Tónleikar vikunnar

Það er af nægu að taka í tónlistarlífi höfuðborgarsvæðisins þessa vikuna og hér verður farið yfir það helsta.

 

Miðvikudagur 16. október

Reggístórsveitin Ojba Rasta fagnar útgáfu annarrar plötu sinnar með hlustunarteiti á Harlem. Teitin hefst klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis, sem og veigar fyrir þá sem mæta snemma.

Skelkur í bringu, Godchilla og Kælan Mikla stíga á stokk á Gamla Gauknum á tónleikum sem bera yfirskriftina „Punk is not Dead“ eða „Ræflarokkið er ekki látið“ eins og það gæti útlagst á ástkæra ylhýra. Þau skilaboð er vert að minna á reglulega en ókeypis er inn á tónleikana sem hefjast klukkan 21:00

Fimmtudagur 17. október

Systrasveitin Bleached frá Los Angeles heldur tónleika á  Harlem. Tónleikarnir hefjast kl. 22 og um upphitun  sér íslenska harðkjarnasveitin Muck. Bleached er ein heitasta jaðarsveit Los Angeles í dag og er skipuð systrunum Jennifer og Jessie Clavin. Þær gáfu nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Ride Your Heart, sem hefur fengið einkar góða dóma hjá helstu tónlistarmiðlum, meðal annars 4/5 í Mojo. Tónleikar þeirra eru þeir fyrstu í langri tónleikaferð þeirra um alla Evrópu en miðasala er á midi.is og í verslunum Brim, Laugavegi og Kringlunni, miðaverð er 2000 krónur.

Harðkjarnatónleikar verða á Gamla Gauknum en þar koma fram Klikk, Trust the Lies, Mercy Buckets og Icarus. Aðgangseyrir er 1000 krónur og kjarninn byrjar að harðna klukkan 21:00.

Rafpoppsveitin Vök sem sigraði músíktilraunir fyrr á árinu fagnar útgáfu EP-plötunnar Tensions á Kex Hostel. Húsið opnar 20:30, tónleikarnir hefjast hálftíma síðar og miðaverð er 1500 krónur.

Föstudagur 18. október

Amaba Dama, Retrobot og Tuttugu efna til tónleikahalds á Gamla Gauknum. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gleðin hefst upp úr 22:00.

Pönkhljómsveitin Slugs sem er leidd af Sindra Eldon fagnar útgáfu sinnar annarrar plötu, Þorgeirsbola, á Bar 11. Þetta verða fyrstu tónleikar sveitarinnar í 3 ár en Skelkur í Bringu koma einnig fram. Tónleikarnir hefjast klukkan 11 og kostar 500 kr inn.

Maya Postepski, trommuleikari kanadísku indie-elektró hljómsveitarinnar Austra, þeytir skífum á Harlem. Austra hefur átt mikilli velgengni að fagna beggja vegna Atlantshafs og var hljómsveitin meðal annars tilnefnd til Polaris verðlaunanna 2011 og komu fram á Iceland Airwaves sama ár. Postepski hefur leikinn á miðnætti í hliðarsal Harlem og aðgangur er ókeypis.

Laugardagur 19. október

Útgáfutónleikar Flugvélar og Geimskips verða á Kex Hostel. Sveitin gaf nýverið út plötuna Glamúr í Geimnum en á tónleikunum verða einnig í boði, kraftaverk, furðuleg kvikmynd, töfrar og ljósadýrð eins og fram kemur í tilkynningu frá sveitinni. Ævintýrið hefst 21:00 og það kostar 1000 krónur að taka þátt í því.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *