Rafmagnsstóllinn: Þórður Grímsson

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

 

Þórður Grímsson, liðsmaður hljómsveitarinnar Two Step Horror, hlaut þann heiður að fá fyrstur að setjast í Rafmagnsstólinn, en hann stendur einmitt fyrir tónleikum í kvöld á Cafe Ray Liotta ásamt Vebeth hópnum. Þetta er það sem kom upp úr honum.

 

Hvað er það besta við að vera tónlistarmaður?
Það er held ég bara almennt gott að vera skapandi og búa til sinn eigin heim og loka sig af þar.

 

En versta?
Hlusta á skoðanir annarra sem eru á einhverri allt annarri bylgjulengd.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndirðu mest vilja hita upp fyrir?
Veit ekki með upphitun, en það væri gaman að gera eitthvað með Sonic Boom eða semja verk með Angelo Badalamenti til dæmis.

 

Hvað er besta tónlist sem þú hefur uppgötvað á árinu?
Ég enduruppgötvaði The Telescopes sem við erum að spila með á Berlin Psych Fest í Apríl. Annars er ég að fíla Russian.Girls mjög vel, það var góð uppgötvun þessa árs.

 

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt?
Krzysztof Komeda samdi mikið af frábærri tónlist fyrir kvikmyndir, t.a.m. Cul-de-sac, Rosemary’s Baby og Knife in the Water. Ég hef líka verið að hlusta á studio plötur og session sem hann var að fást við og það er allt saman alveg frábært.

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni?
Sjöundi áratugurinn af óteljandi ástæðum, en ég get nefnt nokkrar.
1. Skynvillutónlist á borð við July, Soft Machine, Pink Floyd, The Move, United States of America, Kaleidoscope, Red Krayola og óteljandi öðrum.
2. Fatastíllinn var góður.
3. Plötukoverin fengu áður óþekkt púður.
4. Síðasta tímabilið fyrir hnignunina.
5. Psych var ekki orðið sell out.

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?
Souvlaki Space Station – Slowdive (17)
Baby (Donnie & Joe Emerson cover) – Ariel Pink (14)
Mètché Dershé – Mulatu Astatke (13)
Jubilee Street – Nick Cave (12)
Head Over Heels – Tears for Fears (11)

 

En plötur?
Ég hugsa að Oscar Peterson og Mulatu Astatke sé frekar standard „go-to“ dinner músík, það er amk. tilefnið við að setja plötu á fóninn heima.

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega?
Pink Street Boys á undiröldutónleikum í Hörpu, Dirty Beaches í Hörpu og Nick Cave á All Tomorrow’s Parties.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Ég veit ekki, fer frekar sjalda á tónleika. Harpa kannski.

 

Uppáhalds plötuumslag?
Já Vebeth safnplötu umslagið er killer, en ég er bara ekki alveg búinn með það.

 

Þekkirðu Jakob Frímann?
Já, Anna kærastan mín þekkir hann. Hann mætti á myndlistasýninguna mína í sumar, ég hitti hann þá.

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka jam-session með?

Það hefði verið áhugavert að gera eitthvað með Syd Barret, ég hef alltaf verið mjög hrifinn af hans tónlist.

 

Uppáhalds plötubúð í heiminum?
Ég keypti fullt af góðum plötum í Rock and Roll Heaven í Orlando, en ætli að sé ekki mest PC að segja Lucky’s, frábær búð.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?
Snoop.

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er, hver myndi það vera?
Phil Spector.

 

Hvaða plata fer á á rúntinum?
FM Rondo.

 

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?
Ég eyddi rosa miklum pening í Pro Tools 11, annars er þetta genuinely erfið spurning.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?
Gleymt hvað kemur næst í sólói eða muldrað texta sem ég man ekki. Annars var það mjög neyðarlegt þegar ég sleit streng og kunni ekki að setja í nýjan á nýja gítarnum mínum og Baldvin þurfti að gera það fyrir mig á miðjum tónleikum.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?
Clinic.

 

Enn í eftirpartínu?
Einhver ný demo, ég verð sérlega ein- og sjálfhverfur þegar ég er kominn yfir áfengisþolmörk mín.

 

Uppáhalds borgin þín?
Berlin.

 

Þið eruð að fara að gefa út ykkar þriðju plötu, Nyctophilia, hvaða fimm orð myndu lýsa henni best?
Downtempo – draumkennt – trommuheilarokk – Reverb – Tremolo.

 

Þið eruð hluti af hóp eða hreyfingu sem kallast Vebeth, segðu okkur frá gildum og markmiðum hennar.
Vebeth fæddist í Reykjavík árið 2009 og samanstendur af fólki úr hinum ýmsu listrænu greinum sem deila svipaðri fagurfræði, tónlistarsmekk og listrænni sýn. Ætlun okkar var að gera meðlimum hópsins kleift að koma tónlist sinni og myndlist á framfæri og gefa tónlistina út án aðkomu þriðja aðila. Meðal meðlima Vebeth eru tónlistarmenn, myndlistarmenn, vídeólistamenn, textagerðarmenn, ljósmyndarar og hönnuðir sem gerir okkur kleift að vinna í margvíslegum miðlum og þar með skapa sjálfbæra útgáfu á eigin efni.

 

Við hverju má fólk búast við á tónleikunum ykkar í kvöld?
Rock’n’roll

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *