KEXPort 2015

Tónleikahátíðin KEXPort verður haldin í fjórða skiptið í portinu fyrir aftan KEX Hostel laugardaginn 18. júlí næstkomandi frá tólf á hádegi til miðnættis. Tónleikarnir eru haldnir til heiðurs KEXP í Seattle og munu koma fram tólf tónlistaratriði á jafn mörgum klukkustundum. KEXP er útvarpsstöð sem sótt hefur Ísland árlega allt frá árinu 2009 og hefur unnið óeigingjarnt starf til kynningar íslenskrar tónlistar í Bandaríkjunum og víðar í heiminum.

Hátíðin er haldin í portinu fyrir aftan Kex Hostel og eru þeir opnir almenningi á meðan rúm leyfir. Mikill stemmning er fyrir KEXPort í ár og er óhætt að segja að segja að fjölbreytni tónlistaratriða sé með besta móti.
Myndbandstöku af tónleikunum í ár verður streymt beint í gegnum KEXP.ORG, Kexland.is og MusicReach.tv og er það í fyrsta skiptið sem það verður gert.

Dagskrá tónlistaratriða er efirfarandi:

12:00 Sóley

13:00 Teitur Magnússon

14:00 Kælan Mikla

15:00 Futuregrapher

16:00 Markús and the Diversion Sessions

17:00 Valdimar

18:00 Rökkurró

19:00 Muck

20:00 Gísli Pálmi

21:00 DJ Yamaho

22:00 Agent Fresco

23:00 Emmsje Gauti

Meðal þeirra sem hafa komið fram á KEXPort eru Samúel Jón Samúelsson Big Band, Kiriyama Family, Ghostigital, Low Roar, Sóley, Tilbury, Snorri Helgason, Úlfur Úlfur, Mr. Silla, Sykur, Dimma, Reykjavíkurdætur, Sometime, Kött Grá Pje, MUCK, Kippi Kanínus og Moses Hightower.

Airwaves yfirheyrslan – Axel í Rökkurró

Axel sem leikur á gítar með Rökkurró sat fyrir svörum í yfirheyrslu dagsins. Rökkurró snéru nýlega aftur eftir um tveggja ára pásu með nýtt lag í farteskinu, Killing Time, og mæta fersk til leiks á Airwaves í ár.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Ef mig misminnir ekki þá var fyrsta hátíðin sem ég fór á sem gestur árið 2005 og ég man rosalega vel eftir tónleikum Skáta í Hafnarhúsinu. Þvílík stemmning og þvílíkt band! Þeirra er og verður ávallt sárt saknað.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Ég spilaði fyrst 2008 eða 2009 eftir að ég gekk til liðs við Rökkurró. Man ekki hvort það var. Við spiluðum á Listasafninu og það var frekar geggjað.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður mín fimmta hátíð sem listamaður.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Hún er alltaf að stækka og verða betri. Aðbúnaður og skipulag er nánast óaðfinnanlegt og slíkt er ekki gefins á svona hátíðum. Verst finnst mér að hátíðin sem og íslensk tónlistarmenning í heild sinni er aðeins farin að finna fyrir þessari absúru hótelbyggingaráráttu.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Á Íslandi er það Iðnó. Draumasalur. Ótrúlega gamalt og fallegt andrúmsloft þar inni. Góð aðstaða fyrir tónlistarmenn sem og gesti og stórt svið sem rúmar fjölmennar og ofvirkar hljómsveitir og það er líka nógu hátt til að þú sjáir uppá það sama hvar þú stendur. Rjómasound líka.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?
Sjitt ég veit það ekki. Ég er löngu hættur að reyna að skipuleggja mig eitthvað fyrir þessa hátíð því ég enda alltaf á því að missa af öllu sem ég planaði. Ég fylgi yfirleitt bara einhverju fæði og ramba inná eitthvað stöff með góðu fólki. Maður á ekki að svekkja sig á því sem maður missir af, miklu betra að njóta þess sem maður sér. Kannski ætti ég samt að segja !!! árið sem þeir, Bloc Party og Chromeo voru á sama tíma. Fór á BP í Flensborgarskólanum kvöldið áður og endaði síðan á Chromeo en eftirá að hyggja hefði ég kannski átt að safna grýlukertum á undirvagninn á mér í röð fyrir utan !!! til að ná nokkrum lögum.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Ekki hafa áhyggjur af slottinu þínu. Airwaves er frekar ólíkt almennri íslenskri tónleikamenningu þar sem allir mæta á svæðið nokkrum klukkutímum of seint eftir stífa for-bjórun í heimahúsi sökum óbærilegs áfengisverðs og almenns slugsagangs. Bransafólk er óútreiknanlegt og mikilvægast er að vera glaður og hress því það skilar sér alltaf í frammistöðuna. Það skiptir ekki öllu að þú sért að spila á erfiðu slotti fyrir framan hálftóman sal. Það kemur Airwaves á eftir þessu Airwaves-i og bjór er góður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Omar Souleyman og Fucked Up eru þeir erlendu listamenn sem ég er spenntastur fyrir. Verst að þetta er á sama tíma. Ég hugsa að Souleyman verði fyrir valinu hjá mér enda ekki á hverjum degi sem manni gefst færi á að sjá Sýrlenskt skemmtaragúru leika slagara á borð við “Saddam Habibi”. Ég alla veganna hoppaði hæð mína af gleði þegar ég sá að við vorum færð í dagskránni og það varð raunhæfur möguleiki fyrir mig að komast á Omar. Af íslenska dótinu er ég einna spenntastur fyrir Grísalappalísu, ég hef heavy gaman af plötunni þeirra. Oyama líka. Djöfull eru þau öll sæt og klár. Einnig er ég spenntur fyrir nýju stöffi frá bæði Agent Fresco og For a Minor Reflection og svo má enginn missa af Samaris og Ojbarasta.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þetta er lífæð íslensku tónlistarsenunnar. Þetta er skemmtilegasta vika ársins og í raun og veru stærsta og besta tækifæri íslenskra tónlistarmanna að leika fyrir fersk eyru og einnig er frábært og alls ekkert sjálfgefið fyrir hinn almenna tónlistaráhugamann að fá það ferskasta og mest spennandi að utan hingað heim.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Í ár spila ég fimm sinnum en einu sinni þá spiluðum við held ég 7 sinnum. Það er alltof mikið. Mig minnir að einhver hafi sagt mér að stórsveitin Reykjavík! hafi afrekað það að spila 15 sinnum árið 2008. Djöfull er það klikkað. Djöfull eru þeir klikkaðir. Kannski er þetta samt allt helber lygi…

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði ágætis staðir til síns brúks.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Ég er bara að spila með hljómsveitinni Rökkurró og dagskráin okkar er sem stendur:

Miðvikudagurinn 30. Okt:
17.30 12 Tónar (off venue)
20:00 Kaffibarinn (off venue)

Föstudagurinn 1. Nóv:
18:00 Loft Hostel (off venue)
22:30 *ON VENUE SHOW* Harpa Reykjavik Concert and Conference Centre -KALDALÓN

Laugardagurinn 2. Nóv:
18:30 Kex Hostel – KEXP Showcase (off venue)

Ef þetta hentar þér illa geturðu svosum bara fylgst með mér úr fjarska á meðan ég baða mig eða eitthvað…

Ingibjörg í Boogie Trouble

Hin frámunalega fönkí Ingibjörg Elsa Turchi sem slær bassa með Boogie Trouble, Babies og Bjór var spurð spjörunum úr um Airwaves í yfirheyrslu dagsins.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2011, en það ár var ég ekki í neinum hljómsveitum sem spiluðu. Hafði samt spilað frá 2007.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Það var með hljómsveitinni Rökkurró árið 2007 í Iðnó.  Ég man eiginlega ekkert eftir tónleikunum en það hlýtur bara að hafa verið gaman. Kannski pínu stress.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Í ár mun ég spila á minni sjöttu hátíð.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?

Ætli það sé ekki á Airwaves 2012 með Boogie Trouble. Við vorum með tvenna tónleika á sjálfri hátíðinni og þeir fyrri voru í Kaldalóni, sem er sitjandi salur, klukkan 19 á föstudegi. Á tónleikum með Boogie þá er það lenska að allir hafi reimað á sig dansskóna og höfðum við oftast spilað eftir miðnætti en þarna sátum við dálítið eins og fyrir dómnefnd. En svo í miðju setti stóð sem betur fer einhver upp og byrjaði að dansa sem endaði með því að næstum allir stóðu upp og dönsuðu í sætunum sínum sem var gaman og þó nokkur léttir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Einfaldlega stækkað og svo er off-venue prógrammið orðið jafn viðamikið og hátíðin sjálf, sem er ágætt fyrir þá sem ná ekki að kaupa miða. Það gefur líka fleiri hljómsveitum tækifæri á að spila.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Mér finnst Iðnó alltaf mjög notalegur, þegar það er þannig tónlist sem við á. Í raun er ég hrifnust af þeim stöðum þar sem nándin við hljómsveitina er sem mest og því er ég ekki hrifinn af of stórum sviðum í alltof miklu fjölmenni. Inn í spilar líka að ég er lágvaxin og þarf oft að hafa mikið við til að sjá sem best.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ekki neinum sem ég man eftir í fljótu bragði, það hefur örugglega bara leitt til þess að ég hef farið á einhverja aðra í staðinn, kannski einhverja hljómsveit sem ég þekkti ekkert.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Að taka þessu með ró og hafa gaman af.

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Ég er alltaf mjög spennt fyrir íslenskum böndum og svo langar mig að ná miða á Kraftwerk. En ég hef ekki skoðað line-upið mikið.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

Aðallega erlend fjölmiðlaumfjöllun. Einnig hafa KEXP-vídjóin gert góða hluti fyrir bönd sem ég hef spilað með.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Árið 2012 spilaði ég samtals 13 sinnum, með tveimur böndum, að off-venueum og KEXP vídjóum meðtöldum.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Listasafnið.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Með Boogie Trouble verð ég on-venue á laugardeginum kl. 21.20. Svo verðum við 5 sinnum off-venue. Einnig mun ég spila tvisvar off-venue með Babies og einu sinni með rapphljómsveitinni Bjór.

50 atriði tilkynnt á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 50 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári.

Þau eru: sóley, Savages (UK), Jon Hopkins (UK), John Grant (US), Mykki Blanco (US), Mac DeMarco (CA), Lay Low, Villagers (IE), PAPA (US), Empress Of (US), Lescop (FR), Agent Fresco, Young Fathers (SCO), For a Minor Reflection, Slow Magic (US), kimono, We Are Wolves (CA), Ghostigital, Dikta, San Fermin (US), Berndsen, Baby in Vain (DK), Sean Nicholas Savage (CA), Cousins (CA), Úlfur Úlfur, Aaron and the Sea (US), Biggi Hilmars, Kithkin (US), Eldar, Epic Rain, The Balconies (CA), Futuregrapher, Nordic Affect, Ylja, Wistaria, Tonik, Sindri Eldon and the Ways, Good Moon Deer, Rökkurró, Kött Grá Pjé, Jóhann Kristinsson, Kajak, Sometime, Saktmóðigur, Hudson Wayne, Boogie Trouble, Tanya & Marlon, M-Band, Original Melody og Nolem!

Tónleikar helgarinnar 4. – 6. apríl

 

Fimmtudagur 4. apríl:

Á Kex Hostel mun Grísalappalísa gefa áhugasömum formsmekk af nýrri plötu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00

Hljómsveitirnar Legend, Muck og Japam slá til tónleikaveislu á Volta Tryggvagötu 22. Húsið opnar klukkan 21:00 og byrja tónleikarnir stuttu eftir það. Miðaverð er 1000 kr. 

Agent Fresco og Kiriyama Family halda tónleika á efri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og kostar 1500 kr inn.

 

Föstudagur 5. apríl 

Plötuverslunin 12 Tónar fagnar nú 15 ára afmæli sínu. Af því tilefni verður opið hús á Skólavörðustíg 15 næstkomandi föstudag, 5. apríl á milli 17 og 19. Hljómsveitin Rökkurró mun leika nokkur lög fyrir gesti og gangandi. Boðið verður uppá veitingar að hætti hússins og eru allir vinir, velunnarar og viðskiptamenn 12 Tóna hjartanlega velkomnir.

Hljómsveitirnar Babies og Beatless leiða sama hesta sína með hjartslætti og rythma svo að allir geti farið dansandi inn í helgina á Faktory. Beatless hefja tónleikana kl 23:00 og Babies spila uppúr miðnætti. Miðaverð er 1000 kr. 

Skúli hinn mennski heldur tónleika á Rósenberg ásamt Þungri byrði. Tónleikarnir klukkan 22:00. Verðið er ákkúrat mátulegt eða 1500 krónur á mann og ofbeldi ógildir miðann.

 

Laugardagur 6. apríl

VORVINIR 2013: Í tilefni af væntanlegri plötuútgáfu hefur hljómsveitin Mammút ákveðið að blása til heljarinnar söfnunartónleika svo hægt sé að klára plötuna með stæl. Uppáhaldshljómsveitir Mammút voru svo yndislegar að leggja bandinu lið og eru þar samankomnar helstu kanónur og snillingar tónlistarsenunnar í dag. Ásamt Mammút munu OJba Rasta, Samaris og Oyama koma fram. Húsið (efri hæð Faktorý) opnar kl 21 og tónleikarnir hefjast STUNDVÍSLEGA kl 22. Miðaverð er 1500 kr. 

Tónlistarmaðurinn Jón Þór mun heiðra tónleikagesti á Bar 11 með nærveru sinni og flytja þar lög af sinni fyrsti breiðskífu, Sérðu mig í lit. Húsið opnar klukkan 21:00 og er aðgangur ókeypis.