Airwaves yfirheyrslan – Axel í Rökkurró

Axel sem leikur á gítar með Rökkurró sat fyrir svörum í yfirheyrslu dagsins. Rökkurró snéru nýlega aftur eftir um tveggja ára pásu með nýtt lag í farteskinu, Killing Time, og mæta fersk til leiks á Airwaves í ár.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Ef mig misminnir ekki þá var fyrsta hátíðin sem ég fór á sem gestur árið 2005 og ég man rosalega vel eftir tónleikum Skáta í Hafnarhúsinu. Þvílík stemmning og þvílíkt band! Þeirra er og verður ávallt sárt saknað.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Ég spilaði fyrst 2008 eða 2009 eftir að ég gekk til liðs við Rökkurró. Man ekki hvort það var. Við spiluðum á Listasafninu og það var frekar geggjað.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður mín fimmta hátíð sem listamaður.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Hún er alltaf að stækka og verða betri. Aðbúnaður og skipulag er nánast óaðfinnanlegt og slíkt er ekki gefins á svona hátíðum. Verst finnst mér að hátíðin sem og íslensk tónlistarmenning í heild sinni er aðeins farin að finna fyrir þessari absúru hótelbyggingaráráttu.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Á Íslandi er það Iðnó. Draumasalur. Ótrúlega gamalt og fallegt andrúmsloft þar inni. Góð aðstaða fyrir tónlistarmenn sem og gesti og stórt svið sem rúmar fjölmennar og ofvirkar hljómsveitir og það er líka nógu hátt til að þú sjáir uppá það sama hvar þú stendur. Rjómasound líka.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?
Sjitt ég veit það ekki. Ég er löngu hættur að reyna að skipuleggja mig eitthvað fyrir þessa hátíð því ég enda alltaf á því að missa af öllu sem ég planaði. Ég fylgi yfirleitt bara einhverju fæði og ramba inná eitthvað stöff með góðu fólki. Maður á ekki að svekkja sig á því sem maður missir af, miklu betra að njóta þess sem maður sér. Kannski ætti ég samt að segja !!! árið sem þeir, Bloc Party og Chromeo voru á sama tíma. Fór á BP í Flensborgarskólanum kvöldið áður og endaði síðan á Chromeo en eftirá að hyggja hefði ég kannski átt að safna grýlukertum á undirvagninn á mér í röð fyrir utan !!! til að ná nokkrum lögum.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Ekki hafa áhyggjur af slottinu þínu. Airwaves er frekar ólíkt almennri íslenskri tónleikamenningu þar sem allir mæta á svæðið nokkrum klukkutímum of seint eftir stífa for-bjórun í heimahúsi sökum óbærilegs áfengisverðs og almenns slugsagangs. Bransafólk er óútreiknanlegt og mikilvægast er að vera glaður og hress því það skilar sér alltaf í frammistöðuna. Það skiptir ekki öllu að þú sért að spila á erfiðu slotti fyrir framan hálftóman sal. Það kemur Airwaves á eftir þessu Airwaves-i og bjór er góður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Omar Souleyman og Fucked Up eru þeir erlendu listamenn sem ég er spenntastur fyrir. Verst að þetta er á sama tíma. Ég hugsa að Souleyman verði fyrir valinu hjá mér enda ekki á hverjum degi sem manni gefst færi á að sjá Sýrlenskt skemmtaragúru leika slagara á borð við “Saddam Habibi”. Ég alla veganna hoppaði hæð mína af gleði þegar ég sá að við vorum færð í dagskránni og það varð raunhæfur möguleiki fyrir mig að komast á Omar. Af íslenska dótinu er ég einna spenntastur fyrir Grísalappalísu, ég hef heavy gaman af plötunni þeirra. Oyama líka. Djöfull eru þau öll sæt og klár. Einnig er ég spenntur fyrir nýju stöffi frá bæði Agent Fresco og For a Minor Reflection og svo má enginn missa af Samaris og Ojbarasta.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þetta er lífæð íslensku tónlistarsenunnar. Þetta er skemmtilegasta vika ársins og í raun og veru stærsta og besta tækifæri íslenskra tónlistarmanna að leika fyrir fersk eyru og einnig er frábært og alls ekkert sjálfgefið fyrir hinn almenna tónlistaráhugamann að fá það ferskasta og mest spennandi að utan hingað heim.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Í ár spila ég fimm sinnum en einu sinni þá spiluðum við held ég 7 sinnum. Það er alltof mikið. Mig minnir að einhver hafi sagt mér að stórsveitin Reykjavík! hafi afrekað það að spila 15 sinnum árið 2008. Djöfull er það klikkað. Djöfull eru þeir klikkaðir. Kannski er þetta samt allt helber lygi…

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði ágætis staðir til síns brúks.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Ég er bara að spila með hljómsveitinni Rökkurró og dagskráin okkar er sem stendur:

Miðvikudagurinn 30. Okt:
17.30 12 Tónar (off venue)
20:00 Kaffibarinn (off venue)

Föstudagurinn 1. Nóv:
18:00 Loft Hostel (off venue)
22:30 *ON VENUE SHOW* Harpa Reykjavik Concert and Conference Centre -KALDALÓN

Laugardagurinn 2. Nóv:
18:30 Kex Hostel – KEXP Showcase (off venue)

Ef þetta hentar þér illa geturðu svosum bara fylgst með mér úr fjarska á meðan ég baða mig eða eitthvað…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *