Airwaves yfirheyrslan: Snorri Helga

Snorri Helgason spilaði á Iceland Airwaves fyrst árið 2006 með hljómsveit sinni Sprengjuhöllinni en síðan þá hefur hann komið fram á hverri einustu hátíð. Snorri gaf nýlega út hina frábæru plötu Autumn Skies en hann mun flytja efni af henni á hátíðinni i ár.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Ég held að fyrsta og eina skiptið sem ég hafi farið á Airwaves hafi verið 2005 eða 4 þegar það var í Laugardalshöll að mestu leyti. Fatboy Slim og eitthvað sjitt (2002). Svo hef ég spilað á hverri hátíð síðan 2006.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Ég spilaði fyrst á Airwaves 2006 með Sprengjuhöllinni á Grand Rokk. Það var ógeðslega gaman. Þetta voru kannski okkar 7-8 tónleikar eða eitthvað svoleiðis. Við vorum bara nýbyrjaðir og sumir okkar eiginlega nýbyrjaðir að spila á hljóðfærin sín. En við höfðum hjartað á réttum stað og það skilaði sér og það var mega stemmning.


Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

2006-2013. Þetta verður þá mín áttunda.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

FM Belfast á gamla Gauk á Stöng líklega á Airwaves 2007. Djös stemmning.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

2008 spilaði Sprengjuhöllin á Lúdó sem var í kjallaranum þar sem Bónus er núna á Hallveigarstíg. Þetta var hellað venue og svona frekar mikill fermingarveislufílingur yfir öllu. Það vantaði bara heitu brauðréttina og nokkrar ömmur. Ofan á allt þetta var ég alveg fáránlega veikur þennan dag og spilaði allt giggið eiginlega í algjöru óráði. Í síðasta laginu hneig ég næstum því niður en náði að styðja mig við magnarann minn. Staulaðist heim alveg gjörsamlega búinn á því. En þetta var gott gigg.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin

Bara til hins betra. Allt skipulag og allt utanumhald er orðið miklu miklu betra. Það er bara allt annar fílingur yfir þessu núna en fyrir nokkrum árum. Miklu meira pottþétt og pro og þá er þetta allt saman miklu skemmtilegra.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Á Íslandi er það líklega Græni Hatturinn á Akureyri og Sjóræningjahúsið á Patreksfirði. En ef ég á að velja eitthvað Airwavesvenue þá er það pottþétt Gamla Bíó.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Passið upp á að hvíla ykkur og heilsuna. Í alvöru. Þetta er djös törn og mikið álag á líkamann. Farið í sund og reynið að borða eins vel og getið. Ekki bara pullur og börrar. En auðvitað verðiði að njóta líka. Þetta er gaman.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Yo La Tengo. Ekki spurning.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Mjög mjög mikla. Þetta er algjör vítamínsprauta fyrir senuna alla.

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

Ég fann útgefanda á Winter Sun á GAS-svæðinu á hátíðinni 2011 sem gaf hana svo út ári seinna. 2012 vorum við bókuð á Eurosonic og fundum synch-agent í LA sem hefur reynst okkur vel. Svo hef ég kynnst fullt af góðu fólki sem hefur hjálpað mér í gegnum tíðina með alls konar smáatriði og tengingar og plöggerí.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

13 stykki árið 2011. Það var assskoti mikið.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

2012. Hún var bara einhvern veginn svo drullu næs. Þær verða einhvern veginn alltaf betri með hverju árinu. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig þau ætla að toppa sig í ár. Engin pressa samt.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La fökkkings Tengo baby.

 

 

Listasafnið eða Harpa?

Harpa. Alla leið í bankann.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er bara að spila með SnoHe flokknum. Tvisvar on-venue með hljómsveitinni og svo 4 sinnum off-venue. Það er best að fylgjast með okkur á Fésinu: www.facebook.com/helgasonsnorri

 

Ljósmynd: Jónatan Grétarsson. 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *