Airwaves yfirheyrslan – Siggi í UMTBS

Siggi úr Ultra Mega Technobandinu Stefáni situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins. Siggi hefur verið tíður gestur á Airwaves hátíðum liðinna ára og oft vakið athygli fyrir sviðsframkomu í æstari kantinum.

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Hef aldrei mætt sem gestur. Aðeins sem listamaður.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?


Fyrsta skiptið sem UMTBS spilaði á Airwaves var á miðvikudegi Airwaves árið 2006 á Pravda. Pravda var þá notaður sem fjölmiðlafulltrúaaðsetur og fáir tónleikar fóru þar fram (fyrir utan atriði í kringum tilraunakennda plötusnúða). Við spiluðum á sama tíma og We are scientists – band síns tíma. Gerðu ábreiðu af Hoppípolla með Sigur Rós og allir misstu andlitið. Því vorum við í vondum málum. Við fórum í útvarpsviðtal hjá Steina eitthvaðnafnson umboðsmaður í dag fyrir einhverjar hljómsveitir (Steinþór Helgi Arnsteinsson umboðmaður Hjaltalín) sem spurði hvort einhver ætlaði að mæta á okkur og hvort við værum nógu gamlir til þess að vera svona seint úti. Það mættu allir á okkur Steini. Enginn á We are scientists. Og ég var úti til miðnættis.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?


Endalaust mörgum. Stanslaust frá árinu 2006 fyrir utan 2011.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Ég sá Gavin Portland eitt árið. Þeir voru magnaðir. Einnig sé ég ekki eftir að hafa tékkað á Samaris á miðvikudeginum í fyrra. Núna þarf ég aldrei að sjá Portishead. Ég nenni aldrei í Hafnarhúsið, of mikil röð. Allaveganna ekki eftir að listamannapassinn gaf manni ekki forgang fremst.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?


Árið 2008 á Nasa með UMTBS. Þeir voru allt í lagi. Og á Hressó sama ár, þeir tónleikar voru hræðilegir.

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?


Listamannapassarnir gefa manni ekki lengur forgang fremst. Allt í góðu að selja fleiri miða og pakka staðina. Endilega selja á dýrari verði. Þetta verður að standa undir sér. En hleypa listamönnunum fremst eins og i den.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?


Núna? Það var Nasa. Hlakka til að sjá hvað kemur þangað í staðinn. Brillíant ákvörðun. En núna? Gamli Gaukurinn tekur náttúrulega við af Nasa og hljómar langbest af stöðunum niður í miðbæ, plús að hann rúmar sem flesta. En ég býst við að Harpan sé fín viðbót. Í fyrra pantaði ég mér hanastél á Airwaves og gekk í Hörpunni. Það héldu allir að ég væri svaka merkilegur. Það var gaman. Svo ég segi Harpan og Gaukurinn (ég get ekki svarað fyrir off venue, hef ekki kynnt mér það nógu vel). Ég gleymdi næstum því að spila sjálfur fyrir nokkrum árum. Það hefði verið pínu svekkjandi.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?


Þið getið mætt á hvaða tónleika sem þið viljið. Ekki bara kvöldið sem þið eruð að spila á. Og það er rosalega stór tónlistarhátíð í gangi út um allan miðbæ og víðar í Reykjavík. Ég hafði ekki hugmynd um það þegar ég spilaði fyrst á hátíðinni. Og ef þið haldið að listamannapassinn veiti ykkur forgang í tónleikaröðum þá nei…því miður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?


AlunaGeorge. Punktur. Er algjör fíkill í AlunaGeorge. Body Music sem er nýlega komin út er svakalega flott plata. Veit að mínir strákar vilja að ég segi Kraftwerk…en AlunaGeorge. Fyrirgefðu Arnþór, ég er bara meira spenntari fyrir AlunaGeorge. Hlustaðir þú á plötuna? Hún var brillíant.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Gífurlega mikla

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit?


Engin áhrif. Við höfum alltaf verið allt of seint á dagskránni til þess að einhver hagsmunaaðili innan tónlistariðnaðarins mæti. En það er alltaf mjög gaman að spila! Við erum í Hörpunni í ár snemma, þannig að við þurfum ekki jafn mikið kaffi til þess að halda okkur vakandi og seinustu ár. Það er mjög jákvætt (nema fyrir kaffifyrirtækin þarna úti eins og Nestlé…þótt ég drekki aldrei Nestlé).

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?


Í fyrra. Ég man best eftir henni. Sá líka Apparat í Hörpunni. Það var einstaklega skemmtilegt.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?


Kostar aukalega inn á Kraftwerk? Náði ég því rétt? Pínu svekkjandi. Ef einhver býður mér á Kraftwerk mæti ég. Annars sé ég bara hitt bandið. Eða ekki. Kannski eitthvað annað band. Kraftwerk eða AlunaGeorge? Alltaf AlunaGeorge. Það kostar líka ekkert aukalega inn á AlunaGeorge. [Því skal komið á framfæri hér að ekkert aukalega kostar inn á Kraftwerk tónleikana sem loka hátíðinni, hins vegar er takmarkað magn miða sem verður útdeilt eftir „Fyrstur kemur – fyrstur fær“ reglu klukkan 16:00 föstudaginn 1. nóvember  í Hörpu. Því miður fyrir Sigga munu listamannapassar ekki heldur veita forgang í þá röð.]

 

Listasafnið eða Harpa?


Harpa. Engar raðir.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?


UMTBS. Í Hörpunni klukkan 8 á föstudagskvöldinu. Einnig lokum við hátíðinni á Harlem. Held ég sé líka að spila í glugganum í Cintamani á föstudeginum (með Ultra þá). Gæti spilað meira. Tók vikuna frá.

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?


Mér finnst dálítið súrt að listamannapassinn hleypi manni ekki fremst lengur. Núna þarf maður að þykjast vera franskur pistlahöfundur sem týndi passanum sínum til þess að komast fremst. Dálítið leiðinlegt. Hef misst af nokkrum tónleikum sem ég ætlaði að sjá þegar fréttapassatrikkið virkaði ekki. Annars ekki neitt. Skemmtilegt fólk sem er alltaf að bóka mann á þessa hátíð. Vill allt fyrir mann gera og er ávallt einstaklega spennt fyrir fá mann. Hef búið í miðbænum í nokkur ár og finn alltaf fyrir breytingu á andrúmsloftinu þegar hátíðin fer fram. Það bönkuðu einu sinni þrír útlendingar upp hjá mér á sama deginum á Airwaves og spurðu hvort þeir væru mættir á Kex Hostel. Ég sagði vitanlega já og spilaði fyrir þá á píanóið. Þeir komust fljótt að því að íbúðin mín væri ekki Kex Hostel. Eins og ég segi. Jákvæðni. Og já. Breyta listamannapassanum og hleypa mér fremst. Takk.

Mynd: Leó Stefánsson

Airwaves yfirheyrslan – Gunnar í Grísalappalísu

Sá sem situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins er söng- og öskurspíran Gunnar Ragnarsson. Hann var eitt sinn í ungstirnisbandinu Jakobínurínu en þenur nú raddböndin með sveitinni Grísalappalísu, sem hefur vakið mikla athygli á þessu ári fyrir sínu fyrstu breiðskífu og kraftmikla tónleika.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

 

Það var árið 2004 og ég var 15 ára gamall. Móðir mín hafði talað við umsjónarmenn hátíðarinnar til þess að fulltryggja að ég kæmist á hátíðina þar sem ég væri nú góður drengur sem elskaði tónlist og væri ekki til vandræða. Ég fór ásamt Sigurði vini mínum sem var einu ári yngri og það var ekkert vesen fyrir okkur að komast inn á staðina og upplifunin var frábær fyrir okkur, vernduðu úthverfisdrengina. Mér eru eftirminnilegastir tónleikar The Shins á Gauknum en ég var mikill aðdáandi þeirra á þessum tíma enda algjört indípeð í pólóbol á þessu skeiði.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

 

Það var árið 2005 með hljómsveitinni Jakobínurínu á Grandrokki. Eins og eflaust margir muna varð eiginlega allt vitlaust og þetta kvöld hafði mikil áhrif á næstu ár í lífi okkar. Við fengum svaka athygli og frábæra dóma fyrir sjóvið m.a. frá David Fricke, Rolling Stone skríbenti og fréttaflutningur var í þá átt að við höfðum nánast „unnið“ Airwaves það árið. Við vorum algjör smábörn og atburðarrásin frá því að vera á Shins árið áður og fíla sig sem einhverskonar stjörnu árið eftir var nokkuð lygileg. Ég man óljóst eftir tónleikunum sjálfum nema að stemmningin var alveg frábær, áhorfendur voru allir sem einn með bros á vör og einfaldlega furðu slegnir yfir að sjá okkur smápollana hoppa og skoppa um sviðið. Ég held að spilagleðin hjá okkur á þessum tíma hafa verið svakalega smitandi – enda var þetta ótrúlega skemmtilegt fyrir okkur. Eftir tónleikana vildu allir tala við okkur og hrósa okkur í hástért, manni fannst þetta vera stærra kvöld en Músíktilraunir sem við höfðum unnið um vorið.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

 

2005, 2006, 2007 með Jako og nú er Grísalappalísa mætt í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

 

!!! (2007), fannst mér alveg frábært. Við vinirnir tættum í okkur Louden Up Now á sínum tíma en höfðum eiginlega gleymt þeim og vorum svo allt í einu mættir á þetta frábæra djamm hjá þeim nokkrum árum seinni. Frábært live band.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

 

Jakobínarína 2005 á Grandrokki sem ég lýsti áðan en svo voru tónleikarnir árið eftir á Listasafninu alveg jafn eftirminnilegir, sennilega bestu tónleikarnir okkar. Airwaves verðlaunuðu okkur fyrir frammistöðuna árið áður og gáfu okkur frábært slott á milli Apparat Organ Quartet og Go! Team. Við vorum mjög þéttir eftir stíf tónleikaferðalög og það elskuðu okkur allir í salnum og manni fannst maður vera algjör töffari eftir þetta sjóv. Eftir þessa tónleika spiluðum við sjaldan á Íslandi og mér fannst fólk svolítið missa áhugann á okkur, sem var algjörlega skiljanlegt þar sem við vorum ennþá að spila sama efni og vorum aldrei heima og líka með slatta af gelgjustælum. En Airwaves 2005 og 2006 voru algjörir hápunktur hjá þessari blessuðu hljómsveit.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

 

Ég hef nú reyndar ekkert farið síðan ég spilaði síðast. Vinir mínir kvarta frekar mikið yfir röðunum og það sé kannski of margir miðar seldir. Sömuleiðis að gæðin á erlendu músíköntunum hafi farið dvínandi, en lænöppið í ár er nú sennilega með því besta frá upphafi svo það á ekki lengur við.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

 

Grandrokk/Faktorý, út af tilfinningalegum ástæðum.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

 

Spiluðu Graveslime einhvern tímann á Airwaves? Og jú, öllum tónleikum Megasar & Senuþjófana.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

 

Æfa vel, vera metnaðarfullur og fyrst og fremst að njóta þess að spila.

 

Hverju ertu spenntust/spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Kraftwerk og off-venue tónleikum Veirumanna. Annars er ég spenntastur fyrir því að komast í Airwaves gír með Grísalappalísu.

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

 

$ böns af monnís mah’r! Stökkpallur og allt það, bla bla. Fyrst og fremst gott partí samt – og ástæða fyrir alla að vera í sínu besta formi.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

 

Airwaves 2005 hafði þau áhrif að Jakobínarína fékk fína og dannaða breska umboðsmenn, spiluðu á South by Southwest vorið eftir, og gaf út 7″ hjá Rough Trade. Þetta voru svona bein áhrif af því. Svo signuðu Parlophone okkur seinna meir.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

 

Tveimur, þetta er búið að breytast síðan ég var síðast í geiminu.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

 

2013, þetta verður rafmagnað!

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

 

Krafwerk er algjört uppáhald. Sá þá 2004 í Kaplakrika – með flottari tónleikum sem ég hef farið á.

Listasafnið eða Harpa?

 

Listasafnið, hef aldrei farið á Airwaves í Hörpunni.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

 

Með Grísalappalísu, við opnum hátíðína í Listasafninu kl 20 á miðvikudaginn. Svo erum við í 12 tónum á fimmtudeginum, 17.30/18.15 – man ekki. Svo erum við á Gamla Gauknum, kl 21.40 á föstudeginum og fögnum við þynnkunni kl 12.30 í Hörpunni á off-venue tónleikum fyrir utan 12 tóna verzlunina þar. Svo er aldrei að vita nema við komum ykkur á óvart á förnum vegi þegar þið búist alls ekki við því.

 

 

 

Airwaves yfirheyrslan – Sindri Sin Fang

Airwaves yfirheyrslan er nýr liður á síðunni til að kynna Iceland Airwaves hátíðina og nokkra af þeim íslensku listamönnum sem koma fram á hátíðinni í ár. Fyrstur til yfirheyrslu er Sindri Már Sigfússon sem flestir íslenskir tónlistaráhugamenn ættu að kannast við. Hann er forsprakki tveggja hljómsveita sem hafa spilað oft á Iceland Airwaves á síðustu árum – Seabear og Sin Fang en Sindri mun koma fram með þeirri seinni í Gamla Bió föstudaginn 2. nóvember klukkan 0:50. 

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Ég held að það hafi verið 2001. man ekkert hvað ég sá.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Það eru nokkrir.  Á seinustu árum var ég mjög hrifinn af Dirty Projectors og Haushka með samuli í fríkirkjunni var klikkað. Shins (2004) og Rapture (2002) tónleikarnir standa líka uppúr.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

2004 minnir mig áður en við gáfum út fyrstu seabear plötuna. Það var mjög skemmtilegt og kom skemmtilega á óvart hvað það mætti mikið af fólki. Hef spilað á 8 eða 9 hátíðum í það heila en þetta eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem ég hef spilað á.  Þetta var í fyrsta sinn sem við spiluðum með fullri hljómsveit og ég var bara mjög ánægður með að vera að spila yfirhöfuð.

 


Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mér finnst hún vera orðin meira pro. Vel farið með mann og svona. Mér finnst þetta ein skemmtilegasta vika ársins.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Ég er mjög hrifinn af Iðnó. Mér fannst líka mjög gaman að spila á Nasa á Airwaves því að það var eiginlega eina skiptið sem maður gat fengið alveg fullt af fólki á Nasa. Svo er ég mjög ánægður með að óperan sé komin inní þetta. 

 


Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Vorum að spila á sama tíma og Beach House eitt árið, það var leiðinlegt að missa af þeim. Eitt árið þá fórum við á Bandaríkjatúr á fimmtudeginum þannig að við misstum af öllu festivalinu.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? 

Við vorum að spila með Anna Von Hausswolff um daginn og það var rosalegt. Svo langar mig að sjá Goat, Jon Hopkins, Mariam The Believer og Mykki Blanco. Svo finnst mér fínt að labba bara um og sjá eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um hvað er.

 


Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þínar hljómsveitir? 

Hef alveg kynnst einhverju bransafólki í gegnum þessa hátíð og spilað á öðrum hátíðum eftir að einhver sá okkur þarna.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?


7-8 sinnum held ég. Ekkert miðað við Magga trommara (Magnús Tryggvason Eliassen  trommara Sin Fang)

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Bara skemmta sér og vera ekki að stressa sig of mikið á því að það séu einhverjir útlenskir blaðamenn í krádinu.

 

 

Sindri Sin Fang opnar sig loksins um ást sína á hip-hop tónlist

Sindri Már Sigfússon er skrambi afkastamikill náungi. Ekki aðeins tekst honum að gleðja fólk reglulega með hljómsveitinni Seabear, heldur gefur hann líka út plötur og kemur fram undir nafninu Sin Fang, sem er einskonar sóló-hliðarverkefni Sindra (skemmtileg staðreynd: Seabear var einusinni sólóverkefni líka, en svo breyttist Seabear í hljómsveit). Svo tekur hann stundum líka upp plötur með öðrum tónlistarmönnum og aðstoðar þá í hvívetna (hann vann t.d. að síðustu plötu öðlingsins Snorra Helgasonar, hinni stórgóðu Winter Sun). 

Nema hvað, það eru alltaf að koma út plötur með Sindra og nú er ný slík á leiðinni undir merkjum Sin Fang. Heitir sú Flowers og er alveg bráðskemmtileg. Sindri ætlar að fagna útgáfu plötunnar á skemmtistaðnum Harlem í kvöld (fimmtudag, sko) og lofar í viðburðarsíðu partýsins að hann ætli að spila fullt af kræsilegri hip hop músík. Þetta er auðvitað mikið gleðiefni, enda platan stórkostleg áhlustunar og svo er líka alltaf gaman að drekka bjór og hlusta á næs hip hop. Af því tilefni sendum við Sindra tölvupóst og báðum hann að segja okkur aðeins frá hip hopinu í lífi sínu.

Sæll Sindri, til hamingju með nýju Sin Fang plötuna!

Halló! Takk!

Ég er búinn að hlusta aðeins á hana. Þetta er gæða gripur! En það er helst til lítið rappað á henni. Af hverju er það?

Takk! Við klipptum út allt rappið á seinustu stundu í mixinu.

[Look at the Light af breiðskífunni Flowers. Rappleysi lagsins er tiltölulega áberandi]

Gætirðu hugsað þér að gera einhverntíman rapp plötu?

Nei ég held að ég leyfi ekta röppurum að sjá um það. Ég held að ég myndi ekki vera neitt rosalega sannfærandi rappari. því miður.

En að búa til takta fyrir einhvern annan sem rappar?

Já, það gæti verið gaman að prófa.

Að öllu gamni slepptu, þá hefur ekki farið fram hjá neinum að þú ert mikill hiphop aðdáandi, eins og sjá má ef maður eltir þig á Twitter og viðlíka samskiptamiðlum. Af hverju höfðar hip hop tónlist svona sterklega til þín? Hvað er það við hip hop músík sem gerir hana ómótstæðilega í þínum eyrum?

Ég veit það ekki alveg. stundum finnst mér lögin bara vera fyndinn en stundum finnst mér eins og maður sé að fá að kíkja inní einhvern heim sem er frekar langt frá mínum veruleika. Og stundum eru þetta bara svo skemmtileg lög.


Hverjar eru helstur rapp-hetjurnar sem þú hlustar á? Aðhyllistu einhvern sérstakan skóla hip hops (suðurríkjaskólann, gangsta rabb, old skool, etc)?

Ég hlustaði eiginlega bara á hip hop og rapp þegar að ég var unglingur. Þá var það Wu Tang, Smiff n Wessun, Black Moon, Outkast, Redman, Roots osfv. Svo tók ég reglulega upp Kronik þáttinn sem Robbi Rapp stýrði á kassettu. Hlusta á það í bland við nýtt svo að ég myndi bara segja að ég hlusti á ’90s rapp í bland við svona nýtt hóstasafts pillu rapp.

Hvað finnst þér um svona bakpokarapp, eins og Sole og allt Anticon gengið. Og Slug og þá.

Kveikti eiginlega aldrei á þeirri bylgju.

Hverjir finnst þér svona bestir allra tíma? Og af hverju?

Wu Tang? Enter the 36 Chambers?

Hver er besta hip hop plata allra tíma að þínum dómi og af hverju?

Þær plötur sem ég hef örugglega hlustað á mest eru Doggystyle með Snoop og Ready to Die með Biggie. Hlusta ennþá á þær.

En hverju hefurðu verið að veita athygli svona upp á síðkastið? Hvaða nýja gengi ertu að fíla?

A$AP Rocky finnst mér vera mjög skemmtilegt. veit ekki hvort að R. Kelly falli undir hip hop en ég hlusta mikið á hann. Sérstaklega ef að ég er að fá mér.

Talandi um A$AP Rocky, hvað finnst þér um það gengi allt? Er eitthvað varið í þetta?

Mér finnst A$AP Rocky sjálfur allavegana mjög skemmtilegur. Hef ekki tékkað á miklu frá hinum röppurunum í þessu gengi. Peso, Purple Swag, Fucking Problems eru allt æðisleg lög.


En Odd Future krakkana. Eru textarnir of hómófóbískir/kvenfyrirlitaðir til að maður geti haft gaman af þessu með góðri samvisku?

Ég er ekki ennþá búinn að kveikja á þessu. Fíla samt Frank Ocean plötuna mjög vel. Held að þessir krakkar séu samt að reyna að sjokkera frekar en að vera einhverjir homophobes eða kvennhatarar.

Hvaðan færðu þínar upplýsingar um rabbmúsík? Það er ekki mikið fjallað um hana í íslenskum fjölmiðlum, ef frá er talinn frábær þáttur Danna Delúx á Rás 2. Ertu að sækja þessa músík mest erlendis frá?

Bara frá vinum og blogg síðum. Hef ekki tékkað nógu oft á þættinum hans Danna Delúx en ætla að bæta úr því.

Hefurðu veitt íslensku hip hopi sérstaka athygli? Hverja fílarðu þar, og hvers vegna?

Hef ekki fylgst neitt sérstaklega vel með því seinustu ár. Fíla Gísla Pálma mjög vel þessa dagana.

Hvað finnst þér um Afkvæmi Guðanna?

Eru þeir ekki hættir? Hættu að hringja í mig hættu að senda mér smsss.

Tókstu afstöðu með Móra eða Poetrix í bífinu þeirra?

Haha nei.

En Móra eða Erpi?

Neibb.

En Erp eða Subta krewinu?

Nei ég vil ekki vera drepinn. Er samt til í að dissa eitthvað indie band sko.

Hver er frægasti rappari sem þú hefur hitt?

Hitaði einusinni upp fyrir Ghostface Killah. Held að ég hafi ekki heilsað honum samt.

Hver er flottasta ríma sem þú hefur heyrt?

“You say no to drugs / Juicy J can’t”

Ef þú mættir gera lag með einum rappara, hver yrði það?

Ol’ Dirty Bastard.

Hvort finnst þér mikilvægara upp á gott hip hop lag, takturinn (músíkin) eða textinn?

Bara misjafnt. Textinn þarf nú ekki að vera merkilegur. Held að þetta ég hafi spilað þetta lag oftast í fyrra, þar sem textinn er aðalega um að hann búi við hliðina á kobe bryant.

Hvor finnst þér betri, 50 Cent eða Eminem?

Eminem finnst mér skárri.

Hvað verðurðu svona helst að spinna í Sin Fang partýinu á fimmtudagskvöld? Hvað verður mikið af fríbjór?

Bara eitthvað nýtt í bland við gamalt. Það verður vonandi bara nóg af bjór. Annars kaupi ég kannski bara kassa af Hennesy.

Viðtal og myndvinnsla: Haukur S. Magnússon. Haukur er á Twitter. Það var og. 

Nýtt Surfer Blood lag

Florida hljómsveitin Surfer Blood sendu í kvöld frá sér lagið Weird Shapes sem er fyrsta smáskífan  af væntanlegri plötu sem nefnist Pythons sem kemur út seinna á þessu ári. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu Astro Coast árið 2010 og ep plötuna Tarot Classics í fyrra.  Hlustið á lagið hér fyrir neðan og viðtal sem við áttum við hljómsveitina á Hróaskeldu árið 2011. 

Viðtal við Surfer Blood 2011

      1. Surfer blood Interview

Ojba Rasta Sjónvarpsviðtal

Hin mannmarga reggísveit Ojba Rasta hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu sem kom út fyrir skemmstu og hafa fylgt henni eftir með miklu tónleikahaldi. Við kíktum á nokkra meðlimi hljómsveitarinnar sem voru staddir í hljóðveri Gnúsa Yones History sem er staðsett í Vesturbæ  Reykjavíkur og spjölluðum m.a. við þá og Gnúsa um plötuna, reggí, Reykjavík Soundsystem kvöldin og þetta einstaka hljóðver.

Hljómsveitin heldur tónleika föstudagskvöldið 21. desember á Faktorý þar sem allur ágóði rennur til Mæðrastyrksnefndar. Á tónleikunum koma fram Ojba Rasta, Gnúsi Yones, Egill Ólafsson, Birkir B úr Forgotten Lores og leynigestir.

Stafrænn Hákon sjónvarpsviðtal

Ólafur Örn Josephsson tónlistar­maður hefur gefið út tónlist undir listamannsnafninu Stafrænn Hákon frá árinu 1999. Stafrænn gaf út sína 7. plötu Prammi í síðustu viku. Við spjölluðum við Ólaf um verkefnið, nýju plötuna og glussa auk þess sem hann tók fyrir okkur lagið Klump órafmagnað. Einnig er hægt að hlusta á plötuna hér fyrir neðan.

 

Jón Þór sjónvarpsviðtal

Tónlistarmaðurinn Jón Þór sem áður gerði garðinn frægan í hljómsveitum á borð við Isidor, Lödu Sport og Dynamo Fog gaf út sína fyrstu sólóplötu á dögunum. Platan heitir Sérðu mig í lit og er þetta í fyrsta skipti sem Jón Þór syngur á íslensku. Við kíktum heim til Jón Þórs og fengum hann til að taka lagið Ljáðu mér eyra og spurðum hann út í nýju plötuna.

Just Another Snake Cult Sjónvarpsviðtal

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Fyrr þessu ári  gaf hljómsveitin út ep plötu í formi kasettu, Birds carried your song through the night, sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp. Við kíktum heim til Þóris Heydal söngvara og lagahöfundar Just Another Snake Cult þar sem hljómsveitin æfði fyrir Iceland Airwaves. Just Another Snake Cult koma fram á  Reykjavík Backpackers klukkan 20:00 í kvöld, í Bíó Paradís klukkan 15 á morgun og svo eru tónleikar þeirra á Iceland Airwaves á Gamla Gauknum annað kvöld klukkan 20:00.

Airwaves þáttur 5 – 31. október 2012

Í gærkvöldi var síðasti þátturinn af Airwaves sérþáttum Straums árið 2012 á dagskrá X-ins 977. Íslensku hljómsveitirnar Reykjavik! og Bypass kíktu í heimsókn, auk þess sem birt voru viðtöl við Dirty Projectors og Django Django.  Ritstjórn Straum.is fór einnig yfir það helsta á  hátíðinni í ár. Hlustið á viðtölin hér fyrir neðan.

 

1. hluti: viðtal við Reykjavík!

      1. air 5 1 reykjavík

2 hluti: viðtal við Django Django 

      2. air 5 2 django

3. hluti: viðtal við Bypass

      3. air 5 3 bypass

4. hluti: viðtal við Dirty Projectors

      4. Air 5 4 dirty

5. hluti: miði gefin og ritstjórn straum.is

      5. air 5 5 straum