Annar í Sónar: Súrefni, Helíum og Mugi-tekknó

Myndir: Aron Guðmundsson

 

Fyrsta atriði á dagskránni á föstudagskvöldinu var japanski tónlistarmaðurinn Ametsub á SonarPub sviðinu. Hann spilaði undurfallegt ambíent með sterku bíti, tónlistin var undir áhrifum frá Boards of Canada og Four Tet, og minnti líka stundum á ameríska ambíentsnillinginn Tycho. Því næst sá ég Fufanu rokka þakið af Silfurbergi með drungalegu kuldarokki. Þeir eru orðnir dáldið eins og yngri útgáfa af Singapore Sling með dassi af raftónlistar og Madchester áhrifum.

 

Ég náði nokkrum lögum með Mugison sem komu svo sannarlega á óvart því að hann kom fram einn og flutti raftónlist! Ég hef ekki séð hann svona góðan í mörg ár og hef í raun verið að bíða eftir því að hann snúi aftur í raftónlistina sem hann hóf feril sinn með. Hann var á bak við græjusamstæðu sem minnti á könguló og fór á kostum í synþum, hamagangi og söng.

surefni

Gömlu kempurnar í Súrefni hristu síðan aldeilis upp í Norðurljósasalnum með frábæru sjói og sækadelik myndskreytingum. Eina minning mín um þetta band er smellurinn Disco sem var algjört Daft Punk ripoff, en samt gott Daft Punk ripoff. Þetta voru hins vegar öflugir tónleikar og þeir voru fjórir á sviðinu og spiluðu á hljómborð, bassa, trommur, gítar og tölvur og þetta var ansi rokkað á köflum.

SOPHIE

Ég kíkti aðeins við á plötusnúðinn Sophie en settið hennar var fullt af skrýtnu rafpoppi með helling af helíum-röddum, stefna sem hefur verið kölluð PC-Music. Þá var röðin komin að Prins Póló sem er einn allra skemmtilegasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir. Í einu laga sinna sem hann flutti á tónleikunum spyr hann hvort það sé hægt að hamstra sjarma, og ég held að Prinsinn sjálfur sé lifandi sönnun þess að það sé mögulegt.

 

Í lok kvöldsins langaði mig að sjá SBTRKT og Paul Kalkbrenner og leysti það einfaldlega með því að flakka á milli Norðurljósa og Silfurbergs. SBTRKT kom fram með afríska grímu og dubstep-skotin popptónlistin kom dansgólfinu svo sannarlega á hreyfingu. Það var harðari brún í tekknó-inu hjá Kalkbrenner þar sem ég dansaði mig í algleymi inn í nóttina við dúndrandi taktinn.

paulkalk3

Föstudagskvöldið var prýðisgóð skemmtun og í kvöld eru svo listamenn eins og Skrillex, Jamie xx og Randomer að spila. Við munum að sjálfsögðu skrásetja það á morgun en hér má lesa umfjöllun Straums um fimmtudagskvöldið.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *