Glimpse Of Everything frá TSS

Jón Lorange, annar helmingur lo-fi dúettsins Nolo, var að senda frá sér nýja plötu undir listamannsnafninu The Suburban Spaceman (TSS). Platan heitir Glimpse Of Everything og inniheldur tólf lágstemmdar poppsmíðar í lo-fi hljóðheimi og rennur einstaklega ljúft í gegn.

Phédre á Íslandi

Hin magnaða kanadíska hljómsveit Phédre sem átti lag ársins 2012 á þessari síðu kemur fram á sumarfögnuði Straums  á Kex Hostel laugardaginn 3. maí. Ken Park sem líkt og Phédre kemur frá Montreal mun einnig koma fram, auk íslensku hljómsveitarinnar Nolo. Söngkona Phédre April Aliermo verður í viðtali í Straumi næsta mánudagskvöld á X-inu 977!

Rafmagnsstólinn: Jón Gabríel í Nolo

 

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

Að þessu sinni var það Jón Gabríel Lorange söngvari og gítarleikari Nolo sem var grillaður en hann hefur síðustu misseri einbeitt sér ásamt öðrum hljómsveitarmeðlimum að nýrri Nolo plötu.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndiru mest vilja hita upp fyrir? 

Ég væri mest til í að hita upp fyrir Kalla Bjarna, ekki grín.

 

Hvað er besta tónlistin sem þú hefur uppgötvað á árinu? 

lagið Dance of the Knights með Serguei Prokofiev.

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt/uppáhalds tónlist í bíómynd?

Uppáhalds kvikmyndatónskáldið mitt er Howard Shore, uppáhalds tónlist í bíómynd er í Stanley Kubrick myndinni Barry Lyndon eða Shining!

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni (og af hverju?)

Ég á mér ekkert eitt uppáhalds tímabil í tónlistarsögunni en 20. öldin stendur þó uppúr.

 

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?

Ég er eiginlega bara með Nolo lög og mín lög á Itunes. Þannig það er svarið við því. Annars nota ég Youtube, vínyl og ipod til að hlusta á aðra tónlist.

 

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega (undanfarið ca. ár)?

Bestu tónleikar sem ég hef séð “nýlega” eru örugglega Dirty Projectors á Airwaves 2012.

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn (íslandi / erlendis)?

Það eru ekki margir tónleikastaðir á Íslandi um þessar mundir en mér fannst Faktorý alltaf bestur. Annars eigum við eftir að spila á Paloma! Og gerum það 19. apríl!

 

Uppáhalds plötuumslag? 

líklegast þarna Santana platan með svörtum manni að halda á hvítum fugli. Man ekki hvað hún heitir… (Greatest Hits)

 

Þekkirðu Jakob Frímann (ef svo hvernig? hefurðu hitt hann?)? 

Hver er Jakob Frímann? Er hann á Bylgjunni?

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka jam-session með?

Ég myndi vilja taka jam-session með mjög mörgum en fyrsti sem kemur upp í huga er Bob Marley. Ég sendi honum e-mail um árið um hvort hann vildi syngja með Nolo, ekkert svar borist enn.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?

Ég væri mest til í að vinna með TUPAC SHAKUR!

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er , hver myndi það vera?

Ég myndi mest vilja vinna með upptökustjóranum George Martin, fimmti bítillinn.

 

 

Hvaða plata fer á á rúntinum? 

eitthvað rokkað og sultað eins og Master of Reality með Black Sabbath.

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?

Síðasta tónlist sem ég keypti var Leonard Cohen plata sem gjöf.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?

Þegar ég sleit 3 strengi í einni stroku.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?

Líklega þessa Santana plata sem ég minntist á áðan.

 

Enn í eftirpartínu?  

Í eftirpartíinu myndi ég setja á einhverja seiðandi píanótónlist með Debussy, já eða Erik Satie.

 

Hver er frægasti Facebook vinur þinn?

Ívar Björnsson er frægasti facebook vinur minn.

 

Uppáhalds borgin þín?  Reykjavík

 

 

Þið eruð að vinna að nýrri plötu, hvaða fimm orð myndu lýsa henni best?

sniðug, snúin, safarík, inlegg og epli.

 

Hvaðan kemur nafnið Nolo?

Nafnið Nolo birtist Ívari í draumi þar sem hann var á ferðalagi um Tyrkland með ferðafélaga sem var fjallageitin Nolo.

Bestu íslensku plötur ársins 2013

 

 

 

 

20) Þórir Georg – Ælulykt

 

19) Tilbury – Northern Comfort

 

18) Útidúr – Detour

 

17) Oyama – I Wanna

 

16) Ojba Rasta – Friður

15) Nolo – Human

 

14) Sigur Rós – Kveikur

 

 

13) Emiliana Torrini – Tookah

 

12)  Ólöf Arnalds – Sudden Elevation

 

11) Per: Segulsvið – Tónlist fyrir Hana

Gasvinur:

      1. gasvinurmaster

 

10) Tonmo – 1

Hinn 19 ára gamli reykvíkingur Tómas Davíð sem gengur undir listamannsnafninu Tonmo gaf  út sína fyrstu ep plötu á árinu. Platan sem nefnist 1 er 8 laga raftónlistarplata undir áhrifum hip-hop og chillwave sem rennur ljúft í gegn. Tómas samdi og tók upp plötuna þegar hann bjó í Huntington Beach í Kaliforníu fyrr á árinu.

 

 

 

 

9) Cell7 – Cellf

Tónlistarkonan Ragna Kjartansdóttir úr hinni sálugu hip-hop hljómsveit Subterranean snéri til baka á árinu með sína fyrstu sólóplötu, Cellf. Á plötunni nýtur Ragna aðstoðar þeirra Introbeats og Earmax við taktsmíðar á frábærri hip hop plötu sem inniheldur jafnt grípandi partýslagara og pólitískar bollaleggingar. Ragna hefur engu gleymt í rappinu þrátt fyrir langa pásu og flæðir eins og jökulá í leysingum.

 

 

 

 

8) Snorri Helgason – Autumn Skies

Þriðja plata Snorra Helgasonar, Autumn Skies, gefur fyrri verkum Snorra ekkert eftir og minnir á köflum talsvert á Dylan á Nashville Skyline. Kántrískotið þjóðlagapoppið umvefur mann eins mjúkt teppi og er tilvalið til að orna sér við á köldum vetrarnóttum. Án efa notalegasta plata ársins.

 

 

 

 

 

7) Jóhann Kristinsson – Headphones

Þriðja plata Jóhanns Kristinssonar, Headphones, er heilsteypt og persónulegt verk þar sem tónlistarmaðurinn sýnir mikil þroskamerki í lagasmíðum. Upptökur og hljómur eru fádæma fullorðins og þó lítið hafi farið fyrir plötunni er hún ákaflega stór í sniðum. Jóhann klífur í hæstu hæðir mikilfengleika og dramatíkur í mörgum epískum lögum og framkallar gæsahúðir á gæsahúðir ofan.

 

 

 

 

6) Mammút – Komdu til mín svarta systir

Þriðja plata Mammút var lengi í smíðum en fimm ár eru liðin frá því að sveitin sendi frá sér plötuna Karkari.  Útkoman er  þyngri hljómur og þéttari lagasmíðar án þess að tapa neinu af ungæðislegum kraftinum sem einkenndi fyrri verk sveitarinnar.

 

 

 

5) Ruxpin – This Time We Go Together

Það fer ekki mikið fyrir Ruxpin í íslenskri tónlistarsenu en hann lætur verkin tala. Platan This Time We Go Together er feikilega áferðarfalleg og hugvitssamleg raftónlistarplata, sem minnir um margt á Boards of Canada og aðgengilegri hliðar Aphex Twin og Autechre.

 

 

 

4) Just Another Snake Cult – Cupid Makes A Fool of Me

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Í haust gaf Þórir út plötuna  Cupid Makes A Fool of Me sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp að bestu gerð. Það eru fleiri hugmyndir í einu lagi á Cupid en finnast á breiðskífum flestra tónlistarmanna og mikið um vinstri beygjur og óvæntar stefnubreytingar. Það mætti segja að platan sé losaraleg í besta skilningi þess orðs, alls konar mismunandi hugmyndir sem hanga rétt svo saman, en samt á akkúrat réttan hátt. Plata sem hljómar ekki eins og neitt annað í íslenskri tónlistarsenu.

 

 

 

3) Múm –  Smilewound

Hljómsveitin múm gaf út sína sjöttu breiðskífu fyrr á þessu ári. Plötunnar sem ber nafnið Smilewound hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu en hún markaði endurkomu Gyðu Valtýsdóttur, söngkonu og sellóleikara, sem hætti í sveitinni fyrir meira en áratug síðan. Útkoman er aðgengilegasta plata hljómsveitarinnar til þessa.

 

 

 

2) Grísalappalísa – Ali

Hljómsveitin Grísalappalísa var stofnuð árið 2012 af Gunnari Ragnarssyni og Sigurði Möller Sívertsen úr hinni sálugu Jakobínurínu, Bergi Thomas Anderson úr Oyama, Alberti Finnbogasyni og Tuma Árnasyni úr The Heavy Experience ásamt Baldri Baldurssyni. Platan Ali er einn sterkasti frumburður íslenskrar rokksveitar sem litið hefur ljós í langan tíma. Á henni blandast groddaleg nýbylgja við súrkálsrokk og sækadelíu með íslenskum textum sem eiga meira skylt við framsækna ljóðlist en hefðbundna rokktexta.

 

 

 

 

1) Sin Fang – Flowers

Sindri Már Sigfússon er einn afkastamesti tónlistarmaður landsins um þessar mundir en gæðastandarinn á efninu er þó alltaf jafn hár. Hann er stöðugt að þróast sem lagasmiður og Young Boys og What’s wrong with your eyes eru með allra bestu lögum ársins. Platan er tekin upp af Alex Somers sem galdrar fram ævintýralega hljóm þar sem fyllt er upp í hverja einustu glufu með áhugaverðum hljóðum án þess þó að verða nokkurn tímann ofhlaðinn.

Laugardagskvöldið á Airwaves

Hypemaður Mykki Blanco í miklu stuði. Mynd: Óli Dóri.

Eftir þriggja daga tónleikastand er maður orðinn pínu lúinn en ég náði þó að koma mér út úr húsi til að sjá kanadíska gítarpopparann Mac DeMarco í Stúdentakjallaranum klukkan 18:30. Tónleikarnir voru hreinlega frábær skemmtun og skrifast það ekki síst á einstaka útgeislun og persónutöfra listamannsins. Tónlistin er undir talsverðum áhrifum frá svokölluðu pabbarokki úr ýmsum áttum, smá Springsteen og Fleetwood Mac, með háum og tærum gítarhljóm sem minnir talsvert á Dire Straits. Það eru samt fullt af vinstri beygjum í tónlistinni og Mac tók sig alls ekki alvarlega, tók oft örstuttar kover útgáfur af lögum eins og Cocain með Clapton og Du Hast með Rammstein. Frábær byrjun á kvöldinu.

 

Pabbarokk og Lion King

 

Ég sá Nolo í annað skiptið á hátíðinni í Listasafninu og þeir eru líklega með skemmtilegri live böndum á Íslandi í dag. Eins og ég sagði í fyrri umfjöllun þá kemur nýja tónleikauppsetningin þeirra með trommara og fleiri hljóðfærum mjög vel út og ljær eldri lögum þeirra ferskan blæ. Mér fannst Mac DeMarco svo góður í stúdentakjallaranum að ég sá hann svo aftur í Hörpunni þar sem hann fór á kostum í galsafengnum flutningi. Í síðasta laginu sem er rólega ástarballaða, þar sem viðlagið er stolið úr Lion King laginu, tók hann skyndilega óvænt tilhlaup og stökk út í salinn til að sörfa áhorfendur.

 

Kynhlutverkum rústað með rappi

 

Þvínæst var haldið yfir í Hafnarhúsið til að sjá transrappgelluna Mykki Blanco sem var pönkaðasta og skrýtnasta atriðið sem ég sá á þessari hátíð. Á undan henni kom hypemaður á sviðið sem tók hlutverk sitt mjög alvarlega. Hann rappaði yfir rokkuð bít í nokkur lög og hljóp og hoppaði villt og galið út í sal og kom öllum í mikið stuð. Síðan steig Mykki á svið og framkoman braut öll viðmið um kynhlutverk, rappmenningu og transfólk. Hún var ber að ofan í rifnum gallabuxum með skraut á geirvörtunum og hárkollu. Þá hafði hún með sér ladyboy plötusnúð í magabol sem dansaði skemmtilega. Hún er frábær rappari og lögin voru mjög fjölbreytt, allt frá hörðum töktum og macho rappi yfir í persónuleg slam ljóð án undirspils. Hún fór fram yfir tímann sinn og undir lokin var köttað á hljóðið en hún lét það ekki stoppa sig ég hélt áfram að rappa a capella og hoppaði síðan út í sal við dúndrandi lófaklappa áhorfenda. Þetta var upplifun ólík nokkru öðru á hátíðinni og flutningur á heimsmælikvarða.

 

Dúndrandi klúbbastemmning í Silfurbergi

 

Eftir transrappið var förinni heitið í Hörpu þar sem breski raftónlistarmaðurinn Jon Hopkins var að koma sér fyrir í Silfurbergi. Það var mesta klúbbastemmning hátíðarinnar og dúndrandi tekknóið hafði líkamleg áhrif á áhorfendur. Bassinn var svo djúpur að þú fannst fyrir honum innvortis og settið var fullt af útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum. Silfurberg umbreyttist í risastóran næturklúbb og þó að flutningurinn væri kannski ekki mikið fyrir augað – Hopkins var bara einn á bakvið tölvu og tæki – þá heyrðirðu að það var greinilega mannshönd sem stýrði þessu og fokkaði í hljóðunum live.

 

Töffaralegt tæknirokk

 

Næst náði ég nokkrum lögum með Hermigervli á troðpökkuðum Harlem og salurinn ætlaði að tryllast í grýluslagaranum Sísí og Yamaha Yoga. Síðasta atriði sem ég sá var svo Captain Fufanu í Þjóðleikhúskjallaranum. Síðast þegar ég sá þá voru þeir bara tveir að fikta í hljómborðum og græjum en nú hafa þeir bætt við sig trommara, Gísla Galdri sem sá um raftól, og svo spila þeir sjálfir á gítar, trompet og syngja. Þetta kom mér skemmtilega á óvart og fyrrum tekknónördarnir umbreyttust í hálfgerðar rokkstjörnur með frábærum gítarstælum og töffaralegri sviðsframkomu.

 

Laugardagskvöldið toppaði fyrri daga hátíðarinnar og að sjá Mac DeMarco, Mykki Blanco og Jon Hopkins í röð var hápunktur hátíðarinnar fyrir mig. Að vera svo á leiðinni á Kraftwerk í kvöld er bara rjómi.

Davíð Roach Gunnarsson

Fyrsta kvöldið á Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Iceland Airwaves hátíðin var sett í gær með pompi og prakt og fréttaritari straums fór á stúfana og reyndi að sjá eins marga tónleika og unnt var. Dagurinn var tekinn snemma og fyrst var haldið í fatabúðina JÖR til að sjá rafpoppsveitina Sykur off-venue. Þau komu fram í nokkurs konar órafmagnaðri útgáfu, eða öllu heldur minna rafmögnuð en þau eru venjulega, einn meðlimur spilaði á gítar, annar á hljómborð og sá þriðji á trommur. Þessi uppsetning var ákaflega skemmtileg og dró fram nýjar víddir í gömlum lögum auk þess sem tilþrifamiklir raddfimleikar söngkonunnar Agnesar nutu sín vel.

 

Þvínæst var haldið á Loft Hostel þar sem skóáhugamennirnir í Oyama voru að koma sér fyrir á sviðinu. Þeir hófu tónleikana á nýju efni sem lofar mjög góðu. Mónótónísk rödd söngkonunnar Júlíu, sem minnir mig nokkuð á söngkonu Stereolab, skar í gegnum ómstríða hávaðaveggi gítarleikaranna eins og steikarhnífur á smjörstykki.

 

Harður, hrár og pönkaður kjarni

 

Ég náði þó einungis þremur lögum því ég var búinn að lofa sjálfum mér að sjá kanadíska bandið Metz og hljóp beinustu leið niður í kjallara á 11-unni. Talsvert suð hefur verið í kringum sveitina en kjarni hennar er harður og pönkaður til hins ýtrasta. Þeir voru þrír á sviðinu í sveittum og skítugum kjallaranum en hljóðstyrkurinn var skrúfaður í botn og þyngslin talin í tonnum. Þrátt fyrir að hafa litla þekkingu á öfgarokki af þessum skóla þá var ekki hægt annað en að hrífast með óbeislaðri spilagleðinni og hráum einfaldleikanum. Fremst við sviðið myndaðist flösuþeytandi pyttur og undir lok tónleikana voru menn farnir að hlaupa upp á svið og krádsörfa villt og galið.

 

Þvínæst hélt ég á Dillon að sjá lo-fi popparana í Nolo. Síðan ég sá þá síðast hafa þeir breyst þó nokkuð, hafa bætt við sig trommara, spila á fleiri hljóðfæri en áður og notast í mörgum lögum við raddbreytandi hljóðeffekta. Það kemur alveg frábærlega út og sum af þeirra bestu lögum, eins og Fondu og Skelin Mín, sem ég hef heyrt ótalmörgum sinnum fengu nýtt líf og aukinn kraft í þessum útsetningum. Alveg stórgóðir tónleikar og fyrsti hápunktur kvöldsins.

 

Skrýtin birta og sálardjúpt tekknó

 

Á þessum tímapunkti var ég búinn að sjá fjóra tónleika en samt var opinber dagskrá hátíðarinnar sjálfrar ekki hafin. Ég hóf hana á nýbylgjusveitinni Grísalappalísu en Gunnar annar söngvari hennar var valhoppandi um allt sviðið í laginu Lóan er komin ég mætti á svæðið. Þeir léku tvö ný lög ásamt því að taka ábreiðu af Megasi, sem óneitanlega virðist mikill áhrifavaldur á sveitina. Þeir voru þrumuþéttir eins og venjulega og léku á alls oddi í lokalaginu Skrýtin Birta. Það eina sem skyggði á performansinn er að lítið af fólki var komið í risastóra rýmið í Hafnarhúsinu svona snemma og sveitin nýtur sín kannski betur í minna rými þar sem hún er í meira návígi við áhorfendur.

 

Ég hafði heyrt góða hluti um raftónlistarmanninn Tonik en honum tókst að fram úr eftirvæntingum á tónleikum sínum á Harlem. Hann kom fram með Herði úr M-Band, sem djöflaðist í tækjum og tólum ásamt því að syngja í nokkrum lögum, auk sellóleikara. Grunnurinn var tekknó, en anguvær söngur Harðar og smekklegt sellóið umbreyttu tónlistinni í einhvers konar melankólískt sálar-tekknó. Það var markviss uppbygging í tónleikunum og engar pásur á milli laga sem einungis jók á draumkennda upplifunina.

 

Hámörkuð gleði

 

Á eftir Tonik kom rafpoppsveitin Love & Fog sér fyrir á sviðinu og framreiddu grípandi rafpopp sem innihélt í það minnsta tvo upprennandi slagara. Hljóðheimurinn þeirra er smekklegur og þungur á botninum og ólíkar raddir Jóns og Axels harmóneruðu vel. Það verður gaman að fylgjast með hvað þau afreka í náinni framtíð.

 

Þegar þarna var komið við sögu voru batteríin nánast ofhlaðin af mikilli tónlistarinntöku og farið að kenna á bakeymslum eftir standslaust tónleikastand frá því fimm um daginn en ég ákvað að enda þetta í Hörpu. Þar sá ég fyrst Retro Stefson í Norðurljósasalnum og það var greinilega engin þreyta í áhorfendunum sem hreinlega átu stemmninguna úr lófa sveitarinnar. Þau tóku nýtt lag sem hljómaði mjög vel og skreyttu önnur lög með alls konar útúrdúrum og bútum úr öðrum lögum til að hámarka gleðina.

 

Emiliana á heimavelli

 

Að lokum fór ég á Emiliönu Torrini en tækifæri til að sjá hana á tónleikum gefst ekki á hverjum degi. Hún tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu sem ég hef því miður kynnt mér lítið, en það kom ekki að sök því flutningurinn og lögin voru framúrskarandi. Það er smátt svæði á milli þess að vera óþolandi væminn og einlægt krúttlegur, en Emiliana dansaði alltaf réttu megin línunnar og hún virtist ánægð með að halda tónleika á heimavelli og talaði við salinn á íslensku. Eftir uppklapp tók hún síðan Sunny Road af plötunni Fisherman’s Woman og endaði svo á útjaskaða slagaranum Jungle Drum, sem ég held þó að flestir nema mest harðbrjósta hipsterar fíli smávægis undir niðri.

Allt í allt var fyrsta kvöldið vel heppnað og ég náði að sjá rjómann af íslensku böndunum sem komu fram, þó maður missi alltaf af einhverju. Hápunktarnir í þetta skipti voru Nolo, Tonik og Emiliana Torrini. Í kvöld er það svo Yo La Tenga og heill hellingur af öðru, en fylgist vel með á straum.is því við höldum áfram með daglega umfjöllun um hátíðina næstu daga.

Davíð Roach Gunnarsson

Airwaves yfirheyrslan – Ívar Nolo

Hljómsveitin Nolo spilaði fyrst á Iceland Airwaves árið 2009 þá sem tvíeyki. Nú hafa þeir félagar bætt við sig þriðja meðlimnum sem spilar á trommur. Við kölluðum Ívar Björnsson hljómborðsleikara hljómsveitarinnar til yfirheyrslu og spurðum hann út í reynslu hans af Iceland Airwaves.

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?


Fyrsta Airwaves hátíðin sem ég fór á var einmitt árið 2009 þegar Nolo var rétt að byrja. Við höfðum aldrei farið áður á hátíðina sem gestir og það eftirminnilegasta var sennilega að spila fyrir fullu húsi í brjálaðri stemningu, sem ný hljómsveit vorum við ekki vanir því.
Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Ég hef aðeins spilað á Airwaves með Nolo. Fyrsta Upplifunin var frábær og aðrar hljómsveitir eins og Sudden Weather Change hjálpuðu okkur að aðlagast nýjum aðstæðum. Það var gaman að kynnast svona mörgum hljómsveitum á stuttum tíma og maður lærði heilmikið eins og t.d. að hlaupa á milli tónleika og vera á 100% tempói yfir daginn að róta. Nolo hefur spilað frá því árið 2009 og er þetta fimmta hátíðin í röð sem við spilum á árið 2013.

 

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Ég myndi segja fyrstu tónleikarnir okkar Nolo á Airwaves. Að spila fyrir fullu húsi (þá Grand Rokk) var bara sturlun og að heyra fólk syngja með lögunum okkar var eitthvað sem við vorum ekki vanir. Annars er líka gaman að segja frá því þegar við spiluðum í Listasafninu í fyrra en þá var einmitt hápunktur stormsins mikla í gangi. Þakið ætlaði að rifna af húsinu bókstaflega. Vindurinn var gríðarlegur og ekki mátti miklu muna að þakið myndi fjúka í sjóinn (sem hafði gerst víst áður…)

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Þeir eru nokkrir, Dirty Projectors í fyrra voru frábær og magnað að sjá hversu góð þau eru live. Neon Indian voru einnig mjög flottir ásamt Beach House sem maður heillast mikið af.

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Það eru fleiri erlendar sveitir og ferðamenn að bætast inn á hátíðina ár eftir ár sem er bara gott. En Airwaves reynir alltaf að fá til sín efnilegar hljómsveitir sem eru við það að „meika það“ og það held ég að hafi ekkert breyst í gegnum síðustu ár. Ég myndi segja að þróunin hafi verið góð þessi 5 ár sem ég hef tekið þátt í.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Það var mjög gaman að spila í salnum Kaldalón í Hörpunni árið 2011. Svo er Listasafnið einnig frábær staður til þess að spila á en við vorum einmitt þar í fyrra og endurtökum leikinn nú í ár.


Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Engum, nema það þegar The Rapture komu hingað og spiluðu á Airwaves (2002) en maður var þá alltof ungur.
Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Að hafa gaman, ekki stressa sig of mikið, spila hæfilega oft (þá með Off Venue) og kynnast hljómsveitum því maður lærir alltaf eitthvað á því.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Við höfum alltaf verið að taka svona 3-4 gigg í gegnum árin en núna gæti metið verið slegið þar sem með öllu töldu þá gætu tónleikar okkar verið um 5-6 talsins.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Erlent er það Omar Souleyman og Kraftwerk en innlent er það sennilega FM Belfast, Loji, M-Band, Grísalappalísa, Oyama og Prins Póló.

 


Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Þessi hátíð er gríðarlega mikilvæg fyrir íslensku tónlistarsenuna. Hún gefur nýjum hljómsveitum og tónlistarmönnum tækifæri til þess að sanna sig og fá athygli erlendis. Þetta er algjör stökkpallur fyrir hljómsveitir hér á landi, maður veit aldrei hver er að horfa á tónleikana.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit?

 Nolo hefur fengið einhverja erlenda umfjöllun og fyrirspurnir en engin stórtíðindi.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

Ég get eiginlega ekki gert upp á milli hátíða. Kannski að hátíðin í ár verði sú uppáhalds?

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er að spila með Nolo og við komum fram á Harlem kl 23:20 á miðvikudeginum og svo í Listasafninu kl 20:00 á laugardeginum. En Off Venue erum við staðfestir á Dillon, Bar 11, Reykjavík Backpackers og Kex Hostel.

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Ást og frið

 

 

Tónleikar vikunnar

Þriðjudagur 16. júlí

R&B stórstjarnan Frank Ocean heldur tónleika í  Laugardalshöll. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það kostar 8.900 kr í stæði og 13900 í stúku, enn er hægt að kaupa miða á midi.is

Stroff, Skelkur í bringu og Sindri Eldon spila á neðri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Á jazzkvöldi KEX kemur fram kvartett kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Samuel J. Samúelsson á básúnu og slagverk og Sigtryggur Baldursson á conga trommur. Tónlistin hefst kl. 20:30 og stendur í u.þ.b. 2 klst., með hléi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis

 

Miðvikudagur 17. júlí

Hjómsveitin Chic undir styrkri handleiðslu stofnandans Nile Rodgers mun koma fram á tónleikum í Silfurbergi Hörpu. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sisi Ey munu opna kvöldið sem hefst klukkan 21:00. Enn er hægt að kaupa miða á midi.is og kostar 8.500 kr inn.

Raftónlistarpartý á Harlem -Tvíeykið MRC Riddims frá New York [nánar tiltekið Harlem] leikur á tónleikum á nýopnuðum innri sal Harlem (áður Volta). Ghostigital, AMFJ og Lord Pusswhip spila einnig í partíinu og Berglind Ágústsdóttir kemur sérstaklega fram með sín eigin lög í miðju setti MRC Riddims. Partýið stendur frá 22:00 – 01:00 og kostar 1000 kr. inn.

Ylja, Hymnalaya og Stormur halda tónleika á efri hæð Faktorý sem hefjast klukkan 22:00. Það kostar 1500 kr inn.

 

 

Fimmtudagur 18. júlí

Hljómsveitin Boogie Trouble spilar ljóðrænan diskó í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum kl 17:00.

NÆNTÍS VEIZLA í boði Sindra Eldon á Harlem Bar: TREISÍ, JÓN ÞÓR og SINDRI ELDON & THE WAYS koma fram auk þess sem Sindri mun Dj-a til lokunnar.

Gítarveisla í Bíó Paradís en þar stíga á stokk hljómsveitirnar Stroff, Skelkur í Bringu, Bárujárn og Dreprún. Tónleikarnir hefjast 22:00 og er frítt inn.

Sign og We Made God spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 2000 kr inn.

 

 

Föstudagur 19. júlí

Hljómsveitin Hymnalaya hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, „Hymns“. Sveitin ætlar að fagna því með léttum ókeypis tónleikum í 12 Tónum á Skólavörðustíg sem hefjast klukkan 17:30.

Moses Higtower og 1860 spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það kostar 1500 kr inn.

 

 

Laugardagur 20. júlí

KEX Hostel, KEXLand og bandaríska útvarpsstöðin KEXP ætla að bjóða öllum á útitónleikana KEXPORT við Kex Hostel laugardaginn 20. júlí næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í portinu við Kex Hostel og hefjast kl. 12 á hádegi og lýkur um miðnætti. Alls munu 12 hljómsveitir koma fram á klukkutímafresti á þessum maraþon tónleikum. Fram koma: BABIES // BOOGIE TROUBLE // HJALTALÍN // KIPPI KANINUS // LOJI // MOSES HIGHTOWER // MUCK // NOLO // SAMÚEL J SAMÚELSSON BIG BAND // SÍSÍ EY // SYKUR //

 

Hjaltalín heldur tónleika á Faktorý, laugardagskvöldið 20. júlí. Um upphitun sér hljómsveitin Japam. Húsið opnar klukkan 22 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22:45. Miðasala fer eingöngu fram við hurð og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

 

 

 

 

 

Tónleikar helgarinnar

Föstudagur 7. júní 

 

Á Kaffistofunni á Hverfisgötu munu ólíkir tónlistarmenn úr jaðri íslensks tónlistarlífs, ásamt vídjólistamönnum, framkalla einstakan bræðing bjagaðra tóna og sjónræns áreitis með það að markmiði að skapa upplifun ólíka þeirri sem íslenskir tónleikagestir eiga að venjast. Fram koma Pink Street Boys, Knife Fights, Lord Pusswhip (feat. $ardu aka Svarti Laxness & DJ vRONG), $H∆MAN $H∆WARMA og Gervisykur.

 

Sykur spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti. 

 

Laugardagur 8. júní

 

Noise spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti.

 

Ungir umhverfissinnar standa fyrir tónleikum á Loft Hostel með hljómsveitunum Axel Flóvent, Hljómsveitt, Macaya og Nolo. Það kostar ekkert inn, en tekið verður á móti frjálsum framlögum á staðnum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30.

 

Yo La Tengo á Iceland Airwaves

Tilkynnt var um 25 nýja listamenn sem munu koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni í dag og þar ber hæst hina mikilsvirtu  bandarísku indísveit Yo La Tengo. Aðrir í erlendu deildinni eru Tape og El Rojo frá Svíþjóð, Carmen Villain frá Noregi, Moon King frá Kanada og Jakob Juhkam frá Eistlandi. Af íslenskum listamönnum sem bætt hefur verið við má nefna Ólaf Arnalds, Sólstafi, Prins Póló, Samaris, Low Roar, Nolo, UMTBS og Lord Pusswhip. Hægt er að skoða öll böndin sem bættust við á heimasíðu airwaves.