Airwaves yfirheyrslan – Sindri Eldon

Sindri Eldon hefur reynslu af Iceland Airwaves bæði sem blaðamaður fyrir Reykjavík Grapevine og sem tónlistarmaður með hljómsveitunum Dáðadrengjum, Dynamo Fog og Sindra Eldon & The Ways. Við spjölluðum við Sindra um hátíðina.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Að spila með Dáðadrengjum á Airwaves 2003. Ég svona semi vissi hvaða hátíð þetta var fyrir það, en vissi ekkert að þetta væri eitthvað mikið mál. Ég var sautján ára og nýbyrjaður að drekka (ég blómstraði seint), og svo allt í einu var ég á NASA að opna fyrir Quarashi fyrir framan fullan sal af útlendingum. Það var ýkt kúl, eins og maður sagði gjarnan 2003.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Uuu, 2003, 2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og svo núna 2013, með ýmsum hljómsveitum, þannig að þær verða tíu allt í allt.

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Ekkert stendur upp úr í fljótu bragði.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Sindri Eldon & the Ways í fyrra. Við vorum með svo geðveikt slot, maður! Hálftvö á laugardagsnótt, Amsterdam smekkfullt af blindfullu fólki í góðum fílíng, við í geðveiku formi, tókum klukkutímasett eins og einhvers konar goð meðal manna. Nei djók. Eða þú veist samt ekki djók, við vorum ógeðslega góðir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin? 

Veitekki… hún var fyrst bara einhver svona vonlaus íslendinga-ófagmennska þar sem við vorum reddandi öllu með því að plögga dóti með lánum og loforðum. Svo varð þetta að einhverju svona kúl thing, þökk sé Sjálfstæðisflokknum og Dóra Ásgríms. Matadorpeningarnir flæddu óheflaðir um æðar efnahagsins, og stóru nöfnin byrjuðu að mæta. Síðan pompaði náttúrulega botninn undan öllu því hérna um árið, og hátíðin var mjög lágstemmd í nokkur ár, bara íslensk númer og einhverjir desperate útlendingar. Síðan þá er Airwaves búin að skríða aftur inn í ágætis sess, sem eitthvað svona fyrir-hruns-revival-fyrirbæri, aðallega þökk sé kvikmyndaiðnaðnum, og stóru nöfnin byrjuð að mæta aftur. The sky’s the limit!

 

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Finnst þeir allir alveg ýkt lélegir á heimsmælikvarða. Allir bestu staðirnir eru off-venue. Fuck the system!

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Úff, ég veit ekki… það eru alltaf einhverjir typpatrúðar ráfandi um röflandi um hvað Ghostigital eða Bloodgroup eða Reykjavík! eða einhverjir hafi verið svo geðveikir, maður er löngu hættur að taka mark á þessu.

 

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Hvort sem þú talar ensku eða íslensku við salinn, ekki útskýra af hverju þú ert að tala íslensku/ensku. Öllum er sama, fíflið þitt. Ekki biðja fólk um að koma nær sviðinu, ekki láta fólk klappa í takt, ekki segja okkur um hvað lögin eru, ekki reyna að vera fyndinn, ekki reyna að púlla íslenskan aulahúmor á útlendingana, ekki tala um hversu fullur/þunnur þú ert… bara ekki fokking vera óþolandi fáviti talandi um ömurlegt kjaftæði. Mér er alveg sama hversu lengi ég beið í röð eftir að sjá bandið þitt, ef ég heyri þig segja sögu af því hvernig lagið þitt var samið meðan bassaleikarinn var með flensu eða eitthvað svoleiðis, ég fokking grýti þig með glerflösku. Haltu fokking kjafti.

 

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Neinei, finnst bara best að ráfa milli venuea að sjá hvað fólk hefur upp á að bjóða.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Hún er mjög gott showcase fyrir það besta sem íslensk tónlist hefur upp á að bjóða. Öll böndin gera sitt besta til að vera kúl fyrir útlendingana, og það er bara rokk.

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir? 

Engin.

 

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

U, ég held við höfum verið með tíu gigg allt í allt 2011, og við þurftum að afbóka eitt þeirra. Síðan þá höfum við farið aðeins varlegara í að bóka off-venue gig.

 

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Ekki gott að segja… þær hafa verið mjög hressar margar hverjar.

 

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo. Ég hef séð Kraftwerk tvisvar, og þetta er bara ljósashow með góðri tónlist. Ég veit ekki hversu lífleg YLT eru, en þau hljóta að vera meiri spennandi að horfa á en Kraftwerk.

 

 

Listasafnið eða Harpa?

Fokking hvorugt. Sportbarinn í Ármúla.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Sindri Eldon & the Ways! www.facebook.com/events/1392415404323527

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Rokk í smettið!

Tónleikar helgarinnar

Fimmtudagur 29. ágúst

 

Re-pete and the Wolfmachine, Dýrðin og Sindri Eldon and the Way spila á ókeypis tónleikum á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Ástralski tónlistarmaðurinn Ben Salter spilar á Loft Hostel. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.

 

Söngvaskáldin Skúli Mennski og Svavar Knútur koma saman á Gamla Gauknum og syngja lögin sín. Húsið opnar kl. 20. Það verður góð blanda af hlýju og gleði og hressileika. Samningaviðræður standa yfir við sérstakan leynigest sem mögulega kæmi og tæki lagið.

 

Snorri Helgason heiðrar gesti Café Flóru með nærveru sinni. Húsið opnar kl 20 og er frítt inn.

 

eclectic electronic music party, # 3 á Harlem. Fram koma Captain Fufanu, Two Step Horror, AMFJ og pál vetika (USA) ásamt Hallfríði Þóru. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 500 kr inn.

Brother Grass með tónleika á Rósenberg tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og það kostar 2000 kr inn.

 

 

Föstudagur 30. ágúst

Eitthvað lítið að gerast þennan föstudag?

 

 

Laugardagur 31. ágúst

Of Monsters And Men spila á stórtónleikum við Vífilstaði í Garðabæ

Dagskrá:

17:00 Túnið opnar

18:00 Hide Your Kids

18:30 Moses Hightower

19:30 Mugison

20:40 Of Monsters and Men

22:00 Lok.

 

 

Grúska Babúska – ásamt Cheek Mountain Thief, Caterpillarmen, Low Roar og dj. flugvél og geimskip – heldur tónleika í húsi Hrafns Gunnlaugssonar kvikmyndagerðarmanns, á Laugarnestanga 65. Viðburðurinn hefst kl. 17.00 á laugardeginum og stendur fram eftir kvöldi. Grillaðar verða pulsur á staðnum og drykkjarveigar verða í boði á sanngjörnu verði fyrir þyrsta. Hlé verður tekið á dagskránni til að kveikja í brennu um 8 leytið og mun brennan loga fram yfir sólsetur, sem áætlað er kl. 20:47! Dagskráin heldur svo áfram eftir það.

 

Enska rokksveitin Esben & the Witch mun koma fram á tónleikum á skemmtistaðnum Harlem klukkan 22:00. Um upphitun sjá Good Moon Deer og Stroff. Miðasala fer fram á miða.is og í verslunum Brim. Það kostar 2000 krónur inn og miðar munu einnig fást við hurðina.

 

 

Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 31. 7

Hljómsveitin Grísalappalísa ætlar að blása til veislu á tónleikastaðnum Faktorý vegna nýútkominnar plötu sinnar, ALI. Með Grísalappalísu verða Ojba Rasta og DJ Flugvél og Geimskip. Húsið opnar 21:00. Það kostar 1000 krónur inn, eða 3000 krónur og fyrsta plata Grísalappalísu, ALI, fylgir með. 

 

 

Fimmtudagur 1. 8

Frumsýninga á heimildamyndinni um kvennapönkhljómsveitina Pussy Riot kl 19:30. Kvennapönkhljómsveitin Viðurstyggð mun hita allhressilega upp og léttar veitingar verða í boði frá kl 19:30, en myndin hefst á slaginu kl 20:00. Hægt er að tryggja sér miða á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða á frumsýninguna í miðasölu Bíó Paradís en hún er opin daglega frá kl 17.

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einnig að koma fram. Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Upphitun fyrir Innipúkann á Kex klukkan 21:00. Samaris leika fyrir gesti og hægt verður að kaupa armbönd á hátíðina sjálfa.

Myrra Rós og Elín Ey spila á tónleikum á Café Rósenberg klukkan 21. 1000 krónur inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Treisí spila á Dillon klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Bíó Paradís heldur áfram að bjóða upp á sumartónleika, en þetta verða þeir síðustu í bili og verða þeir því í stóra sal hússins og hefst tónlistin klukkan 22:00. Samaris og Arnljótur koma fram.

 

 

Föstudagur 2. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í tólfta skipti í Reykjavík um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2013 teygir sig yfir tvo daga og fer fram föstudags- og laugardagskvöld, dagana 2. og 3. ágúst. Hátíðin í ár fer fram á Faktorý. það kostar 3000 fyrir eitt kvöld en 4900 fyrir bæði kvöldin.

Föstudagur:
Gísli Pálmi
Valdimar
Steed Lord
Prins Póló
Skelkur í bringu

 

 

Thule kynnir útihátíð í bakgarðinum á Dillon um Verslunarmannahelgina. Verð fyrir eitt kvöld 2500 en 4500 fyrir þrjú kvöld. Dagskrá föstudags:

Dagskrá föstudags
21:00-22:00 Botnleðja
20:00-20:45 Leaves
19:15-19:45 Johnny And The Rest
18:30-19:00 Thingtak
17:45-18:15 Alchemia
17:00-17:30 Jósef “Elvis” Ólason/Grillveisla

 

 

 

Laugardagur 3. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn heldur áfram á Faktory.

Laugardagur: 

Botnleðja
Geiri Sæm
Ylja
Agent Fresco
Grísalappalísa

 

Rykkrokk hátíð í Fellagörðum verður sérstakt off venue á Innipúkanum í ár. Rykkrokk var síðast haldið 1995 og verður dagskráin klæðskerasniðin nútímanum með nostalgísku ívafi. Allir sem koma fram hafa sterka tengingu við Breiðholtið:
-Langi Seli og Skuggarnir
-Prins Póló
-Gríspalappalísa
-Tanya & Marlon
-Samaris
Frítt inn! og innipúkar úr öllum hverfum Reykjavíkur hvattir til að koma uppí Fellagarða.Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Blaz Roca
20:00-20:45 Vintage Caravan
19:15-19:45 Sindri Eldon & The Ways
18:30-19:00 The Wicked Strangers
17:45-18:15 Rekkverk
17:00-17:30 Grillveisla
Sunnudagur 4. 8

 

Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Brain Police
20:00-20:45 Dimma
19:15-19:45 Esja
18:30-19:00 TBA
17:45-18:15 Herbert Guðmundsson
17:00-17:30 Grillveisla

Tónleikar vikunnar

Þriðjudagur 16. júlí

R&B stórstjarnan Frank Ocean heldur tónleika í  Laugardalshöll. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það kostar 8.900 kr í stæði og 13900 í stúku, enn er hægt að kaupa miða á midi.is

Stroff, Skelkur í bringu og Sindri Eldon spila á neðri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Á jazzkvöldi KEX kemur fram kvartett kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Samuel J. Samúelsson á básúnu og slagverk og Sigtryggur Baldursson á conga trommur. Tónlistin hefst kl. 20:30 og stendur í u.þ.b. 2 klst., með hléi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis

 

Miðvikudagur 17. júlí

Hjómsveitin Chic undir styrkri handleiðslu stofnandans Nile Rodgers mun koma fram á tónleikum í Silfurbergi Hörpu. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sisi Ey munu opna kvöldið sem hefst klukkan 21:00. Enn er hægt að kaupa miða á midi.is og kostar 8.500 kr inn.

Raftónlistarpartý á Harlem -Tvíeykið MRC Riddims frá New York [nánar tiltekið Harlem] leikur á tónleikum á nýopnuðum innri sal Harlem (áður Volta). Ghostigital, AMFJ og Lord Pusswhip spila einnig í partíinu og Berglind Ágústsdóttir kemur sérstaklega fram með sín eigin lög í miðju setti MRC Riddims. Partýið stendur frá 22:00 – 01:00 og kostar 1000 kr. inn.

Ylja, Hymnalaya og Stormur halda tónleika á efri hæð Faktorý sem hefjast klukkan 22:00. Það kostar 1500 kr inn.

 

 

Fimmtudagur 18. júlí

Hljómsveitin Boogie Trouble spilar ljóðrænan diskó í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum kl 17:00.

NÆNTÍS VEIZLA í boði Sindra Eldon á Harlem Bar: TREISÍ, JÓN ÞÓR og SINDRI ELDON & THE WAYS koma fram auk þess sem Sindri mun Dj-a til lokunnar.

Gítarveisla í Bíó Paradís en þar stíga á stokk hljómsveitirnar Stroff, Skelkur í Bringu, Bárujárn og Dreprún. Tónleikarnir hefjast 22:00 og er frítt inn.

Sign og We Made God spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 2000 kr inn.

 

 

Föstudagur 19. júlí

Hljómsveitin Hymnalaya hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, „Hymns“. Sveitin ætlar að fagna því með léttum ókeypis tónleikum í 12 Tónum á Skólavörðustíg sem hefjast klukkan 17:30.

Moses Higtower og 1860 spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það kostar 1500 kr inn.

 

 

Laugardagur 20. júlí

KEX Hostel, KEXLand og bandaríska útvarpsstöðin KEXP ætla að bjóða öllum á útitónleikana KEXPORT við Kex Hostel laugardaginn 20. júlí næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í portinu við Kex Hostel og hefjast kl. 12 á hádegi og lýkur um miðnætti. Alls munu 12 hljómsveitir koma fram á klukkutímafresti á þessum maraþon tónleikum. Fram koma: BABIES // BOOGIE TROUBLE // HJALTALÍN // KIPPI KANINUS // LOJI // MOSES HIGHTOWER // MUCK // NOLO // SAMÚEL J SAMÚELSSON BIG BAND // SÍSÍ EY // SYKUR //

 

Hjaltalín heldur tónleika á Faktorý, laugardagskvöldið 20. júlí. Um upphitun sér hljómsveitin Japam. Húsið opnar klukkan 22 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22:45. Miðasala fer eingöngu fram við hurð og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

 

 

 

 

 

Tónleikar helgarinnar

 

Fimmtudagur 18. apríl

Hljómsveitirnar Casio Fatso, Japanese Super Shift and the Future Band og Sindri Eldon & The Ways sjá um menningarlega fræðslu lýðsins á Stúdentakjallarnum.  Fyrsta band á svið kl 22:30 og aðgangur ókeypis

 

Heiladans 23 fer fram á Litlu Gulu Hænunni COLD / JÓNBJÖRN / VÖK / SKENG spila og aðgangur er ókeypis.

 

 

Föstudagur 19. apríl

 

Ste Mccabe tónlistarmaður frá Liverpool og hljómsveitin Klikk sem inniheldur meðal annars meðlimi hljómsveitanna Logn og Swords Of Chaos halda tónleika á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er frítt inn.

 

Laugardagur 20. apríl

 

Alþjóðlegi plötubúðadagurinn (International Record Store Day) verður haldinn hátíðlegur í 6. skipti. Í Lucky Records á Rauðarárstíg verður nóg um að vera og tónlistarmenn og DJ’ar munu halda uppi stuðinu frá opnun til lokunar.

12:00 – Þórir Georg

12:30 – DJ sett

14:00 – Monotown

14:30 – DJ Andri Freyr

16:00 – Samúel Jón Samúelsson Big Band

17:00 – Robert and the Roomates

17:30 – DJ sett

 

Mugison spilar á Tískudögum í Smáralind klukkan 14:00.

 

Hljómsveitirnar Plastic Gods, The Heavy Experience, Tundra og Godchilla halda heljarinnar tónleika á Volta, Tryggvagötu 22. Húsið opnar klukkan 21:00 og tónleikarnir byrja um 22:00. Aðgangseyrir 1000 kr.

 

 

Tónleikadagskráin 11.-13. apríl

Helgin hefst snemma að venju á straum.is sem af einskærri góðmennsku og útsjónarsemi leiðbeinir lesendum sínum um það helsta í tónleikalandslagi helgarinnar.

Fimmtudagur 11. apríl

Grísalappalísa, Oyama og Nolo boða til hljómleika á skemmtistaðnum Volta. Grísalappalísa er ný viðbót í tónlistarflóru höfuðborgarsvæðisins en forsprakki hennar, Gunnar Ragnarsson, var áður söngvari Jakobínurínu. Sveitin gaf út sitt fyrsta lag, Lóan er komin, á dögunum sem er ólgandi pönkfönkaður nýbylgjusmellur af bestu gerð. Fyrsta breiðskífa þeirra kemur út von bráðar á vegum 12 tóna og lofar sveitin því að hún muni valda miklum usla í tilfinningalífi landans. Tilraunapoppsveitin Nolo gaf nýverið frá sér EP plötuna Human á bandcamp og ómstríðu óhljóðabelgirnir í Oyama hafa verið iðnir við kolann í tónleikahaldi undanfarið. Þá lofa tónleikahaldarar að leynigestur muni koma fram og eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að skýra frá því hver hann er. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar einn þúsara inn.

 

Ólöf Arnalds ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og heldur útgáfutónleika fyrir sína nýjustu plötu, Sudden Elevation, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Platan var tekin upp á tveimur vikum haustið 2011 í sumarbústað í Hvalfirðinum en Skúli Sverrisson stjórnaði upptökum. Húsið opnar klukkan 21:00, tónleikarnir hefjast 21:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Wireless tónleikasería tónlistarveitunnar Gogoyoko heldur áfram í kvöld þegar Borko stígur á stokk á Kex Hostel. Hann kemur fram ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara en á næstunni heldur hann í tónleikaferð um Evrópu og ætti því að vera í keppnisformi á kexinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og 1500 krónur veita aðgöngu að gleðinni.

 

Snorri Helgason hefur undanfarin tvö ár komið fram með Mr. Sillu, Guðmundi Óskari úr Hjaltalín og Magnúsi Elíasen trommara (sem er í of mörgum hljómsveitum til að ég muni þær) á tónleikum en þau hafa nú stigið skrefið til fulls og stofnað The Snorri Helgason Band. Þau eru nú að vinna í sinni fyrstu plötu undir því nafni og ætla að prufukeyra nýja efnið á Faktorý. Einnig koma fram Mr Silla og Pétur Ben sem hlaut einróma lof fyrir sína nýjustu plötu, God’s Lonely Man. Tónleikarnir hefjast 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Föstudagur 12. apríl

Á Kex Hostel verður slegið upp tónleikum í tilefni af því að 83 dagar eru til festivalsins á Rauðasandi. Fjórar hljómsveitir sem munu spila á hátíðinni ætla að taka forskot á sæluna en þær eru: Boogie Trouble, Nolo, Hljómsveitt og Hymnalaya. Aðgangur er ókeypis og jafnframt munu þeir fyrstu þyrstu til að mæta fá ókeypis glaðning í gleri en herlegheitin hefjast 20:30. Þá munu aðstandendur Rauðsandsfestivalsins kynna fyrirkomulag hátíðarinnar og miðasölu.

 

Undiraldan heldur sínu striki í Hörpunni en á föstudaginn koma fram Vök, sigursveit músíktilrauna, og tónlistar- og myndlistarkonan Berglind Ágústsdóttir. Tónleikarnir hefjast stundvíslega 17:30 og aðgangur er sem fyrr ókeypis en vakin skal athygli á því að í þetta skiptið eru tónleikarnir haldnir á Kolabrautinni á fjórðu hæð hússins, en ekki í Kaldalónssalnum.

 

Leaves, Stafrænn Hákon og Monotown slá upp tónleikaveislu á Volta en í tilkynningu frá þeim kemur fram að á viðburðinum verði kafað djúpt ofan í hyldýpi og áður óþekktar tíðnir kannaðar. Þá séu Leaves með nýtt efni í bígerð og að nýjasta plata Stafræns Hákons hafi verið tekin upp með höfuðið í hanskahólfi Massey Ferguson gröfu. Hvort að grafan verði með á sviðinu á Volta kemur ekki fram en þetta hljómar óneitanlega spennandi. Húsið opnar 21:00 og miðaverð er 1500 krónur.

 

Rvk Soundsystem láta engan bilbug á sér finna og halda áfram með fastakvöld sín á Faktorý þar sem þeir leika reggí, dancehall og dub fyrir dansþyrsta eyjarskeggja. Gestasnúður kvöldsins er Dj Cyppie og gestir eru hvattir til að brenna niður Babýlon og dansa af sér skónna. Að venju er senan í hliðarsal Faktorý, plötusnúðarnir hefja gleðina rétt fyrir miðnætti og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Á efri hæð Faktorý verða tónleikar til styrktar Regnbogabörnum, samtökum sem berjast gegn einelti. Fram koma Fm Belfast, Prins Póló, Úlfur Úlfur, Kjurr og sigursveit músíktilrauna, Vök. Aðgangseyrir er 1500 krónur og rennur óskiptur til Regnbogabarna.

Laugardagur 13. apríl

Á Bar 11 verður haldið ROKKFEST 2013 þar sem sex þekktar og minna þekktar rokksveitir koma fram. Á fb-síðu viðburðarins kemur fram að nóg sé komið af poppi og metal og Rokkfestið sé fyrsta skrefið í yfirvofandi upprisu rokksins. Þær sveitir sem hafa boðað koma sína eru Mammút, Sindri Eldon & The Ways, Japanese Super Shift and the Future Band, Dorian Gray, Treisí og Casio Fatso. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Spy Kids 3D munu koma og spila tryllt indí pönk fyrir rokkþyrsta geðsjúklinga á Dillon.

Það verður þungur laugardagur í Lucky Records plötubúðinni á Rauðarárstígnum en þar munu harðkjarnasveitirnar Muck, In The Company of Men og Klikk leika fyrir slammi en hljómleikarnir hefjast klukkan 15:00. Aðgangur er ókeypis en straumur mælir með því að fólk styrki þessa stórgóðu plötubúð með vínilkaupum.

 

Á  Rósenberg verða tónleikar með Krístjáni Hrannari, Smára Tarf og Þoku. Kristján mun spila lög af fyrstu sólóplötu sinni sem kemur út í sumar. Leikar hefjast kl 21:00 og það kostar 1500 krónur inn

Á Gamla Gauknum munu leiða saman hesta sína hljómsveitirnar Momentum og Kontinuum. Sérstakir gestir verður hljómsveitin We Made God. Tónleikarnir hefjast kl 23:00 en húsið opnar 21:00. Aðgangseyrir eru 1500 kr.

Tónleikadagskrá helgarinnar

Fimmtudagur 14. mars

Hljómsveitin Bloodgroup gaf nýverið út sína þriðju plötu, Tracing Echoes. Af því tilefni blæs sveitin til heljarinnar útgáfutónleika í Iðnó. Hægt er að kaupa miða hér: http://midi.is/tonleikar/1/7507  Á tónleikunum verður öllu tjaldað til, en Bloodgroup heldur síðan í tónleikaferð um Evrópu til að fylgja eftir plötunni og því er þetta síðasta tækifæri til að sjá sveitina í Reykjavík um óákveðinn tíma. Hljómsveitin Samaris sér um upphitun á tónleikunum

Fyrstu tónleikarnir í nýrri tónleikaröð á Faktorý í samstarfi við Tuborg – Grasrótin á Faktorý hefjast í kvöld. Á fyrstu tónleikunum munu hljómsveitirnar Kajak og Dreamcast koma fram. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22 og er frítt inn. Bent er á að hljómsveitir og tónlistarmenn sem hafa áhuga á að koma fram á Grasrótinni á Faktorý geta sent umsóknir á bokanir@faktory.is

Reykjavík Sex Farm kynnir hið dularfulla kvöld Death Is Not The End á Litlu gulu hænunni. Þar koma fram; Queerwolf frá Montreal og DJ Ravensclaw (aka Krummi úr Legend). Miðaverð er 500 og hefst kvöldið klukkan 21:30.

 

 

Föstudagur 15. mars:

Hljómsveitin Nóra mun spila á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast klukkan 22:00

Hljómsveitirnar Jan Mayen og Morgan Kane halda tónleika á Bar 11 og er ókeypis inn. Jan Mayen gerðu garðinn frægan á síðasta áratug og hafa spilað á vel völdum stöðum undanfarna mánuði. 

Á Kaffistofunni verða haldnir tónleikar með Helga Mortalkombat, Sindra Eldon & The Ways og Tamarin/(elWis). Hefjast þeir á slaginu 20:00

Tónleikar til styrktar Geðhjálp fara fram á KEX klukkan 20:30 og er miðaverð 1500 kr. Fram koma: Robert The Roommate, Ylja og Ultra Mega Technobandið Stefán.

 

Breski plötusnúðurinn Midland þeytir skífum á Volta. Til upphitunar verða íslensku DJarnir Skeng og Jon Edvald. Húsið opnar kl. 23:00. Miðinn kostar aðeins 1000 kr. í forsölu á Miði.is. Midland er þekktur fyrir óhefðbundinn hljóðheim sinn þar sem saman blandast rætur techno og house tónlistar, með bassahljómi úr dubstep tónlist auk tilraunakenndra hljóma úr sígildri elektróníku.

 

 

Laugardagur 16. mars

Hljómsveitin MUCK mun halda sína fyrstu tónleika á árinu á Dillon við Laugarveg. Hljómsveitin er nýkomin heim frá New York þar sem hún vann að nýju efni af komandi plötu sem mun líta dagsins ljós seinna á árinu. Ekkert kostar inn og tónleikarnir hefjast 23:00.

Reyk Veek í samstarfi við Reykjavík Fashion Festival og Reyka Vodka kynna viðburðinn ULTRA VIOLENCE á Volta sem er blanda af tónlist, tísku og klúbba upplifun. Þeir sem koma fram eru:Karíus, Juan Solo, D’or, Orang Volante og Thizone. Aðgangseyrir er 1000 kr og hefst fjörið um miðnætti. 

Útgáfutónleikar John Grant í Silfurbergi Hörpu, í tilefni af útgáfu nýju plötunnar, Pale Green Ghosts. Það kostar 6400 kr inn og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.
Sunnudagur 17. mars

Bandaríski tónlistarmaðurinn Colin Stetson heldur tónleika á Volta. Stetson er saxófónleikari frá Michigan fylki Bandaríkjanna en hefur gert út frá Montreal í Kanada undanfarin ár. Hann hefur starfað með fjölmörgum tónlistarfólki og hljómsveitum síðustu árin samhliða því að reka sinn eigin sólóferil. Arcade Fire, Tom Waits, TV on the Radio, Bon Iver, LCD Soundsystem, The National, David Byrne og Feist eru meðal þeirra sem hafa unnið með Colin Stetson. Um upphitun sér Úlfur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.