Laugardagskvöldið á Airwaves

Hypemaður Mykki Blanco í miklu stuði. Mynd: Óli Dóri.

Eftir þriggja daga tónleikastand er maður orðinn pínu lúinn en ég náði þó að koma mér út úr húsi til að sjá kanadíska gítarpopparann Mac DeMarco í Stúdentakjallaranum klukkan 18:30. Tónleikarnir voru hreinlega frábær skemmtun og skrifast það ekki síst á einstaka útgeislun og persónutöfra listamannsins. Tónlistin er undir talsverðum áhrifum frá svokölluðu pabbarokki úr ýmsum áttum, smá Springsteen og Fleetwood Mac, með háum og tærum gítarhljóm sem minnir talsvert á Dire Straits. Það eru samt fullt af vinstri beygjum í tónlistinni og Mac tók sig alls ekki alvarlega, tók oft örstuttar kover útgáfur af lögum eins og Cocain með Clapton og Du Hast með Rammstein. Frábær byrjun á kvöldinu.

 

Pabbarokk og Lion King

 

Ég sá Nolo í annað skiptið á hátíðinni í Listasafninu og þeir eru líklega með skemmtilegri live böndum á Íslandi í dag. Eins og ég sagði í fyrri umfjöllun þá kemur nýja tónleikauppsetningin þeirra með trommara og fleiri hljóðfærum mjög vel út og ljær eldri lögum þeirra ferskan blæ. Mér fannst Mac DeMarco svo góður í stúdentakjallaranum að ég sá hann svo aftur í Hörpunni þar sem hann fór á kostum í galsafengnum flutningi. Í síðasta laginu sem er rólega ástarballaða, þar sem viðlagið er stolið úr Lion King laginu, tók hann skyndilega óvænt tilhlaup og stökk út í salinn til að sörfa áhorfendur.

 

Kynhlutverkum rústað með rappi

 

Þvínæst var haldið yfir í Hafnarhúsið til að sjá transrappgelluna Mykki Blanco sem var pönkaðasta og skrýtnasta atriðið sem ég sá á þessari hátíð. Á undan henni kom hypemaður á sviðið sem tók hlutverk sitt mjög alvarlega. Hann rappaði yfir rokkuð bít í nokkur lög og hljóp og hoppaði villt og galið út í sal og kom öllum í mikið stuð. Síðan steig Mykki á svið og framkoman braut öll viðmið um kynhlutverk, rappmenningu og transfólk. Hún var ber að ofan í rifnum gallabuxum með skraut á geirvörtunum og hárkollu. Þá hafði hún með sér ladyboy plötusnúð í magabol sem dansaði skemmtilega. Hún er frábær rappari og lögin voru mjög fjölbreytt, allt frá hörðum töktum og macho rappi yfir í persónuleg slam ljóð án undirspils. Hún fór fram yfir tímann sinn og undir lokin var köttað á hljóðið en hún lét það ekki stoppa sig ég hélt áfram að rappa a capella og hoppaði síðan út í sal við dúndrandi lófaklappa áhorfenda. Þetta var upplifun ólík nokkru öðru á hátíðinni og flutningur á heimsmælikvarða.

 

Dúndrandi klúbbastemmning í Silfurbergi

 

Eftir transrappið var förinni heitið í Hörpu þar sem breski raftónlistarmaðurinn Jon Hopkins var að koma sér fyrir í Silfurbergi. Það var mesta klúbbastemmning hátíðarinnar og dúndrandi tekknóið hafði líkamleg áhrif á áhorfendur. Bassinn var svo djúpur að þú fannst fyrir honum innvortis og settið var fullt af útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum. Silfurberg umbreyttist í risastóran næturklúbb og þó að flutningurinn væri kannski ekki mikið fyrir augað – Hopkins var bara einn á bakvið tölvu og tæki – þá heyrðirðu að það var greinilega mannshönd sem stýrði þessu og fokkaði í hljóðunum live.

 

Töffaralegt tæknirokk

 

Næst náði ég nokkrum lögum með Hermigervli á troðpökkuðum Harlem og salurinn ætlaði að tryllast í grýluslagaranum Sísí og Yamaha Yoga. Síðasta atriði sem ég sá var svo Captain Fufanu í Þjóðleikhúskjallaranum. Síðast þegar ég sá þá voru þeir bara tveir að fikta í hljómborðum og græjum en nú hafa þeir bætt við sig trommara, Gísla Galdri sem sá um raftól, og svo spila þeir sjálfir á gítar, trompet og syngja. Þetta kom mér skemmtilega á óvart og fyrrum tekknónördarnir umbreyttust í hálfgerðar rokkstjörnur með frábærum gítarstælum og töffaralegri sviðsframkomu.

 

Laugardagskvöldið toppaði fyrri daga hátíðarinnar og að sjá Mac DeMarco, Mykki Blanco og Jon Hopkins í röð var hápunktur hátíðarinnar fyrir mig. Að vera svo á leiðinni á Kraftwerk í kvöld er bara rjómi.

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *