James Holden og Bonobo á Sónar

Mynd: Squarepusher á síðustu Sónar hátíð.

Í morgun var tilkynnt um fleiri listamenn sem hefur verið bætt við dagskrá Sónar hátíðarinnar í Reykjavík. Þar ber þar hæst breska pródúsantinn og plötusnúðinn James Holden, raftónlistarmanninn Bonobo frá sama landi, þýska plötusnúðinn Paul Kalkbrenner og Starwalker, samstarfsverkefni Barða Jóhannssonar og J.B. Duncel úr Air. James Holden hefur vakið mikla athygli bæði fyrir eigin tónlist og einstakar endurhljóðblandanir og varð geimdiskó endurgerð hans af The Sky is Pink að miklum danssmelli, hér heima og erlendis, fyrir um 10 árum. Þá hefur hans nýjasta plata, The Inheritors, hlotið frábærar viðtökur þar sem hann blandar súrkálsrokki, sveimhljóðum og kosmískum áhrifum saman í dáleiðandi tekknósúpu.

Bonobo hefur í yfir áratug verið á mála hjá hinni virtu Ninja Tune útgáfu og gefið út frábærar plötur af flóknu og útpældu trip hoppi og ber af óragrúa tónlistarmanna í sama geira. Paul Kalkbrenner er goðsögn í þýskri klúbbamenningu og lag hans Sky and Sand úr kvikmyndinni Berlin Calling varð stórsmellur á öllum helstu klúbbum Evrópu. Starwalker er nýstofnuð hljómsveit Barða Jóhannssonar úr Bang Gang og J.B. Duncel úr hinni frönsku Air en þeir gáfu út sitt fyrsta lag og myndband fyrir skemmstu og er stuttskífa á leiðinni. Sónar-hátíðin fer fram í Hörpu 13.-15. febrúar næstkomandi en fyrir skemstu var tilkynnt að Major Lazer yrðir aðalnúmerið á hátíðinni en lista yfir staðfesta listamenn má finna hér. Fyrsta Sónar hátíðin í Reykjavík var haldin í febrúar á þessu ári og umfjöllun straum.is um hana má lesa hér. Hlustið á fleiri tóndæmi hér fyrir neðan.Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *