Lokatónleikar á Lunga laugardaginn 18. júlí

SYKUR, Grísalappalísa, Gangly, Reykjavíkurdætur, Sturla Atlas og dj. flugvél og geimskip koma fram á lokatónleikum Lunga sem fara fram á  laugardaginn. LungA fagnar 15 ára afmæli sínu í sumar og munu þessir stórtónleikar setja lokapunktinn á þessa frábæru hátíð. Tónleikasvæðið við gömlu fiskvinnsluna verður ævintýraleg upplifun í sjálfu sér og á sérsmíðuðu sviði LungA munu hljómsveitirnar koma fram

Athugið að miðinn kostar 5.900 kr á tix.is til miðnættis 17. júlí. Eftir að miðasölu lokar á netinu verður einungis hægt að versla miða við hurð á tónleikdardaginn, kostar þá miðinn 6.900 kr.

 

Ariel Pink á Airwaves

Iceland Airwaves tilkynnti í dag um fyrstu listamennina sem koma fram á hátíðinni í nóvember á þessu ári. Þeir erlendu listamenn sem tilkynntir voru í dag eru: Ariel Pink, Batida, BC Camplight, East India Youth, Hinds, Mourn, The OBGMs, Operators, Perfume Genius og Weaves.

Auk þeirra koma fram íslensku listamennirnir: Asonat, dj flugvél og geimskip, Fufanu, GusGus, Júníus Meyvant, Júníus Meyvant, M-band, Pink Street Boys, Teitur Magnússon, Tonik Ensemble, Yagya og Young Karin.

 

Iceland Airwaves 2015 – nr.1 from Iceland Airwaves on Vimeo.

Dagskráin á Sónar Reykjavík klár

Dagskráin fyrir tónlistarhátíðina Sónar Reykjavík er nú tilbúin. Hægt er að skoða hana í heild sinni hér. Alls munu 64 atriði vera á dagskrá á hátíðinni sem fram fer 12. – 14. febrúar í Hörpu. Meðal þeirra eru: Skrillex, Paul Kalkbrenner, SBTRKT, Jamie xx, Todd Terje, TV On the Radio, Kindness, Nina Kraviz, Jimmy Edgar, Elliphant, Ryan Hemsworth, Sophie, Samaris, Mugison, Prins Póló og Sin Fang.

Meðal þeirra sem bætt var við dagskrána í dag eru: Tonik Ensemble, M-Band, Thor, Valgeir Sigurðsson, DJ Flugvél og Geimskip, Lily the Kid, Lord Pusswhip og Hekla Magnúsdóttir.

Hægt er að kaupa miða á hátíðina http://sonarreykjavik.com/en/pg/tickets.

Innipúkinn – Festival í borg

Mynd: Þórir Bogason

Kvöld 1

 

Hátíðin Innipúkinn fór fyrst fram árið 2002 sem einhvers konar svar miðbæjarins við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, og hefur svo verið haldin næstum því ár hvert síðan þá. Í ár fór hátíðin fram á samliggjandi skemmtistöðunum Húrra og Gauknum og til að undirstrika hátíðarbraginn var götunni fyrir framan þá lokað og settar grastorfur og bekkir fyrir framan. Aðaltónleikarnir mætti segja að hafi verið á Húrra þar sem var blönduð dagskrá, en á Gauknum var fókus á sérstaka tónlistarafkima á hverju kvöldi, hart rokk á föstudegi, raftónlist á laugardeginum og rapp á síðasta kvöldinu.

 

Dj Flugvél og Geimskip var að koma sér fyrir þegar ég mætti á Húrra og krúttlegið hljómborðspoppið fór vel í áhorfendur sem fjölgaði ótt í salnum eftir því sem leið á tónleikana. Ég yfirgaf þó Geimskipið til að tónlistarlega andstæðu þess, Pink Street Boys sem spiluðu á Gauknum. Þar voru öllu færri en þemað á Gauknum þetta kvöldið var rokk í harðari kantinum. Pink Street Boys spiluðu harða, hraða og fasta blöndu af pönki og garage-rokki sem reif í hljóðhimnuna á yfirgengilegum hljóðstyrk. Þetta var hreint og tært rokk og ekki vottur af hipster-pósi sem var ansi hressandi, en ég þoldi samt ekki við mikið lengur en 20 mínútur því mér þykir of vænt um heyrnina mína.

 

Arabískir skalar og gjafir jarðar

 

Plötusnúðurinn KGB var næstur á svið með rokkverkefni sitt sem hann kallar Justman. Hann hafði innlimað ryþmapar Boogie Trouble og Teit úr Ojba Rasta og spilaði nokkuð lágstemmt indígítarpopp nokkuð í anda sveita eins og Pavement. Eitt lagið skar sig þó úr en í því byggði hann á arabískum tónskölum sem var afskaplega vel heppnað. Borko mætti til leiks í félagsskap raftónlistarmannsins Futuregrapher og framleiddi tilraunakennt rafpopp. Þvínæst fóru fjölmenningarnir í Orphic Oxtra á svið og héldu upp balkanskri brúðkaupsstemmningu næsta hálftímann eða svo, áður en reggístórsveitin Ojba Rasta tók við.

 

Ojba Rasta eru óðum að fylla upp í reggítómið sem Hjálmar skyldu eftir sig og stóðu sig með mikilli prýði þetta kvöld, ekki síst í lögunum Gjafir Jarðar og Hreppstjórinn. Heilt yfir var kvöldið mjög vel heppnað og grastorfunar og bekkirnir fyrir framan Húrra mynduðu skemmtilega hátíðarstemmningu þar sem fólk sat, reykti og spjallaði á milli atriða.

 

Kvöld 2

 

Ég byrjaði laugardagskvöldið á rafdúettinum Good Moon Dear, sem spiluðu á Gauknum. Það er Guðmundur Ingi Úlfarsson sem er heilinn á bak við verkefnið en honum til halds og trausts hefur hann trommuleikarann Ívar Pétur úr sveitunum Miri og FM Belfast. Tónlistin stígur einstigi á milli Hip Hop og House og byggir að stórum hluta á hljóðbútum sem eru teygðir og skældir í allar áttir, og minnir mig stundum á taktmeistarann Prefuse 73. Þetta var djassað og spunakennt og greinileg kemestría á milli félaganna á sviðinu.

 

Þvínæst náði ég í skottið á hljómsveitinni Kvöl sem spilaði einhvers konar dauft bergmál af Joy Division, frambærilegt en nokkuð óeftirminnilegt. Low Roar hefur vaxið og dafnað frá því hann vakti fyrst athygli með kassagítardrifnu singer-songwriter poppi, og hefur nú stækkað við sig með gítarleikara, trommara og sérstakan græjumeistara sem spilar bæði á hljómborð, og fokkar í hljóðum hinna í rauntíma. Þá söng Mr. Silla með honum í nokkrum lögum og var stórgóð. Sum af bestu lögunum minna nokkuð á raftónlistartímabil Radiohead, og er það vel.

 

101 Abba

 

Mr. Silla var svo næst á svið með sóló-sett sem var ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt. Frá lágstemmdri trip hop elektróník úr tölvunni yfir í Joplin-lega blúsara þar sem hún spilaði undir á rafmagnsgítar, en undurfögur röddin var alltaf í forgrunni. Benni Hemm Hemm hefur ekki verið mjög áberandi undanfarið svo ég var forvitinn að sjá hvað hann hefði upp á að bjóða á Innipúkanum. Það kom svo sannarlega á óvart, en fyrir utan um 10 manna hljómsveit með slatta af blæstri, var um tugur bakraddasöngvara mættur á sviðið, og hersingin spilaði svo einungis Abba lög. Það var eitthvað skemmtilega kaldhæðið við að sjá rjómann af 101 hipsterum leika Abba lög og áhorfendur tóku við sér og dönsuðu svo um munar.

 

Kvöldið endaði svo eins og hið fyrra, með sjóðheitu reggíi, en að þessu sinni voru það Amaba Dama sem léku fyrir dansinum.

 

Kvöld 3

 

Lokakvöldið hjá mér hófst svo á Markús and the Diversion Session sem spiluðu letilegt 90’s slackerrock af miklu en afslöppuðu öryggi. Þá var flutningur Ólafar Arnalds hugljúfur og blíður en eftir hana var skipt um gír. Þá tók harðsvíraða grúvgengið í Boogie Trouble við keflinu en þau nutu þó aðstoðar Ólafar Arnalds á bakröddum. Þau fönkuðu þakið af húsinu í sjóðheitum hrynhita og dansinn dunaði svo um munaði.

 

Þvínæst kom lokaatriði hátíðarinnar, sjálfur meistari Megas steig á svið með sínum helstu lærisveinum, Grísalappalísu. Lísurnar keyrðu í gegnum helstu lög Megasar af rokna krafti meðan meistarinn lék á alls oddi í flutningnum. Þrátt fyrir að líkamlegt atgervi hans bjóði ekki upp á mikla hreyfingu sá Gunnar Ragnarsson um þá deild af miklu öryggi og hann og Baldur tóku svo undir í bakröddum.

 

Alvöru valkostur

 

Þetta er líklega í 13. skiptið sem Innipúkinn er haldinn um Verslunarmannahelgi og það er ljóst að hann lætur engan bilbug á sér finna eftir allan þennan tíma. Það er nauðsynlegt að hafa valkost við útihátíðir fyrir heimakæra borgarbúa og púkinn í ár stóð fyllilega undir því. Þriggja daga dagskráin var fjölbreytt og bauð upp á ýmis atriði sem maður sér ekki á venjulegum tónleikum í Reykjavík, svo sem Megas með Grísalappalísu og Benna Hemm Hemm syngja Abba lög. Þá skapaði grasi skreytt gatan fyrir framan Gaukinn og Húrra alvöru festivals-stemmningu, en þó ekki útihátíðlega.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Útgáfutónleikar Krakkbot

Plötufyrirtækið Lady Boy Records stendur fyrir útgáfutónleikum plötunnar Amateur Of The Year. Crammed With Cock með raftónlistarmanninum KRAKKBOT. Platan er fimmta útgáfa Lady Boy Records sem fagna henni með útgáfutónleikum á Húrra á föstudaginn. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 22:00 en ásamt KRAKKBOT munu dj. flugvél og geimskip og Pyrodulia koma fram. Aðgangseyrir er 500 krónur.

Platan Amateur Of The Year. Crammed With Cock kom út þann 30. apríl í 50 eintökum á fallega skreyttum kassettum auk þess sem hægt er að nálgast hana stafrænt á Bandcamp síðu Lady Boy Records.

Lady Boy Records 004

Útgáfufyrirtækið Lady Boy Records sem stofnað var í fyrra gaf í gær út sína aðra  safnplötu Lady Boy Records 004. Að plötuútgáfunni standa þeir Frímann Ísleifur Frímannsson og Nicolas Kunysz og kom safnplatan út á kassettu í 50 eintökum. Fist Fokkers, AMFJ, Dj. Flugvél og geimskip eiga lög á plötunni ásamt fleirum. Hlustið hér fyrir neðan

Fyrstu listamennirnir tilkynntir á Aldrei fór ég Suður

Ellefta Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 18. og 19. apríl næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag fyrstu listamennina sem koma fram í ár. Þeir eru:

★ MAUS
★ Retro Stefson
★ Cell 7
★ Mammút
★ Grísalappalísa
★ Tilbury
★ DJ flugvél og geimskip

Tónleikar helgarinnar

Fimmtudagur 29. ágúst

 

Re-pete and the Wolfmachine, Dýrðin og Sindri Eldon and the Way spila á ókeypis tónleikum á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Ástralski tónlistarmaðurinn Ben Salter spilar á Loft Hostel. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.

 

Söngvaskáldin Skúli Mennski og Svavar Knútur koma saman á Gamla Gauknum og syngja lögin sín. Húsið opnar kl. 20. Það verður góð blanda af hlýju og gleði og hressileika. Samningaviðræður standa yfir við sérstakan leynigest sem mögulega kæmi og tæki lagið.

 

Snorri Helgason heiðrar gesti Café Flóru með nærveru sinni. Húsið opnar kl 20 og er frítt inn.

 

eclectic electronic music party, # 3 á Harlem. Fram koma Captain Fufanu, Two Step Horror, AMFJ og pál vetika (USA) ásamt Hallfríði Þóru. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 500 kr inn.

Brother Grass með tónleika á Rósenberg tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og það kostar 2000 kr inn.

 

 

Föstudagur 30. ágúst

Eitthvað lítið að gerast þennan föstudag?

 

 

Laugardagur 31. ágúst

Of Monsters And Men spila á stórtónleikum við Vífilstaði í Garðabæ

Dagskrá:

17:00 Túnið opnar

18:00 Hide Your Kids

18:30 Moses Hightower

19:30 Mugison

20:40 Of Monsters and Men

22:00 Lok.

 

 

Grúska Babúska – ásamt Cheek Mountain Thief, Caterpillarmen, Low Roar og dj. flugvél og geimskip – heldur tónleika í húsi Hrafns Gunnlaugssonar kvikmyndagerðarmanns, á Laugarnestanga 65. Viðburðurinn hefst kl. 17.00 á laugardeginum og stendur fram eftir kvöldi. Grillaðar verða pulsur á staðnum og drykkjarveigar verða í boði á sanngjörnu verði fyrir þyrsta. Hlé verður tekið á dagskránni til að kveikja í brennu um 8 leytið og mun brennan loga fram yfir sólsetur, sem áætlað er kl. 20:47! Dagskráin heldur svo áfram eftir það.

 

Enska rokksveitin Esben & the Witch mun koma fram á tónleikum á skemmtistaðnum Harlem klukkan 22:00. Um upphitun sjá Good Moon Deer og Stroff. Miðasala fer fram á miða.is og í verslunum Brim. Það kostar 2000 krónur inn og miðar munu einnig fást við hurðina.

 

 

Tónleikar helgarinnar

 

Miðvikudagur 3. júlí


Hljómsveitirnar Nóra, Boogie Trouble og dj. flugvél og geimskip spila á Faktorý. Efri hæð opnar kl. 21:00, tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og það kostar litlar 1000 kr. inn.

 

Birgir Örn Steinarsson eða Biggi í Maus flytur safn laga af væntanlegri breiðskífu sinni á Loft Hostel. Auk þeirra verða leikin eldri lög úr höfundaverki Maus, Krónu og fleira í nýjum útsetningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

 

Fimmtudagur 4. júlí

 

Hin árlega götuhátíð Jafningjafræðslunnar verður haldin á Austurvelli frá 14:00 til 16:00. Á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru Elín Ey, 12:00, Haffi Haff og Kjurr.

 

Hljómsveitin Blágresi ásamt Einari Má Guðmundssyni halda tónleika á Café Flóru í Grasagarðinum. Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Ragnar Árni og val kyrja munu hita upp.

 

Bandaríska skógláps bandið Mice Parade spilar á Faktory. Um upphitun sjá Nini Wilson, Kría, Bob Justman og Snorri Helgason. Miðaverð eru 1500 kr. og fer miðasalan fram við hurð. Húsið opnar 21.00 og fjörið byrjar einhvern tíma eftir það.

 

Tónleikar á café haiti með The Bangoura Band kl: 21.00 kostar 1.000 kr inn.

 

KRAKKBOT og ENKÍDÚ spila á sumartónleikaröð Bíós Paradísar í anddyri bíósins kl. 22:00 og það er ókeypis aðgangur!

 

Rauðhærði rafgeggjarinn Hermigervill spilar á Boston í kvöld í boði Funkþáttarins. Það er orðið langt um liðið síðan gervillinn spilaði síðast á landinu þannig enginn ætti að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. Tónleikarnir hefjast á slaginu 23:00 og aðgangseyrir er enginn. Fyrir þá sem eiga ekki heimangengt verða tónleikarnir í beinni útsendingu funkþáttarins á X-inu 977.

 

Danska kráin stendur fyrir tónleikahátíð til heiðurs Hróaskelduhátíðinni 4-7 júlí og er FRÍTT inn alla helgina. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 White Signal
19:15 Ferja
20:30 Yellow void
21:45 Kjurr

 

KEX Hostel stendur fyrir hátíðinni KEX Köntrí alla helgina þar sem bandarískri menningu verður fagnað með mat og tónlist frá Tennessee og Kentucky. Í kvöld er dagskráin þessi:
20:00 – Ryan MacGrath (CA)
21:00 – Brother Grass (IS)

 

 

Föstudagur 5. júlí

 

Tónleikar til heiðurs minningu og lífs Björns Kolbeinssonar, hann var einnig þekktur sem Bjössi Skáti og stundum sem El Buerno. Hann spilaði á bassa og gítar í hljómsveitunum Skátar, Petrograd og Boltrope og þótti oft fara framar öðrum í óbeislaðri sviðsframkomu og spilagleði. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn til Kvennaathvarfsins. Fram koma:
Bloodgroup
Grísalappalísa
Jan Mayen
Sigtryggur Berg Sigmarsson
Skátar & vinir Bjössa úr kimono & Bloodgroup

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

19:00 Lame Dudes
20:15 Brimlarnir
21:30 Distort City
22:45 Stafrænn Hákon

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Hudson Wayne (IS)

21:00 – Blágresi (IS)

 

Laugardagur 6. júlí

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

20:15 Momentum
21:30 We made god
22:45 Mammút

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Illgresi (IS)

21:00 – Lambchop (US)

 

 

Sunnudagur 7. júlí


Bandaríska jaðarkántrísveitin Lambchop mun enda Evróputónleikaferð sína með tónleikum í Iðnó. Lay Low mun einnig koma fram á tónleikunum. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og standa til miðnættis. Miðasala fer fram á www.midi.is og kostar 3990 kr inn.

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 Hjalti Þorkelsson
19:15 Trausti Laufdal
20:30 Myrra Rós
21:45 Bellstop