Ariel Pink á Airwaves

Iceland Airwaves tilkynnti í dag um fyrstu listamennina sem koma fram á hátíðinni í nóvember á þessu ári. Þeir erlendu listamenn sem tilkynntir voru í dag eru: Ariel Pink, Batida, BC Camplight, East India Youth, Hinds, Mourn, The OBGMs, Operators, Perfume Genius og Weaves.

Auk þeirra koma fram íslensku listamennirnir: Asonat, dj flugvél og geimskip, Fufanu, GusGus, Júníus Meyvant, Júníus Meyvant, M-band, Pink Street Boys, Teitur Magnússon, Tonik Ensemble, Yagya og Young Karin.

 

Iceland Airwaves 2015 – nr.1 from Iceland Airwaves on Vimeo.

Bestu íslensku lög ársins 2014

30. Hossa Hossa – Amaba Dama

 

29. Svínin þagna – Úlfur Kolka

 

28. The Music – Worm Is Green

 

27. Specters – kimono

 

26. FM Acid Lover – Futuregrapher

 

25. 100 kg – Pretty Please

 

24. I’m Leaving – Low Roar

 

23. Quiet Storm – Asonat

 

22. Circus Life – Fufanu

 

21. Held – Kiasmos

 

20. Special Place – Muted

 

19. Old Snow – Oyama

 

18. Brewed In Belgium – Hermigervill

 

17. Until We Meet Again (Applescal Remix) – Tonik Ensemble

 

16. Cut – russian.girls

 

15. Mánadans – Kælan Mikla

 

14. Vinur vina minna – Teitur Magnússon

 

13. Absolute Garbage – Singapore Sling

 

12. Strange Loop – Sykur

 

11. Venter (Evian Christ remix) – Ben Frost

 

10. Steinunn – Boogie Trouble

Diskóið er eins og rottur og kakkalakkar, það mun aldrei deyja út, en þegar erfðaefnið er eins gott og Boogie Trouble eru allar líkur á því að það auki við kyn sitt. Eftirvæntingin eftir fyrstu breiðskífu Boogie Trouble er orðin umtalsverð og ekki minnkaði hún í vor þegar lagið Steinunn kom út. Fyrstu bassanóturnar framkalla strax kippi í líkamanum sem aukast þegar wah-wah gítarinn bætist við og í viðlaginu ætti allur líkaminn að vera kominn á mikla hreyfingu. Steinunn beyglar munninn því hún er að fara beinustu leið á ball.

9. Expanding – Páll Ivan frá Eiðum

Páll Ívan frá Eiðum stimplaði sig rækilega inn á árinu með þeim drungalega rafgjörningi sem lagið Expanding er. Hikstandi bassi, stafrænir skruðningar og draugaleg röddin er uppistaðan í þessari rafrænu hryllingsvögguvísu, og myndbandið er eitt það besta sem kom á árinu.

8. Distant Lover – Myndra

Firnasterkt indípopp með óaðfinnanlegum hljómi, grípandi viðlagi, singalong-kafla og óvenjulegum ryðma.


7. Evel Knievel – Pink Street Boys

Evel Knievel er eins og tónlistarlegt ígildi ryðgaðs hnífs sem er stungið í síðuna á þér og snúið og juggað í hringi og fram og til baka. Ekki tónlist til að slást við heldur tónlist sem slæst við þig. Rokk sem veður inn á skítugum strigaskónum og sparkar í rassa, punga, píkur og bara allt sem verður á vegi þess. Ekki ferskur andblær heldur sterk andremma sem fyllir upp í vit smáborgaralegrar fagurfræði og skilur eftir sig slóð eyðileggingar, tómra ódýrra bjórdósa og sígarettustubba.

6. The End – Fm Belfast

Gleðisveit landsins kemur með enn einn elektró-smellinn sem gætti brætt hjörtu allra hörðustu bölsýnismanna. Því FM Belfast eru vinir þeirra líka.

5. Ever Ending Never – M-band

Jon Hopkins hittir Gus Gus á bar í Berlín, þeir skella sér á Berghain og enda svo í eftirpartýi hjá Caribou snemma morguns þar sem sólin skín í gegnum gluggatjöldin. Svona kvöld sem þú vildir óska að myndi aldrei enda. Fljótandi tekknó sem seytlar jafnt inn í undirmeðvitundina og blóðrásina.

4. Flýja – Grísalappalísa

Á síðari plötu Grísalappalísu, Rökréttu Framhaldi, stækkuðu þeir út hljóðheim sinn og hvergi heyrðist það betur en í því stórbrotna ferðalagi sem lagið Flýja er. Hyldjúp ballaða sem hljómar á köflum eins og Lou Reed, Bob Dylan eða Serge Gainsbourg með epískri strengjaútsetningu sem á í samtali við lagið frekar en bara að fylgja því.

3. Crossfade – Gusgus

Crossfade er það sterkt lag að við mundum eftir því eftir tónleika á Sónar í febrúar 2013, alveg þangað til það kom loksins út rúmlega ári síðar í apríl á þessu ári. En biðin var vel þess virði, hljómurinn vélrænn en samt þokkafullur og textinn ljúfsár óður til upphafsára danstónlistarinnar í bland við kynferðislega undirtóna. Dökk og kynþokkafull rödd Daníels Ágúst bergmálar út í eilífðina í versunum og bjartur barítónn Högna í viðlaginu er fullkomið mótvægi.

2. Fuck With Someone Else – Gangly

Íslenskt svar við FKA Twigs, framúrstefnulegt Trip Hop með bragðaref af stafrænum, hliðrænum og lífrænum hljóðum og röddum sem eru skældar og teigðar í ótal áttir. Algjör andstæða við fyrsta sætið á listanum, frámunalega móðins, kosmópólítan og erlendis þar sem kúlið er meitlað í stein.

1. París Norðursins – Prins Póló

Það kom aldrei neitt annað til greina. Grófur synþabassinn, dúndrandi bassatromman og textinn eins og Hrafns Gunnlaugs-leg greining á stemmningu og helstu persónum í erkitýpísku íslensku sjávarþorpi. Knappt, hnyttið, beint í mjaðmirnar og ör í hjarta þjóðarsálar. Hljómar eins og diskókúla í síldarbrennslu eða reif í frystihúsi, eins íslenskt og það gerist. Meira að segja ofspilunin hefur ekki bitið á því. Prins Póló á Bessastaði!

Bestu íslensku plötur ársins 2014

10. Asonat – Connection

Rafpoppsveitin Asonat gaf út sína aðra plötu, Connection, þann 30. september. Platan er ákaflega heilsteypt og eru hápunktar hennar gullfallega opnunarlagið Quiet Storm, hið draumkennda Rather Interesting, Before it Was og lokalagið This Is The End.

 

9. Gus Gus – Mexico

Á plötunni Mexico halda Gusgus-liðar áfram að fullkomna melódíska tekknóið sem þeir eru þekktastir fyrir með góðum árangri. Það sem stendur helst upp úr er hinar frábæru strengjaútsetningar sem binda plötuna saman.

8. Ben Frost – Aurora

A U R O R A er án efa aðgengilegasta og sterkasta verk Ben Frost hingað til. Á plötunni nær Frost að skapa einstakan hljóðheim með mögnuðu samspili hávaða og þagna.

 

7. Fm Belfast – Brighter Days

Á sinni þriðju plötu, Brighter Days, tekst FM Belfast að viðhalda þeirri gleði sem hefur einkennt þeirra fyrri verk ásamt því að sýna þroska í lagasmíðum og söngútsetningum.

6. Börn – Börn

Vandað íslenskt post-punk með skemmtilega hráum hljóðheimi og grípandi lögum.

 

 

5. Oyama – Coolboy

Fyrsta plata Oyama Cool boy er full af draumkenndu skóglápi með hljómi af bestu sort.

4. Grísalappalísa – Rökrétt framhald

Önnur plata Grísalappalísu, Rökrétt Framhald, er ekki eins rökrétt framhald og mætti skilja af titlinum. Munurinn liggur í að platan er ekki eins mikil eining og þeirra fyrsta plata. Hljómsveitin  blandar saman allskonar áhrifum án tillits til heildar og útkoman er sú að nokkur af sterkustu lögum ársins er að finna á einni og sömu plötunni.

3. Óbó – Innhverfi

Með plötunni Innhverfi hefur Ólafur Björn Ólafsson eða Óbó gefið út eina af fegurstu plötum sem komið hafa út á Íslandi síðustu ár. Platan er þó alveg laus við þær klisjur sem oft einkenna slíkar plötur og rennur látlaust í gegn. Ljúf og nær áreynslulaus túlkun Óbó er til fyrirmyndar.

 

2. Pink Street Boys – Trash from the boys

Trash From The Boys með hljómsveitinni Pink Street Boys er ein sú hressasta rokkplata sem komið hefur út á Íslandi á í langan tíma. Platan var unnið upp úr aukalögum frá bandinu og sett saman af plötufyrirtækinu Lady Boy Records sem gáfu hana svo út á kassettu. Innihaldi plötunnar mætti líkja við kalda vatnsgusu í andlitið og er hún mjög lýsandi fyrir tónleika sveitarinnar.

 

1. M-Band – Haust

Á sinni fyrstu stóru plötu, Haust, messar Hörður Már Bjarnason yfir hlustendum með drungalegu sálartekknói, sem stundum minnir á blöndu af hinum breska Jon Hopkins og Gusgus. Hápunktur plötunnar er hið stórbrotna Ever Ending Never sem er leitt áfram af hoppandi endurteknum hljóðgervli.

Airwaves 2014 – þáttur 2

Annar þátturinn af Iceland Airwaves sérþætti Straums með Óla Dóra verður á dagskrá frá 20:00 – 22:00 á X-inu 977 í kvöld. Í þættinum í kvöld koma hljómsveitirnar Good Moon Deer og Pink Street Boys í heimsókn auk þess sem gefnir verða tveir miðar á hátíðina.

Airwaves þáttur 2 – 15. október 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Girls’ Night Out – The Knife
2) Silver – Caribou
3) November SKies – Tomas Barfod 1:00 í gamla bíó á föstudag
4) The High – Kelela
5) Again – Good Moon Deer
6) Karma – Good Moon Deer
7) Alena – Yumi Zouma
8) Old Snow – Oyama
9) Body Language – Pink Street Boys
10) Evel Knievel – Pink Street Boys
11) Devil – Horse Thief
12) Kingfisher – PHOX
13) Lawman – Girlband
14) Passion – Nolo
15) Baby Missiles – The War On Drugs
16) Specters – kimono
17) So Good at Being In Trouble – Unknown Mortal Orchestra

+

Straumur 18. ágúst 2014

Í Straumi í kvöld kíkjum við á nýtt efni frá Tonik Ensemble, Floating Points, Caribou, Pink Street boys auk þess sem gefnir verða miðar á tónleika Neutral Milk Hotel sem vera núna á miðvikudaginn. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23 á X-inu 977.

Straumur 18. ágúst 2014 by Straumur on Mixcloud

1) Break the rules – Charli XCX
2) Our Love – Caribou
3) Holland, 1945 – Neutral Milk Hotel
4) Landscapes – Tonik Ensemble
5) Sparkling Controversy – Floating Points
6) Too Soon – Darkside
7) Blue Suede – Vince Staples
8) Chained Together – Mozart’s Sister
9) Bow A Kiss – Mozart’s Sister
10) Up In Air – Pink Street Boys
11) Drullusama – Pink Street Boys
12) Every Morning – J Mascis
13) Clay Pigeons (Blaze Foley cover) – Michael Cera
14) Say You Love Me – Jessie Ware

Ruslakista Pink Street Boys

Lady Boy Records gáfu í gær út plötuna Trash From The Boys með hljómsveitinni Pink Street Boys. Plata sem gefin er út stafrænt og á kassettu er talsvert hrárri en önnur plata sveitarinnar sem kemur út seinna á þessu ári. Platan er þó ekkert slor og ein sú hressasta rokkplata sem komið hefur út á Íslandi á í langan tíma. Hlustið á plötunna hér fyrir neðan.

Innipúkinn – Festival í borg

Mynd: Þórir Bogason

Kvöld 1

 

Hátíðin Innipúkinn fór fyrst fram árið 2002 sem einhvers konar svar miðbæjarins við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, og hefur svo verið haldin næstum því ár hvert síðan þá. Í ár fór hátíðin fram á samliggjandi skemmtistöðunum Húrra og Gauknum og til að undirstrika hátíðarbraginn var götunni fyrir framan þá lokað og settar grastorfur og bekkir fyrir framan. Aðaltónleikarnir mætti segja að hafi verið á Húrra þar sem var blönduð dagskrá, en á Gauknum var fókus á sérstaka tónlistarafkima á hverju kvöldi, hart rokk á föstudegi, raftónlist á laugardeginum og rapp á síðasta kvöldinu.

 

Dj Flugvél og Geimskip var að koma sér fyrir þegar ég mætti á Húrra og krúttlegið hljómborðspoppið fór vel í áhorfendur sem fjölgaði ótt í salnum eftir því sem leið á tónleikana. Ég yfirgaf þó Geimskipið til að tónlistarlega andstæðu þess, Pink Street Boys sem spiluðu á Gauknum. Þar voru öllu færri en þemað á Gauknum þetta kvöldið var rokk í harðari kantinum. Pink Street Boys spiluðu harða, hraða og fasta blöndu af pönki og garage-rokki sem reif í hljóðhimnuna á yfirgengilegum hljóðstyrk. Þetta var hreint og tært rokk og ekki vottur af hipster-pósi sem var ansi hressandi, en ég þoldi samt ekki við mikið lengur en 20 mínútur því mér þykir of vænt um heyrnina mína.

 

Arabískir skalar og gjafir jarðar

 

Plötusnúðurinn KGB var næstur á svið með rokkverkefni sitt sem hann kallar Justman. Hann hafði innlimað ryþmapar Boogie Trouble og Teit úr Ojba Rasta og spilaði nokkuð lágstemmt indígítarpopp nokkuð í anda sveita eins og Pavement. Eitt lagið skar sig þó úr en í því byggði hann á arabískum tónskölum sem var afskaplega vel heppnað. Borko mætti til leiks í félagsskap raftónlistarmannsins Futuregrapher og framleiddi tilraunakennt rafpopp. Þvínæst fóru fjölmenningarnir í Orphic Oxtra á svið og héldu upp balkanskri brúðkaupsstemmningu næsta hálftímann eða svo, áður en reggístórsveitin Ojba Rasta tók við.

 

Ojba Rasta eru óðum að fylla upp í reggítómið sem Hjálmar skyldu eftir sig og stóðu sig með mikilli prýði þetta kvöld, ekki síst í lögunum Gjafir Jarðar og Hreppstjórinn. Heilt yfir var kvöldið mjög vel heppnað og grastorfunar og bekkirnir fyrir framan Húrra mynduðu skemmtilega hátíðarstemmningu þar sem fólk sat, reykti og spjallaði á milli atriða.

 

Kvöld 2

 

Ég byrjaði laugardagskvöldið á rafdúettinum Good Moon Dear, sem spiluðu á Gauknum. Það er Guðmundur Ingi Úlfarsson sem er heilinn á bak við verkefnið en honum til halds og trausts hefur hann trommuleikarann Ívar Pétur úr sveitunum Miri og FM Belfast. Tónlistin stígur einstigi á milli Hip Hop og House og byggir að stórum hluta á hljóðbútum sem eru teygðir og skældir í allar áttir, og minnir mig stundum á taktmeistarann Prefuse 73. Þetta var djassað og spunakennt og greinileg kemestría á milli félaganna á sviðinu.

 

Þvínæst náði ég í skottið á hljómsveitinni Kvöl sem spilaði einhvers konar dauft bergmál af Joy Division, frambærilegt en nokkuð óeftirminnilegt. Low Roar hefur vaxið og dafnað frá því hann vakti fyrst athygli með kassagítardrifnu singer-songwriter poppi, og hefur nú stækkað við sig með gítarleikara, trommara og sérstakan græjumeistara sem spilar bæði á hljómborð, og fokkar í hljóðum hinna í rauntíma. Þá söng Mr. Silla með honum í nokkrum lögum og var stórgóð. Sum af bestu lögunum minna nokkuð á raftónlistartímabil Radiohead, og er það vel.

 

101 Abba

 

Mr. Silla var svo næst á svið með sóló-sett sem var ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt. Frá lágstemmdri trip hop elektróník úr tölvunni yfir í Joplin-lega blúsara þar sem hún spilaði undir á rafmagnsgítar, en undurfögur röddin var alltaf í forgrunni. Benni Hemm Hemm hefur ekki verið mjög áberandi undanfarið svo ég var forvitinn að sjá hvað hann hefði upp á að bjóða á Innipúkanum. Það kom svo sannarlega á óvart, en fyrir utan um 10 manna hljómsveit með slatta af blæstri, var um tugur bakraddasöngvara mættur á sviðið, og hersingin spilaði svo einungis Abba lög. Það var eitthvað skemmtilega kaldhæðið við að sjá rjómann af 101 hipsterum leika Abba lög og áhorfendur tóku við sér og dönsuðu svo um munar.

 

Kvöldið endaði svo eins og hið fyrra, með sjóðheitu reggíi, en að þessu sinni voru það Amaba Dama sem léku fyrir dansinum.

 

Kvöld 3

 

Lokakvöldið hjá mér hófst svo á Markús and the Diversion Session sem spiluðu letilegt 90’s slackerrock af miklu en afslöppuðu öryggi. Þá var flutningur Ólafar Arnalds hugljúfur og blíður en eftir hana var skipt um gír. Þá tók harðsvíraða grúvgengið í Boogie Trouble við keflinu en þau nutu þó aðstoðar Ólafar Arnalds á bakröddum. Þau fönkuðu þakið af húsinu í sjóðheitum hrynhita og dansinn dunaði svo um munaði.

 

Þvínæst kom lokaatriði hátíðarinnar, sjálfur meistari Megas steig á svið með sínum helstu lærisveinum, Grísalappalísu. Lísurnar keyrðu í gegnum helstu lög Megasar af rokna krafti meðan meistarinn lék á alls oddi í flutningnum. Þrátt fyrir að líkamlegt atgervi hans bjóði ekki upp á mikla hreyfingu sá Gunnar Ragnarsson um þá deild af miklu öryggi og hann og Baldur tóku svo undir í bakröddum.

 

Alvöru valkostur

 

Þetta er líklega í 13. skiptið sem Innipúkinn er haldinn um Verslunarmannahelgi og það er ljóst að hann lætur engan bilbug á sér finna eftir allan þennan tíma. Það er nauðsynlegt að hafa valkost við útihátíðir fyrir heimakæra borgarbúa og púkinn í ár stóð fyllilega undir því. Þriggja daga dagskráin var fjölbreytt og bauð upp á ýmis atriði sem maður sér ekki á venjulegum tónleikum í Reykjavík, svo sem Megas með Grísalappalísu og Benna Hemm Hemm syngja Abba lög. Þá skapaði grasi skreytt gatan fyrir framan Gaukinn og Húrra alvöru festivals-stemmningu, en þó ekki útihátíðlega.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Vebeth ýta úr vör tónleikaröð

Fyrstu tónleikar í tónleikaröðinni „Kvöldstund með Vebeth“ verða haldnir föstudaginn 14. mars á Café Ray Liotta á Hverfisgötu. Vebeth er hreyfing tónlistar- og myndlistafólks sem aðhyllist svipaða fagurfræði og hafa m.a gefið út plötur undir merkjum hópsins. Á þessum fyrstu tónleikum koma fram hljómsveitirnar Russian.girls, Pink Street Boys og Two Step Horror en þær tvær fyrrnefndu hafa nýverið gengið til liðs við Vebeth. Tónleikarnir eru opnir öllum sem náð hafa áfengiskaupaaldri og aðgangseyrir er algjörlega ókeypis.

 

Fyrsta atriði á svið er Russian.girls, verkefni Guðlaugs Halldórs Einarssonar úr Captain Fufanu, sem spilar tilraunakennda og rafskotna skynvillutónlist. Þá munu Pink Street Boys spila hávaðarokk undir áhrifum sjöunda og áttunda áratugarins. Hljómsveitin Two Step Horror  endar svo kvöldið en hljómsveitin var stofnuð af Þórði Grímssyni og Önnu Margrét Björnsson fyrir um fimm árum síðan. Nýlega bættust þrír meðlimir við hljómsveitina, þeir Hafsteinn Michael Guðmundsson, Kolbeinn Soffíuson og Baldvin Dungal, en sveitin mun spila á tónlistarhátíðinni Berlin Psych Fest sem á sér stað í apríl þar sem þau munu meðal annars hita upp fyrir bresku „cult“ sveitina The Telescopes. Two Step Horror gefa út sína þriðju breiðskífu nú í vor en hún nefnist Nyctophlia.

 

Kjallarinn á Ray Liotta opnar klukkan 21:00 og klukkutíma síðar hefur Russian.Girls leik, Pink Street Boys fara á svið 23:00 og Two Step Horror slá svo botninn í dagskránna á miðnætti. Þá mun Straumur (Óli Dóri) sjá um skífuþeytingar á milli atriða og einnig að tónleikunum loknum inn í nóttina. Þetta verður einungis fyrsta kvöldið af mörgum en aðrir tónlistarmenn sem tilheyra Vebeth hópnum eru Singapore Sling, Dream Central Station, Rafsteinn, The Go-Go Darkness, The Third Sound, The Blanket of Death, The Dead Skeletons, The Meek ( US), DJ-Musician, Hank & Tank og Evil Madness.

Hér má svo hlusta á tóndæmi með sveitunum.

)
)

Tónleikahelgin 28/11 – 1/12

Fimmtudagur 28. nóvember

Pink Street Boys, Kælan Mikla og Þórir Georg koma fram á ókeypis tónleikum á Dillon klukkan 22:00. 

Hljómsveitin Tilbury fagnar útgáfu plötunnar Northern Comfort með tónleikum í Kaldalóni í Hörpu. Snorri Helgason og hljómsveit hans sjá um upphitun og hefjast tónleikarnir klukkan 20:00 en miðaverð er 2500 kr.

Tónlistarmaðurinn Loji með tónleika á Kex Hostel sem hefjast klukkan 20:30. 

Hljómsveitirnar Grísalappalísa og Logn koma fram á Harlem. Miðaverð er 1000 kr og hefjast tónleikarnir klukkan 22:00.

 

Föstudagur 29. nóvember 

Marcos Cabral, annar helmingur dúósins Runaway mun þeyta skífum á Harlem Bar um upphitun sjá Fknhndsm og Steindor Jonsson

 

Laugardagur 30. nóvember 

Hljómsveitin Sudden Weather Change mun spila í hinsta sinn og fagna lífi sínu, starfi og tímum á Gamla Gauk. Markús & The Diversion Sessions sér um upphitun og það kostar 1000 kr inn. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00. 

Bandaríski söngvarinn Mark Lanegan kemur fram á tónleikum í Fríkirkjunni klukkan 19:45. 

 

Sunnudagur 1. desember

Stórsveit Reykjavíkur heldur árlega jólatónleika sína í Silfurbergi, Hörpu kl. 17. Einsöngvari verður hinn dularfulli og ástæli Bogomil Font en stjórnandi verður Samúel J. Samúelsson. Flutt verður öll tónlistin af hinum vinsæla geisladiski Majonesjól sem kom út 2006 auk nokkurra annarra skemmtilegra jólalaga.

 

Aukatónleikar með Mark Lanegan í Fríkirkjunni sem hefjast klukkan 19:45.