22:00: Good Moon Deer

22:50: Bloodgroup

23:40: PVT

00:40: Sykur

 

 

Laugardagur 25. maí

MC Bjór og Bland spilar sína fyrstu tónleika í verslun Lucky Records, Rauðarárstíg 6 klukkan 17:00.

Reykjavík Music Mess heldur áfram:

Kex Hostel:

20:00: Good Moon Deer

20:45: Stafrænn Hákon

Volta:

21:15: Just Another Snake Cult

22:00: OYAMA

22:50: Muck

23:40: DZ Deathrays

00:40: Mammút

Ofvitarnir, Sayatan og Skerðing koma fram á Dillon. Ókeypis inn og tónleikarnir hefjast á slaginu 22:00.

 

Sunnudagur 27. maí

Síðasti dagur Reykjavík Music Mess:

Kex Hostel:

20:00: Just Another Snake Cult

20:45: MMC

Volta:

21:15: Loji

22:00: Stafrænn Hákon

22:50: Withered Hand

23:40: Monotown

 

 

Fleiri hljómsveitir á Reykjavík Music Mess

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess verður haldin 24. til 26.  maí á tónleikastaðnum Volta og Kex Hostel. Miðasala er hafin á midi.is og eru miðar á tilboði til 16. apríl eða meðan birgðir endast.

Fleiri hljómsveitir hafa bæst í hóp þeirra sem munu koma fram á hátíðinni. Monotown, Stafrænn Hákon, Boogie Trouble, Loji og Tonik munu allar spila. Hljómsveitin PVT frá Ástralíu er meðal þeirra sem koma fram, en þeir eru á mála hjá breska útgáfufélaginu Warp. Þrjár íslenskar hljómsveitir hafa bæst sömuleiðis í hópinn en þær eru SykurJust Another Snake Cult og Good Moon Deer. Alls hafa 10 hljómsveitir staðfest komu sína en um 15 hljómsveitir munu koma fram á Reykjavík Music Mess. Nánari upplýsingar og hlekkir á hljómsveitirnar má finna á heimasíðu hátíðarinnar.

Listi hinna staðfestu:

BLOODGROUP

DZ DEATHRAYS (AUS)

GOOD MOON DEER

JUST ANOTHER SNAKE CULT

MAMMÚT

MUCK

OYAMA

PVT (AUS)

SYKUR

WITHERED HAND (UK)