!!! (CHK CHK CHK) og Annie Mac á Sónar Reykjavík

Tíu hljómsveitir og listamenn hafa nú bæst við dagskrá tónlistarhátíðarinnar Sónar Reykjavík – sem fram fer á fimm sviðum í Hörpu dagana 18.-20. febrúar á næst ári. Meðal þeirra er bandaríska dans-rokksveitin !!! (CHK CHK CHK), einn virtasti plötusnúður heims Annie Mac og hin rísandi stjarna Hildur sem spila mun á sérstöku Red Bull Music Academy sviði.

Alls hafa rúmlega 60 hljómsveitir, listamenn og plötusnúðar verið staðfestir fyrir dagskrá Sónar Reykjavík 2016. Hátíðin fer fram á fimm sviðum í Hörpu, m.a. í bílakjallara tónlistarhússins sem breytt verður í næturklúbb.

Mikill áhugi er á hátíðinni erlendis, enda vel verið látið af viðburðinum og sérkennum hans í erlendum fjölmiðlum frá því hún var fyrst haldin árið 2013. Aldrei fyrr hafa jafn margir miðar selst á hátíðina í Bretlandi, Þýskalandi og Kanada. Uppselt hefur verið á Sónar Reykjavík síðustu tvö ár.

Meðal þeirra listamanna og hljómsveita sem þegar hefur verið staðfest að komi fram á Sónar Reykjavík 2016 eru; Boys Noise (DE), Hudson Mohawke (UK), Angel Haze (US), Squarepusher (UK), Holly Herndon (US), Ellen Allien (DE), Floating Points (UK), Oneothrix Point Never (US), Ben UFO (UK), Lone (UK), Black Madonna (US), Rødhåd (DE), Recondite (DE), AV AV AV (DK), Eloq (DK), Páll Óskar, Kiasmos, Úlfur Úlfur, Apparat Organ Quartet, Bjarki, President Bongo & Emotional Carpenters, Intr0beatz, Sturla Atlas og Vaginaboys.

Lokadagskrá hátíðarinnar verður kynnt í byrjun janúar.

Miðasala:
Miðasala á Sónar Reykjavík hérlendis fer fram í Hörpu og á Tix.is
https://www.tix.is/is/event/1281/sonar/

Sónarskoðun #3: Hvítt fönk, dubstep og djöfulgangur

 

Myndir: Aron Guðmundsson

 

Ég mætti rúmlega 9 í Silfurberg til að sjá sænsku táningarappsveitinn Young Lean and the Sad Boys. Þeir spiluðu nokkurs konar átótjúnað emo-rapp, og ég meina það ekki á neikvæðan hátt. Þvínæst sá ég japanska stelpnatríóið Nisennenmondai. Þær spiluðu á bassa, trommur og gítar og framkölluðu dáleiðandi mínímalíska tekknótónlist þar sem taktföst endurtekningin hamraði sér leið inn í undirmeðvitundina.

Nisennenmondai

Þær virtust algjörlega í leiðslu og stemmningin var eins og týndi hlekkurinn milli frumstæðra ættbálkaathafna og nútíma tekknóklúbba. Stelpan á trommunum hélt úti mekanískri keyrslu allan tímann og missti ekki úr slag, og úr gítarnum komu hljóð sem minntu sitt á hvað á bílvél eða draugagang. Eftir svona hálftíma var ég samt farinn að þrá smávægilega tilbreytingu, það sem gerði þetta kúl var naumhyggjan og endurtekningin en það vantaði bara eitthvað pínu ponsu meira; þetta var einum of einsleitt en næstum því frábært.

reyan_hems2

Plötusnúðurinn Ryan Hemsworth spilaði léttari tónlist en margir aðrir plötusnúðar á hátíðinni en hann bauð upp á fjölbreytta blöndu af Hip Hop, R’n’B og poppuðu Dub Step og jók tempóið eftir því sem leið á settið. Næst á dagskrá var hinn breski sláni Adam Bainbridge sem gengur undir vinalega listamannsnafninu Kindness. Hann kom fram með heljarinnar hljómsveit og blökkum bakraddasöngkonum og lék fágað fönk og grúví diskó af fádæma öryggi næstu þrjú kortérin eða svo.

kindness

Ég hafði ekki heyrt neitt af tónlist hans áður en smitaðist af ryþmanum frá fyrsta lagi. Af og til var splæst bútum úr lögum eftir listamenn eins og Prince, Bobbie Womack og Art of Noise inn í settið og á einum tímapunktu brast á með Conga-röð hljómsveitarmeðlima um allt sviðið þar sem allir höfðu kúabjöllu, hristu eða annað ásláttarhljóðfæri í hönd. Þetta var algjört funkathon og skemmtilegustu tónleikar hátíðarinnar fyrir mig persónulega.

 

Þá var bara stærsta nafn hátíðarinnar eftir, ameríski dubstep æringinn Skrillex, sem er dáður eins og guð af glataðri æsku, en litinn hornauga af gömlum, bitrum og sjálfskipuðum spekingum eins og mér. Ég gat samt ekki sleppt því tækifæri að fylgjast með tónleikunum og sé alls ekki eftir því. Ég myndi ekki nenna að hlusta á þessa tónlist heima hjá mér, en þetta var allsherjar loftárás á skilningarvitin af nördalegum unglingi með allt of dýrar græjur. Og ég meina það á góðan hátt. Svona tiltölulega. Þarna var dropp-um, grafík, lazer-um og reyk bombað í fésið á þér á hverju sekúndubroti þannig ekki gafst tækifæri til að hugsa eða greina eina einustu einingu, því þá var nýtt áreiti komið á sjóndeildarhringinn. Hann henti svo Björk, Stars Wars laginu og íslenska fánanum inn í settið meðan hann klifraði, hoppaði og bara almennt djöflaðist í og ofan á tækjaborðinu sínu.

skrillex4

Eftir þessa æskudýrkun og fjallstind sem Skrillex var fór ég alla leið niður í bílakjallaran til að sjá einn langlífasta og farsælasta plötusnúð landsins, DJ Margeir. Hann spilar tónlist sem er einhvern veginn viðeigandi hvar sem er fyrir hvern sem er, harðan kjarna með mjúkri áferð. Þar dönsuðu gestir með öllum frumum líkama sinna og reyndu hvað þeir gátu að halda lífsmarki í Sónarnum þegar endirinn var yfirvofandi.

margeir

En allt spennandi endar og Sónar hátíðin er engin undantekning þar á. Hún var samt frábærlega heppnuð og minningarnar lifa, allavega þangað til við fáum öll alzheimer eða drepumst. Ég er strax farinn að hlakka til næstu hátíðar en þangað til getið þið lesið umfjallanir Straums um fimmtudagskvöldið, föstudagskvöldið eða fyrri hátíðir.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Annar í Sónar: Súrefni, Helíum og Mugi-tekknó

Myndir: Aron Guðmundsson

 

Fyrsta atriði á dagskránni á föstudagskvöldinu var japanski tónlistarmaðurinn Ametsub á SonarPub sviðinu. Hann spilaði undurfallegt ambíent með sterku bíti, tónlistin var undir áhrifum frá Boards of Canada og Four Tet, og minnti líka stundum á ameríska ambíentsnillinginn Tycho. Því næst sá ég Fufanu rokka þakið af Silfurbergi með drungalegu kuldarokki. Þeir eru orðnir dáldið eins og yngri útgáfa af Singapore Sling með dassi af raftónlistar og Madchester áhrifum.

 

Ég náði nokkrum lögum með Mugison sem komu svo sannarlega á óvart því að hann kom fram einn og flutti raftónlist! Ég hef ekki séð hann svona góðan í mörg ár og hef í raun verið að bíða eftir því að hann snúi aftur í raftónlistina sem hann hóf feril sinn með. Hann var á bak við græjusamstæðu sem minnti á könguló og fór á kostum í synþum, hamagangi og söng.

surefni

Gömlu kempurnar í Súrefni hristu síðan aldeilis upp í Norðurljósasalnum með frábæru sjói og sækadelik myndskreytingum. Eina minning mín um þetta band er smellurinn Disco sem var algjört Daft Punk ripoff, en samt gott Daft Punk ripoff. Þetta voru hins vegar öflugir tónleikar og þeir voru fjórir á sviðinu og spiluðu á hljómborð, bassa, trommur, gítar og tölvur og þetta var ansi rokkað á köflum.

SOPHIE

Ég kíkti aðeins við á plötusnúðinn Sophie en settið hennar var fullt af skrýtnu rafpoppi með helling af helíum-röddum, stefna sem hefur verið kölluð PC-Music. Þá var röðin komin að Prins Póló sem er einn allra skemmtilegasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir. Í einu laga sinna sem hann flutti á tónleikunum spyr hann hvort það sé hægt að hamstra sjarma, og ég held að Prinsinn sjálfur sé lifandi sönnun þess að það sé mögulegt.

 

Í lok kvöldsins langaði mig að sjá SBTRKT og Paul Kalkbrenner og leysti það einfaldlega með því að flakka á milli Norðurljósa og Silfurbergs. SBTRKT kom fram með afríska grímu og dubstep-skotin popptónlistin kom dansgólfinu svo sannarlega á hreyfingu. Það var harðari brún í tekknó-inu hjá Kalkbrenner þar sem ég dansaði mig í algleymi inn í nóttina við dúndrandi taktinn.

paulkalk3

Föstudagskvöldið var prýðisgóð skemmtun og í kvöld eru svo listamenn eins og Skrillex, Jamie xx og Randomer að spila. Við munum að sjálfsögðu skrásetja það á morgun en hér má lesa umfjöllun Straums um fimmtudagskvöldið.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónarskoðun #1: Galsafullt geimdiskó og analog M-Band

Myndir: Aron Guðmundsson

Þriðja Sónarhátíðin í Reykjavík hófst með pompi og prakt í Hörpu í gær og fréttaritari Straums mætti galvaskur til að skrásetja stemmninguna. Ég rétt svo náði síðustu tónum Una Stefson þar sem hann söng af mikilli innlifun við tilkomumikla grafík sem varpað var á vegginn.

Unistefson

Þvínæst sá ég hús-tvíeykið Balsamic Boys á SonarPub sviðinu sem er staðsett á ganginum á efri hæð Hörpunnar. Þeir voru að spila lagið Rhodes Song þegar ég kom sem er mjög melódískur danssmellur sem minnir ansi mikið á slagarann Time með Pachanga Boys. Næsta lag sem þeir tóku var svo dúnmjúkt og silkislakt 90’s house grúv með heilum helling af saxafóni.

 

Stafræn bjögun á náttúrulegri fegurð

 

Sin Fang var í essinu sínu í Silfurbergi og tveir trommu- ásláttarleikarar hans börðu taktinn í indíkrádið af miklum móð. Hann nauð aðstoðar Jófríðar úr Samaris í nokkrum lögum og eins og alltaf hjá honum var sjónræna hliðin til fyrirmyndar, einhvers konar stafræn bjögun á náttúrulegri fegurð.

 

Dúettinn Mankan dútlaði í ýmsum tólum í Kaldalóni og hintuðu stundum að einhverju spennandi sem síðan aldrei kom, þetta var einum of stefnulaust og fálmkennt fyrir minn smekk. Drungalegur hljóðheimur Samaris naut sín hins vegar mjög vel í Silfurbergi og Jófríður söngkona fór á kostum.

samaris

M-Band er einn frjóasti raftónlistarmaður landsins og hann leggur líka frámuna mikinn metnað í tónleika sína sem var morgunljóst í Kaldalóni í gær. Hann býr til vegg af hljóðum og margfaldar og raddar eigin rödd með ótal effektum, en samt heyrir maður alltaf mennskuna undir niðri. Hann notast ekki við neina tölvu í sjóinu og þess vegna sér maður hann gera allt analog. Ég þurfti því miður frá að hverfa áður en tónleikarnir kláruðust til að fara á Todd Terje en langaði mjög að vera lengur.

 

Gleði og galsi

 

Þá var komið að stærsta númeri kvöldsins, hinum fúlskeggjaða norska prinsi geimdiskósins, Todd Terje. Hann dúndraði út flestum sínum helstu smellum af sviðinu í Silfurbergi og salurinn át þá úr höndum hans. Það var gleði og galsi í tónlistinni og honum og breið bros í öllum salnum. Það eina sem mætti setja út á var að það hefði verið gaman að sjá hljóðfæraleikara með honum og í byrjun var bassinn í hljóðkerfinu helst til yfirþyrmandi, vantaði aðeins tærari topp. En það lagaðist fljótlega meðan dansinn dunaði og svitinn flæddi. Frábær endir á fyrsta kvöldi Sónars sem var stórvel heppnað í alla staði. Topparnir fyrir mig voru þó Todd Terje og M-Band. Sjáumst í kvöld og fylgist með á næstu dögum með áframhaldandi umfjöllun Straums.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Tólf góð atriði á Sónar

Sónar hátíðin hefst í Hörpu í dag og Straumur mun að sjálfsögðu verða á svæðinu næstu daga með daglegar fréttir af hátíðinni. Til þess að hita upp höfum við tekið saman lista yfir 12 atriði á hátíðinni sem við mælum sérstaklega með. Listinn er þó alls ekki tæmandi þar sem yfir 60 atriði eru á hátíðinni og mjög mikið af rjóma þannig að erfitt var að velja. En hér er listinn og gleðilegan Sónar!

Todd Terje

 

Terje-inn hefur verið í uppáhaldi hjá ritstjórn Straums um alllangt skeið, en hann átti eina allra bestu breiðskífu síðasta árs, It’s Album Time, sem var hans fyrsta plata í fullri lengd. Hann er jafnfær á ítalódiskó og evrópskt spæjarafönk og algjör meistari í hljóðgervlum.

 

SBTRKT

 

Breski pródúsantinn SBTRKT hefur getið sér geisigott orð fyrir dubstep-skotið rafpopp af bestu sort. Smellurinn Wildfire sem söngkonan Yukumi Nagato syngur tröllreið dansgólfum beggja vegna Atlantshafsins árið 2011.

 

Randomer

 

Bretinn Randomer sækir jöfnum höndum í tekknó-arfleið Detroit og Berlínar í dökkum og dúndrandi hljóðheimi sínum.

 

Tonik Ensemble

 

Raftónlistarmaðurinn Anton Kaldal sem leiðir Tonik Ensemble er einn allra fremsti pródúsant þjóðarinnar og í Tonik Ensemble fær hann til liðs við sig selló- og saxafónleikara ásamt söngvaranum Herði Má úr M-Band. Útkoman er tregafullt sálartekknó sem hittir beint í mark og miðar bæðið á mjaðmir og hjarta. Hans fyrsta breiðskífa, Snapshots, kom út í vikunni og er feikilega sterkur frumburður.

 

Jamie xx

 

Forsprakki mínímalísku indípoppsveitarinnar xx er með allra heitustu plötusnúðum Bretlands um þessar mundir.

 

Yung Lean

 

Þessi knái sænski rappari er einungis 19 ára gamall og textarnir hans eru uppfullir af tilvísunum í samtímapoppmenningu minecraft kynslóðarinnar.

 

Paul Kalkbrenner

 

Þýski tekknójálkurinn Paul Kalkbrenner átti að koma á síðustu Sónar hátíð en neyddist til að afboða koma sína vegna augnsýkingar. Það eru því margir sem bíða komu hans með mikilli eftirvæntingu í ár.

 

Kindness

 

Kindness er listamannsnafn hins breska Adam Bainbridge sem er þekktur fyrir að blanda saman poppi, sálartónlist, R&B og diskói í ómóstæðilegan bræðing.

 

M-Band

 

Hörður Már Bjarnason framleiðir vandaða dansmúsík undir áhrifum frá tónlistarmönnum eins og Jon Hopkins, Gus Gus og Caribou. Hann átti að mati Straums bestu íslensku plötu síðasta árs, Haust, og eitt af bestu lögunum líka, Never Ending Never.

 

Nina Kraviz

 

Hin rússneska plötusnælda Kraviz hefur á skömmum tíma skotist upp á stjörnuhiminn alþjóðlegu plötusnúðasenunnar. Frumleg blanda af tekknói og acid house hefur fleytt henni í helstu dansklúbba veraldar.

 

Ametsub

 

Japanskur tónlistarmaður sem skapar undurfalleg hljóðræn landslög úr ambíent og umhverfishljóðum.

 

Páll Ívan frá Eiðum

 

Tónskáldið, myndlistarmaðurinn, forritunarneminn og djókarinn Páll Ívan frá Eiðum var einn óvæntasti nýliðinn í raftónlistinni á árinu. Með laginu Expanding og glæsilegu myndbandi stimplaði hann sig rækilega inn, meðan lög eins og Lommi farðu heim og Atvinnuleysi fyrir alla eru þrusugóð þó þau séu gerð með glott á brá.

 

Straumur 9. febrúar 2015 – Sónar þáttur

Straumur í kvöld verður tileinkaður Sónar Reykjavík sem hefst í Hörpu á fimmtudaginn og stendur til laugardags. Óli Dóri fer yfir það helsta á hátíðinni í þættinum sem byrjar á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur Sónar Þáttar 9. febrúar 2015 by Straumur on Mixcloud

1) Everybody Knows – SBTRKT
2) Preben Goes To Acapulco (Prins Thomas remix) – Todd Terje
3) Scruff Box – Randomer
4) Sleep Sounds – Jamie xx
5) Slide Off – Súrefni
6) Bipp – Sophie
7) Snow In Newark – Ryan Hemsworth
8) Expanding – Páll Ívan frá Eiðum
9) Imprints – Tonik Ensemble
10) Yoshi City – Yung Lean
11) Cian’t Hear it – Elliphant
12) Aus – Nina Kraviz
13) Aaron – Paul Kalkbrenner
14) Swingin’ Party – Kindness

Dagskrá Sónar tilbúin

Í dag var full dagskrá Sónar hátíðarinnar kynnt en á henni koma meðal annars fram Todd Terje, Skrillex, TV On The Radio, SBTRKT og Jamie xx. Hátíðin fer fram í Hörpu 12. til 14. febrúar næstkomandi. Þetta er í þriðja skipti sem hátíðin er haldin á Íslandi en umfjöllun Straums um hátíð síðasta árs má finna hér og hægt er að nálgast miða hér.

TV On The Radio á Sónar í Reykjavík

New York hljómsveitin TV On The Radio mun koma fram á Sónar Reykjavík í febrúar á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hátíðinni frá því  í morgun. Hljómsveitin vakti mikla lukku þegar hún spilaði á Iceland Airwaves árið 2003 og er frábær viðbót við glæsilega dagskrá hátíðarinnar en sveitin gefur út sína fimmtu plötu Seeds þann 18. nóvember.


Breski raftónlistarmaður Kindness  mun einnig spila á hátíðinni, auk Elliphant og hins einstaka Sophie sem spilar raftónlist sem hefur verið kennd við PC Music. Hinn áhrifamikli plötusnúður Daniel Miller sem stofnaði Mute útgáfuna spilar líka á Sónar auk hins breska Randomer.

Íslensku tónlistarmennirnir DJ Margeir, Ghostigital, Fufanu, DJ Yamaho, Sin Fang, Exos, Gervisykur og Sean Danke voru einnig tilkynntir í morgun.

Sónar Reykjavik fer fram dagana 12, 13 og 14. febrúar 2015 í Hörpu.

 

 

 

 

Todd Terje og Skrillex á Sónar

Nú rétt í þessu var tilkynnt um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Sónar hátíð. Það eru norski geimdiskó-gúrúinn Todd Terje, EDM tryllirinn Skrillex og þýska tekknó-goðsögnin Paul Kalkbrenner, sem átti að spila á síðustu Sónar hátíð en forfallaðist. Næsta Sónar hátíð verður haldin Í Hörpu 12.-14. febrúar en hér má lesa umfjöllun Straums um síðustu hátíð.