Ingibjörg í Boogie Trouble

Hin frámunalega fönkí Ingibjörg Elsa Turchi sem slær bassa með Boogie Trouble, Babies og Bjór var spurð spjörunum úr um Airwaves í yfirheyrslu dagsins.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2011, en það ár var ég ekki í neinum hljómsveitum sem spiluðu. Hafði samt spilað frá 2007.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Það var með hljómsveitinni Rökkurró árið 2007 í Iðnó.  Ég man eiginlega ekkert eftir tónleikunum en það hlýtur bara að hafa verið gaman. Kannski pínu stress.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Í ár mun ég spila á minni sjöttu hátíð.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?

Ætli það sé ekki á Airwaves 2012 með Boogie Trouble. Við vorum með tvenna tónleika á sjálfri hátíðinni og þeir fyrri voru í Kaldalóni, sem er sitjandi salur, klukkan 19 á föstudegi. Á tónleikum með Boogie þá er það lenska að allir hafi reimað á sig dansskóna og höfðum við oftast spilað eftir miðnætti en þarna sátum við dálítið eins og fyrir dómnefnd. En svo í miðju setti stóð sem betur fer einhver upp og byrjaði að dansa sem endaði með því að næstum allir stóðu upp og dönsuðu í sætunum sínum sem var gaman og þó nokkur léttir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Einfaldlega stækkað og svo er off-venue prógrammið orðið jafn viðamikið og hátíðin sjálf, sem er ágætt fyrir þá sem ná ekki að kaupa miða. Það gefur líka fleiri hljómsveitum tækifæri á að spila.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Mér finnst Iðnó alltaf mjög notalegur, þegar það er þannig tónlist sem við á. Í raun er ég hrifnust af þeim stöðum þar sem nándin við hljómsveitina er sem mest og því er ég ekki hrifinn af of stórum sviðum í alltof miklu fjölmenni. Inn í spilar líka að ég er lágvaxin og þarf oft að hafa mikið við til að sjá sem best.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ekki neinum sem ég man eftir í fljótu bragði, það hefur örugglega bara leitt til þess að ég hef farið á einhverja aðra í staðinn, kannski einhverja hljómsveit sem ég þekkti ekkert.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Að taka þessu með ró og hafa gaman af.

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Ég er alltaf mjög spennt fyrir íslenskum böndum og svo langar mig að ná miða á Kraftwerk. En ég hef ekki skoðað line-upið mikið.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

Aðallega erlend fjölmiðlaumfjöllun. Einnig hafa KEXP-vídjóin gert góða hluti fyrir bönd sem ég hef spilað með.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Árið 2012 spilaði ég samtals 13 sinnum, með tveimur böndum, að off-venueum og KEXP vídjóum meðtöldum.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Listasafnið.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Með Boogie Trouble verð ég on-venue á laugardeginum kl. 21.20. Svo verðum við 5 sinnum off-venue. Einnig mun ég spila tvisvar off-venue með Babies og einu sinni með rapphljómsveitinni Bjór.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *