Tólf góð atriði á Sónar

Sónar hátíðin hefst í Hörpu í dag og Straumur mun að sjálfsögðu verða á svæðinu næstu daga með daglegar fréttir af hátíðinni. Til þess að hita upp höfum við tekið saman lista yfir 12 atriði á hátíðinni sem við mælum sérstaklega með. Listinn er þó alls ekki tæmandi þar sem yfir 60 atriði eru á hátíðinni og mjög mikið af rjóma þannig að erfitt var að velja. En hér er listinn og gleðilegan Sónar!

Todd Terje

 

Terje-inn hefur verið í uppáhaldi hjá ritstjórn Straums um alllangt skeið, en hann átti eina allra bestu breiðskífu síðasta árs, It’s Album Time, sem var hans fyrsta plata í fullri lengd. Hann er jafnfær á ítalódiskó og evrópskt spæjarafönk og algjör meistari í hljóðgervlum.

 

SBTRKT

 

Breski pródúsantinn SBTRKT hefur getið sér geisigott orð fyrir dubstep-skotið rafpopp af bestu sort. Smellurinn Wildfire sem söngkonan Yukumi Nagato syngur tröllreið dansgólfum beggja vegna Atlantshafsins árið 2011.

 

Randomer

 

Bretinn Randomer sækir jöfnum höndum í tekknó-arfleið Detroit og Berlínar í dökkum og dúndrandi hljóðheimi sínum.

 

Tonik Ensemble

 

Raftónlistarmaðurinn Anton Kaldal sem leiðir Tonik Ensemble er einn allra fremsti pródúsant þjóðarinnar og í Tonik Ensemble fær hann til liðs við sig selló- og saxafónleikara ásamt söngvaranum Herði Má úr M-Band. Útkoman er tregafullt sálartekknó sem hittir beint í mark og miðar bæðið á mjaðmir og hjarta. Hans fyrsta breiðskífa, Snapshots, kom út í vikunni og er feikilega sterkur frumburður.

 

Jamie xx

 

Forsprakki mínímalísku indípoppsveitarinnar xx er með allra heitustu plötusnúðum Bretlands um þessar mundir.

 

Yung Lean

 

Þessi knái sænski rappari er einungis 19 ára gamall og textarnir hans eru uppfullir af tilvísunum í samtímapoppmenningu minecraft kynslóðarinnar.

 

Paul Kalkbrenner

 

Þýski tekknójálkurinn Paul Kalkbrenner átti að koma á síðustu Sónar hátíð en neyddist til að afboða koma sína vegna augnsýkingar. Það eru því margir sem bíða komu hans með mikilli eftirvæntingu í ár.

 

Kindness

 

Kindness er listamannsnafn hins breska Adam Bainbridge sem er þekktur fyrir að blanda saman poppi, sálartónlist, R&B og diskói í ómóstæðilegan bræðing.

 

M-Band

 

Hörður Már Bjarnason framleiðir vandaða dansmúsík undir áhrifum frá tónlistarmönnum eins og Jon Hopkins, Gus Gus og Caribou. Hann átti að mati Straums bestu íslensku plötu síðasta árs, Haust, og eitt af bestu lögunum líka, Never Ending Never.

 

Nina Kraviz

 

Hin rússneska plötusnælda Kraviz hefur á skömmum tíma skotist upp á stjörnuhiminn alþjóðlegu plötusnúðasenunnar. Frumleg blanda af tekknói og acid house hefur fleytt henni í helstu dansklúbba veraldar.

 

Ametsub

 

Japanskur tónlistarmaður sem skapar undurfalleg hljóðræn landslög úr ambíent og umhverfishljóðum.

 

Páll Ívan frá Eiðum

 

Tónskáldið, myndlistarmaðurinn, forritunarneminn og djókarinn Páll Ívan frá Eiðum var einn óvæntasti nýliðinn í raftónlistinni á árinu. Með laginu Expanding og glæsilegu myndbandi stimplaði hann sig rækilega inn, meðan lög eins og Lommi farðu heim og Atvinnuleysi fyrir alla eru þrusugóð þó þau séu gerð með glott á brá.

 

Dagskráin á Sónar Reykjavík klár

Dagskráin fyrir tónlistarhátíðina Sónar Reykjavík er nú tilbúin. Hægt er að skoða hana í heild sinni hér. Alls munu 64 atriði vera á dagskrá á hátíðinni sem fram fer 12. – 14. febrúar í Hörpu. Meðal þeirra eru: Skrillex, Paul Kalkbrenner, SBTRKT, Jamie xx, Todd Terje, TV On the Radio, Kindness, Nina Kraviz, Jimmy Edgar, Elliphant, Ryan Hemsworth, Sophie, Samaris, Mugison, Prins Póló og Sin Fang.

Meðal þeirra sem bætt var við dagskrána í dag eru: Tonik Ensemble, M-Band, Thor, Valgeir Sigurðsson, DJ Flugvél og Geimskip, Lily the Kid, Lord Pusswhip og Hekla Magnúsdóttir.

Hægt er að kaupa miða á hátíðina http://sonarreykjavik.com/en/pg/tickets.

Sónar hefst í dag – 10 spennandi listamenn

Tónlistarhátíðin Sónar hefst í dag og við hvetjum alla tónlistaráhugamenn sem vettlingi geta valdið til að mæta á þá þriggja daga veislu sem fram undan er. Hátíðin sem hefur verið haldin árlega í Barcelona síðan 1994 fór fram í fyrsta skipti hér á landi í Hörpu á síðasta ári og var feikilega vel heppnuð eins og lesa má um hér. Það eru meira en 60 tónlistarmenn og plötusnúðar sem spila á hátíðinni en hér verða kynntir 10 sem við mælum sérstaklega með. Fylgist vel með á straum.is næstu daga því við verðum með daglega tónleikarýni af hátíðinni.

Major Lazer

Major Lazer er tónlistarhópur sem er leiddur af ofurpródúsernum Diplo sem hefur undir því nafni framleitt tvær plötur þar sem Dancehall, dubstep, reggí og gamaldags dub er málað með breiðum penslum og skærum litum á striga nútímalegrar danstónlistar.

 

Trentemoller

Danski tekknóboltinn Trentemoller hefur þeytt skífum á Íslandi oftar en hönd á festir og er með þeim bestu í því stuðfagi. Eftir hann liggja margar meistaralegar endurhljóðblandanir og þrjár sólóskífur en sú síðasta, Lost, var með betri raftónlistarplötum síðasta árs og nokkuð poppaðari en fyrri verk hans þar sem margir gestasöngvarar komu við sögu. Hann mun koma fram með live hljómsveit á Sónar.

 

Gus Gus

Gus Gus eru aðals- og kóngafólk íslensku danstónlistarsenunnar og þurfa engrar frekari kynningar við. Fyrir utan það að sveitin er tilbúin með nýja plötu og ekki er ólíklegt að eitthvað af henni heyrist á tónleikunum.

 

Jon Hopkins

Hopkins er rúmlega þrítugur Breti sem hefur undanfarið starfað með Brian Eno auk þess að gefa út eigið efni. Með sinni þriðju breiðskífu, Immunity, sem kom út á síðasta ári skaust hann hins vegar upp á stjörnuhimininn en hún lenti ofarlega á árslistum margra tímarita og spekúlanta. Tónlistin þræðir einstigið milli sveimtónlistar og tekknós af miklu listfengi en hann sótti Ísland heim á síðustu Airwaves hátíð en þeir tónleikar voru einn af hápunktum hátíðarinnar.

 

Bonobo

Bonobo er einyrki en í tónlist sinni vefur hann persneskt teppi úr þráðum ólíkra hljóðbúta úr öllum áttum og heimsálfum. Hann er á mála hjá hinni virtu Warp útgáfu, sem m.a. gefur út Aphex Twin og Boards of Canada, en platan hans Dial M for Monkey er algjört meistarastykki og ævintýri fyrir eyrun.

 

James Holden

James Holden er breskur plötusnúður og tónlistarmaður sem lét fyrst að sér kveða með kosmískri endurhljóðblöndun á lagi Nathan Fake, The Sky Is Pink. Hans nýjasta skífa, The Inheritors, sem kom út á síðasta ári er tilraunakennd diskósúpa undir sterkum áhrifum frá súrkáls- og síðrokki.

 

Sykur

Ein af hressari elektrósveitum landsins skartar grípandi lagasmíðum og groddalegum synþahljóm, en þau er vön því að tjalda öllu til á tónleikum.

 

Paul Kalkbrenner
Kalkbrenner er þýsk tekknógoðsögn sem varð gerð ódauðleg í myndinni Berlin Calling sem kortlagði hina víðfrægu berlínsku klúbbasenu.

 

Hermigervill

Sveinbjörn Thoroddsen, betur þekktur sem Hermigervill, hefur um árabil verið í fremstu víglínu íslenskrar raftónlistar. Í byrjun ferilsins með hugmyndaríkum Trip Hop plötum en í seinni tíð með hljóðgervladrifnum útgáfum af íslenskum dægurlögum og samstarfi við Retro Stefson. Hann er nú að vinna að sinni næstu breiðskífu og mun flytja nýtt efni á tónleikum sínum á Sónar.

 

Tonik

Einn af innlendu hápunktum síðustu Airwaves hátíðar var raftónlistarmaðurinn Tonik en melankólískt og sálarþrungið tekknóið bræddi bæði hjörtu og fætur í salnum. Hann kemur iðulega fram með selló- og/eða saxafónleikara sem gaman er að fylgjast með á sviði.

James Holden og Bonobo á Sónar

Mynd: Squarepusher á síðustu Sónar hátíð.

Í morgun var tilkynnt um fleiri listamenn sem hefur verið bætt við dagskrá Sónar hátíðarinnar í Reykjavík. Þar ber þar hæst breska pródúsantinn og plötusnúðinn James Holden, raftónlistarmanninn Bonobo frá sama landi, þýska plötusnúðinn Paul Kalkbrenner og Starwalker, samstarfsverkefni Barða Jóhannssonar og J.B. Duncel úr Air. James Holden hefur vakið mikla athygli bæði fyrir eigin tónlist og einstakar endurhljóðblandanir og varð geimdiskó endurgerð hans af The Sky is Pink að miklum danssmelli, hér heima og erlendis, fyrir um 10 árum. Þá hefur hans nýjasta plata, The Inheritors, hlotið frábærar viðtökur þar sem hann blandar súrkálsrokki, sveimhljóðum og kosmískum áhrifum saman í dáleiðandi tekknósúpu.

Bonobo hefur í yfir áratug verið á mála hjá hinni virtu Ninja Tune útgáfu og gefið út frábærar plötur af flóknu og útpældu trip hoppi og ber af óragrúa tónlistarmanna í sama geira. Paul Kalkbrenner er goðsögn í þýskri klúbbamenningu og lag hans Sky and Sand úr kvikmyndinni Berlin Calling varð stórsmellur á öllum helstu klúbbum Evrópu. Starwalker er nýstofnuð hljómsveit Barða Jóhannssonar úr Bang Gang og J.B. Duncel úr hinni frönsku Air en þeir gáfu út sitt fyrsta lag og myndband fyrir skemmstu og er stuttskífa á leiðinni. Sónar-hátíðin fer fram í Hörpu 13.-15. febrúar næstkomandi en fyrir skemstu var tilkynnt að Major Lazer yrðir aðalnúmerið á hátíðinni en lista yfir staðfesta listamenn má finna hér. Fyrsta Sónar hátíðin í Reykjavík var haldin í febrúar á þessu ári og umfjöllun straum.is um hana má lesa hér. Hlustið á fleiri tóndæmi hér fyrir neðan.